Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Fyrirsát

Eftir glæsilegt Reykjafellshlaup sl. föstudag í fallegu haustveðri með tilheyrandi baði í Varmárlaug var gerð mikil veisla að Reykjafelli. Þar buðu Helmut og Jóhanna upp á chili con carne og þáðu fjölmargir boðið auk hlaupara, en þau sem hlupu voru Magga, Biggi, Einar blómasali, Frikki Meló, Flosi, og svo fyrrnefnd Helmut og Jóhanna. Jörundur hjólaði og svo fréttist af S. Ingvarssyni. Ólafur skrifari var trússstjóri. Í boðið að Reykjafelli mættu auk þeirra sem þegar hafa verið nefndir Þorvaldur Gunnlaugsson, Magnús tannlæknir, Ragna, Rúna - og svo dúkkaði þingmaður Lýðveldisins upp, sjálfur V. Bjarnason. Skiljanlega var mikill gleðskapur og leikið af fingrum fram á gítara og mandólín. 

Nú rennur sunnudagur upp bjartur og fagur og til hlaupa mæta Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlæknir, Þorvaldur og Ólafur skrifari. Skrifari lélegur sem fyrr, en þeir hinir kváðust fara rólega. Fyrst var tekin fyrir breyting á húsi G. Löve hlaupara, sem ku hafa valdið e-m nágrönnum hugarangri. Ákveðið að láta úttekt á framkvæmdinni verða fyrsta verk dagsins. Sem við líðum áfram um stíginn fram hjá téðu húsnæði fáum við ekki betur séð en að framkvæmdin sé hin smekklegasta og eigi ekki að þurfa að trufla nokkurn mann. 

Næst gerist það að á vegi okkar verður fyrrnefndur þingmaður, V. Bjarnason, á reiðhjóli í gulum jakka. Kveðjur voru sem fyrr í þekktum skeytum: "Ég hélt þér væruð dauður!" "Ég var að vona að þú værir dauður." Magnús rifjaði upp söguna úr Kirkjugarðinum þar sem þeir ganga níræðir öldungar, hann og Ó. Þorsteinsson. "Hvers son var aftur hann Vilhjálmur Bjarnason, sem hljóp með okkur? Er hann ekki örugglega dauður?" Og annað eftir þessu. Fluttur pistill um flugvélar og afdrif þeirra. Svo var okkur farið að verða kalt og það varð að halda áfram.

Ekki varð tíðinda á leið okkar inn í Nauthólsvík, utan hvað umræðan gekk um forstjórastöðu LSH og um stöðu Landsbankans sem þykir ótrygg. Menn spurðu hvort við værum að rata í sömu ógöngur og fyrr með fjármögnun bankanna okkar. Staldrað við og gengið í Nauthólsvíkinni eins og hefð er fyrir. Sagðar nokkrar fallegar sögur. Svo haldið áfram í Kirkjugarð, Veðurstofu, Hlíðar - og hvað gerist þar? Dúkkar ekki fyrrnefndur þingmaður upp á veginum fyrir framan okkur á sama reiðhjóli og í sama gula jakka og fyrr. Á barndómsgötunni sinni, Grænuhlíð! Ef þetta er ekki fyrirsát þá þekki ég ekki hugtakið.

Jæja, hvað um það. Þarna upphefst mikil uppfræðsla um götuna, húsin, grindverkin - og síðast en ekki síst, íbúana. Villi benti á húsið, hæðina og herbergið þar sem hann  bjó frá fimm ára aldri til 22ja ára aldurs. Hinum megin bjó Hörður Ágústsson og Sigríður sú sem reyndi að berja frönsku inn í hausinn á okkur frændum í Reykjavíkur Lærða Skóla með umdeilanlegum árangri - "og þarna bjó hann Haukur Guðmundsson, afi hennar söngkonu, hérna." Við spurðum hvaða söngkona það sé. "Jú, það er hún þarna dægurlagadrottning." "Sigga Beinteins?" spurði skrifari. "Nei, ekki hún, þetta er hún hérna..." "Emiliana Torrini?" "Nei, ekki hún, þetta var hún þarna í Sykurmolunum..." "Björk?" spurðum við. "Já, Björk Guðmundsdóttir." Það var nú ekki fallega gert af okkur vinum hans V. Bjarnasonar að skella upp úr fyrir framan hann á barnæskugötunni fyrir hádegi á sunnudegi, en við gerðum það nú samt. Líklega hafa hlátrasköllin borist um allt hverfið í morgunkyrrðinni. Okkur þótti kynlegt að Vilhjálmur myndi ekki nafn þekktasta Íslendings samtímans. 

Jæja, áfram haldið og farið hefðbundið um Klambra og Hlemm, niður á Sæbraut. Vestur úr og hefðbundið um Miðbæ, Austurvöll og Túngötu tilbaka til Laugar. Í Potti sat Mímir drjúgur með sig, búinn að ráða nýjan forstjóra fyrir LSH. Svo bættust við dr. Baldur, Helga Jónsdóttir og Stefán og Jörundur auk þess sem Helmut og Jóhanna komu úr Hjartahlaupi. Mörg voru álita- og umræðuefnin og dugði ekki minna en klukkutími til þess að reifa þau.  


Óskiljanlegt

Það er fullkomlega óskiljanlegt að menn skuli frekar vilja liggja áfram undir fiðri en að lyfta höfði frá kodda, íklæðast hlaupafatnaði, reima á sig hlaupaskó og taka létt skeið um stíga í glaðra sveina hópi. Altént var slík gæðastund í boði á þessum morgni þegar þeir Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Jörundur og Ólafur skrifari söfnuðust saman til hlaups frá Vesturbæjarlaug kl.10:10. Veður stillt, milt og ljúft eins og fara gerir á sunnudagsmorgni. Þeir félagar voru kristilega þenkjandi og fullir velvildar, enda betra að hlaupa á stígum úti og hugsa um gvuð en að sitja á kirkjubekk með samviskubit og hugsa um hlaup.

Jörundur að koma tilbaka eftir veikindi sem tóku toll, en hann allur að braggast og bætir við hlaupnar vegalengdir. Svikalævi hékk í lofti og var Magnús eitthvað grunsamlegur, enda ákváðum við frændur og nafnar að fylgjast vel með honum ef til þess kæmi að hann teldi sig eiga erindi á mikilvægan Kirkjuráðsfund í miðju hlaupi. En í ljósi þess að hér voru ekki hröðustu hlauparar Samtaka Vorra á ferð ætti ekki að koma neinum á óvart þótt við legðum upp á afar rólegum nótum. 

Félagar okkar í Brúarhlaupi stóðu sig vel, Magga vann sinn flokk, og þeir S. Ingvarsson og G. Löve voru í þriðja sæti í sínum flokkum, P. Einarsson í fimmta. Svo var hún Rúna okkar líka á ferðinni. Við erum stolt af svo ágætum hlaupurum sem bera hróður Samtaka Vorra alla leið austur í Flóa, sem er heimasveit okkar Flosa.

Í hlaupi dagsins var eðlilega rætt um landsleikinn við Sviss og var það samdóma álit viðstaddra að komin væru tímamót í íslenskri knattspyrnusögu. Íslenska karlalandsliðið er nú komið á þann sálræna stað í tilverunni sem landsliðið í handknattleik var löngu komið: búið að hrista af sér minnimáttarkenndina og heimóttarskapinn gagnvart öðrum löndum/liðum, sýnir andstæðingnum enga virðingu, og gerir einfaldlega það sem á ekki að vera hægt að gera samkvæmt knattspyrnuspekúlöntum. Enda eru myndir úr leiknum sýndar á íþróttarásum um allan heim. Við vorum líka ánægðir með að fá Eið Smára inn á og sjá hvernig hann náði að líma liðið saman, ekki ósvipað þeim góðu mönnum sem límdu klerkinn saman í kvæði Megasar: "En þeir límd´ann saman/og þótti það gaman/klerki fannst gamanið grátt."  

Jæja, þarna höldum við sumsé áfram á rólegu nótunum, og stoppuðum ef tilefni var til. Fáir voru á ferð og því lítið um að þyrfti að stöðva til þess að taka fólk tali. Það var farið í Nauthólsvík og gengið. Ó. Þorsteinsson sagði okkur frá spjalli sínu við efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar: "Jæja, Þráinn minn, ertu byrjaður að reikna?" Svarað var: "Það er ekkert að reikna." Þá furðuðu menn sig á fótabúnaði forsætisráðherra á fundi með Óbama, var virkilega ekki hægt að senda aðstoðarmanninn út í búð til þess að kaupa svolítið rýmri blankskó? Einnig höfðu menn áhyggjur af holdafari mannsins, en feitlagnir menn í hans stöðu eru einkar ótrúverðugir. Og við hlið flottra einstaklinga eins og Obama, Reinfeldt, Stoltenberg og Helle hinnar dönsku, þá er eins og bakarasveinninn hafi óvart sloppið inn í myndatökuna!

Við áfram í Kirkjugarð og upp úr, Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar - þar var gengið. Aldrei féll niður ræðuhald, þegar einu viðfangsefni höfðu verið gerð skil var það næsta tekið fyrir. Það var rætt um málverk og verðlagningu þeirra, sérfræðiþekkingu á málverkum og fleira í þeim dúr. Svo vorum við komnir niður á Sæbraut og dóluðum þetta vestur úr. Ákveðið var að fara áður ófarnar leiðir á hlaupum, um Vesturgötu, Ránargötu, hjá Hlíðarhúsum, Brunnstíg og upp Bræðraborgarstíg. Þar var skoðuð Bræðraborg, hús byggt af tveimur bræðrum úr Grímsnesi árið 1880 og gatan heitir eftir. Svo var staðnæmst við nr. 18, nýmálaða glæsibyggingu skrifara, en þá stakk í augun hve garðurinn var ljótur eftir rask iðnaðarmanna.

Stefnan sett á Laug, Laufey Steingrímsdóttir stöðvuð við gönguljós á Hringbraut og hún innt skýringa á því hvers vegna hún hefði ekki hafið hlaup með Samtökum Vorum.

Pottur mannaður hinu ágætasta fólki: frú Helga Jónsdóttir Flygenring Zoega og Gröndal, Stefán maður hennar, Mímir, dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Margrét Melaskólakennari og svo gamli barnaskólakennarinn óhlaupinn. Eins og ævinlega fór fram ákveðin endurvinnsla á umræðuefnum hlaupsins, leikurinn, efnahagsástandið, málverkin, en svo fór Mímir á nostalgíuflug og það var farið að rifja upp löngu dáið fólk á Laufásveginum.

Næst hlaupið: mánudag kl. 17:30. Vel mætt.  


Jörundur

Jörundur Guðmundsson er einhver ágætasti hlaupari sem hleypur með Hlaupasamtökum Lýðveldisins, landskunnur fyrir þrautseigju og úthald verandi kominn á áttræðisaldurinn. Nýlega lenti hann í veikindum sem slógu hann út af laginu svo að hann var fjarri hlaupum og þátttöku í starfi Samtaka Vorra um nokkurt skeið. En þar sem nokkrir ágætir félagar vóru saman komnir í Brottfararsal Sundlaugar Vorrar í dag kl.16:30, dúkkaði ekki Jörundur Svavar Guðmundsson upp alklæddur til hlaupa. Kvaðst hafa farið 2 km um daginn, og svo 3 km - og ætlaði 4 km í dag. Eðlilega var honum fagnað ákafliga og hétu menn því að veita honum félagsskap alla þá leið sem hann köri að hlaupa. 

Aðrir mættir: Flosi, Einar blómasali, Ólafur heilbrigði, Denni og skrifari. Okkur voru vissulega sett ákveðin mörk þar eð Laug myndi loka kl. 1800 vegna skemmtanahalds starfsmanna. Það lá í augum uppi að aðeins yrði unnt að fara stutt og vera snöggur að því. Rætt var um Nes og Denni mælti með öfugum hring um Nes vegna vindáttar. Við hinir létum það eftir honum ekki það skipti neinu máli þar sem það var eiginlega enginn vindur. Dólað af stað á rólegu nótunum, en þó ekki fyrr en skrifari upplýsti um tilburði Magnúsar Júlíusar fyrr um daginn er hann upphóf afsakanir fyrir því að sleppa hlaupi með litla karlinn gargandi inn í eyrað á sér.

Fórum niður í Skjólin og þaðan vestur úr, við Denni um Sörlaskjólið, en þeir hinir Faxaskjól. Þeir hinir náðu e-u forskoti, sem skipti okkur engu máli, því að við hlaupum fyrir heilsuna, andlega sem líkamlega, ekki fyrir tíma eða vegalengdir. Snúið inn í Lambastaðahverfið og svo út á Austurströnd. Þar var snúið í suður og farin leiðin út á Lindarbraut, hávaðasamræður alla leið eins og vænta mátti þegar Denni átti í hlut.  Við sáum þá hina framundan.

Á Lindarbraut var gengið, enda löng hefð fyrir því að gengið sé upp mishæðótt landslag. En eftir að jafnsléttu var náð var haldið áfram og ekki linnt fyrr en komið var til Laugar. Fórum Keilugrandann og Frostaskjólið hjá KR heimili til Laugar.

Náðug stund í Potti, Kári mætti. Rætt um kvótakerfið og veiðigjald og Kári fór. Í Útiklefa var búið að króa Ingvar E. af og hann beðinn um að gera grein fyrir nýjum kúr, e-r 5:2 kúr, sem gengur út á að menn svelta sig heilu og hálfu vikurnar. Hér gerðust þeir Einar og Kári miklir hreinlífismenn, úttöluðu sig um mikilvægi þess að Vesturlandabúar hreinsuðu líkami sína af eitri því sem menn setja í sig með neyslu ýmiss konar matvöru. Einar var orðinn eins og gvuð í framan og sagði: "Já, ég held að það sé manninum eiginlegt að fasta." Í þeim töluðum orðum varð honum litið á skrifara Hlaupasamtaka Lýðveldisins - og svo sprakk andlitið á honum út í tryllingslegum hlátri sem benti til að fullyrðingin gæti hugsanlega átt við um einhverjar abstrakt persónur - en ekki hann.

Gott hlaup og fagurt, næsta reglulega hlaup er á sunnudag kl. 10:10 - og gangi félögum okkar í Brúarhlaupi allt hið besta í haginn  í vindgnauðinu í Flóa. Í gvuðs friði. Skrifari.  


Hlaupið á fögrum haustdegi

Athygli vakti er komið var í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar í dag hversu margir hlauparar kusu að vera fjarverandi. Nefna má Einar blómasala, Flosa, Helmut, Kalla o.fl. o.fl. Þessir voru hins vegar mættir: dr. Jóhanna, Gummi Löve, Ólafur Gunnarsson, Ólafur skrifari, Maggi, Þorvaldur, Hjálmar og Benzinn. Við Maggi vorum sáttir við Hlíðarfót, en Bjarni heimtaði Þriggjabrúa, upptendraður af e-u töfraefni sem hreinsar iður hans fullkomlega. Svo heyrðist skrafað um Kársnes með 10 km tempói. Það voru okkar fremstu hlauparar sem hér véluðu um og munu stefna á maraþon í haust. 

Veður fallegt, sól, stillt, hiti 10 gráður eða þar um bil. Fórum rólega af stað og við Maggi á eftir þeim hinum. Þau voru fljót að setja góða vegalengd á milli okkar, en okkur félögum var alveg sama, það var fyrir öllu að vera kominn út á stígana og á hreyfingu. Það var heitt á Ægisíðu og spurning hvort þörf væri að fara úr yfirhöfn. Ekki reyndi á það því að er komið var í Nauthólsvík kólnaði þegar okkur mætti norðan andvari. Gengið um stund og málin rædd.

Svo var hlaupið af stað aftur og farið austan við Valsvöll og svo vestur úr á rólegu tölti. Við sáum Benzinn, Ólaf hinn og Þorvald fara Hagamelinn og höfðu greinilega heykst á að fara Þriggjabrúa. Þeir enduðu með því að stytta en komu þó við í Laufási. Að sögn var Benzinn að mestu rólegur, nema þegar rætt var um flugvöllinn. En þá kom það sér vel að Ólafur var eða þóttist vera honum sammála svo að ekki kom til vinslita.

Góður pottur á eftir með þátttöku Helmuts og dr. Einars Gunnars. En blómasalinn var týndur og tröllum sýndur þrátt fyrir yfirlýsingar. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband