Fyrsta hlaupahátíð Vesturbæjarins vel heppnuð

Í dag var í fyrsta skipti haldin hlaupahátíð Vesturbæjarins í samstarfi Vesturgarðs (ÍTR), Melabúðarinnar og Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Þátttakendur söfnuðust saman á Brottfararplani Vesturbæjarlaugar kl. 14, þar sem Guðrún Arna, forstöðukona laugarinnar, ávarpaði viðstadda og setti hátíðina. Prófessor Ágúst Kvaran, helzti og mesti hlaupari Hlaupasamtakanna, stolt þeirra, sverð, sómi og skjöldur, tók til máls og kynnti tilhögun hlaupa. Hlaupi var skipt í þrennt: 10 km, unglingahlaup og barnahlaup (400 m) - kynntir voru hlaupaþjálfarar, Margrét Elíasdóttir og Rúnar Reynisson, sem munu veita hlaupurum aðhald á mánudögum, fimmtudögum og laugardögum, sbr. auglýsta dagskrá hér á eftir. Nú brast á með rigningu - og þá var brugðið á það ráð að hefja 10 km hlaup. Um 30 hlauparar voru mættir til þess að hlaupa þennan sprett og Margrét í forystu. Raunar fór það svo að hún spretti úr spori og sást varla meira það er eftir lifði hlaups. Við Jörundur og Sigurður Ingvarsson fórum rólega af stað og vorum með öftustu mönnum - enda meiningin að reyna að halda utan um hópinn. Svo fór okkur að leiðast og fórum úr 5:45 upp í 5:00 og keyrðum stíft. Fórum að grilla fremstu hlaupara. Þá fór Sigurður að velta fyrir sér hvað þjálfarinn væri að hugsa og vildi kynna sér þessa strategíu, setti á fullan blast og hvarf, Jörundur þar á eftir og ég einn - eins og venjulega.

Það var hlaupið að bekkjunum áður en komið er að göngubrúnni yfir Kringlumýrarbrautina, snúið við og sömu leið til baka. Pissustopp fyrir þennan hlaupara, keyrt áfram, en nú var kominn leiðindaþræsingur, stíf vestanátt og ekki gaman að berjast gegn þessu í hátíðarhlaupi. Ég mætti Birgi, Einari blómasala og Friðriki verzlunarmanni - þeir komu eins og Skt. Bernharðshundar að bjarga villuráfandi hlaupurum - nema hvað það vantaði eitthvað á hálsinn á þeim. Seinna mætti ég Flosa bróður sem vildi líka hjálpa til - og þar á eftir mætti ég prófessor Fróða og Gísla barnakarli - þeir börðu í mig kjark til að klára hlaupið - "eru einhverjir eftir?"spurðu þeir - mér fannst þetta lítilsvirðing, voru þeir að spyrja hvort ég væri síðastur? Ég laug því til að það væru alla vega tíu manns á eftir mér. Barðist svo áfram gegnum rokið og rigninguna og kláraði hlaup.

Á Aðkomuplani var búið að slá upp veizlu, þar voru grillaðar pylsur og bornir fram vatnsdrykkir í boði Melabúðarinnar, Toppur með bragði. Mér var tjáð að hlaup hefðu tekizt vonum framar: Gísli hljóp með smottingunum 400 m og það tók hann 10 mín. Svo var farið með unglingana og tókst ekki síður vel til. Allt í allt telst oss að um 100 manns hafi tekið þátt í þessari fyrstu Vesturbæjarhátíð og var hún öllum aðstandendum til mikils sóma. Á engan er hallað þótt hlutur forsprakkans og eldhugans, Hauks Arnþórssonar, sé sérstaklega dreginn fram í þessu samhengi. Samstarf við Vesturbæjarlaug og við ÍTR lofar góðu og hlakka allir til hlaupadagskrár vetrarins. Hátíð lauk með fyrirlestri Sigurðar P. Sigmundssonar, þjóðsagnapersónu íslenzkra hlaupa og Íslandsmethafa í maraþoni, og var gerður góður rómur að máli hans.

Farið í barnapott og legið þar í klukkustund - margt fróðlegt bar á góma sem ekki verður tilgreint hér. Upplýst að um 10 nýir hlaupafélagar hafa skráð sig til þátttöku í hlaupum Hlaupasamtakanna og var lögð áherzla á að hlaupahópnum verði skipt upp, þannig að nýir, óreyndir hlauparar geti farið styttri vegalengdir, 3-5 km, til að byrja með, þar til þeir venjast hinum löngu og alræmdu hlaupum Hlaupasamtakanna, Goldfinger,  69, Árbæjarlaug, o.s.frv. Í barnapotti voru þessir mættir: Einar blómasali, Birgir, Gísli, Ágúst, Flosi, annálaritari, frú Ólöf, dr. Jóhanna, Helmut, Jörundur, Sigurður Ingvarsson, Haukur og svo fólk sem tengdist Birgi. Áður en menn vissu orðið af var Jörundur búinn að stofna til slíkra illinda að til vandræða horfði, hann var svo afundinn og erfiður að hann minnti einna helzt á Vilhjálm Bjarnason - menn bentu honum á þetta og báðu hann að stilla sig. Dr. Friðrik sást á svæðinu eftir frækilega framgöngu í Brúarhlaupi á Selfossi, þar sem Rúna mun einnig hafa gert garðinn frægan og lent í þriðja sæti í sínum flokki í hálfu maraþoni. Lagðar línur um skemmtanahöld haustsins og minnt á að margir Fyrstu Föstudagar væru eftir óútteknir.

Ljóst er að Hlaupasamtökin eru í miklum vexti og boðið upp á nýja hlaupamöguleika - engu að síður eru fastir liðir á dagskrá sem fyrr: mannfræði, þjóðfræði, mannbetrun, persónufræði og slúður í sunnudagshlaupi, kirkjugarður og klukka í fyrramálið kl. 10:10, miðaldra sagnamenn munu hlaupa og ganga og láta skeika að sköpuðu, við munum láta gamminn geisa, móðan mása, pennann rápa, hugann reika, við munum ekki láta deigan síga eða linan lafa, NEI! Verum hvassir. Í gvuðs friði. Annálaritari.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband