Hlaupið í Paradís

Um það leyti er prófessorar á Íslandi sneru sér til veggjar og sofnuðu vært á ný í morgun reimaði ritari á sig hlaupaskóna, opnaði útidyrnar á litlu raðhúsi í Malma Backe og dró djúpt andann - þótt aðrir sofi skal ekki vikið eitt iota frá hlaupaáætluninni. Enn var rýnt í kortið af borginni - í þetta skiptið ákveðið að leggja undir sig suðurhéröðin. Eins og áður hefur komið fram í annálum þessum er Svíþjóð paradís hlauparans, þar liggja endalausir stígar út um hvippinn og hvappinn og hægt að hlaupa af augum fram svo lengi sem þrek endist. Landið er sléttlent, veður er hagstætt þessi missirin, ekki neitt yfirmáta hlýtt, hægur vindur og svalandi ef eitthvað er.

Ég lagði sumsé í hann vel birgur af orkuvökva og í nýjum, aldeilis frábærum hlaupabuxum sem ég innhöndlaði hér í staðnum, léttar og ekki of þéttar. Hljóp þannig niður Vardsatraveg, sem er býsna langur, út að Granebergsveg og svo upp á Dag Hammarskjöldsveg - sem ég geri ráð fyrir að menn muni eftir frá því ég týndist hérna í haust í Gottsunda. Þessi túr er á að giska 16-17 km - og mátuleg upphitun fyrir langa hlaupið mitt á morgun, 35 km. Eftir er að ákveða hvaða leið verður farin en trúlega verður það blanda af þessu hlaupi og hlaupinu út í Gömlu Uppsala á miðvikudag. Fann mikinn kraft í lok hlaups í dag og greinilegt að þessi hlaupari er allur að koma til í aðdraganda maraþons.

Ég bið hlaupurum allrar blessunar, hef heyrt ávæning af fyrirætlunum um langt hlaup á morgun í Grímsnesinu og vona að sem flestir blandi sér í það. Einnig sendi ég mínar bestu kveðjur öllum sem koma til útivistar að sumarhöll Sjúl í sveitinni.

Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband