Maðurinn hennar Vilborgar

Tekin hefur verið upp sú nýbreytni að kenna menn við konur sínar. Samkvæmt þessu voru þessir mættir: Helmut hennar Jóhönnu, Flosi hennar Rögnu, skrifari kenndur við Írisi, Benni hennar Dagnýjar, Jörundur hennar Önnu Dísar, Ólafar-Fróði, Þorvaldur kvennablómi, Magga, Vilborgar-Einar, Ragnar (hvað hét konan hans aftur?), Frikki hennar Rúnu og einhver óþekktur ungur maður sem hljóp af kappi. Hjálmar hennar Óskar ofurhlaupara.

Veður gott til hlaupa, einhver austangjóla og farið að kólna. Höfð voru í frammi heit í tölvupóstum um langt í dag, 69++ og eitthvað meira í þá áttina. Einkum voru það þrír hlauparar sem gengu fremstir í yfirlýsingum: prófessorinn, barnakennarinn og blómasalinn. Aðrir höfðu orð á að hlaupa Þriggjabrúa, en Frikki og Ragnar eru á leið í maraþon svo að þeir ætluðu að taka því rólega. Svo var hann René mættur, en ekki hlaupaklæddur, líklega á leið í maraþon líka. Frikki fer utan á föstudag og þreytir hlaup í Feneyjum um helgina ef mig misminnir ekki.

Nú er hætt að hafa formála að hlaupum, bara lagt upp. Þokkalegt tempó þegar í byrjun og þekkt andlit sem fóru fyrir hópnum. Skrifari þar á eftir með dr. Jóhönnu, Dagnýju, Ragnari og Þorvaldi. Það er kvalræði að hlaupa við hlið Þorvaldar. Ef hann reynir ekki að þvælast fyrir manni og flækja löppunum í hlaupalappirnar á næsta manni, þá er hann með slíkum búkhljóðum alla leið inn í Nauthólsvík að maður er við það að missa vitið.

Tempóið sumsé gott þegar í upphafi og Flosi, Fróði og Einar urðu fljótlega aftastir ásamt þeim Helmut og Jörundi. Skrýtið bandalag það! Skrifari hefur slegið slöku við hlaupin undanfarið og óttaðist að hann væri farinn að vera slakur, en það voru óþarfa áhyggjur, bara flottur inn í Nauthólsvík og austur Flanir, upp Boggabrekkuna og hafðist það stórvandræðalaust. Yfir hjá RÚV, Fram og yfir á Kringlumýrarbraut. Tíðindalítið niður úr. Farið að dimma.

Nú fékk maður vindinn í bakið og gekk vel að þreyta hlaupið. Farið hjá Hörpu og nýjum veitingastað við Höfnina, þetta fer bara batnandi. Nýr tapas-staður hjá Slippnum, verður gaman að fara þangað á næsta sumri. Áfram upp Ægisgötuna og var skrifari þá farinn að þreytast eilítið og fór að ganga. En ekki var við slíkt unandi og upp tekið hlaup af nýju. Góðu hlaupi lokið á meðaltempóinu 5:30.

Í Potti var rætt um nýja tapas-staði og ákváðu sumir hlauparar að prófa þá um kvöldið. Ennfremur rætt um virkjanir og álver og pólutík á Norðurlandi. Er farið var upp úr Laug komu þeir þrír kumpánar og langfarar tilbaka nær dauða en lífi af þreytu og vosbúð. Höfðu hlaupið tæpa 22 km, þ.m.t. um hlaðið á Kleppi án teljandi eftirmála. Síðastur kom maðurinn hennar Vilborgar og kvaðst ekki hafa stytt. Sumir tóku hann trúanlega.

Næst er hlaupið hefðbundið á föstudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband