Ekki fyrir aumingja

Sólskinshlauparar lágu undir fiðri á þessum sunnudagsmorgni meðan fjórar hetjur brynjuðu sig til hlaupa í 10 sm jafnföllnum snjó, fjögurra stiga gaddi og stífum austanvindi. Þetta voru Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur ritari. Nú kom ekkert annað til greina en balaklövur og flíspeysur, enda Vetur konungur farinn að herða tökin.

Rætt um hefðbundið útgáfuteiti ónefndrar bókaútgáfu þar sem okkar maður var mættur án þess að ljóst væri hver tenging hans væri við útgáfuna. Þá var gerð úttekt á hjónabandi Tiger Woods sem komst að því um helgina hvar Davíð keypti ölið þegar Elín kona hans Nordegren tók rispu á honum með golfkylfunni eftir að hann hafði að  mati dómbærra manna gert sér títt við annan kvenmann. Já, menn ættu að passa sig á þessum sænsku!

Það var samfelld samræða frá Laug til Laugar, á leiðinni austurúr voru sagðar margar, fallegar sögur, ráðningamál í ráðuneyti, pólitískar greiningar og farið yfir næstu jarðarfarir. Fórum hægt yfir á Sólrúnarbraut sökum vinds og færðar. Skaflar voru djúpir við flugbraut, og ekki á færi annarra en harðdálka að hlaupa þetta. Hefðbundinn stanz í Nauthólsvík, en hann hafður stuttur vegna kuldans. Áfram haldið í kirkjugarð þar sem kyrrðin ríkir.

Eftir þetta var farið nokkuð hefðbundið, Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar, Hlemmur og Sæbraut. Þar var dokað við og náttúran skoðuð. Hvílík forréttindi að vera hlaupari í Reykjavík og njóta veðursældar og útiveru. Við heiðruðum V. Bjarnason með því að fara Ægisgötuna, en gengum megnið, enda um nóg að tala. Komum svo á Plan þar sem Atli fótboltaþjálfari Víkinga og KRinga mærði okkur fyrir kraftinn. Fórum inn og teygðum í hlýjunni.

Í potti hófst endurvinnsla fyrri sagna og stóð framundir eitt, blómasalinn bættist í hópinn og hafði engar haldbærar afsakanir fyrir fjarveru sinni. Rætt um að færa julefrukost nær Vesturbænum og verður nýtt boð sent út þar að lútandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband