Klósettpappír fyrr og nú

Skrifari bar ekki gæfu til að hlaupa föstudagshlaup með félögum sínum vegna eymsla í hné, en lét ekki undir höfuð leggjast að mæta til baða í Laug að loknu hlaupi. Þessir vóru: Flosi, próf. Fróði, Benz, Þorvaldur og Ó. Gunnarsson. 

Þegar skrifari hafði tekið sinn útmældan skammt af skömmum og formælingum í Útiklefa hélt hann til Potts. Þangað komu framangreindir, þó ekki Ólafur hinn. Nú hófst spakleg umræða. Prófessorinn kvartaði yfir eymslum í nára og voru menn allir af vilja gjörðir að leiðbeina honum um hvernig mætti ráða bót á því. Rætt var um íbúfen, Voltaren, og jafnvel erótískt nudd - og leist prófessornum harla vel á hið síðastnefnda. Þó hafði hann áhyggjur af því hvaða líkamspartar nytu góðs af slíkri meðferð og viðraði efasemdir um að meðferðin næði tilætluðum árangri ef ekki yrði vel á haldið.

Næst þessu barst talið að þjóðflokki þeim í BNA sem kallaður er amish-fólkið. Flosi hafði fengið á disk sinn kjöt frá Kaufmann Yoder sem var lífrænt og án hormóna. Hér varð prófessorinn dreymandi á svip og fór að velta fyrir sér salernismálum ytra, þar er hvorki vatn né rafmagn - en hvað gera þeir í klósettmálum, spurði prófessorinn. Mönnum þótti sennilegast að kamrar væru í boði. En klósettpappír? Rifjaði þá skrifari upp umræðu föstudagshlaups fyrir allnokkrum árum sem hófst á klósettpappír og endaði á klósettpappír. Meðal þeirra sem tóku til máls þá var Þorvaldur Gunnlaugsson og upplýsti um gæði klósettpappírs í Englandi á sjöunda áratugnum. Skrifari vissi að segja frá klósettpappír í Ungverjalandi 1980.

Standardinn á umræðunni í þessum löngu liðna hlaupi var langt fyrir neðan sygekassegrænsen og kvartaði skrifari við Jörund yfir þessu er komið var í Pott. Þá bætti Jörundur um betur og sagði frá klósettpappírnum í Hollandi sem er svo þunnur að puttinn fer í gegnum hann...

Um þetta var rætt í Potti og margt fleira. Hinn vísindalega og fræðilega þenkjandi prófessor sá tækifæri og fleti á umræðuefninu. Hann taldi víst að mætti sækja um styrk til Evrópusambandsins til þess að leiða mannfræðilega og félagsfræðilega rannsókn á notkun klósettpappírs. Tilgátan myndi snúast um fjölda blaða sem menn nota og yrði stuðst við breyturnar kyn, aldur, þjóðerni, trúarbrögð, kynhneigð, menntun og starf til þess að leiða í ljós mismunandi fjölda blaða sem fólk kýs að nota að lokinni klósettferð.

Hér voru sagðar nokkrar klósettsögur, misfagrar.  Einkennilegt hvað málefnið hefur tilhneigingu til þess að kveikja í fólki. 

Einhverjir viðstaddir töldu sig hafa verið svikna um Fyrsta Föstudag, sem þó var haldinn hátíðlegur sl. föstudag. Þessu kvabbi var ekki sinnt. Halda menn að hægt sé að seinka Ramadan um heila viku ef þurfa þykir? Á að fara að taka upp siði Castros sem seinkaði jólunum fram í marz út af sykuruppskerunni? Erum við e-r marxistar og trúleysingjar? Ja, kona spyr sig.

Skrifari sendir félögum sínum kveðjur gvuðs og sínar á Gleðidögum mannréttindabaráttunnar.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband