Maðurinn með hattinn - mafíuhattinn

Rigningin hrundi niður úr himninum er ritari gekk hægum skrefum frá bílastæðunum við VBL og yfir á brottfararplan. Um daginn hafði umræðan geisað svo við lá hallarbyltingu, upplýst að von væri á þjálfurum og búið að ákveða breytta hlaupatíma. Þessum fastheldna hlaupara, aðdáanda fastra, óbreytanlegra gilda og viðmiðana, var þungt í sinni. "Á nú að fara að breyta tilveru minni, þegar ég er loksins búinn að ná fótfestu?" Út í útiklefa - og sat þar einn um stund. Klæddist loks hlaupagíri og mætti í Brottfararsal. Þar mættu smásaman nokkrir hlauparar sem verða ekki nefndir á nafn. Furðulegast þótti mér að sjá tvo hlaupara, þ. á m. Ágúst þjálfara, skjótast út úr kompu forstöðukonu VBL, stuttu fyrir hlaup, og var engu líkara en hann hefði verið að gera eitthvað af sér. Hið sanna kom loks í ljós er hann kom upp aftur klæddur til hlaupa: "Það er búið að setja mig af sem þjálfara" sagði hann, og brast í röddinni svo við lá gráti. Hann reyndi að sjá það jákvæða í stöðunni og sagði með fölsuðu brosi: "Nú get ég einbeitt mér að því að hlaupa." Þetta var einum of gegnsætt. Hlauparar Samtakanna kenndu Ágústi um slakan árangur í seinasta Reykjavíkurmaraþoni, þar sem tímar flestallra voru lélegri en fyrr. Nú notuðu menn tækifærið og skiptu honum út í þeim tilgangi að bæta tíma hlaupara sem láta sig tíma í hlaupum engu varða! Kemur maður svona fram við vini sína? Ég bara spyr. Þetta gera bara KR-ingar.

Denni var mættur af Nesi og lýsti yfir því að nærveru hans bæri að skilja sem stuðning við Fyrsta Föstudag - þeirri góðu hefð mætti ekki breyta. Svo man ég að segja frá Birgi og Kára. Nú fer Kári að yfirgefa hópinn, ganga í klaustur í Franz og ígrunda ritgerð sína hina meiri, verður fjarri góðu gamni í þrjá mánuði. Ekki skil ég hvernig hann hyggst þreyja Þorra og Góu syðra og vera fjarri góðra drengja hópi, en menn gera svo marga vitleysuna nú um stundir...

Nema hvað, allmargir hlauparar mættir  í rigningunni, en aðeins ein kona: dr. Jóhanna. Lagt í hann. Aldrei áður hef ég upplifað jafn eindregna uppskiptingu hópsins í tvær fylkingar: hina fljótari og hina lakari. Mér er ljúft og skylt að viðurkenna að ég tilheyrði seinni hópnum, enda rétt að byrja að hreyfa mig aftur eftir maraþon. Í mínum hópi voru nokkrir góðir menn sem hölluðust að því að ræða klassísk fræði, mikið spjallað um Njálu og þann fróðleik sem þar væri að hafa: Eru köld kvenna ráð, Ung var ég gefin Njáli, Snemma gengur faðir vor til hvílu, Með lögum skal land byggja o.s.frv. Svona erum við þjóðhollir og klassískir í okkur. Maður vorkenndi hinum hraðari hlaupurum, en lakari andans mönnum, að hafa misst af þessum mikla fróðleik. Minn hópur fór afar hægt yfir, enda nutum við hvers fótspors eins og það væri ljúffengur biti af humar - vildum ekki spilla máltíðinni með því að kokgleypa allt í einhverjum æsingi. Við kunnum að njóta hlaups, hlaup færa okkur unað, við hugsum um mat á hlaupum og á andlit vor er ekki meitlaður harðlífissvipur, sem svo oft má greina á andlitum sumra hlaupara í Borgarlandinu.

Nema hvað, við týnum fremstu hlaupurum og sáum ekkert meira til þeirra það er eftir lifði hlaups. En það var allt í lagi. Í Nauthólsvík misstum við tvo hlaupara, sem styttu um Hlíðarfót, en aðrir fóru hefðbundið um Öskjuhlíð (með pissustoppi) - enginn datt um keðjuna. Áfram upp Hi-Lux, kirkjugarð, Veðurstofuhálendið og þannig áfram. Ég náði að koma Kára í ham yfir verðlagi og slökum gæðum á matvöru sem í boði er og allir sætta sig við - en eru ekki boðleg. Hér hvíldi einhver ró yfir okkur, rigningarúðinn buldi á okkur, enginn vindur, hiti sjálfsagt kringum 12 gráður - bestu skilyrði til hlaupa sem hægt er að hugsa sér. Við héldum áfram um Klambratún, Hlemm og út á Sæbraut.

Það var samdóma álit þeirra er með mér hlupu að þetta hefði verið yndislegt hlaup, jafnvel þótt við hefðum verið nokkru á eftir þeim sem fremstir fóru, enda er það ekki sérstakt kappsmál hlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins að vera fyrstir eða hlaupa á ákveðnum tíma eða einu sinni að bæta tíma: bara að hlaupa og finna til einsemdar, eða eins og einhver sagði á eternum í dag: "Ég hleyp ekki til þess að ná árangri eða til þess að hlaupa (enn) hraðar - ég hleyp af því ég er einmana og líður illa - þannig á það líka að vera. Þannig líður mér bezt."

Einhverra hluta vegna var ónefndur álitsgjafi og skoðanahafi og samvizka Þjóðarinnar mættur á Brottfararplani er við komum tilbaka - ekki vissi ég erindi hans, því ekki hljóp hann í dag. Hann var sem fyrr klæddur ljósum rykfrakka og með svartan Borsolino-hatt úr flanneli. Er hann kom auga á annálaritara rifjaðist upp fyrir honum að hann átti sitthvað vantalað við hann og vildi taka upp töluna frá því á miðvikudag og halda áfram að fjandskapast. En einhvern veginn var allt loft rokið úr honum og fjandskapurinn varð hálfmáttlaus - nánast vinsamlegur. Hér var upplýst að kúarektorar í henni Ameríku hefðu borið Stetson-hatta, en mafíósar á Ítalíu, og síðar New York, Borsolino-hatta. Þetta gat Kári staðfest, móðir hans starfaði í íslenzku diplómasíunni í Nýju Jórvík upp úr 1944 og man vel eftir velklæddu mafíósunum og höttunum þeirra. Hvers vegna mikilsvirtur álitsgjafi vill líkjast mönnum með vafasama fortíð og vafasamt siðferði - er oss hulið. En hins vegar skiljum vér nú hvers vegna álitsgjafinn brást svo illa við spurningu ritara s.l. miðvikudag, sem hann varpaði fram í fullkominni fáfræði, og spurði: Er þetta Stetson-hattur sem þú ert með. Okkar maður vill frekar vera mafíós en kúreki.

Sif Jónsdóttir, langhlaupari, var mætt til Laugar er hlauparar komu tilbaka. Sést þar bezt helzta einkenni Hlaupasamtakanna: fólk dregst að gáfum og kímni félagsmanna, þótt það telji betur fallið til að ná árangri í hlaupum að hlaupa með öðrum hlaupahópum. Allmargir hlauparar mættir í barnapott og þar var setið um stund. Prófessor Fróði kom skokkandi og mændu allir á hann úr pottinum í þeirri von að hann myndi misstíga sig og taka flugið - en því miður náði hann potti heill á húfi, og við misstum af góðri skemmtun.  Rætt um hlaupahátíðina sem fram undan er og hlutverk einstakra hlaupara.

Svo hurfu menn til skyldna sinna, matarlögunar og næringar. Í gvuðs friði, annálaritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér er það bæði ljúft og skylt að fræða þá er hægar hlupu að vér er hraðar hlupum, upplifðum einnig yndislegt hlaup í þessum unaðslega rigningarúða með háspekilegum umræðum um allt milli himins og jarðar og jafnvel um það sem fram fer í öðrum sólkerfum. Undirritaður er sammála ritara um að ekkert kemst nær alsælu mannsandans en að hlaupa í logni, 12 gráðu hita og rigningarúða og enda síðan í potti með snillingum eins og Jóhönnu, Hauki, Ágústus, Kára, Benediktus, Ritara og fleiri góðum. Lengi lifi Hlaupasamtök Lýðveldisins!

Ps. Hatturinn heitir BORSALINO - http://borsalino.com/ (ath! þeir framleiða líka reiðhjól).

Birgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 23:45

2 Smámynd: Kári Harðarson

Takk fyrir ágætan pistil !

Kári Harðarson, 1.9.2007 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband