Goshlaup

Ekki man ég að segja frá því hvað Bjössi sagði við blómasalann þar sem við hlupum upp á Víðimel, en allt fjallaði það um kolvetni, en kokkurinn er búinn að snarminnka inntöku kolvetnis og er búinn að léttast um 5 kg. Maður hefði haldið að blómasalinn hefði áhuga á þessum næringarfræðifyrirlestri. En þegar hann er búinn að horfa tómeygur á Bjössa fara með pistilinn segir hann:"Ég sá 2 kg páskaegg frá Góu á Akureyri um helgina."

Ekki voru mjög margir mættir til hlaups og saknaði maður manna eins og prófessors Fróða, Þorvaldar, S. Ingvarssonar, Jörundar, Flosa og fleiri. Þó var bót í máli að dr. Friðrik var mættur og prúðmenni eins og Magnús Júlíus og Bjarni Benz. Þá heyrir til tíðenda að Biggi var mættur eftir langa fjarveru. Svo voru nokkrir til viðbótar.

Hópur dagsins skiptist nokkurn veginn í tvennt, Parísarfara og hina sem heima sitja. Það voru sprettir og það var rólegt. Farið hefðbundið út á Suðurgötu og í Skerjafjörðinn. Þar kom Biggi með yfirlýsingar um Svíþjóð sem ég sá ástæðu til þess að gera athugasemdir við. Þær þurfti að kalla með krafti í gegnum einhvern óskilgreinanlegan hávaða sem Benzinn framkallaði af annarlegri þörf fyrir að gera Bigga gramt í geði.

Sprettir stöldruðu við Skítastöð, en við hin héldum áfram og fórum Hlíðarfót. Ritari var með eindæmum þungur á sér og með tak í vinstra læri að auki, svo maður gerði engar rósir í dag. En enn dapurlegra ástand var á blómasala sem átti að fara 100 km í síðustu viku, en fór eingöngu 20. Hann fékk fyrirmæli um að fara Aumingja í dag til þess að starta sér að nýju.

Þetta var létt og löðurmannlegt hlaup í dag, en ágætur undirbúningur fyrir hlaup vikunnar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vil minna ritara á, að hann hefir ekki sést í viku t.d. ekki á sunnudaginn. Var hann máske með bruxelisharðspennur. Ég hljóp 12. km. fyrr í dag .

Jörundur (IP-tala skráð) 22.3.2010 kl. 21:46

2 identicon

Kannski fer maður að verða ónákvæmur í frásögnum, jafnvel illkvittinn, til þess að fá viðbrögð frá fólki á þessu bloggi. Hér eftir mun ég gera í því að láta undir höfuð leggjast að minnast á hlaupara, sem þó mæta og gera góða hluti.

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband