Bloggfærslur mánaðarins, maí 2017

Götótt skýla

Jæja, nú voru nokkru fleiri mættir til hlaupa og Hlaupasamtökin óðum að ná vopnum sínum og öðlast fyrri dýrð. Hlauparar voru Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur Gunnlaugsen, Einar the Florist, Bjarni Benz og Magnús tanndráttur og Kirkjuráð. Fátt var sagt af afrekum hlaupara en þegar vansvefta skrifari mætir til Laugar hafandi náð svefni hinna réttlátu bylur á honum bylgja ókvæðisorða og illmælga um leti og ódug, líkt og sjálfur V. Bjarnason væri mættur á staðinn. 

Nú er ekkert meira með það nema að menn sammlast í hefðbundinn Sunnudagspott með þekktum gestum og venjubundnum vísbendingaspurningum. Einhver hafði hitt Baldur Símonarson sem ku vera óvenju Ófyrirleitinn þessa dagana, hortugur og uppástöndugur og var því fagnað í Potti að lífsmark væri með fólki á Skúlagötunni, þótt ekki væri von til þess að eiturbrasarinn í hinu sósíalíska eldhúsi mundi geta lengt lífdaga vors ástsæla vinar með sínum snitsel von schwein oder kalb. 

Nema hvað, kemur ekki Þorvaldur Gaunnlaugsen og er með áberandi gat á sundskýlu sinni aftanverðri. Reglu- og siðgæðisvörður Samtaka vorra benti Þorvaldi á þennan annmarka á dresskódi dagsins, en hann lét sér þetta í léttu rúmi liggja. Rætt var um fréttir síðustu daga af ástalífi manna og kvenna í Vesturbæjarlaug og rann þá upp sá fagri sannleikur fyrir Þorvaldi að hann tefldi mögulega fulldjarft með götóttum fatnaði á viðkvæmasta stað.

Jæja, Formaður upplýsti að næst yrði fagnað Fyrsta Föstudegi 9da júní að heimili hans Kvisthaga fjegur og þá yrði upplýst um hlaupatilhögun sumarsins. Kemur þá ekki í ljós að þrír félagar hafa verið grasekklar að undanförnu: Formaður, skrifari og Jörundur prentari og hafa ekki haft rænu á að slá saman í púkk og slá upp veizlu með víni og villtum meyjum. Jörundur kvartaði yfir að óljóst væri hver myndi gefa honum að borða í fjarveru frú Önnu Vigdísar, í gær hefði Biggi Jógi séð aumur á honum, en í dag yrði hann mögulega að banka upp á hjá blómasalanum og þykjast vanta borvél. 

Framundan: lokað í Vesturbæjarlaug. Sundhöll. Í gvuðs friði. 


Lögð fyrir snúin vísbendingaspurning

Við vorum mættir þrír, Ólafur Þorsteinsson, Bjarni Benz og skrifari. Hefðbundinn sunnudagur, fallegur vordagur, heiðskírt og stefndi í sautján stiga hita. Lögðum upp eftir hefðbundna úttekt á viðburðum vikunnar, þar sem frammistaða V. Bjarnasonar í yfirheyrslu á Olaviusi Olaviusi bar hæst.

Mættum Unni á Ægisíðu og svo manni sem Ó. Þorsteinsson heilsaði innilega. Því kom okkur á óvart þegar Formaðurinn spurði: "Hver var þessi maður?" Það reyndist hins vegar upplegg í afar snúna vísbendingaspurningu sem entist í einar tuttugu mínútur í Potti.

Hlaupið í bongóblíðu með þægilegum hita og hægum andvara sem var svalandi. Aftur sama spursmál hjá þessum hlaupara, verður það Skítastöð, Hlíðarfótur eða full porsjón? Þar eð félagar mínir biðu eftir mér á strategískum stöðum var ekki undan því vikist að taka fulla porsjón með þeim, enda stillti Formaður sér upp þar sem undankomu var auðið, hindraði brotthlaup og benti á leiðina áfram. Venju samkvæmt heilsaði Formaður á báða bóga með enskri kveðju - og aðallega íslenskum barnafjölskyldum.

Kláraði gott hlaup, en var búinn að keyra mig í þrot á Sæbraut. Frikki Meló tók á móti okkur við Melabúð og bauð upp á kaffi.

Pottur góður með völdum manni í hverju rúmi: Jörundur prentari og Jón Jörundur dóttursonur hans, próf.dr. Einar Gunnar, Mímir, Dóra, Stefán og svo við hlauparar. Vísbendingaspurningin snúin, spurt um mann í utanríkisþjónustunni og með fylgdu alls kyns tengingar út og suður. Enginn gat giskað á rétt svar, enda kom í ljós að spurt var um algerlega óþekktan einstakling.

Næst hlaupið á morgun, mánudag, kl 17:30.


Full porsjón

Mættir sem fyrr á sunnudagsmorgni Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Þorvaldur Gunnlaugsson og Ólafur skrifari. Veður milt, en sólarlaust er hlaup hefst að loknum fyrstu bollaleggingum í Brottfararsal. Til umræðu fyrirhuguð sameining Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla, þeirrar merku og öflugu menntastofnunar þeirra Gísla og Helmuts. Einnig merkilegt afmælishóf á Sal Reykjavíkur Lærða Skóla sl. laugardag. 

Lagt upp og bryddaði Þorvaldur upp á þeirri nýbreytni að fara malarstíginn austan við Laug í stað þess að fara eftir gangstétt eins og hefðin býður. Setti að okkur hinum nokkurn ugg við svo afgerandi frávik frá viðtekinni venju. 

Skrifari að fara í annað skiptið í hlaup eftir átta mánaða hvíld og hlustaði því venju fremur eftir hljóðum og merkjasendingum þessa þunga skrokks. Hlaupurum sem koma tilbaka eftir fjarvistir er vel tekið í Hlaupasamtökunum, það er ekki híað og bent á þá eða þeir hafðir að athlægi, háði og spotti. Þeir eru hvattir áfram og studdir góðum orðum. Ekki var farið hratt yfir, heldur staplað áfram í takt við getu skrifara, jafnvel gengið. 

Nú skyldi stefnan sett á Skítastöð og vonir bundnar við að lukkast mætti enn betur en seinast að ljúka góðu hlaupi. Þegar þangað kom blasti hins vegar við að engin sérstök ástæða var til að láta staðar numið þar, enda blasti Nauthólsvíkin við með björtum fyrirheitum í allri sinni dýrð. Þeir hinir voru lítillega á undan skrifara, en þó ekki svo mikið að vandkvæðum væri bundið að draga þá uppi með góðum spretti.

Þegar komið var í Nauthólsvík þurfti að ákveða framhaldið og nefndi skrifari að hann myndi beygja af og fara Hlíðarfót. Formaður tók það ekki í mál og kvað upp úr með það að úr því komið væri í Nauthólsvík lægi beinast við að halda áfram í Kirkjugarð. Svo var gert. Minntist skrifari orða Kirkjuráðsmanns Kristinssonar er hann sagði eitt sinn að það gilti einu þótt haldið yrði í humátt eftir Formanni eftir Nauthólsvík því að hann myndi hvort eð er eyða restinni af hlaupinu í göngu og skraf.

Við fengum skýrslu af ágætu starfi Hollvinasamtaka Menntaskólans í Reykjavík og var m.a. rætt um mönnun stjórnar þeirra merku samtaka. Hlaupið hefðbundið um Kirkjugarð, Veðurstofuhálendið, Klambra og alla leið niður á Sæbraut. Þar var furðu lítið gengið og talað, en tekinn nánast samfelldur sprettur út að Kalkofnsvegi. Gengið og hlaupið um Miðbæ, gengið upp Túngötu en svo skokkað tilbaka til Laugar. Skrifari þreyttur og sveittur eftir gott hlaup, en að sama skapi ánægður með að vera kominn svo fljótt í hlaupagírinn.

Hittum Unni í Móttökusal og lýsti hún mikilli ánægju með afrek dagsins. Í Potti voru próf. dr. emeritus Einar Gunnar, Mímir, Dóra, Þorbjörg og Stefán verkfræðingur. Voru umræður allar upplýsandi og fræðandi með bílnúmerum og persónufræði. Bjart framundan.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband