"Hvar er þessi helvítis kór...?"

Brunahringing á laugardagseftirmiðdegi að afloknu hálfu maraþoni þegar skrifari stendur í stórræðum við að undirbúa hið vinsæla, árlega chili con carne. Hinum megin á línunni er mikilsmetinn Álitsgjafi Lýðveldisins og vindur sér umyrðalaust í fyrirspurn dagsins: "Hvar er þessi helvítis kór hans Bjarna?" "Kór?" segir skrifari forviða. "Er hann ekki í e-m kór í Mosfellssveit?" "Hættu þessum hortugheitum og aulafyndni, ég er að spyrja um götu, ekki kór!" æpir Álitsgjafinn á móti. "Kór er gata í Kópavogi." Hér fór að renna upp ljós fyrir skrifara og hann minntist þess að hafa hlaupið um efri byggðir Kópavogs þar sem eru kórar. "Heitir það ekki Tröllakór?" skýtur hann á, úr því það er Benzinn, þetta hálftröll af ætt Hrafnistumanna. "Jú, örugglega" segir viðmælandinn og leggur á.

Tilefnið var sextugsafmæli téðs Benz, sem hann bauð einungis VB til, en engum af vinum sínum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Ekki það valdi varanlegum eða djúpum sárum, sjálfsagt hafa bara mætt elliær gamalmenni og gamlar frænkur í þetta kaffiboð.

Hvað um það, Hlaupasamtök Lýðveldisins halda úti hlaupum frá Laug hvern föstudag kl. 16:30. Að þessu sinni var mættur fámennur en harðskeyttur hópur. Þar mátti sjá Benzinn, Þorvald, Ágúst, skrifara, Denna skransala, René og Guðrúnu Harðardóttur. Ekki var beðið eftir eftirlegukindum, en haldið af stað stundvíslega kl. 16:30 eins og ævinlega er gert.

Skrifari fór fyrir hópnum og ákvað að setja upp hratt tempó. Ekki var liðið langt á hlaup þegar prófessorinn fór að kvarta yfir tempóinu, hann hefði ætlað að hlaupa rólegt félagshlaup og ætti erfitt með þetta tempó svona meiddur í fótnum. Skrifari bauð upp á að hægja ferðina ef fram á það yrði farið. Þá mælti prófessorinn og vorum við komin út að Skítastöð: "Eigum við ekki að lækka í honum rostunginn?" Mælir svo klassísk ummæli er lúta að fagurri fjallasýn, en féll að því búnu aftur í lið með þeim er á eftir fóru, skrifari hélt forystu sinni með reistan makka.

Það var góð tilfinning að þenja sig á kaflanum út í Nauthólsvík, og heyra prófessorinn kvarta yfir tempóinu og að það hefði áhrif á meiðsli í fótnum. Hann var orðinn þreyttur er hér var komið og ákvað því að lengja til þess að hvíla sig. Við hin, Þorvaldur, skrifari og Guðrún, ákváðum að fara hefðbundið um Hi-Lux og upp brekku. Er hér var komið skipti ekki máli að vera að spenna sig því að aðrir hlauparar voru langt að baki og maður í góðum félagsskap. Áfram um Veðurstofu, Saung- og skák og Klambratún.

Það var farið um Hlemm, Þorvaldur kaus Laugaveginn, en við Guðrún spreyttum okkur á Sæbraut, Hörpu, Höfn og Ægisgötu. Lukum hlaupi með glans. Tókum eftir kampavínslitri jeppabifreið við Melabúð með plötunni R-158, lagt þannig að ekki fór á milli mála að hér fór Vesturbæjaraðall. Fremur kalt til þess að teygja á Plani við Laug, svo við fórum inn og teygðum. Frábært, hratt hlaup.

Pottur sögulegur. Þangað mætti fjöldi óhlaupinna hlaupara og var hver öðrum uppkjöftugri og uppástöndugsamari. Mátti þar bera kennzl á Flosa, Bjössa kokk, Jörund og Bigga. Töluðu þeir einna mest af viðstöddum, höfðu skoðun á öllum hlutum, frá ríkisstjórn til Vesturbæjarstórveldisins í knattspyrnu. Það var spunninn mikill vefur um innsetningu sem fyrirhuguð er í Reykjavíkurhöfn á sunnudagsmorgun, þar sem Ósk og Hjálmar munu njóta fulltingis Bigga og Bjössa við sjóbað og einhver verður blóðgaður og í framhaldinu munu menn synda yfir að Hörpu þar sem hnísa étur annan hvorn þeirra fóstbræðra, og hinn syndir upp fossinn við Hörpu og hrópar: "Rafael!" Á meðan kúra verkamenn í glerhólfum Hörpu og horfa vonleysislega út um marglitt glerið. Þetta er listræn uppákoma sem enginn má missa af.

Einnig rætt um afhendingu pókals á mánudaginn er kemur. Mikilvægt að menn fjölmenni kl. 17:15, þá munu allir nema einn fyrrverandi og núverandi handhafar Guðmundarbikars mæta til hátíðarathafnar og myndatöku. Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband