Haustmaraþon og aðrir viðburðir

Skrifari missti af hlaupi gærdagsins vegna mikilvægra embættisstarfa í kansellíinu, en ákvað að fara langt á laugardegi. Mætti um tíuleytið í Laug Vora, enda á hann ekkert erindi með þeim sem hlaupa kl. 9:30, auk þess sem ætla mátti að sumir hverjir myndu spreyta sig á hlaupabrautinni í Haustmaraþoni. Stefnan sett á strípaðan 69 án útúrdúra eða lenginga. Drykkjarbeltið með í för. Lagt upp á rólegum nótum, skrifari í góðum gír.

Framundan mér á hlaupabrautinni birtist skyndilega ástsæll Foringi Vor til Lífstíðar ásamt eiginkonu sinni, frú Helgu Jónsdóttur frá Melum. Voru þau á hefðbundnum laugardagstúr sínum. Ég dró þau uppi og bauð góðan dag. Var mér vel fagnað og áttum við frændur gott spjall alla leið inn að Kirkjugarði, þar sem leiðir skildu. Í millitíðinni höfðum við mætt fjölda hlaupara í Haustmaraþoni, þ. á m. Guðmundi Löve, Sigga Ingvars og Ragnari. Hlaupasamtökin gerðu það gott í hlaupinu, Guðmundur í fjórða sæti í karlaflokki, og þeir hinir tveir þar þétt á eftir, allir á fínum tímum. Magga vann sinn aldursflokk í kvennaflokki í hálfu. Á persónulegu nótunum var Þorvaldur bróðir minn í fyrsta sæti í sínum aldursflokki í heilu á 3:59, maður kominn á sjötugsaldur!

Ég beygði niður fyrir Kirkjugarð og þaðan yfir brú og inn í Fossvog. Það var fjöldi annarra hlaupara á ferðinni utan þeirra sem voru í maraþoninu. Fór yfir í hólmann í Elliðaánum og svo tilbaka aftur og setti stefnuna á Miklubraut. Gekk brekkur. Átti góðan sprett frá brúnni yfir Miklubraut og að Laugarneskirkju og aftur á Sæbraut að Hörpu, um Hafnarsvæðið, en gekk upp Ægisgötuna. Kom á góðu dóli til Laugar og teygði vel að hlaupi loknu. Gott hlaup að baki og greinilegt að skrifari er enn í fínu formi eftir sumarið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband