Lifað á háskalegum tímum

Þar sem ritari kom á hjólfáki sínum hjá áttstrendu blokkunum hans Guðna mætti hann kunnuglegum bíl, bláum Landcruiser jeppa, bílstjórinn með símann límdan við andlitið á sér og brosið náði frá eyra til eyra. Hér var verið að gera góðan díl. Ég hafði allan vara á þar sem ég vissi ekki hverju ég mætti búast við af tíktúrum. Slapp þó með skrekkinn í þetta skiptið og gat komið hjóli mínu ósködduðu í hjólastand við Laug. Hitti prófessor Fróða og átti við hann orðaskipti. Dreif mig út í klefa til fataskipta. Í Brottfararsal stóðu þeir og spjölluðu saman Rúnar, blómasalinn og Bjössi kokkur. Svo dreif fólkið að, Möggu, Dagnýju, Benedikt, Benzinn, Friðrik, Flosa, Jörund, Kalla og einhverja fleiri. Það var losarabragur á öllu, þjálfarar gáfu út fyrirmæli um hlaup og lögðu í hann, en enginn með þeim. Þeir urðu að snúa við og sækja mannskapinn, eitthvað farið að fenna yfir minninguna um hver það er sem stjórnar.

Jæja, það var Víðimelur og Dæla. Blómasalinn fór 30 km á laugardag og í tvær ferminarveizlur á eftir. Við vorum nokkur sem ræddum saman um þær hættur sem framundan eru og helgast af því að nú eru bæði fermingarveizlur í fullum gangi og páskar framundan, sem sagt brauðtertur og páskaegg. Hvernig fer þetta? Töldu menn líklegt að hringt væri í fermingarbörn í Vestbyen og eftirfarandi díalóg færi fram: "Halló?" "Já, sæll og blessaður, góði minn. Þetta er hann Einar frændi þinn." "Ha, hver?" "Einar Þór, frændi þinn, manstu ekki eftir mér?" "Nei." "Jú, við erum fimmmenningar og ég var að frétta að það væri ferming framundan hjá þér..."

Farið rólega út að Skítastöð, síðan stilltu Parísarfarar sér upp til spretta, aðrir máttu ráða hvað þeir gerðu. Hér er greinilega komin stéttskipting á í röðum Hlaupasamtakanna og þeim skipað í yztu myrkur sem ekki leggja metnað í að hlaupa maraþon á miðjum vetri. Jæja, þau strituðu eitthvað þarna á stígunum, en við hinir fórum sem leið lá vestur á Nes, ritari fór alla leið út á Lindarbraut, Ágúst fór fyrir golfvöll, Benzinn og Kalli í Skjólin, Flosi og Jörundur á Eiðistorg, aðrir eitthvað skemmra. Það var fínt að hlaupa á Nesinu, alls ekki kalt og í raun ekkert mikill vindur.  Þetta var í reynd bara hressandi og gekk vel, þrátt fyrir að þessi hlaupari hafi ekki hlaupið í viku. Kom sæll og glaður til Laugar og heyrði á mæli Parísarfara þar sem þeir plottuðu um að eta saman hádegisverð á morgun á leyndum stað, bara ekki bjúgu, sagði einhver.

Er nú að geta þess hvað framundan er. Á miðvikudag verður Jörundur okkar 69 ára og verður af því tilefni hlaupið 69 honum til heiðurs. Á föstudag verður Magnús Júlíus sextugur, en þá er Föstudagurinn langi og allt lokað. Hefur Formaður Vor til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víkingur lagt til að hlaupið verði á laugardagsmorgun kl. 10:10 frá Laug til heiðurs Magnúsi. Er þeim möguleika komið á framfæri við hlutaðeigandi, en jafnframt minnt á langt hlaup frá Árbæjarlaug, samskokk hlaupahópa. Spurning hvort menn vilji halda upp á Fyrsta föstudag þarna upp úr hádegi á laugardag með brönsi. Pæling.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband