Hin eilífa og fyrirfram tapaða barátta við kílóin

Um það bil sem ritari át síðustu línuna af 400 gramma Cadbury´s súkkulaðinu sínu með hnetunum og rúsínunum varð honum hugsað sem svo: Æ, shit! Blómasalinn. Ég las aftur á umbúðirnar og gekk úr skugga um að ég hefði keypt rétta sort. Jújú, 400 g stóð á umbúðunum. Eins gott að hann frétti ekki af þessu.

Fjöldi hlaupara mættur í Brottfararsal á mánudegi, sem þrátt fyrir ljótar spár veðurfræðinga, reyndist hinn ágætasti til hlaupa, svalt í veðri en enginn vindur. Ekki tjóir að nefna hlaupara nema eftir því sem lögmál frásagnarinnar krefjast þess. Ritari mætti fyrst þeim Magga dental og dr. Friðriki háls-, nef- og eyrna. Enn var rætt um brandara Kára frá því á föstudag um masterlykla og skrár. Svo tíndust þeir hver af öðrum hlaupararnir í Sal, m.a. Eiríkur sem átti afmæli í dag. Var honum árnað heilla af því tilefni af mönnum sem kunna sig.

Rólega út að Skítastöð. Þar voru mönnum settir úrslitakostir, að því er virtist. Það mátti velja um að hlaupa 1 km spretti 10 sinnum, vægari útgáfa var sama vegalengd 8 sinnum. Við eymingjarnir máttum taka 500 m spretti 8 sinnum. Þar fór sem fyrr Sirrý í forystu og keyrði okkur sporum, hvatti áfram. Ótrúlegt var að sjá m.a.s. feitlagið fólk spretta úr spori og taka vel á því. Alveg til fyrirmyndar! Svo voru hinir hlaupararnir að þvælast fyrir okkur í myrkrinu á stígunum í Skerjafirði, og próf. Fróði eitthvað masandi um að þessar æfingar hefðu enga þýðingu, betra væri að fara langa spretti hægt. Ekki batnaði það þegar Neshópur birtist utan úr myrkrinu og hrópaði ókvæðisorðum að okkur.

Þegar svona æfingar eru teknar er ekki margt gáfulegt sagt. Umræður voru miklar allan tímann um súkkulaði og gat ég ekki setið á mér að láta blómasalann vita af Cadbury´s súkkulaðinu sem hann varð af. Honum sárnaði. Upplýst um nýjar vörutegundir hjá Melabúðar-Frikka, ýmsar tegundir af Wasa hrökkbrauði sem hefur ekki fengist í landinu í rúmt ár. Einar hélt að þetta væri build-up efni sem væri ætlað feitu fólki sem vill léttast. Honum var bent á Nupo-létt.

Farið á hægu tölti tilbaka, við Einar létum nægja að enda við Hofsvallagötu, enda margt að ræða er laut að grenningarefnum og kvöldmat. Aðrir fóru um Rauðvínshverfið þar sem búa þeir sem græða á daginn og grilla á kvöldin. Teygt á plani eftir mislanga, en velheppnaða spretti. Í potti var rætt um hið hefðbundna jólahlaðborð Hlaupasamtakanna 12. desember nk. Hugmynd kom upp um að panta Esjustofu undir viðburðinn, sem rekin er af bona fide Vesturbæingum. Munu hlutaðeigandi fá nánari skilaboð um viðburðinn er fram í sækir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband