Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Kunnugleg andlit

Þar kom að því, Hlaupasamtökin farin að líkjast sjálfum sér á föstudegi. Skrifari mættur fyrstur í Útiklefa í 17 stiga hiti. Svo kom próf. Fróði, gamli barnakennarinn, Jörundur, Magnús Júlíus, Ingi, Kári - og hver var ekki mættur í kvennaklefa? Próf. dr. Keldensis, Sigurður Ingvarsson. Menn forvitnuðust um hvað hann væri að gera í kvennaklefanum, en fengu óskýr svör. Svo beið Maggie eftir okkur í Brottfararsal og fljótlega dúkkaði Ó. Gunnarsson upp. Uppi eru áform um hlaup á Snæfellsjökul, á morgun og svo kringum Hafravatn eftir óljósum lýsingum. Aðrir hlauparar halda sig við jörðina. 

Maggi sagði "Ólafur, eigum við ekki bara að fara hægt?". Skrifari samsinnti þessu, en sá ekki reykinn af Magnúsi eftir að hann lagði upp. Sólin skein, stilla var á og útlit var fyrir gott hlaup. Skrifari lenti í þekktri stöðu, milli fremstu hlaupara og þeirra hinna sem hægar fara, óþarfi að tilgreina nöfn, en trúlega geta menn gert sér í hugarlund hverjir voru hvar. Þó kom mönnum í opna skjöldu hversu hægur Ó. Gunnarsson var í dag og var það sérstakt ígrundunarefni fyrir Fróða. 

Það eru þessir fyrstu fjórir kílómetrarnir inn til hennar Jósefínu sem enn eru mesta áskorunin. En skrifari var einbeittur í að meika það. Maggi fimmtíu metrum fyrir framan og leit ekki aftur þrátt fyrir gefin fyrirheit. Það var heitt og lýsið rann. Áður en vitað var af voru hlauparar komnir inn í Nauthólsvík og þaðan var haldið á Flanir, Ristru Flanir, en svo beygt upp til vinstri hjá Allsherjargoðanum.

Þegar komið var í brekkuna í Öskjuhlíðinni sá skrifari, fyrir utan fullt af undarlegum perrum, Magnús Júlíus efst í brekkunni, fimmtíu metrum fyrir framan hann og leit ekki aftur. Og þegar komið var upp fjölgaði í hópi perra, en skrifari hélt áfram. Og er komið var hjá kirkjugarði blasti Magnús Júlíus við í síðasta sinn, eftir það sást hann ekki meira. En skrifari hélt áfram og gafst ekki upp þrátt fyrir kílóin. Það er mikilvægt að halda áfram, gefast ekki upp, láta kílóin brenna upp í lýsisbræðslunni. Hér varð skrifara hugsað til blómasala sem ákvað að fara frekar í Þórsmörk með fjölskyldu sinni en að hlaupa í glaðra sveina hópi og brenna lýsi.  

Þetta var hefðbundinn föstudagur og farið hjá Saung- og skákskólanum í Litluhlíð, um Klambra og niður á Sæbraut. Þar var ekki deigan dropa að hafa í vatnsfontum hreppsnefndarinnar og má það heita hreinn skandall. Til hvers var valinn nýr borgarstjóri sem getur ekki einu sinni séð útivistarfólki fyrir rennandi vatni? Þar sem skrifari er á leið um hafnarsvæði verður á vegi hans hreppsnefndarfulltrúi Hlaupasamtakanna, Hjálmar. Skrifari tók hann tali og lýsti fyrir honum ástandi mála, bæði í Nauthólsvík, þar sem svo lítið vatn drýpur úr vatnsfonti að það er ekki vinnandi vegur að ná upp vatni þar; eða á Sæbraut þar sem ekkert vatn er að hafa. Hjálmar lofaði strax bót og betrun og bauðst til þess að draga með sér embættismenn hreppsins til hlaupa og leyfa þeim að reyna sjálfum að draga upp vatn af veikum bunum.

Jæja, það er farið um hafnarsvæðið og hjá Búllu, nú hefði verið gott að hafa Bjarna með sér sem ávallt sækir vatn í greipar Tomma Búllustjóra. Upp Ægisgötu og hjá Kristskirkju, en engin guðrækileg starfsemi, haldið áfram niður Hossvallagötu og til Laugar. Gott hlaup að baki og mikil brennsla.

Í Pott mættu góðir félagar, prófessor Fróði, gamli barnakennarinn, gamli prentarinn, gamli tölvunördinn, skrifari, og svo kom Pétur baðvörður og Ó. Gunnarsson og menn ræddu af ákefð um bæjaheiti og vísbendingaspurninguna sem undirbúin hefur verið fyrir Formann til Lífstíðar í næsta sunnudagshlaupi.  


Sigurvegari

Skrifara líður eins og sigurvegara. Meira um það seinna. En tildrög þessarar tilfinningar voru þau að upp úr kl. 17 miðvikudaginn 25. júní á því Drottins ári 2014 mættu til hlaups þessir einstaklingar: Flosi, próf. Fróði, dr. Jóhanna, Bjarni Benz, Einar blómasali, Tobba, Magnús Júlíus, Ó. Gunnarsson, Kári og skrifari. Nokkuð er um liðið síðan svo ágætur hópur mætti til skipulegs hlaups á vegum Samtaka Vorra og standa vonir til þess að nú liggi leiðin upp á við (eða þannig). Við karla klæddumst hlaupafatnaði í Útiklefa og var skipst á glensi og gamni. Ég sagði þeim söguna af því þegar Saungvari Lýðveldisins týndi nærhaldi sínu í Útiklefa og spurði: "Strákar! Hafið þið séð nærbuxurnar mínar?" Þegar skrifari bauð honum nærbuxur félaga okkar, Þorvaldar, fussaði hann og sveiaði og sagði að enginn maður með snefil af sjálfsvirðingu gengi í svona nærfatnaði.

Gengið til Brottfararsalar og málin rædd um stund. Á Plani sýndi prófessorinn ýmis skurmsl sem hann hafði hlotið við að detta á Reykjaveginum, brotinn putta og hrufluð hné. Skrifari lýsti yfir sorg sinni yfir að hafa misst af fallinu. Svo var lagt upp í ferð án fyrirheits og enginn vissi hvert skyldi haldið. Þó mátti merkja kvíða á prófessornum um að nú myndi dr. Jóhanna píska hann enn verr í brekkunni upp að Perlu en seinast; þá voru farnar fjórar ferðir ("segi og skrifa: FJÓRAR FERÐIR") frá göngustíg og alla leið upp, og niður aftur. "Nú hljóta það að verða fimm ferðir," sagði prófessorinn áhyggjufullur. En þó vakti það honum gleði að Ó. Gunnarsson yrði tekinn fyrir líka.

Við vorum nokkrir rólegir, Bjarni, Tobba, Einar og skrifari, og ekki langt undan voru Flosi og Maggi. Blómasalinn malaði einhver ósköp alla leiðina, fyrir honum er málbeinið mikilvægasta líffærið í hlaupum, meðan aðrir telja sig hafa meira gagn af fótunum við að mjaka skrokknum áfram veginn. Það verður nú að segjast eins og er að skrifari hafði töluverðar áhyggjur af hlaupi dagsins, búinn að vera latur og slappur og ekki alveg viss um hvernig hlaupið yrði. Því kom það honum glettilega á óvart að ekki einasta hélt hann í við skárri hlaupara Samtakanna eins og Einar og Bjarna, heldur beinlínis dró hann þá áfram og leyfði þeim að hanga í sér alla leið inn í víkina hennar Jósefínu. Áður en þangað kom var hins vegar Frikki kaupmaður búinn að ná okkur og hljóp eins og eldibrandur í áttina til þeirra Fróða og Jóhönnu, vissi ekki greyið hvað beið hans í þeim félagsskap.

Í Nauthólsvík er ákveðin hefð fyrir því að ganga og leyfa lakari hlaupurum að ná sér. Það var og gert nú. Hlíðarfótinn fetuðu saman blómasali, Benz, Tobba, skrifari og Kári. Þetta var bara giska gott, skrifara leið eins og hann flygi áfram, svo léttur var hann í spori. Um þetta leyti uppgötvaði hann að hann væri sigurvegari, yfirvann eigin leti og draugshátt, fór út að hlaupa með góðu fólki og uppskar þessa góðu tilfinningu. Hlaup eru besta geðlyfið!

Til þess að halda upp á sigurinn ákváðum við Benz að lengja um brýr á Miklubraut og tókum útúrdúrinn með stæl. Farið hjá Akademíunni og spáð í hvað fengist fyrir nýju koparniðurföllin á Gamla Garði. Svo var það Suðurgatan og yfir hjá Landsbókasafni og um Melana tilbaka til Laugar. Skrifari kom fyrstur af fjórmenningunum á Plan og var fagnað af Flosa og Magnúsi tannlækni. Teygt og skrafað.

Farið í Pott. Að þessu sinni mætti Magnús í Pott og sátum við lengi og ræddum lífeyrismál og séreignarsparnað út frá útspili Seðlabankans. Einnig var upphugsuð vísbendingarspurning fyrir Ó. Þorsteinsson í næsta sunnudagshlaupi. 

Engar fregnir eru af afdrifum prófessorsins, dr. Jóhönnu og Ó. Gunnarssonar.  

  


Skrifari sætir aðkasti

Jæja, það var þá komið að því að hlaupari hlypi á ný. Hann er búinn að vera latur og raunar var hann ekki að nenna þessu í kvöld heldur. En það var ekki hægt að slá endurkomu á frest lengur. Furðu var honum vel tekið af félögum sem voru þessir: próf. Fróði, Magnús Júlíus, Einar blómasali, Tobba, Ó. Gunnarsson og Bjarni Benz. Svo kom Kaupmaðurinn með miklum slætti og vildi vita hvert skyldi haldið, hann var nýkominn úr vinnu og ekki kominn í gallann enn.

Það var gengið út á Stétt og svo mændu menn á blómasalann og biðu eftir tillögu um hlaupaleið. Það kom fát á karlinn og hann vissi ekki hvað skyldi segja. Að endingu lagði skrifari til öfugan Neshring og var það samþykkt. Menn rifjuðu upp hlaup sl. mánudags, en þá var hlaupið langt, utan hvað Maggi og Benz voru "skynsamir" og beygðu af. Magnús upplýsti að það sama kvöld hefðu þrír þakklátir hlauparar hringt í sig og þakkað sér fyrir að hafa losað þá við Benzinn.

Það var sumsé öfugur Nes. Farið afar rólega af stað. Skrifari þungur og þreyttur og gerði ekki ráð fyrir að fara mjög langt. Það var dröslast með hléum út á Nes og svo niður á Eiðisgranda og þá leið tilbaka um Grandaveg. Minns orðinn frekar sveittur er komið var tilbaka, en það er einmitt kosturinn við þyngdina, þá brennir maður meira.

Gústi kominn tilbaka eftir 12 km hlaup og teygði í Sal. Hann lagði til Fyrsta Föstudag nk. föstudag og hljóta menn að geta orðið við þeirri beiðni.

Við Maggi urðum samferða út og mættum blómasalanum sem kom gangandi tilbaka. Skrifari hreytti hefðbundnum ónotum í hann og setti út á líkamsþyngd hans. Þá gerðist hið óvænta: Magnús og blómasalinn bundust samtökum um að hæðast að skrifara fyrir örlátan vöxt hans og notandi við þá lýsingu margt kjarnyrt og gott úr móðurmálinu.

 Það er þá föstudagur næst - vel mætt! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband