Merkilegur dagur

Þetta var dagur stórra fyrirheita. Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins hafði sent prófessor Fróða tillögu að hlaupaáætlun vegna maraþonhlaups í ágúst. Engin svör. Í dag var prófessorinn inntur viðbragða við áætluninni: nú, það var ekki við neinu að bregðast, þetta er áætlunin mín frá því í fyrra! Það er ekki við neinu að bregðast.

Við Haukur vorum mættir snemma, og Magnús var í potti löngu fyrir hlaup, þvílík var spennan fyrir hlaupi dagsins! Ég og Haukur klæddumst hlaupafatnaði og sátum eins og prúðir fermingardrengir í brottfararsal Vesturbæjarlaugar. "Það er ekki hávaðinn í okkur" sagði ég við Hauk. "Nei, við erum kyrrlátir." En þetta átti eftir að breytast eftir því sem bættist í hópinn: prof. dr. Ágúst, Gísli, Kári, Einar, Helmut, dr. Jóhanna, Gunnlaugur Pétur ásamt með frænda sem hefur líklega heitið Gunnmar, dr. Sigurður Júlíusson, og svo kom Jörundur. Maður fann hvernig andrúmsloftið þykknaði við komu Jörundar, hann kreppti hnúana svo þeir hvítnuðu, hann spennti glyrnurnar í Magnús, sem var ekki viðbúinn þessu viðmóti og hafði engu öðru að skreyta sig með en ljúfmennskunni. Um þetta leyti tókum við Haukur eftir því að hávaði hafði magnast í brottfararsal og má með sönnu segja að hann hafi verið nánast óbærilegur og hlýtur í vinnuverndarlegu sjónarmiði að flokkast sem umhverfismengun og skaðlegur heilsu starfsmanna í móttöku. Er ekki laust við að skilningur hafi glæðst með ritara á þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið um fælniáhrif Hlaupasamtakanna gagnvart væntanlegum baðgestum Vesturbæjarlaugar - en ég hélt þessum sjónarmiðum út af fyrir sjálfan mig.

Það var gefið út að farið yrði langt. Þótt hlaupaáætlun ritara hafi ekki fengið almenna útbreiðslu og yfirblessun yfirhlaupara prof. dr. Fróða - þá voru stór plön um átakahlaup. Hinu er rétt að halda til haga að ritari er fjölskyldumaður eins og fleiri hlauparar. Hann tilkynnti þegar í upphafi hlaups að hann hafi verið boðaður í fjölskyldugrill kl. 19 og gæti því ekki farið langt. Þessi tilkynning virtist smjúga gegnum höfuðið á tilteknum hlaupurum án þess þeir tækju eftir henni. Úti á stétt voru þrír hlauparar með Garmin á handlegg - "hvað er nú þetta?" spurði Stórhlaupari Gunnlaugur. Svona talar aðeins Sannur hlaupari í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. "Til hvers er þetta?" hélt hlauparinn áfram - það komu vöfflur á prófessor Fróða og hann átti ekki fyllilega svör við þessum óvæntu spurningum.

Hlauparar fögnuðu dr. Ágústi, nú var engum vafa undirorpið hver hefði forystuna og gæti hafið hlaup. Engum þarf að koma á óvart hverjir tóku forystuna, og þeim lá á. Við hinir fylgdum á eftir og vorum þungir og þreyttir. Það var spenna í mannskapnum því að framundan var sjóbað. Ekkert óvænt fram að Nauthólsvík - en samt ákveðin óvissa um hvað prófessorinn gerði. Er þangað var komið var stefnan tekin á rampinn og eftirtaldir skelltu sér í sjóinn: Ágúst, Ólafur, Gísli, Helmut, Kári, og Lo and Behold: Sjúl, Gunnlaugur og Einar blómsali sáust tína hikandi af sér spjarirnar og fikra sig niður í svala ölduna, allir fóru þeir á kaf og munu hafa sleppt fótfestu og tekið sundtök: fullkomnað sjósund. Hvílíkur dagur! Okkur hinum fannst sjórinn of heitur, syntum út að flotbryggju, klifruðum upp, spókuðum okkur og stungum okkur svo í öldur Atlanzhafsins. Það var uppfrískandi að synda, jafnvel hinir nýju sjósundsmenn viðurkenndu að baðið hefði haft hressandi áhrif á þá.

Gísli hafði áhyggjur af því hvað fólk héldi þegar það sæi hann í blautum stuttbuxunum, það liti ekki vel út. Ýmsar útfærslur af þeirri hugmynd, en engin hafandi eftir. Nú var haldið áfram og voru menn léttir á sér eftir sundið: Sjúl, Ágúst og Gunnlaugur fóru Goldfinger (eða stefndu þangað alla vega), við hinir fórum Stokk. Ritari var orðinn nokkuð nervös því að hann var tímabundinn, en hafði látið plata sig að fara lengra en góðu hófi gegndi. Það var farinn Stokkur, við Gísli, Kári og Einar höfðum samfylgd og reyndum að hafa uppbyggileg áhrif hver á annan. Skeiðað upp hitaveitustokkinn - en í Stóragerðinu sagði ég skilið við þá kumpána - þurfti að fara hraðar en í boði var. Sá fyrir mér frúvu mína sem væri farin að örvænta um að ég skilaði mér á tilskildum tíma. Því setti ég í gang túrbóinn og spretti úr spori. Tók upp gífurlegt tempó sem ég hélt alla leið - og sá þá að líkaminn væri ekki hindrunin fyrir því að hlaupa hratt - það er andinn sem ræður. Óttinn við að hitta fyrir reiða konu. Blómasalinn var eitthvað að sperra sig á leiðinni, rembdist við að fara fram úr mér - en það er bara hans stíll. Allt kom fyrir ekki, ég kom seint til laugar og bakaði mér mikil vandræði. Þar voru staddir margir dánumenn sem voru uppfullir af góðum hugmyndum um hvernig taka mætti á málum svo að ekki hlytust vandræði af.

Allt fór þetta einhvern veginn og ég er hér til frásagnar. Út verður send hlaupaáætlun, hefðbundið föstudagshlaup og Fyrsti Föstudagur liður þar í. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband