Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Sól og sjór á miðvikudegi

Mæting allgóð til hlaups á miðvikudegi eftir sögufrægt Jónsmessuhlaup þar sem félagar Samtakanna settu hvert persónulegt metið á fætur öðru. Mættir voru Þorvaldur, dr. Friðrik, Friðrik kaupmaður, Magnús Júlíus, Einar blómasali, Ólafur ritari, Jörundur, Margrét þjálfari, Kári, Kalli kokkur, Eiríkur og Benni, og nokkrir í viðbót sem ég man ekki hverjir voru, jú, Rúnar þjálfari, en aðeins til ráðgjafar, ekki til hlaups. Jörundur var með áróður fyrir Vesturgötunni 2009. Einar blómasali heimtaði prógramm fyrir Reykjavíkurmaraþon, ekki væri seinna vænna. Rúnar lofaði að koma með prógramm sem hentaði feitlögnum heimilisfeðrum í Vesturbænum.

Það var ekki vit í öðru en taka því rólega í dag, hlaupnir færu Hlíðarfót, aðrir máttu sosum fara Suðurhlíðar eða Þriggjabrúahlaup. Kvittur um sjóbað á Plani. Lagt í hann. Farið afar hægt út. Allir rólegir. Blómasalinn játaði að hafa fengið sér tvo bita af KFC, franskar, lítra af kóki og tvö stór hrís. Eftir hlaup hafði hann á orði að þetta væri ekki heppileg undirstaða.

Það var hlaupið á rólegu stími austur Sólrúnarbraut. Mættum hjólreiðamanneskju á hlaupastígnum, og bentum viðkomandi á að heill hjólastígur væri aðeins ofar í túninu. Áfram stíginn - Friðrik nefndi veizlu þá sem haldin verður að Útey n.k. laugardag í framhaldi af Bláskógaskokki, þá verður tekið á móti félögum með soðnu rúgbrauði úr flæðarmálinu við Laugarvatn og ofan á heitreyktur eða taðreyktur silungur sem er svo dæmalaus að hann bráðnar á tungu manns. Margrét vildi fá kæfu með hverabrauðinu. Kári vildi fá að gista, en það var að sögn Friðriks ekki inni í myndinni.

Eiríkur og Benni samir við sig, skildu okkur eftir. Ég og Þorvaldur vorum  þar á eftir. Blómasalinn og þeir hinir þar á eftir. Er komið var í Nauthólsvík var dregið úr ferðinni og stefnt á sjó. Ritari beið eftir dr. Friðrik, Kalla, blómasala og Kára, allir fóru þeir niður að sjó, farið af pjötlum og í sjó, þ.e. ritari, dr. Friðrik, dr. Karl og blómasali upp að hnjám, en hann þjáist enn af ótta við kulda. Kári var á rólinu kringum okkur en fór ekki í sjó. Að baði loknu áttum við spjall við slökkviliðsmenn sem staddir voru á ströndinni.

Eftir sjóbað var ákveðið að fara um Hlíðarfót - að vísu með mótmælum ritara. En dr. Friðrik lýsti því yfir í vitna viðurvist að fólki sem hefði tekið þátt í átakahlaupi kvöldinu áður væri ekki hollt að hlaupa lengra. Svo að við fórum fetið. Á leiðinni spruttu upp áhugaverðar bókmenntafræðilegar umræður um kynhneigðir í fornsögum, einkum Njálu. E.t.v. var það nándin við Öskjuhlíðina sem kveikti rómantíkina í hugum hlaupara, einhverjir fundu hjá sér þörf fyrir að rifja upp Hi-Lux. Í ljós kom að til voru fleiri en ein útgáfa af gömlu Hi-Lux-flökkusögninni.

Hægt stím tilbaka. Teygt á Plani, fólk tíndist tilbaka á nokkurn veginn sama tíma. Nema Jörundur, sem fór 15 km og var nokkru seinni en við hin. Blómasalinn sleppti potti því að hann var með 10 manns í mat. Framundan er ýmislegt: hlaup föstudagsmorgin kl. 6:25, sömuleiðis seinnipartinn 16:30. Bláskógaskokk laugardaginn. Veizla að Útey að hlaupi loknu hjá Frikka og Rúnu. Engin gisting NB, ef einhver gerði sér grillur! Ritari mun hlaupa á Agureyri um helgina. Í gvuðs friði.

27.06.2009 - Brákarhlaupið

Landnámssetrið í Borgarnesi efnir til hlaups með þrautum á hlaupaleiðinni sem kallað verður Brákarhlaup.

Tímasetning
Hlaupið fer fram 27. júní 2009 og hefst kl. 11.00.

Hlaupaleið
Hlaupið er eftir Borgarnesi endirlöngu. Frá Sandvík og út í Brákarey. Vegalengd um 2.000 m. Á leiðinni verða hlaupar að leysa ýmsar þrautir.

Nánar um sögu hlaupsins:
Þegar Vesturbæjarhópurinn var að hefja göngu sína undir forystu Ingólfs Arnarsonar fór frægasta hlaup Íslandssögunnar fram í Borgarnesi þegar Skallagrímur Kveldúlfsson elti ambáttina Þorgerði Brák niður í Brákarey þar sem hún fleygði sér til sunds. Karlinn greip bjarg mikið og fleygði á eftir henni og tókst að hitta hana. Nú er ætlunin að endurtaka leikinn, allt nema steinakastið.

PS
Frétzt hefur að Gísli Ragnarsson rektor muni mæta í hlaupið og skella sér í sjóinn líkt og kerling forðum. Félagar Hlaupasamtakanna eru hvattir til að taka þátt.


Miðnæturhlaup á Jónsmessu í Laugardalnum

Metþátttaka var í Miðnæturhlaupi að þessu sinni, svo mikil raunar að loka varð fyrir skráningu er leið á kvöldið og urðu einhverjir frá að hverfa án þess að hafa erindi sem erfiði. Þarna mátti sjá marga félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Fyrstan og fremstan meðal jafningja að virðingu og góðmennsku skal nefna Ó. Þorsteinsson Víking ásamt sinni ágætu frú, Helgu Jónsdóttur frá Melum. Einnig mátti þekkja Þjóðskáld Samtakanna, Þ. Eldjárn, Flosa, Friðrik, Helmut, Rúnu, dr. Jóhönnu, Einar blómasala, Benedikt, Eirík, Bigga, Tinnu, Dagnýju, Sif, Sigurð Ingvarsson og Ólaf ritara. Þá var og Tumi á ferð, mikið hlaupaefni. Margrét þjálfari og Rúnar. Líklega hefur verið á annað þúsund hlaupara á ferð í kvöld.

Andkalt og einhver vindur á vestan, en hiti um 10 stig. Góður hugur í fólki án þess þó að fyrir lægju ákveðin markmið, víða heyrðist talað um að menn ætluðu bara að fara rólega og njóta hlaupsins. Blómasalinn fékk sér kjúklingasúpu í kvöldmat og viðbúið að það myndi gutla talsvert í belgnum á honum á leiðinni. Ritari gerði sér vonir um að ljúka hlaupi á innan við 50 mínútum, sem væri persónulegt met. Leikin diskótónlist á plani og upphitun fyrir þá sem það vildu. Aðrir búnir að spretta úr spori í Dalnum.

Svo reið skotið af, mikill troðningur í upphafi og þvagan þrengdi sér áfram, gangandi til að byrja með. Að þessu sinni var boðið upp á tímatöku með flögu, og af því tilefni þótti við hæfi að rifja upp sögu úr Reykjavíkurmaraþoni, þegar ónefndur maður spurði: "Hvaða helvítis flögu?" Svo það var allt í lagi þótt troðningur væri einhver, svo fór þetta að grisjast og loks komst maður á einhvern hraða.

Þegar ritari kom upp á Laugarásveg losnaði reim af skúm hans og hann varð að stoppa til þess að reima og var dágóða stund að hnýta skóþvengi titrandi fingrum. Hefur líklega misst 30 sek. úr hlaupi. Við það missti hann af félagsskap blómasala og Helmuts, sem varð örlagaríkt því að tiplið í blómasalanum hefur ótrúlega uppbyggileg, sálræn áhrif á hlaupara. Svo var bara að halda áfram og vonast til þess að ná félögunum.

Til þess kom þó ekki, en ég sá kunnuglega baksvipi nokkurra, valinkunnra félaga er leið á hlaupið. Engin leið var að átta sig á tímanum eftir fimm kílómetra, en mér fannst tempóið allgott. Svo tók við annar hringurinn og tilfinningin bara góð. Smásaman jók ég hraðann, en lenti í því að fá byrjunareinkenni krampa á lokasprettinum og varð því að hægja á mér. Það skipti engum sköpum, því að ég náði að vera undir 50 mín. - þ.e.a.s. ef klukkan sýndi réttan tíma! Almennt voru félagar ánægðir með sinn tíma, Tumi undir 40 mínútum, Biggi á 43, Jóhanna 44 og þannig fram eftir götum.

Farið í pott - sem var troðinn, og spýttust menn upp úr þegar nýir bættust við. Sögð sagan af Bandaríkjamanninum sem átti afmæli (og nógan pening), gúglaði "hlaup og Ísland" og fékk upp nafnið Ágúst Kvaran. Síðan prófaði hann (að sögn) "rugludallur og Ísland" og fékk sömu niðurstöðu, eða það sögðu menn í potti. Hvað veit ég? Þessi Ameríkani var víst í hlaupi kvöldsins, og verður að telja hann með Hlaupasamtökunum þar eð hann hafði hlotið þjálfun í föstudagshlaupi sl. föstudag. Verðlaunaafhending á eftir, en erfitt var að fylgjast með hverjir unnu því hljóð barst ekki vel þarna á sundlaugarbakkanum.

Menn yfirgáfu Dalinn sælir í sinni eftir enn eitt velheppnað hlaupið. En hvað verður á morgun? Hlíðarfótur með sjóbaði, eða Eiríksjökull?


Nokkuð um liðið, þ.e. langt frá síðasta hlaupi

Það var mánudagur, fjöldi hlaupara mættur samkvæmt hefð í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar. Fyrst ber að geta Sirrýjar sem rak augun í ritara þar sem hann sat út við glugga og virtist ekki fyllilega í lagi. Ástæðan var sú að Þorvaldur Gunnlaugsson var búinn að breiða úr sér við borðið við gluggann þar sem jafnan er setið, með einhverjar absúrd teygjuæfingar og hleypti engum til sætis. Það flugu einhverjar glósur af þessu tilefni, en engin illindi uppstóðu. Síðan bættust fleiri hlauparar í hópinn og verður enginn nefndur öðrum fremur, nema sérstakt tilefni gefist til slíks.

Þegar í upphafi kom fram að allmargir hlauparar stefna á Jónsmessuhlaup á morgun og því var hlaupið tvískipt, einhverjir ætluðu stutt og rólegt, aðrir vildu taka aðeins meira á því. Ennfremur var upplýst að Einar blómasali hefði misst sig í áti í hádeginu. Að honum voru réttir tveir Hlöllabátar með kjöti og meðlæti - "og hvað átti ég að gera? Segja Nei?" Það urðu tveir Hlöllabátar og þungur blómasali varð niðurstaðan.

Hlaupið af stað og farið rólega. Einhver var í óhreinum hlaupafatnaði og angaði illa. Einhverra hluta vegna endaði ritari með blómasala sem fór hægt sökum þyngsla. Það endaði með þremur meginhópum, hraðförum sem kunna sér ekki hóf, okkur blómasala, og svo einhverjum á eftir okkur.

Þetta varð nokkuð hefðbundið, en beðið um stopp í Nautholsvík. Farið um Hlíðarfót og hjá Gvuðsmönnum, áfram rólega tilbaka. Teygt á plani. Farið í pott. Sögustund, Biggi með ádíens. Vakti mismikla lukku.

Sannleikurinn leiddur í ljós

Viðbót við frásögn gærdagsins: þetta var verra en það virtist. Blómasalinn mætti fimm mínútum eftir ákveðinn brottfarartíma. Búið var að læsa bíl ritara og helztu hlauparar farnir af stað í hlaupið. Blómasalinn skildi dótið sitt eftir í bíl sínum, þorði ekki að skilja draslið eftir hjá bíl ritara, treysti ekki að eiginkona ritara myndi skilja að þarna væru verðmæti á ferð sem bæri að flytja í Mosfellssveitina. Blómasalinn hljóp af stað, lenti í sömu brjáluðu rigningu og aðrir, sneri við í Skerjafirði, hljóp að nýju til Laugar og ók bíl sínum sem leið lá inn að Víkingsvelli. Eftir það var sagan að mestu eins og hún var sögð í gær.

En þá að hlaupi dagsins. Björn með fyrirlestur um mannauðsfræði í útiklefa. Menn voru stirðir eftir afrek gærdagsins. Það aftraði ekki þjálfurum frá að leggja drög að hlaupi með sprettum, ég sá Rúnar setja tölur á blað, 3:30, ekki leist mér á það. Magga hló að áhyggjum ritara yfir þessum áætlunum. Fjöldi hlaupara mættur, nýjar stúlkur bætast við í hvert skipti. Jörundur stórhlaupari mættur, Helmut líka.

Lagt í hann í ágætu veðri - en fljótt áttuðum við okkur á því að það var kalt og blés. Hlaupið upp á Víðimel og þaðan út á Suðurgötu, svo út í Skerjafjörð á ágætu tempói. Það var stoppað við Skítastöð og lögð á ráðin um spretti. Ég, blómasalinn, Kalli og ung stúlka sem mig vantar nafnið á hlupu tilbaka án þess að bíða eftir leiðbeiningum. Það var farið rólega yfir og spjallað um viðburði gærdagsins.

Þegar upp var staðið vorum við nokkrir sem töldum Eymingja vera nóg. Aðrir fóru á Nes og tóku spretti, einhverjir hlupu út á Lindarbraut og lentu í roki á heimleiðinni. Hittum Magnús þar sem hann reyndi að laumast óséður í hlaup, löngu á eftir öðrum. Gómuðum hann og heimtuðum skýringar. Hann hafði verið í Byko að kaupa það sem ekki fæst.

Næstkomandi miðvikudag er 17. júní og lokað í SundLaug Vorri. Engu að síður stendur vilji þjálfara til þess að hitta okkur þar á hefðbundnum helgartíma, 10:10. Klofningshópur útúr Samtökum Vorum mun hittast við Laugardalslaug á sama tíma og eiga hlaup um Dalinn og e.t.v. víðar. Í gvuðs friði. 

Reykjafellshlaup 2009

Sunnudaginn 14. júní var þreytt Reykjafellshlaup að sumri samkvæmt hefð Samtakanna. Þá er hlaupið sem leið liggur frá Vesturbæjarlaug og endað við Varmárlaug. Safnast var saman við Vesturbæjarlaug og voru þessi mætt: Ágúst, Eiríkur, Rúnar, Benedikt, ritari, Helmut, dr. Jóhanna, Rúna, Friðrik og Þorvaldur. Mikill hugur var í fólki vegna hlaupsins og létt stemmning. Voru þó sumir nýbúnir að hlaupa Álafosshlaup (Jóhanna og Helmut) og Benedikt hafði hlaupið Sjötindahlaup í Mosfellssveitinni deginum áður. Og Eiríkur og Rúnar búnir að skottast eitthvað um bæinn í gær. Veður gott, sól öðru hverju, en dró líka fyrir. Ekki kalt.

Varla erum við komin af stað niður á Ægisíðu þegar gerir úrhellisregn, kalt og andstyggilegt. Við hugsum: hvað er Gísli að bralla núna? Líst ekki beinlínis vel á þetta, ef það á að rigna næstu tvo tímana. En svo styttir upp skömmu síðar og við förum lofsamlegum orðum um Gísla. Bregður þá svo við að ekki einasta hefst nýtt úrhelli, heldur fylgir haglél í kaupbæti. Þá var okkur eiginlega alveg lokið. Sem betur fer stóð þetta stutt og eftir það var veður gott alla leið.

Við fórum óskaplega hægt. Einhverjum hafði sýnst blómasalinn koma til hlaups á síðustu stundu, en við þessir helztu hlauparar skeyttum engu um það. Menn skulu mæta á réttum tíma. Einhverjir aumingjagóðir ætluðu þó að verða eftir og fylgja hlauparanum áleiðis í hlaupið. Af þeirri ástæðu vorum við nokkur fremst sem dóluðum okkur þetta án þess að vera að hugsa um hraða, við litum meira á þetta sem félagslega athöfn og það væri keppikefli að halda hópinn og eiga skemmtilegar samræður. Vissum sem var að líklega myndu þeir hinir ná okkur fyrr en síðar - "ja", sagði Friðrik, hugsi, "nema kannski Einar greyið". Enda fór það svo að hlaup hans varð sögulegt og svo flókið að enn hefur ekki tekist að greiða úr flækjunni.

Það var stöðvað víða á leiðinni. Við tókum myndastopp við Víkingsheimili þar sem smellt var af í gríð og erg. Svo náðu þeir hraðafantar okkur og haldið áfram yfir í Grafarvoginn. Þá var hraðinn settur upp. Þá skildu leiðir. Fremstir Friðrik, Eiríkur, Rúnar, Benedikt og Ágúst, ritari og Þorvaldur þar á eftir, hin þrjú fóru sér hægt einhvers staðar fyrir aftan okkur. Stöðvað við listaverkin í Grafarvogi og beðið þess að þau hin næðu okkur. Svo var orðið of langt um liðið og við héldum áfram.

Það var haldið af stað af nýju og fór fljótlega að draga sundur með mönnum. Víða var hafflötur spegilsléttur, svo fagur raunar á að líta að ritari stóðst ekki freistinguna, fór úr skóm og sokkum og óð út í svala ölduna sér til kælingar og andlegrar uppbyggingar. Hugsaði sem svo að næst þyrfti að byggja gott sjóbað inn í Reykjafellshlaup, það er óhjákvæmilegt. Ekki að láta hraðann vera í fyrirrúmi, heldur hið félagslega aspekt, náttúrufegurð, ilm gróðurs og sjó.  

Það var villugjarnt þar efra og farnir krókar og keldur, er komið var í Mosó villtumst við Þorvaldur inn í bæ og fórum lengri leið að laug þeirra Mosvellinga. Þar voru mættir Jörundur, Bjarni og Einar blómasali, og ýmsir fjölskyldumeðlimir aðrir. Hóf nú Einar að segja langa sögu af hlaupi sínu, sem var einhvern veginn þannig að hann hefði mætt á tilsettum tíma, hafið hlaup en hætt við sökum rigningar, snúið við til Laugar, ekið sem leið lá inn að Víkingsvelli. Þar hefði hann slegist í för með Jörundi sem fór á undan hópnum og var á undan okkur alla leið. Þeir hefðu hlaupið upp að Varmárlaug og komið fyrstir, en alltaf óttast að einhver úr hópnum færi fram úr þeim. Þangað komnir hefðu þeir síðan ekið aftur niður að Víkingsvelli til þess að sækja dótið í bíl blómasalans, sem hann treysti ekki ritara til þess að aka að Varmárlaug! Hver gæti flækt eitt einfalt hlaup með þessum hætti annar en blómasalinn?

Eftir heit og köld böð við Varmá var ekið að Reykjafelli, sveitasetri og vin þeirra Helmuts og Jóhönnu, og þar snædd indælis lasagna með salati og brauði og gnægð drykkja. Birgir og Kári mættir (óhlaupnir) og Biggi frumsamdi og -flutti lag á rússnesku tileinkað dr. Jóhönnu og Helmut. Makar bættust í hópinn, Vilborg, Þorbjörg, Ólöf o.fl. Kökur og kaffi á eftir. Frábær eftirmiðdagsstund sem vonandi er búin að vinna sér fastan sess í starfi Hlaupasamtakanna.

Framtíðin björt

Fáir hlauparar mættir á föstudegi, nánar tiltekið próf. Fróði, Kári, Flosi, Bjössi, Benni, ritari og Magnús Júlíus. Eftir því var tekið að engin kona hljóp með okkur í dag. Rætt um Nes og sjó - mótmæli á Plani og óskað eftir hefðbundnu. Það er líka sjór í Nauthólsvík sagði einhver. Stelpur á Plani að reykja vindlinga. Bjössi sagði: "Stelpur, takið þið oní ykkur?" "Já," sögðu þær. Þetta kveikti einhverjar hugrenningar hjá einhverjum - enda menn afgamlir sem hlaupa með hópnum.

Farið af stað á hefðbundnu hægu tempói. Við mættum Aldursforseta hlaupara á Íslandi, Jóni hlaupara, sem tók feiknarsprett á Ægisíðu er hann sá okkur. "Flottur!" sagði einhver, Magnús hló við fót. Áður en langt um leið vorum við komnir á hratt tempó og héldum því út í Nauthólsvík. Þar var sveigt niður á ramp og farið af pjötlum. Fjórir hlauparar fóru að fullu í sjóinn: Björn, Flosi, Ágúst og ritari. Benni fór að takmörkuðu leyti í sjó, upp á læri eftir því sem gleggstu menn rak minni til. Svo var bara haldið áfram.

Það var beygt uppí Öskjuhlíð og tekinn sprettur upp brekkuna góðu. Svo áfram hefðbundið. Þrátt fyrir að þarna væru á ferð hlauparar með ójafna getu í hlaupum héldum við hópinn nokkurn veginn alla leið. Næsti sprettur var tekinn á Klambratúni. Þaðan út á Sæbraut, sprettur frá Sólfari. Þegar komið var að Ægisgötu ákváðu ofurhlauparar að halda áfram út í Ánanaust og þaðan um Grandaveg tilbaka í Laug. Vegalengd 12,7 km - meðaltempó nálægt 5 mín.

Í potti var Einar blómasali, kvaðst hafa mætt kl. 16:45 til hlaups og farið ótilgreinda vegalengd. Engar ábyggilegar mælingar voru til þess að staðfesta frásögn hlauparans og verður hann því enn að falla fórnarlamb óvissunnar. Í potti urðu gáfulegar umræður um stöðu mála og framtíð lands og þjóðar. Eftir ítarlega greiningu var niðurstaðan sú að staðan væri bara allgóð og framtíðin björt. Gengu menn úr potti með sól í sinni.

Á sunnudag fer fram hefðbundið Reykjafellshlaup, og er hlaupið frá SundLaug Vorri kl. 9:30. 22 km - vel mætt!

Ýmislegt í gangi

Hátt í tuttugu hlauparar mættir á Brottfararplan á miðvikudegi, þar á meðal dr. Friðrik, Magnús Júlíus og Helmut. Báðir þjálfarar. Menn bara opnir fyrir ýmsum útfærslum, þjálfarar spurðu að fyrra bragði hvort einhverjir ætluðu í sjóinn! Ja, öðruvísi mér áður brá. Möguleikarnir ýmislegir í stöðunni: Þriggjabrúa, Elliðaár, eða jafnvel einhver afbrigði. Lagt í hann. Ritari mátti sitja undir því á leiðinni að hafa tjáð áhyggjur sínar af heilsufari blómasala í seinasta hlaupi. Hann þrætti fyrir og heimtaði leiðréttingu, en sá er um fjallaði neitaði að draga þessar dylgjur tilbaka og hélt óhróðrinum statt og stöðugt fram.

Ritari var meðmæltur sjó. Undirtektir góðar. Farið á rólegu tempói inn í Nauthólsvík. Er þangað var komið fóru þessir í sjóinn: Helmut, ritari, blómasali og Kári. Svamlað á grunnsævi. Dr. Jóhanna fór upp að hnjám. Þetta var yndislegt. Að þessu loknu var haldið austur Flanir þar sem lúpínan blómstrar um þessar mundir. Svo upp í Hlíðina áður en komið var í kirkjugarð. Hlaupið um skógarstíga sem þessi hlaupari hefur aldrei farið um áður. Aftur niður í Nauthólsvík og svo stytztu leið tilbaka.

Fólk mættist á Plani mjög á sama tíma og var teygt vel og lengi. Ekki var farið lengra en Þrjárbrýr í hlaupi dagsins. Drög lögð að næstu hlaupum, einhverjir ætla 6:25 í fyrramálið, aðrir ætla í Álafosshlaupið á föstudag, enn aðrir munu hlaupa á Nes á föstudag og fara í sjó í hefðbundnu föstudagshlaupi.  Kári átti góðar rispur í potti.

Glóðarsteiktur skógarköttur

Mánudagurinn 8. júní rann upp bjartur og fagur og fullur fyrirheita. Það var hlaupið kl. 17:30 frá Vesturbæjarlaug. Ekki man ég hverjir voru mættir, en man þó að blómasalinn var ekki mættur, svo mikið er víst! Sprettir 1 mín., 2 mín., 4 mín. út frá Skítastöð og inn í brekku handan Kringlumýrarbrautar, þrjú sett, mín. á milli, 2 milli setta. Tekið á því. Erfitt en ánægjulegt. Fólk almennt að komast í fantaform.

Fram fóru umræður í potti um Fyrsta Föstudag hinn 5. júní er fram fór með miklum ágætum að Kára og Önnu Birnu. Grillað kjöt af einhverju tagi sem vildi kvikna í. Dr. Jóhönnu ofbauð brunamennskan svo hún þreif dulu og ætlaði að kæfa bálið með henni. Í ljós kom að "dulan" var köttur sem svarar nafninu Kismundur og er heimilisfastur á því sama heimili heiðurshjóna. Góðir menn gengu milli, en doktorinn grunaður um óvild í garð saklausra málleysingja.

Minningarhlaup Guðmundar Karls Gíslasonar þreytt þriðjudaginn 9. júní - myndir af hlaupi er að finna í myndaalbúmi bloggsíðunnar.

Í gvuðs friði. Ritari.

PS - verður hlaupið? Verður sjór?


Það var hlaupið - það var fámennt

Mættir til hlaups á annan í hvítasunnu Ólafur ritari og Einar blómasali. Veður ákjósanlegt til hlaupa og gerast sunnudasgmorgnar ekki fegurri (var að vísu mánudagur, en okkur fannst vera sunnudagur). Fórum hefðbundið og ræddum allt það helzta sem er á döfinni í þjóðmálum þessi missirin. Hlaup gekk vel, enda báðir hlauparar í ágætu formi.

Hlaupasamtökin áttu fjóra hlaupara í Mývatnsmaraþoni í gær: Pawel að fara sitt fyrsta maraþon, maður nýbyrjaður að hlaupa, og lauk með sóma. Friðrik, Rúna og Stefán Ingi í hálfu, Frikki fimmti maður í sínum flokki.

Við Einar sórum þess heit í miðju hlaupi í dag að hætta að drekka bjór, að mestu! Við höfum þá eindregnu löngun að léttast og verða grannir menn. Sem er vandamál þegar kemur að Fyrsta Föstudegi n.k. föstudag. Þá er engin Laug - enginn samastaður, hvað er hægt að gera?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband