Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Merkilegur dagur

Þetta var dagur stórra fyrirheita. Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins hafði sent prófessor Fróða tillögu að hlaupaáætlun vegna maraþonhlaups í ágúst. Engin svör. Í dag var prófessorinn inntur viðbragða við áætluninni: nú, það var ekki við neinu að bregðast, þetta er áætlunin mín frá því í fyrra! Það er ekki við neinu að bregðast.

Við Haukur vorum mættir snemma, og Magnús var í potti löngu fyrir hlaup, þvílík var spennan fyrir hlaupi dagsins! Ég og Haukur klæddumst hlaupafatnaði og sátum eins og prúðir fermingardrengir í brottfararsal Vesturbæjarlaugar. "Það er ekki hávaðinn í okkur" sagði ég við Hauk. "Nei, við erum kyrrlátir." En þetta átti eftir að breytast eftir því sem bættist í hópinn: prof. dr. Ágúst, Gísli, Kári, Einar, Helmut, dr. Jóhanna, Gunnlaugur Pétur ásamt með frænda sem hefur líklega heitið Gunnmar, dr. Sigurður Júlíusson, og svo kom Jörundur. Maður fann hvernig andrúmsloftið þykknaði við komu Jörundar, hann kreppti hnúana svo þeir hvítnuðu, hann spennti glyrnurnar í Magnús, sem var ekki viðbúinn þessu viðmóti og hafði engu öðru að skreyta sig með en ljúfmennskunni. Um þetta leyti tókum við Haukur eftir því að hávaði hafði magnast í brottfararsal og má með sönnu segja að hann hafi verið nánast óbærilegur og hlýtur í vinnuverndarlegu sjónarmiði að flokkast sem umhverfismengun og skaðlegur heilsu starfsmanna í móttöku. Er ekki laust við að skilningur hafi glæðst með ritara á þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið um fælniáhrif Hlaupasamtakanna gagnvart væntanlegum baðgestum Vesturbæjarlaugar - en ég hélt þessum sjónarmiðum út af fyrir sjálfan mig.

Það var gefið út að farið yrði langt. Þótt hlaupaáætlun ritara hafi ekki fengið almenna útbreiðslu og yfirblessun yfirhlaupara prof. dr. Fróða - þá voru stór plön um átakahlaup. Hinu er rétt að halda til haga að ritari er fjölskyldumaður eins og fleiri hlauparar. Hann tilkynnti þegar í upphafi hlaups að hann hafi verið boðaður í fjölskyldugrill kl. 19 og gæti því ekki farið langt. Þessi tilkynning virtist smjúga gegnum höfuðið á tilteknum hlaupurum án þess þeir tækju eftir henni. Úti á stétt voru þrír hlauparar með Garmin á handlegg - "hvað er nú þetta?" spurði Stórhlaupari Gunnlaugur. Svona talar aðeins Sannur hlaupari í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. "Til hvers er þetta?" hélt hlauparinn áfram - það komu vöfflur á prófessor Fróða og hann átti ekki fyllilega svör við þessum óvæntu spurningum.

Hlauparar fögnuðu dr. Ágústi, nú var engum vafa undirorpið hver hefði forystuna og gæti hafið hlaup. Engum þarf að koma á óvart hverjir tóku forystuna, og þeim lá á. Við hinir fylgdum á eftir og vorum þungir og þreyttir. Það var spenna í mannskapnum því að framundan var sjóbað. Ekkert óvænt fram að Nauthólsvík - en samt ákveðin óvissa um hvað prófessorinn gerði. Er þangað var komið var stefnan tekin á rampinn og eftirtaldir skelltu sér í sjóinn: Ágúst, Ólafur, Gísli, Helmut, Kári, og Lo and Behold: Sjúl, Gunnlaugur og Einar blómsali sáust tína hikandi af sér spjarirnar og fikra sig niður í svala ölduna, allir fóru þeir á kaf og munu hafa sleppt fótfestu og tekið sundtök: fullkomnað sjósund. Hvílíkur dagur! Okkur hinum fannst sjórinn of heitur, syntum út að flotbryggju, klifruðum upp, spókuðum okkur og stungum okkur svo í öldur Atlanzhafsins. Það var uppfrískandi að synda, jafnvel hinir nýju sjósundsmenn viðurkenndu að baðið hefði haft hressandi áhrif á þá.

Gísli hafði áhyggjur af því hvað fólk héldi þegar það sæi hann í blautum stuttbuxunum, það liti ekki vel út. Ýmsar útfærslur af þeirri hugmynd, en engin hafandi eftir. Nú var haldið áfram og voru menn léttir á sér eftir sundið: Sjúl, Ágúst og Gunnlaugur fóru Goldfinger (eða stefndu þangað alla vega), við hinir fórum Stokk. Ritari var orðinn nokkuð nervös því að hann var tímabundinn, en hafði látið plata sig að fara lengra en góðu hófi gegndi. Það var farinn Stokkur, við Gísli, Kári og Einar höfðum samfylgd og reyndum að hafa uppbyggileg áhrif hver á annan. Skeiðað upp hitaveitustokkinn - en í Stóragerðinu sagði ég skilið við þá kumpána - þurfti að fara hraðar en í boði var. Sá fyrir mér frúvu mína sem væri farin að örvænta um að ég skilaði mér á tilskildum tíma. Því setti ég í gang túrbóinn og spretti úr spori. Tók upp gífurlegt tempó sem ég hélt alla leið - og sá þá að líkaminn væri ekki hindrunin fyrir því að hlaupa hratt - það er andinn sem ræður. Óttinn við að hitta fyrir reiða konu. Blómasalinn var eitthvað að sperra sig á leiðinni, rembdist við að fara fram úr mér - en það er bara hans stíll. Allt kom fyrir ekki, ég kom seint til laugar og bakaði mér mikil vandræði. Þar voru staddir margir dánumenn sem voru uppfullir af góðum hugmyndum um hvernig taka mætti á málum svo að ekki hlytust vandræði af.

Allt fór þetta einhvern veginn og ég er hér til frásagnar. Út verður send hlaupaáætlun, hefðbundið föstudagshlaup og Fyrsti Föstudagur liður þar í. Í gvuðs friði, ritari.

Keyptur Færeyingur

"Ég var að kaupa bát" sagði ónefndur blómasali er hann mætti til hlaups í gær. "En gaman!" sögðum við hinir, "þá geturðu boðið okkur, vinum þínum, út á sjó á sjóstangaveiðar." "Ekki spurning!" sagði okkar maður.

Einhverra hluta vegna varð mér hugsað til atriðis í myndinni "Gaukshreiðrið" þar sem Jack Nicholson býður vistmönnum geðsjúkrahússins í bátssiglingu og á veiðar á illa fengnum báti. Hvers vegna þessi hugrenningatengsl komu upp hjá mér get ég ekki útskýrt, svona koma nú upp undarlegar tengingar í kollinum á manni.

Hvað um það, ég sá fyrir mér myndarlega snekkju, altént hraðbát sem gæti tekið marga farþega, er glaðir munu sigla um sundin blá með vindinn þyrlandi upp hárinu. "Áttu bátinn einn?" spurði Magnús. "Nei, við eigum hann nokkrir saman," sagð blómasalinn. Þá fór glansinn ögn að fara af ævintýrinu. Og það var endanlega úti þegar hann bætti við: "Það er Færeyingur." Færeyingur er árabátur með færeysku lagi eftir því sem segir í orðabók Menningarsjóðs. Þá fer maður að skilja hvað vakir fyrir okkar manni: það á að virkja félaga Hlaupasamtakanna í að róa honum um sundin, þar sem hann situr í stafni og stjórnar og rennir fyrir ýsu á Faxaflóabugt. Nei, takk! Það skal aldrei verða!  

Sjór og sól á Nesi

Þrálátur orðrómur er uppi um að Magnús hafi í hyggju að planta lúpínufræjum í garð Jörundar. Jörundur er vakinn og sofinn yfir garði sínum og fær sér enga hvíld veitt af áhyggjum yfir þessum fyrirætlunum tannlæknisins. Hann er á vaktinni 24:7 - á útkíkkinu allan sólarhringinn, með kíkinn við augað. Magnús má sig hvergi hræra úr húsi - þá sprettur prentarinn hálfsjötugi úr fleti sínu og sperrir upp augu og eyru og fylgist með hverri hreyfingu tannlæknisins. Hvar endar þetta? Birgir er beðinn að fylgjast með framvindunni.

Í hlaupi dagsins bar það nýtt við að Einar blómasali var endurheimtur úr löngu fríi og var vel fagnað af félögum sínum sem höfðu saknað hans mikið undanfarnar vikur; sömuleiðis var gerður góður rómur að nærveru prof. dr. Gunnlaugs Péturs Nielsens úr Harvard í Boston, legendarískum hlaupara Hlaupasamtaka Lýðveldisins og einhvers fræknasta hlaupara sem samtökin geta státað af. Aðrir þessir: Kári, Haukur, Gísli, Ólafur ritari, Sigurður Júlíusson, dr. Jóhanna, Guðmundur sterki, Vilhjálmur Bjarnason. Ekki skulu taldir þeir sem voru fjarverandi - en fjarvera þeirra var sláandi og mikið rætt um ástæður þess að einstakir meðlimir voru ekki mættir til hlaupa. Ekki verður meira fjallað um þetta að sinni, en þess er vænst að téðír aðilar sjái sóma sinn í að mæta í næsta hlaup. Meira um það seinna.

Menn glaðir og keikir - enda einstök mæting afburðafólks og veðurblíða með eindæmum. Í brottfararsal er nú boðið upp á þjónustukönnun um Vesturbæjarlaug og tóku allir viðstaddir þátt í könnuninni - allt miðaldra, jákvætt, háskólafólk. Niðurstaðan verður trúlega góð fyrir laugina. Það var hnýtt í blómasalann fyrir að hafa misst sig í mat og drykk í útlandinu og ekki hlaupið. "Það var ekki hægt að hlaupa í þessum hita!" reyndi blómasalinn að verja sig, en menn tóku ekki mikið mark á þessu.

Við vorum nokkuð mörg í anddyrinu og dálítið hávaðasöm - því var brugðið á það ráð að fara út á stétt og undirbúa hlaup. Tvær mínútur voru í brottför og hlauparar ólmir að leggja í hann. Eins og ólmir fákar. Við vorum höfuðlaus her án foringja vors Ágústs stórhlaupara, sem mun hafa verið á ráðstefnu á Nesjavöllum að ræða um einn milljarðasta úr einum milljarðasta úr einni sekúndu - eitthvað sem vekur áhuga sérstakrar manntegundar. Loks tók Gísli af skarið og leiddi hópinn út á Hofsvallagötu - en um stund hafði maður áhyggjur af því hvernig þetta gæti byrjað. Sjúl spurði mig: hvað gerist næst? Hver á að vera í forystu? Formaðurinn....?

En allt tókst þetta mæta vel. Hlaup fór vel af stað. Nú voru engir yfirlýstir hraðafantar að eyðileggja hlaup þegar í upphafi, svo að þessir tóku að sér að vera í forystu: Sjúl, Ólafur ritari og Gulli Pétur. Á Suðurgötunni sagði sá síðastnefndi skilið við okkur hina og hvarf. Við héldum hratt tempó og týndum fljótlega þeim sem á eftir komu. Það er gagnlegt að hlaupa með lækni. Við höfðum t.d. þungar áhyggjur af honum Kára okkar sem virðist ekki njóta sama ávinnings af því að hlaupa og aðrir meðlimir Hlaupasamtakanna. Sjúl kom með mjög merkilega greiningu e-s staðar í Skerjafirði: maðurinn dregur í sig svo mikla andlega næringu á hlaupum að hann hleypur í andlegt spik í stað þess að léttast! Brilljant greining! Það eru ábyggilega til einhverjar többlur við þessu.

Það var skeiðað greitt á Ægisíðu, Neshópur kom seint og illa, maður kannaðist við fáa, Guðrúnu Geirs og minn gamla skólafélaga, Sæmund Þorsteins. Þegar komið var út að Hofsvallagötu ákváðum vð Sjúl að niðurlægja hina hlauparana með því að hlaupa til móts við þá. En þannig tryggðum við að með á Nes fylgdu Magnús, Gísli, dr. Jóhanna, og sjálfsagt einhverjir fleiri. Stefnt á sjóbað. Farið rólega. Sagðar sögur sem ekki þola birtingu á bloggi. Við Gísli, dr. Jóhanna og ritari héldum hópinn, fórum um Bakkatjörn, en Sjúl og Gulli Pétur fóru fyrir golfvöllinn. Við Gísli skelltum okkur í sjóinn í Nestjörn og svo út á Flóann - þá gerðust hlutirnir, brjáluð hákarlavaða réðst að okkur í mynni Hvalfjarðar, en ritari snerist til varnar og beit tilbaka. Er enn með óbragð í munni - en það rjátlar sjálfsagt af með tímanum.

Mikið hefði verið indælt að hafa almennilega vatnsfonta á leiðinni - maður var orðinn þyrstur af löngu hlaupi, sjósundi og heitu veðri. Þeir Gunnlaugur og Sjúl hittu okkur er við vorum komnir á Norðurströnd og svo var skeiðað af stað í mark. Gunnlaugur og Gísli gáfu í og skildu okkur Sjúl eftir - kraftur í þeim gamla. En við héldum nokkuð góðu tempói það sem eftir lifði hlaups og komum nokkuð jafnsnemma til Laugar. Teygt í skamma stund - samvera í potti, þar sem Helmut hélt ádíens.

Helzta niðurstaða hlaups var að það vantaði áætlun til uppbyggingar hlaupurum hinnar miklu Hlaupasveitar Kommúnistanna fyrir Reykjavíkurmaraþon í ágúst n.k. Þeir sem koma til greina þar eru: Ágúst, SIngv, Benedikt, Sjúl, Birgir, Gísli, Jörundur, dr. Jóhanna, Eiríkur, ritari, blómasali, Haukur, og ef fjarstöddum félögum þóknast að láta sjá sig: Guðjón E. Ólafsson. Þeir sem ég hljóp með töldu að nú þyrfti yfirþjálfari (prof. dr. Fróði) að koma með áætlun, því að fólk er að fara í frí og þarf að þjálfa sig fjarri stöðugri yfirsýn og yfirlegu þjálfarans.

Á miðvikudag heldur prógrammið áfram: Goldfinger, Árbæjarlaug (25 km) - nú er tækifærið til þess að hrista slenið af ónefndum blómasölum sem þurfa að losna við nokkra Smarties pakka framan af belgnum af sér.

Í gvuðs friði - ritari.


Hefðbundinn sunnudagur

Brunahringing árla dags. Hinum megin á línunni var stórvinur vor og frændi úr Víkingi, staddur í Trieste, tilkynnti að hann væri að fara um borð í farkostinn sem mundi flytja hann heim til Íslands.

Í gær var hlaupið Bláskógahlaup. Þar  voru mættir tveir fulltrúar Hlaupasamtaka Lýðveldisins, þeir Jörundur og Haukur. Eitthvað voru þeir ósamstíga um upphafstíma hlaups, og sagði Haukur við ritara að Jörundur hefði sagt sér ósatt um hvenær hlaup hæfist. Þetta sagði Jörundur að væri skrök, Haukur gæti sjálfum sér um kennt. Hvað sem þessu líður óku þeir báðir í loftköstunum á eftir rútunni sem flutti hlauparana frá Laugarvatni að Gjábakkaafleggjaranum. Aðeins annar þeirra hljóp, Jörundur sigraði í flokki hlaupara 60+. Hefði Haukur hlaupið hefði hann sigrað í hópi hlaupara 50+ - þar var enginn skráður. Þá hefðu Hlaupasamtökin átt tvo sigurvegara í Bláskógaskokki - en svona ganga hlutirnir stundum fyrir sig.

Það var hlaupið frá Vesturbæjarlaug í dag kl. 10:10 eins og alla sunnudaga, mættir til hlaups voru Vilhjálmur Bjarnason og Ólafur ritari Samtakanna. Fjarvera annarra hlaupara breytti því ekki að tveir hnarreistir hlauparar lögðu af stað í fögru veðri og hlupu hefðbundið, með öllum lögákveðnum stoppum, umræðum um rekstrarmál og persónufræði. Pétur Reimarsson hljóp fram úr okkur og spurði hvort þetta væri Gönguklúbbur Lýðveldisins. Sumir munu aldrei skilja inntak sunnudagshlaupa í Vesturbænum. Í pott mætti jafnframt téður Jörundur og dr. Baldur. Viðræður allar spaklegar, og þó stilltar.

Ekki lét ég staðar numið við hefðbundið sunnudagshlaup - veðrið var einhvern veginn allt of gott til að gera ekki eitthvað meira. Tók því fram fótknúinn fararskjóta minn og hjólaði eftir hádegið úr Vesturbænum sem leið liggur inn í Fossvog og svo áfram inn í Elliðaárdalinn og upp að Árbæjarlaug. Þar var gert stutt stopp, keyptur orkudrykkur, og haldið áfram. Farið áfram hefðbundna 69 um Laugardalinn - frábær tveggja tíma ferð í fögru veðri. Enn er sláandi hversu fáar drykkjarstöðvar eru á göngustígum - stígarnir eru tugir kílómetra, en stöðvarnar aðeins þrjár eða fjórar. Úr þessu þarf að bæta.

Mánudagshlaup á morgun 17:30.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband