Bloggfærslur mánaðarins, október 2019

Óviðjafnanlegur dagur

Heiðskírt, logn, þriggja stiga frost. Þrír heiðursmenn mættir í sunnudagshlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Magnús tannlæknir, Einar blómasali og skrifari. Ó. Þorsteinsson staddur í Stokkhólmi í menningarreisu. Vart þarf að orðlengja hvílíkt lífsfjör og þakklæti bærðist með okkur vinunum yfir að fá að þreyta hlaup á slíkum degi. Allir sprækir og kátir og hlökkuðu til hlaups. 

Ekki er seinna vænna að huga að jólaboði Samtaka Vorra, sem halda mætti annað hvort 7. eða 14. desember nk. Verður rætt við Jörund um að hýsa viðburðinn með góðfúslegu leyfi frú Önnu Vigdísar. Skynsamlegt þykir að hafa húsmóðurina viðstadda ef vera kynni að hinum fjóru eitursnjöllu sósumökurum dytti í hug að endurtaka leikinn frá því um árið þegar þeir stóðu yfir pottunum smjattandi og kjamsandi á sósu sem var ekki nema í meðallagi lukkuð. Meira um það seinna.

Við þreyttum rólegt hlaup glaðir í bragði yfir að hafa drifið okkur út og hlökkuðum til hlaupsins, harla vel þó gerandi okkur grein fyrir að því lyki fyrr en seinna. Því var um að gera að njóta dagsins. Okkur varð hugsað til sumra félaga okkar sem við hefðum viljað hafa með okkur á slíku hlaupi og er því enn og aftur vakin athygli á því að hlaupið er alla sunnudaga kl. 9:15 frá Laug.

Áður en við áttuðum okkur á vorum við komnir inn í Nauthólsvík og þar var gengið venju samkvæmt. Í Kirkjugarði voru gerð afbrigði, farið um grafeit fallinna hermanna af erlendum uppruna og þeim vottuð virðing. Hefðbundið um Hlíðar og Klambra. Rætt um barnabörnin sem sum eru svo vel af Guði gerð að þau geta sagt línuívilnun í eignarfalli með greini áður en þau eru orðin tveggja ára, altént ef afinn er prófessor. Hér færðist tannlæknirinn allur í aukana og taldi sig sérfróðan um Línuívilnanir.

Farið hjá Hörpu og upp Ægisgötu í einum spreng. Við Kristskirkju taka hlauparar ofan og signa sig.

Pottur lokaður og fátt kunnuglegra andlita á sveimi. Því var gerður stuttur stanz og haldið til daglegra verka. Segir fátt af umræðum þann daginn, en Formaður bað fyrir kveðju Guðs og sína í Pott.

 

 


Nítjándualdarmenn

Sagt hefur verið um Ólaf Þorsteinsson, frænda minn og vin, að hann sé nítjándualdarmaður. Sannaðist það í hlaupi dagsins. Og kem ég að því síðar, eins og Jónas frá Hriflu sagði þegar hann hafði talað í þrjá klukkutíma á flokksfundi í Framsóknarflokknum og tveir menn þegar verið bornir út í yfirliði.

Við vorum sem sagt mættir þrír í sunnudagshlaup í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus og skrifari. 11 stiga hiti, logn, uppstytta meðan á hlaupi stóð.

Haldið var upp á hundrað ára afmæli stærðfræðideildar Reykjavíkur Lærða Skóla í gær og þar var formaður vor mættur. Þegar menn vildu henda honum út vegna þess að hann væri máladeildarmaður benti hann á að Máladeild skólans hefði verið stofnuð í Skálholti árið 1056. Við það setti menn hljóða. 

Magnús sagði okkur fallega sögu. Honum var boðið á söngskemmtun í Salnum í Kópavogi á föstudagskvöldið sem haldin var til að heiðra íslenskar dægurlagasöngkonur. Þar komu fram og sungu Svanhildur Jakobsdóttir, Helena Eyjólfsdóttir og Mjöll Hólm. “Og Ellý Vilhjálms?” bætti Ólafur Þorsteinsson við. “Ólafur minn, Ellý Vilhjálms er fallin frá.” “Nú,er Ellý Vilhjálms fallin frá?”, sagði hann forviða. Það styttist í að þeir Magnús leiðist saman upp stíginn segjandi “Hvers son var hann aftur hann Vilhjálmur Bjarnason sem hljóp einu sinni með okkur?” 

Hlaupið var tíðindalítið og áreynslulítið, og fórum við 11,5 km án þess varla að taka eftir því. Í Potti minntumst við ágætrar konu og félaga sem fallin er frá, Dóru Guðjohnsen. Hún mætti gjarnan í Sunnudagspott og tók þátt í spjallinu og kom oft með skemmtilegar ábendingar. Við minnumst hennar með hlýju og þakklæti og góð orð í okkar garð, en hún sagðist alltaf hafa lært eitthvað nýtt í spjalli okkar og vera betri manneskja á eftir. 

Í Pott komu Guðni, Erla, Margrét, Jörundur og svo sat Sigurþór KR-ingur á spjalli við okkur. Rætt um Reynistaðabræður, litaval á fatnaði, skólamál, kvennaknattspyrnu og brottrekstur úr skólum.

Nú verður tekið á því í hlaupum vikunnar sem hafin er!


Búksorgir og barlómur

Við héldum að það hefði verið samþykkt að hafa skrúfað fyrir Útvarp Sögu á hlaupadögum. Lokað frá hádegi, ha, Bjarni? Nei nei, nú var það Einar blómasali sem hafði þennan umdeilda fréttamiðil opinn og lét afrakstur hlustunar dynja á hlaupurum í hlaupi dagsins. Mættir: Flosi, Bjarni, Benzlingur, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Einar Dalakútur mættur í Brottfararsal. Veður ekki alslæmt, en ekki beinlínis stuttbuxnaveður, og því voru þeir á stuttbuxum, Einar og Bjarni. Blés á austan, svalt en þurrt. 

Það var þrædd leiðin um garðana í 107, Kvisthagi, Tómasarhagi og Lynghagi og svo út á Suðurgötu. Flosi fór sér hægt í endurkomu og týndist fljótlega, en þeir hinir voru að ræða málin: fall fyrirtækja, hópuppsagnir, Gamma, lífeyrissjóði, fjárfesta, prósentur. Skrifara var ekki skemmt en lét sig hafa það. En þegar var komið að Skítastöð og það átti að fara að tala um Braggann í Nauthólsvík og afflytja hann Hjálmar okkar þá var mér nóg boðið. Ég gaf í og skildi þá eftir í reykjarmekki og sá þá ekki meir fyrr en að hlaupi loknu. Farinn Hlíðarfótur í einum samfelldum þéttingi og ekki linnt fyrr en við Vesturbæjarlaug. 

Ég hugsaði þeim þegjandi þörfina. Ef menn ætluðu að tala endalaust um fjárhagsmálefni og fábjánaskap eins og að setja peninga í spekúlasjónir Gamma þá geta menn hlaupið með einhverjum öðrum en mér. Ég hleyp til þess að létta af mér áreiti og streitu hversdagsins og til þess að gera mér létt í skapi. En í staðinn var ég sjóðandi illur er komið var tilbaka. Og það þrátt fyrir að taka hratt hlaup og losa mig við þessa kóna. 

Á heimleið hugsaði ég með nostalgíu til hinna gömlu góðu hlaupara sem eitt sinn þreyttu skeiðið með okkur: Ágúst Kvaran, Gísli Ragnars, S. Ingvarsson, Maggi tannlæknir, Kalli Kristins, Frikki Meló, Biggi, Hjálmar, Ósk, Rúna, Helmut, Jóhanna... Það voru alvöru hlauparar. Þeim var gefin hin andlega spektin og ekki rædd vitleysan á hlaupum.

Nei, menn þurfa að skerpa sig ef ekki á illa að fara.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband