Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Í Esjuhlíðum

Nokkrir naglar mættir í hlíðar Esju í dag kl. 17:30 til þess að undirbúa Laugaveg. Jörundur, Flosi, Ragnar, ritari, blómasali, dr. Jóhanna, Helmut, Kári(að sögn) og Biggi. Veður bærilegt, 8 stiga hiti og e-r vindur í fjallinu, svolítið kaldara en í N.Y. Safnast saman við ræturnar og beðið eftir Bigga. Hann lætur alltaf bíða eftir sér. Þeir eru óheppnir sem safnast saman í bíl með honum, það er alltaf vesin. Hinir óþreyjufullu héldu þegar af stað í fjallið. Gengið eða skokkað upp. Blómasalinn og Helmut voru sprækir, en sprungu fljótlega og urðu að ganga.

Ritari í sínu fyrsta hlaupi á Esjuna og því rólegur. Fór upp að Vaði, snöri þar við og reyndi að hlaupa þar sem undirlag bauð upp á slíkt. Fylgdi að öðru leyti fordæmi Ferdinands nauts, att njuta av naturen, lukta på blommorna,það var gróðurangan í fjallinu, lúpínan að brjótast fram, "heilsaði sínum hjartansvini/honum Jörundi Guðmundssyni". Aðrir fóru lengra, menn tala ýmist um að fara upp að Steini eða steini og forðast þannig að kallast ósannindamenn.

Þetta var létt í kvöld, farið að Vaði og svo niður. Fór aftur upp einhvern spöl og lauk ca. 60 mín. hlaupi/göngu. Fullt af fólki að hlaupa í fjallinu. Underbart!


Hlaupasamtökin í Miðgarði

Í dag var hlaupið í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á hefðbundnum hlaupatíma, eða nokkurn veginn. Lagt í hann frá W 139th Street (Harlem)og sem leið liggur um 7th Avenue, eða Adam Clayton Powell Blvd., eins og tröðin heitir nú, og niður á 110th Street þar sem Miðgarður (Central Park) opnast hlaupurum úr þessari áttinni. Þessar 29 "blokkir" tók 15 mín. að hlaupa í rólegri upphitun í vígsluhlaupi nýrra Gel Nimbus 13 skúa ($130).

Komið inn í hinn legendaríska Miðgarð þar sem fjöldi hlaupara af öllum stærðum, gerðum, hlaupastíl og hlaupahraða voru á ferð og slóst ritari í för með þeim. Þetta er nú ekki eins sléttlent og mig minnti, fín æfing á fótinn á góðu tempói, skórnir bókstaflega gældu við fæturna á mér. Tók einn hring kringum Jackie Kennedy Reservoir og aftur tilbaka upp á 110da stræti. Þaðan til upphafsstaðar á góðum hraða, lauk líklega 11,5 km á um klukkutíma. Þurfti sára sjaldan að stoppa á rauðum ljósum og var merkilega laus við að vera atyrtur af heimamönnum, sem töldu sér annað þarfara á föstudegi en að fara út að hlaupa. Fyrsta hlaup lofar góðu um framhaldið. Ég ætla að vera duglegur að hlaupa í New York!


Vinaleysið algjört

Við vorum fjórir félagarnir sem mættum til hlaups kl. 10:10 á sunnudagsmorgni, Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur og ritari. Og enn streymdi fólk að sem kom að Vesturbæjarlaug lokaðri og lýsti furðu á þessu ástandi, þeirra á meðal Jón Bjarnason ráðherra. Veður fagurt, sól, en ekki mjög hlýtt. Farið rólega af stað eins og ævinlega á sunnudögum.

Ó. Þorsteinsson sagði okkur andlát ættingja síns og að pöntuð hefði verið minningargrein. Hann snaraði fram grein upp á 4.000 slög með bilum. Dödens avis brást hið versta við og sagði greinina allt of langa og líklega yrði hún ekki birt nema pláss losnaði einhvern tíma seint og um síðir. Þótti frænda þetta sýna hið algjöra vinaleysi sitt, að m.a.s. pantaðri minningargrein væri hafnað. Þetta hlyti að gleðja ónefndan álitsgjafa í Garðabæ.

Upplýst var að Vesturbæjarblaðið hygðist hafa prinsessuviðtal við Formann einhvern næstu daga. Þá gæfist tækifæri til að rifja upp upphafið og þá félaga okkar sem fallnir væru frá langt fyrir aldur fram. Ennfremur að hlaup héldu frá okkur lungnaþembu, gyllinæð og Alzheimer. Hlaup eru líka menningarstarfsemi og Samtök Vor einhver þekktasti menningarklúbbur í bænum, eins og hin fræga afmælisveizla okkar síðasta haust sýnir fram á.

Stoppað inni í Nauthólsvík og lokið við sögu sem hófst allnokkru fyrr. Fjallaði sú saga um heilsufar eldri karlmanna, en sumir viðstaddra eru farnir að brjótast út í hrúðurkörlum í andliti sem læknar ýmist frysta eða brenna og eru merki um elli. Deilt um hvort sólarljós væri skaðlegt þeim sem þjást af þessum kvilla.

Síðan farið þetta hefðbundið um Hálendið og Klambratún. Þorvaldur yfirgaf okkur við Hlemm, fór Laugaveg, meðan við hinir settum stefnuna á Sæbraut. Það var orðið tímabært að fara um planið hjá Hörpu. Þar tókum við eftir verklegum harðviðarbrúm sem vafalaust hafa fallið í kramið hjá prúðbúnum veizlugestum á föstudaginn eð var. Hlupum um hafnarsvæðið og hér kom okkur Vilhjálmur okkar í hug, en langt er síðan hann hefur þreytt með okkur hlaup um höfnina. Gengum um verbúðahverfið sem tekur á sig æ skemmtilegri mynd með verzlunum og veitingastöðum. Tókum einnig eftir nýbyggðu húsi vestan við verbúðirnar.

Farin Ægisgata og sú leið tilbaka. Setið í potti og rifjuð upp sum þeirra málefna sem komu til tals í hlaupi dagsins.


Einsemdin er algjör

Ritari hefur verið á vegum Lýðveldisins á fjarlægum ströndum og stritað í þágu íslenzkrar alþýðu. Þar fyrir utan voru meiðsli sem skutu upp kollinum í kjölfar hlaups 2. maí þegar ritari var teymdur á 5 mín. tempói inn í Öskjuhlíð og látinn taka spretti þar og aftur á sama tempói tilbaka. Slíkt er bara áskrift að meiðslum. Sem létu ekki á sér standa. Bólginn ökkli sem varð þess valdandi að ritari hökti um flugvelli Evrópu eins og aumingi.

Nema hvað. Á þessum laugardagsmorgni var að því komið að þreyta rólegt hlaup. Til þess að draga skörp skil milli sín og annarra ákvað ritari að hlaupa kl. 11. Hann hitti fyrir Hjálmar í Útiklefa sem hafði hlaupið á Nes. Frétti þar að ýmsir hefðu hlaupið, ýmist kl. 8:30 og 9:30. Ritari var ekki að nenna þessu, en sá að hjá því yrði ekki komizt að hlaupa. Lagt í hann rólega.

Hann mætti Möggu og Bryndísi á Hofsvallagötu og á Ægisíðu mætti hann dr. Jóhönnu og stuttu fyrir aftan hana var Helga Jónsdóttir frá Melum í Hrútafirði. Þar fyrir utan var fjöldi hlaupara á vegum úti, og allir brunnar í Reykjavík þurrir. Þetta var furðu auðvelt þrátt fyrir langa fjarveru frá hlaupum og ljóst að áhyggjur ónefnds blómasala af ástandi ritara óþarfar. Á móti mætti spyrja: hvar er sá feiti? Hvað er hann að afreka í dag?

Ritari hljóp sem leið lá austur Ægisíðu og alla leið út í Nauthólsvík. Ekkert bar til tíðinda á þeirri leið, og svo var beygt inn á Hlíðarfót. Ekkert bar þar til tíðinda að heldur þar sem ritari var einsamall og fátt sagt. Ekki er því að neita að hér var ritari orðinn áhyggjufullur yfir ástandi þeirra félaga sem ætla Laugaveginn í sumar, einkum blómasalans, sem er veikur fyrir góðum mat og er staddur í sumarbústað í dag.

Tók aukasveiflu á brúnum yfir Miklubraut til þess að lengja og endaði hlaup á góðum spretti. Ánægður með hið líkamlega ástand, nú er bara að halda áfram. Ritari heldur til N.Y. næstkomandi þriðjudag og mun taka sprettina í Central Park þar sem engin fjöll er að finna. Vonast til þess að félagar hans haldi sig við prógrammið og biður ábyrga félaga að passa sérstaklega upp á blómasalann, sem er einn af okkar minnstu bræðrum.

En á morgun er sunnudagshlaup.


Barnakennari í Vesturbænum fyllir sjötta áratuginn

Á þessum hlaupadegi, fyrsta mánudegi í maímánuði, fyllir Flosi Kristjánsson sjötta áratuginn og er þarafleiðandi kominn á sjötugsaldur. Í Útiklefa var hann sagður ekki degi eldri en 49 ára. Þar voru mættir, auk ritara, Björn Nagli og Helmut. En þaraðauki voru mætt í Brottfararsal: dr. Friðrik, Magnús, próf. Fróði, Karl Gústaf, Magga þjálfari, Ósk, Haraldur, Ragnar, Pétur Einarsson, dr. Jóhanna og Friðrik kaupmaður. Svo kom Kári á Plan, en var á reiðhjóli og með hjálm og hafði einhver miður falleg orð um slíkt fólk. Hann reyndi að selja Kalla hjólið á staðnum, en ég veit ekki hvort Kalli féll fyrir trikkinu.

Veður fagurt, það hafði hitnað vel yfir daginn, nú var 16 stiga hiti og sól skein í heiði. Þetta var stuttbuxnaveður, enda margir komnir í sumargírið. Ég sá að prófessorinn var enn og aftur með snúruflækju um hálsinn og ég óttaðist að hann færi sér að voða á leiðinni. Magga lagði til að tækjum spretti í Öskjuhlíðinni, ekkert við það að athuga. Farið hratt út, 5 mín. tempó inn í Nauthólsvík og hékk ég í þeim hröðustu alla leið. Einhvers staðar við flugvöll sneri prófessorinn sér við og reyndi að hrækja á mig, en ég vék mér undan. Hann afsakaði sig með því að það væri ekki kurteist að hrækja á kvenfólkið í kringum hann.

Komið í Öskjuhlíðina og dokað við. Magga vildi taka átta 300 m spretti, mér leizt svona og svona á það, en lagði í hann. Ekki búinn að taka spretti á árinu og ekki spenntur fyrir að lenda í meiðslum núna. Fór því rólega og tók aðeins 4 spretti, gat talað Helmut til eftir það og saman fórum við tilbaka þar sem Ósk slóst í för með okkur. Hún keyrði upp hraðann og áður en við vissum af vorum við komin upp í sama brjálæðistempóið og við upphaf hlaups. En þetta gekk ágætlega og við héldum tempóið út, þótt hún færi loks fram úr okkur.

Teygðum á Plani. Þar voru Magnús og dr. Friðrik fyrir og að dreif kvenfólk sem vildi ganga í Hlaupasamtökin. Þeir reyndu sitt bezta til þess að flæma það frá, trúir beztu hefðum Samtakanna frá tímum Guðjóns hortuga. Má teljast merkilegt að enn hlaupi konur með Hlaupasamtökunum þegar slíkir öðlingar annast nýliðunina.

Jörundur mætti í Pott og kvaðst hafa hlaupið fyrr um daginn. Fyrir því er engin vissa. Hann boðaði fjallgöngur þegar í næstu viku til undirbúnings Laugavegi, verður kallað sérstaklega til þeirra viðburða. Þá verður Esja. Í gvuðs friði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband