Miðaldra, hvítir karlmenn hlaupa á sunnudagsmorgni

Nokkrir af helztu máttarstólpum Hlaupasamtaka Lýðveldisins voru mættir til hlaupa þennan sólskinsfagra sunnudagsmorgun og skulu þessir nefndir: Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús, Birgir, Ólafur annálaritari og Guðmundur. Veður eins og þau gerast bezt á haustin, heiðskírt og fremur hlýtt. Magnús tilkynnti strax að hann hefði merkilega sögu að segja okkur, en vildi bíða með hana þar til allir væru komnir. Við urðum mjög spenntir enda ekki á hverjum degi sem Magnús kemur með slíkar tilkynningar. Ólafur gaf lýsingu á afmælisveizlu sem hann sótti í gærkvöldi, afmælisbarnið var Einar Baldvin Stefánsson, Ólafssonar, Þorsteinssonar járnsmiðs Tómassonar í Reykjavík, sem kvæntur var Valgerði Ólafsdóttur, f. 1. jan. 1858 í Viðey, og sögð "að upplagi blíðlynd, hæglát og hógvær" (Víkingslækjarætt I). Kannast menn við lýsinguna? En meginástæðan fyrir minni nærveru þennan morgun var eftirvæntingin að heyra greiningu Ó. Þorsteinssonar á ástandinu.

Það var lagt í hann og farið hægt, eins gott því að ritari var stirður eftir gærdaginn og að hlaupa þriðja daginn í röð, maður nýstiginn upp úr veikindum. Ég hélt mig í námunda við Ólaf frænda minn og beið eftir greiningu, reyndi m.a.s. að ýta við honum með því að draga upp sögulegan samanburð af yfirtöku ónefnds aðila á stjórnmálaflokki og ríki. En ekki fékkst hann til að hefja greininguna. Svo það var kjagað áfram Ægisíðuna og inn í Nauthólsvík. Á leiðinni sló það okkur að hér væru á ferð hvítir, miðaldra karlmenn - blanda sem ekki væri líkleg til að uppfylla kröfur pólitískrar rétthugsunar. Og ekki kom frásögn Magnúsar.

Í Nauthólsvík var staldrað við. Sögustund. Hér féll loks sprengjan. Ó. Þorsteinsson upplýsti viðstadda um að hann væri kominn í námsleyfi og hygðist leggja stund á nám í gæðastjórnun við Háskóla Íslands. Samfara þessari breytingu yrði sú breyting að hann hygðist mæta til almennra hlaupa þá daga sem hlaupið verður. Þar mun hann halda uppi virkri, hvassri en jafnframt málefnalegri stjórnarandstöðu með frammíköllum og háðsglósum þegar svo ber undir. Var tilkynningu hans tekið fagnandi og er það fagnaðarefni að fá svo ágæta viðbót við hópinn. En ekki kom sagan Magnúsar.

Það var skeiðað áfram á hægu tempói, við mættum spúsu Ólafs og skildum við hann þar, héldum áfram í Garðinn. Í stað þess að stöðva héldu Þorvaldur og Magnús áfram hlaupandi upp úr Garðinum en við Vilhjálmur, Birgir og Guðmundur tókum lögákveðið stopp og ræddum ýmsar greinar persónufræðinnar. Biðum nokkra stund eftir því að Ólafur næði okkur, en vorum svo orðnir úrkula vonar og héldum áfram. Það var farið hefðbundið og Vilhjálmur sagði okkur merkilega sögu með kristilegum undirtóni sem kannski verður endurtekin í hlaupi morgundagsins. Við sáum ekki meira til Magnusar og Þorvalds og lukum hlaupi á gamalkunnum nótum. Ég mætti Magnúsi þar sem hann var að drífa sig til verka í Lýðveldinu og innti hann eftir sögunni: "Ég segi ykkur hana síðar, hún er svo GÓÐ!"

Fyrir í potti voru Jörundur og Gísli, lúnir eftir 17 km hlaup umhverfis Elliðavatn með Öl-hópi. Einnig voru Mímir og dr. Baldur - loks dúkkaði Einar blómasali upp og var bæði með raksápu í eyrum og kinnina blóðuga, viðstaddir bentu á þetta og lét Einar sig síga undir vatnsborðið svo að valdabrölt hans væri ekki jafn augljóst. Svo sem venja er var ræða úr Nauthólsvík endurflutt viðstöddum til upplýsingar og skemmtunar. Margt virðingarfólks var að laugu þennan fagra sunnudag og þekkti það allt Ólaf Þorsteinsson, enda er hann reykvízkt valmenni í kynslóðir.

Á morgun, mánudag, er fyrsti raunverulegi hlaupadagur með þjálfara og verður fróðlegt að sjá hver mæting verður -  en þó aðallega hvernig æfingin gengur fyrir sig. Vel mætt, annálaritari.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband