Vetur konungur lætur á sér kræla

Það snjóaði í morgun. Á hádegi var orðið glerhált. Um það bil sem hlauparar eru vanir að safnast saman í Vesturbæjarlaug til hlaupa á föstudögum var vindur farinn að blása og bæta í kuldann, sem var nægur fyrir. Nokkrir naglar mættir til hlaups, þessir helztir: Flosi, Jörundur, Biggi, Bjössi, Ósk, ritari, Þorvaldur, Denni af Nesi, Kári og svo hlaupari sem virtist tengjast Flosa, en við höfum ekki nafnið á. Hefðbundin kátína í útiklefa, þar sem voru mættir nokkrir hlauparar og höfðu í frammi hefðbundin gamanmál. Í Brottfararsal var rætt um sólskinshlaupara eins og próf. Fróða og Einar blómasala, sem köru að liggja uppi í sófa í stað þess að fara og eiga karlmannlegt hlaup í norðaustangarra og manndrápsgaddi.

Lagt upp hægt, stefnt á hefðbundið um Veðurstofuhálendi. Færð var gizka góð þrátt fyrir að útlit væri fyrir hálku, var bara ansi gott að hlaupa. Hlauparar voru stilltir og sakir þess að með okkur hljóp upplýst kona fór umræðan ekki niður á lægra plan. Framan af hlupum við saman í einni þröng, en þar sem ég hljóp með þeim Denna og Bjössa voru ákveðnir hlauparar horfnir, Ósk, Flosi og einhverjir fleiri. Ég spurði félaga mína hvernig þetta gerðist, en þeir höfðu ekki svör. Næst þegar ég gáði var Flosi búinn að skilja hina félaga sína eftir og eiginlega bara farinn. Menn höfðu orð á þessu, hvort hann væri á efnum.

Denni ráðgerði að hlaupa Hlíðarfót. Ég sagði honum frá því að það væri opið í gallerí Ragnheiðar Ágústsdóttur í gamla húsi Landhelgisgæzlunnar við Seljaveg og þar væru léttar veitingar veittar. Það lifnaði heldur betur yfir mínum og hann sperrtist alltur upp - og þegar til átti að taka hélt hann áfram með mér um Veðurstofuhálendið. En áður en við náðum Hi-Luxbrekkunni kom Federico Melabudensis móður og másandi, hafði lagt í hann langt á eftir okkur, en náði okkur aumingjunum þar sem við lögðum á Öskjuhliðarhálendið. Ég sagði honum frá listsýningunni og varð það ekki til að draga úr honum áhugann á hlaupi.

Denni var í því að telja kjarkinn úr sjálfum sér, en við fullvissuðum hann um að í þessum Samtökum væri enginn skilinn eftir. Píndum hann upp brekkuna og leyfðum honum ekki að víkja af braut fyrr en kom að hitaveitustokki. Fórum hefðbundið á þokkalegu tempói, þó skal viðurkennt að Frikki hljóp fram og tilbaka til þess að koma til móts við mig. Við undum okkur vel í hreinu og tæru vetrarloftinu lausu við mengun, þótt kalt væri.

Á Klambratúni var kallað í mig, voru þar komnir Jörundur og Denni. Gengu sögur í ýmsar áttir um hvor hefði tínt hvorn upp af leið sinni, en hið rétta mun vera að Jörundur kom að Denna þar sem hann var að gefast upp og vildi stytta, en Jörundur brýndi hann til dáða með vel völdum ókvæðisorðum um íhaldið og fiskveiðistefnu þess. Þarna sameinuðumst við félagar og áttum gott hlaup að Hlemmi, þar sem Denni tók beygjuna niður Laugaveg, en við fórum í fylgd Melabúðar-Frikka niður á Sæbraut. Það var allt í lagi að fara með ströndinni og tókum við því bara rólega.

Það var stefnt vestur á Seljaveg og urðum við nokkuð samferða, og á Vesturgötu bættist Denni í hópinn. Sóttum menningarviðburð í anda liðinna tíða hjá menningarkonum sem buðu upp á hvítt og rautt. Varð okkur hugsað til sólskinshlaupara sem eru ekki vanir að slá hendinni á móti ókeypis veitingum. Var þetta ánægjuleg stund og gefandi í alla staði.

Haldið áfram til Laugar um stíga og götur gamla Vesturbæjarins. Pottur góður í skandinavískum félagsskap. Denni kvartaði sáran yfir því að Fyrsti Föstudagur marzmánaðar 2007 hefði fyrst verið tilkynntur í hlaupi, en ekki boðaður með löglegum og sanngjörnum fyrirvara Taldi hann jafnvel að þessi Föstudagur væri úr gildi fallinn af þessari ástæðu og bæri að endurtaka hann. Lýsti hann yfir þungum hug í garð prófessors Fróða, sem staðið hefði að baki þessari óvæntu boðun drykkju á drykkjustað þeirra Seltirninga, en jafnframt að hann væri fullur sáttarhugar ef boðlegar afsakanir væru fram fluttar og úrbætur gerðar á boðunarkerfi Samtakanna.  

Minnt er á boð um julefrukost Hlaupasamtakanna að Esjustofu 12. desember - hvatt er til svara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

1. Nýi maðurinn heitir Ragnar, meira veit ég ekki um hann. Hefur komið aftur þrátt fyrir óhugguleg fyrstu kynni af prófessornum og undirrituðum!

2. Já, Flosi er búinn að bæta efnum við, eða öllu heldur efni: Lýsi! Auk þess hefur hann mætt tvisvar í Yoga.

Flosi Kristjánsson, 28.11.2009 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband