Falleg saga

Veður er áfram fallegt í höfuðstaðnum, sól og hiti líklega um fimm stig, vindur hægur. Þrír kappar komnir saman við Vesturbæjarlaug til hlaupa á þessum sunnudagsmorgni: Magnús, Þorvaldur og Ólafur ritari, mjög samhentur og knár hópur. Það var ekki vandræðagangur á okkur félögunum, enginn með Garminúr sem þurftu tungl eða stillingu. Við lögðum bara af stað á hröðu tempói og steðjuðum út í  vorið. E-m varð á orði: Þetta verður yndislegt!

Á stígnum e-s staðar í Skerjafirði mættum við kunnuglegum hlaupara, Formanni vorum til Lífstíðar, Ólafi Þorsteinssyni, sem kom á móti okkur á hlaupabrautinni. Skýringin á þessum afbrigðum var sú að Ólafur er námsmaður og hefur skyldum að gegna gagnvart meðstúdentum er lýtur að verkefnavinnu og slíku. Þurfti að vera mættur á ákveðnum stað á ákveðnum tíma og gat því ekki verið með okkur í dag. Upplýst um brunahringingu morgunsins, Ólafur sætti  blóðugum skömmum fyrir það að mynd af Vilhjálmi Bjarnasyni lenti inni í 24 stundum í laugardagsblaðinu, en ekki á forsíðu, þar sem hún átti heima. Þess í stað mátti sjá mynd af þingmanni Samtryggingarinnar af Engeyjarætt á forsíðu blaðsins. Því var bætt við að VB gæti ekki hlaupið í dag þar eð hans væri von í púðurrúmið í Ríkissjónvarpinu og svo í sætið í Silfrinu. Hlaupasamtökin eru vel sett með slíka representasjón á Ríkisfjölmiðlinum.

Við félagarnir héldum áfram í vorblíðunni og fórum hratt yfir. Pissustopp í Nauthólsvík, en engin saga, farið geyst um kirkjugarðinn og svo hefðbundinn sunnudag eftir það á töluverðu stími, þ.m.t. Sæbrautina, þar var fallegt veður og blítt. Tókum vel á því á bakaleiðinni og tókum engin stopp, komum því óvenjusnemma til Laugar. Teygt og togað - farið í pott. Afbrigði, nú var setið í nuddpottinum, Ólafur Þ. sagði að það væri vegna þess að þar færu saman gáfur og víðsýni. Hefðbundin mönnun og umræður snjallar. Enn ein falleg sagan fær farsælan endi.

Á morgun er mánudagur. Áhugi er á að endurvekja Neshlaupin sem stunduð voru á mánudögum, höfðu menn á orði s.l. föstudag að langt væri síðan við hefðum mætt Neshópi og nauðsynlegt væri að endurvekja kynnin. Haldi veðurblíðan áfram verður líka fallegt að hlaupa á Nesinu. Vel mætt!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband