Heitt og sveitt

Hér í Svíþjóð eru reknar líkamsræktarstöðvar undir heitinu "Svettis" - sem á íslenzku myndi útleggjast "Svitó" - ekki heiti líklegt til þess að trekkja að frekar en rafvirkinn sem kaus að kalla fyrirtæki sitt "Rafstuð" - maður vill ógjarnan lenda í að fá rafstuð eftir að hann er búinn að véla um raflagnir heimilisins. En Svíar eru óútreiknanlegir og finnst það bara huggulegt að geta farið inn á staði sem heita Svitó og svitnað þar. En ekki held ég ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins hafi þótt huggulegur þar sem hann skeiðaði um stíga Uppsala og lækirnir fossuðu og hjöluðu niður stæltan skrokkinn í 22 stiga hita, sólskini og ládeyðu. Hér var sumsé dagurinn tekinn með látum um það bil er rifa myndaðist í augum prófessora heima á Íslandi, stefnt á langt hlaup, en óljósara með hlaupaleið. Þegar upp var staðið varð það aftur Gamla Uppsala en þó lengt um Eriksberg og Flogsta og þannig farið lengra en síðast, líklega 27-28 km - ekki 35 eins og hlaupaáætlun sagði fyrir um, en býsna gott engu að síður í þessum hita. Hlaupari var orðinn ansi þrekaður á seinni partinum og hefði ekki viljað bæta þessum 7-8 km við sem þurfti til að uppfylla áætlun.

Ég varð ekki fyrir neinu aðkasti að þessu sinni, enda vel á verði, ávallt reiðubúinn að víkja og færa mig þegar ég mætti hjólafólki. Hins vegar brá svo við nú að allir stígar voru fullir af hlaupandi fólki og var það ágæt tilbreyting. En hér tíðkast ekki að fólk kasti kveðju hvað á annað eins og regla er heima þegar hlauparar mætast. Og raunar allir njóta þegar frændi minn og vinur, Ó. Þorsteinsson, er á ferð: þá er öllum heilsað. Að ekki sé talað um Magnús J. Kristinsson, tannlækni, sem þekkir mjög marga einstaklinga sem hlauparar mæta. Nei, hér heilsast fólk ekki, engin samstaða meðal hlaupara. Og synd að hlaupari komst ekki í kalt vatn að kæla sig - en úr því verður bætt í næstu viku, þegar farið verður í sjóinn á miðvikudag.

Kærar kveðjur héðan úr Svíaríki. Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband