"Hverju reiddist Villi?"

Hefðbundinn miðvikudagur í Lýðveldinu. Mættir til hlaups í Brottfararsal: Gísli Ragnarsson, Maggi, Helmut, dr. Jóhanna, Tobba (Þorbjörg), Flosi, Magga, dr. Friðrik, Ragnar, Gummi, Frikki Meló og sjálfsagt einhverjir fleiri sem ég gleymi. Þetta er annað samfellda hlaupið hans Gísla með hópnum í nokkur ár og boðar gott. Hann var eðlilega forvitinn um það sem á daga okkar hefur drifið síðan síðast. Meðal þess sem vakti mesta furðu hans var brotthvarf hans Vilhjálms okkar Bjarnasonar úr hópnum og urðum við að uppfæra hann í smáatriðum um þá miklu dramatík. "Hverju reiddist Villi?" spurði Gísli, "þetta ljúfmenni." Svo var það útlistað með nákvæmri sagnfræði og sannleiksást, nafngreindum persónum og staðsetningum í tíma og rúmi. Hann dró mjög í efa söguskýringar viðstaddra og taldi víst að allt væri það fyrirsláttur. Við vorum eðlilega slegin yfir þessum byltingarkenndu hugmyndum, en urðum að játa að hugsanlega hefði hann eitthvað til síns máls.

Þegar þvagan var komin á hreyfingu fann skrifari eins og grjóthnullunga veltast um í belgnum á sér. Mundi hann þá eftir því að hafa borðað kjötsúpu í hádeginu og fengið sér tvisvar á diskinn. Þetta var greinilega ekki heppilegur undirbúningur fyrir hlaup því að þyngslin voru agaleg og maður mjakaðist varla úr stað. Hér var einbeittur hlaupari fallinn í Blómasalasyndrómið, að kunna sér ekki hóf, þekkja ekki mál síns maga o.s.frv. Þannig að þetta varð heldur styttra hlaup en fyrirséð var, hafði hugsað mér að fara Þriggjabrúa, en endaði með því að fara Hlíðarfót með Gísla.

Það var allt í lagi, við Gísli höfðum margt að ræða og tókum m.a.s. nokkur stopp til þess að lengja hlaupatímann. Ekki verður látið uppi hvað okkur fór á milli, enda tveggja manna trúnaðarhjal. Skal hér sannað að fólki er óhætt að treysta skrifara fyrir hugrenningum sínum og vangaveltum um annað fólk.

Pottur þéttur, góður og vel mannaður. Minnt á Fyrsta Föstudag hvers mánaðar næsta föstudag (og prófessor Fróði fjarri góðu gamni!), Fimmvörðuháls á laugardag. Reykjafellshlaup 16. september.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband