Inn í skóginn - út úr honum aftur...

Um svipað leyti og syfjaðir prófessorar heima á Skerinu voru að nudda stírur úr augum í morgun lagði ykkar maður í Svíþjóð, ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins, af stað í langhlaup um skógarstíga og götur í henni Uppsala. Samkvæmt hlaupaáætlun skyldi farið langt - eitthvað um 25 km. Ég skoðaði kort af borginni fyrst og sá að það yrði metnaðarfullt að stefna á Gömlu Uppsala, hið forna höfðingjasetur Upplands, þar sem er að finna gamlar höfðingjagrafir, hauga, sem hýsa hinsta legstað höfðingja eða konunga frá 6. öld. Þar er einnig auðvelt að sjá fyrir sér senur úr henni Heimskringlu og næsta ljóst að Snorri Sturluson hefur verið þar á ferð fyrr á tíð að viða sér efni í frásögur sínar. Ég áttaði mig ekki vel á vegalengdum en sá að þetta gæti orðið langt og gott hlaup.

Leiðin olli engum vonbrigðum, hiti um 14 gráður, hálfskýjað, vindur sem kældi mann á leiðinni. Það er yndislegt að hlaupa í Uppsölum, þar eru endalausir stígar og gönguleiðir og engin hætta á að maður villist - það þarf ekki annað en skima eftir turnum dómkirkjunnar eða eftir Höllinni - þá getur maður staðsett sig. Eina hættan er að halda sig ekki réttu megin á stígunum þegar maður mætir hjólafólki, því að fátt þykir Svíum hneykslanlegra en maður, hlaupandi eða gangandi, sem heldur sig röngu megin á göngustíg. Og maður fær að heyra það ef maður lendir í þeirri reginvillu að vera vitlausu megin á stígnum. Ég reyndi því að vera réttu megin þegar ég mætti fólki og alltaf reiðubúinn að víkja.

Ég var með nægan orkuvökva með mér og í verulega góðu formi, fann að það væri ekkert annað að gera en að hlaupa. Varð hugsað til félaga minna heima, nú gætu þeir verið stoltir af sínum manni. Eina sem vantaði var kalt vatn til þess að kæla sig í og heitur pottur á eftir til að slaka á í og heyra kjaftasögur. Þótt það virðist langt á korti að fara til Gömlu Uppsala var það í raun ekki svo langt og virðist mér eftir á að þetta hafi verið góður Goldfinger, ca. 24-25 km. Ég rölti aðeins um svæðið og las á skilti - en haskaði mér svo tilbaka þegar það var orðið dumbungslegt og farið að blása. Það var ótrúlega fámennt á leiðum og fáir hlauparar, sem er merkilegt miðað við hvað það er kjörið að hlaupa um skóga og stíga við kjöraðstæður.

Fátt markvert eða frásagnarvert gerðist á leiðinni. Ég var léttur og frískur á mér, íklæddur nýjum, stuttum hlaupabuxum sem eru miklu betri en þær gömlu því að þær límdust bókstaflega á fæturna á mér og þyngdu mig. Bolurinn sömuleiðis ídeal, hleypti út miklu vatni sem flæddi frítt. Ég var farinn að þreytast á heimleiðinni en gaf mig ekki og hljóp alla leið. Næst verður farið á föstudag, ca. 15 km. Sé svo til hvort ég næ ekki 30 km. á laugardag. En hef hugsað mér að fara Elliðavatnshringinn miðvikudaginn 25. júlí í upptrappningu fyrir Reykjavíkurmaraþon - byrja snemma, kl. 16:30 og taka sjóbað á bakaleiðinni. Hafi einhverjir áhuga á þessu hlaupi er þeim frjálst að slást í hópinn.

PS - ég sendi heillaóskir þeim Einari blómasala og Önnu Birnu, sannarlega kraftaverkafólk og sómar Hlaupasamtakanna, gera okkur hinum skömm til og megum við eymingjar heita að hafa misst af Lónssundi. Nú fyrst skilur maður af hverju Einar er svona tregur til sjóbaða - sjórinn er einfaldlega ekki nógur kaldur!

Virðingarfyllst,
ritari


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband