Sama, gamla sagan - aðeins þeir hörðustu

Það gustaði eitthvað af austan og rigndi, en nægði til þess að fæla frá heilan her af sólskinshlaupurum, t.d. blómasalann sem var með miklar yfirlýsingar sl. mánudag um að fara 69Plús. Þessi mætt: próf. Fróði, Flosi, Magnús, Þorvaldur, Ólafur skrifari, dr. Jóhanna, Dagný, Ragnar og René. Alhörðustu naglarnir. Verið var að koma upp græjum til tónlistarflutnings. Maggi fór að kynna sér málið, en kom svo tilbaka og sagði að þetta væri dönsk hljómsveit. "Er þetta Nýdönsk?" spurði skrifari. "Nei, Gammeldansk." Magnús á það til að vera spaugsamur.

Ýmsar vegalengdir í boði, einhverjir ætluðu í Powerade-hlaup morgundagsins og stefndu því á stutt. Ágúst eyðimerkurfari vildi hins vegar fara langt því að hann er að fara í langt í apríl á næsta ári. Lagt upp orðalaust og var skrifari í sama góða skikkinu og á mánudaginn eð var. Fínt tempó innúr en vindurinn allhvass og það er leiðinlegt að hlaupa í slíku veðri. Blés fullmikið til þess að hægt væri að tala saman, auk þess sem Þorvaldur var alltaf að flækjast fyrir manni og reyna að fella mann.

René og Ragnar fremstir, en aðrir á eftir, við Maggi aftastir. Hann sagði mér frá konu sem kannaðist við mig, en mundi ekki eftir því hvað hún hét, lítil hjálp í því. Svo var komið í Nauthólsvík og þá datt vindurinn niður. Við fórum Hlíðarfót og vorum fjögur: Maggi, Þorvaldur, Dagný (nýkomin úr Óslóarmaraþoni á 4:16) og skrifari. Dóluðum þetta með góðri samvizku, en gáfum þó í á Hringbraut og fórum allgreitt tilbaka.

Tónlistarflutningur í gangi í Móttökusal er komið var á Plan. Farið í Pott. Fljótlega sást til blómasala sem reyndi að skjótast milli potta óséður enda óhlaupinn. Hann kom þó í Pott og upplýsti að auk blómasalanafnsins gegndi hann nöfnunum Nenni nízki og Silli. Upplýsandi. Fínt að hafa skellt sér í hlaup, gvuð má vita að ég var ekki að nenna því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á föstud. 14. hlupu enn harðari naglar m.a. blómasalinn í verra veðri.

Jörundur (IP-tala skráð) 14.10.2011 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband