Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Sólskinshlaupari sýnir yfirbót

Jörundur hefur opinberlega játað að vera sólskinshlaupari. Hann er stoltur af því. Hann kveðst ekki hlaupa með harðlífissvip. En þessi sólskinshlaupari mætti þó til hlaups á miðvikudegi þótt ekki væri veður skemmtilegt. Það var ekkert leiðinlegt, bara ekki skemmtilegt. Nokkur fjöldi mættur, þó var um það rætt að próf. Fróði hefur ekki sést að hlaupi lengi. Um þetta var rætt í Brottfararsal þar sem rektor Gísli og ritari sátu lengi vel og ræddu menn og málefni. M.a. var rætt um ágætan árangur hlaupara vorra í haustmaraþoni.

Magga þjálfari vildi sjá Þriggjabrúa með stígandi. Það voru nokkrir bjartir sem tóku forystuna þegar í upphafi. Athygli vakti hve blómasalinn virtist brattur framan af. Ritari hugsaði með sér að þetta gæti varla enst. Dólaði einn sér og fór sér hægt, alltof mikið klæddur. Á endanum drógum við þá Kára og Gísla uppi, sem höfðu lagt af stað á undan okkur. Hver er þá ekki lentur með þessum hægu félögum? Blómasalinn sprunginn og kominn í hæga gírinn. Þetta vissi maður!

Eftir þetta var grúpperingin þessi: Gísli, Jörundur, blómasalinn, ritari og svo Benzinn sem náði okkur við Kringlumýrarbraut. Einhvers staðar var Þorvaldur að snövla í kringum okkur og vorum við rétt búnir að missa hann í kirkjugarðinn, þar sem ungar konur hlupu, en við forðuðum því og drógum hann með okkur fyrir neðan garðinn. Hann var ekki alls kostar sáttur við þá tilhögun.

Farin Suðurhlíð, en menn tóku því afar rólega, gengu jafnvel á köflum. Við Benzinn pískuðum menn áfram, en nenntum svo ekki að bíða og skildum þá hina eftir. Farið upp hjá Perlu og niður Stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Tókum brýrnar á Hringbraut og lengdum. Stóðst á endum að þeir hinir náðu okkur er við komum aftur suður yfir Hringbrautina. Dólað til Laugar. Þannig voru farnir einhverjir 10-11 km á rólegu nótunum. Hinir munu hafa tekið Þriggjabrúa á útopnuðu og komu tilbaka með blóðbragð í munni. Hefðbundið afslappelsi í potti á eftir.

Nú hverfa blómasali og ritari af landi brott og hlaupa næst í næstu viku. Í gvuðs friði.


Nú vitum við hverjir eru Naglar

Ritari sendi út misvísandi tilkynningu á póstlista Samtakanna fyrr um daginn, gefandi í skyn að vegna Kvennafrís myndu tilteknir hlauparar hugsanlega vera of uppteknir af eldamennsku og ómegð til þess að geta mætt í hlaup. Skilaboðin voru auðvitað send út til að prófa karaktér ákveðinna einstaklinga. Blómasalinn féll á prófinu. Hann nýtti sér skilaboðin til þess að skrópa í hlaupi dagsins og taldi sig hafa gilda afsökun. En afsakanir eru engar til og engar teknar gildar á dögum sem þessum: menn sem ekki mæta til hlaups vegna veðurs eru kallaðir einu nafni: SÓLSKINSHLAUPARAR!!! Þannig er það og þannig mun það vera. Veður var sumsé ekki það hagstæðasta til hlaupa, austanalvitlaust með rigningu.

Af þessari ástæðu verða þeir nefndir sem mættu í hlaup dagsins og eru því réttnefndir NAGLAR: Magga, Rúnar (ja, á hjóli..?, OK nagli),Flosi, Karl, Magnús tannlæknir, Bjössi (nema hvað?), Helmut, Georg, Jóhanna, Birgir hlaupari, Rannveig Oddsdóttir, dr. Jóhanna, Frikki Meló. Ekki man ég eftir að hafa séð prófessor Fróða og er hann þó upphafsmaður sólskinshlauparanafnbótarinnar. Ekki var Benzinn eða Kári, einhverjir mestir harðdálkar sem hlaupa með Hlaupasamtökunum.

Ekki að þetta hafi verið merkilegt hlaup. Það var dólað sér út að Dælu gegnum bakgarða í 107 og um Skerjafjörðinn. Þaðan var farið á spretti tilbaka og mátti skilja fyrirmæli þjálfara sem svo að menn mættu hætta við Hofsvallagötu. Fáir létu sér nægja svo stutt hlaup, enda er það í vorum hópi kallað Aumingi. Ég tölti með Helmut vestur að Hagkaupum og svo fórum við um bakgötur tilbaka austur úr til Laugar í nokkrum mótvindi. Einhverjir þraukuðu lengur og fóru alla leið vestur á Lindarbraut, en þaðan um götur milli húsa á Nesi.

Blómasalinn mætti í pott og hafði engar afsakanir fram að færa fyrir fjarvist sinni. Er nú að sjá hvort hann bætir ráð sitt n.k. miðvikudag.


Frá mörgu að segja

Eftir hefðbundið föstudagshlaup sem var heldur fámennt, ritari, Bjössi, Ragnar, Karl G. og Kári, bauð blómasalinn heim til sín í tilefni af því að frú Vilborg hélt til New York. Þar bauð hann upp á flatböku og bjór og var það mál manna að hvort tveggja hefði smakkast með afbrigðum vel.

Á laugardag þreyttu fjöldi félaga okkar haustmaraþon, fimm í heilu og þó nokkrir í hálfu, í afbragðsveðri. Vorum við Biggi mættir á Ægisíðu að hvetja fólk áfram. Til tíðinda heyrir að Magga vann sinn flokk í hálfu, Jóhanna Skúladóttir í öðru sæti í sínum flokki, dr. Jóhanna vann sinn flokk í heilu, S. Ingvarsson vann sinn flokk og Jörundur var í öðru sæti í sínum flokki, gaf eftir fyrsta sætið til Svans. Til hamingju hlauparar, með góðan árangur!

Í dag var svo hlaupinn hefðbundinn sunnudagshringur og voru þessir mættir: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, ritari, Ingi - og René náði okkur í Nauthólsvíkinni. Vitanlega bar fræga mynd enn hæst í umræðuefnum dagsins, en fjölmargir hafa leitað til okkar nafna og frænda í tilefni myndatökunnar, óskað eftir að fá að kynnast okkur og tjá okkur virðingu sína og aðdáun. Fyrir þessu höfum við báðir fundið og virðist enginn endir ætla að verða á þessu fári. Jörundur hafði einhverjar efasemdir um málið, en hann hafði fallið í skuggann af okkur hávaxnari mönnum þennan dag og sjást aðeins fæturnir á myndinni. Það er alltaf við því að búast að öfund spretti upp þegar einhverjir í hópnum geta baðað sig í frægðarljóma og njóta aðdáunar og virðingar hvarvetna. Ekki höfum við heldur farið varhluta af óánægju úr þeim áttum þar sem gjallarhornssýki er viðvarandi vandamál.

Hiti um frostmark en logn og heiðskírt. Fallegt veður til að hlaupa. Farið rólega því að Jörundur hljóp heilt maraþon í gær. Haldið áfram að skipuleggja afmælishátíð Hlaupasamtakanna, en vel gengur að hafa upp á gömlum hlaupurum og trekkja þá til þátttöku. Fljótlega munum við senda út dagskrá og veita lokafrest til skráningar.

Hringurinn sem var farinn var í alla staði hefðbundinn og er varla hægt að segja að nokkuð óvænt hafi komið upp á. Á tröppu Laugar beið okkar enn meiri aðdáun lesenda dagblaða og kæmi ekki á óvart þótt við fyndum fljótlega fyrir fjölgun í hlaupahópnum af þessari ástæðu. Setið í potti í klukkutíma og þar bættust Biggi og Unnur í hópinn, nýbúin að hlaupa eigin hring á sunnudagsmorgni.


Heimsfrægir menn hlaupa um Fossvoginn

Það er napurt þessa dagana. En það hindrar ekki hlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins að koma saman og leggja á ráðin um hlaup. Þannig var það í dag og söfnuðust eftirtaldir í Brottfararsal: Gísli rektor, próf. Fróði, Flosi, Bjarni Benz, Bjössi, Jörundur, Ólafur ritari, Einar blómasali, Magga þjálfari, Albert, Þorbjörg K., Guðrún Bjarnadóttir og Guðmundur bróðir hennar ásamt hundinum Bangsa sem ku vera nefndur í höfuðið á kokkinum, Kári, Birgir hlaupari, Melabúðar-Frikki, Dagný og René. Það voru örugglega einhverjir fleiri sem ég gleymi eða veit ekki nöfnin á. Ef menn verða varir við að ég gleymi einhverjum mega þeir varpa af sér allri feimni og láta ritara vita, það er sjálfsagt mál að bæta nöfnum við. Feimnina geta menn losnað við með sama hætti og Biggi Jógi, hann tók lyf, ég man ekki lengur nafnið á því, en það virkaði. (Það var að vísu placebo, en það virkaði engu að síður.)

Þjálfarinn er með ýmisleg plön og tekur tillit til mismunandi fyrirætlana fólks. Sumir ætla að fara í maraþonhlaup á laugardag, aðrir hálfmaraþon, en svo eru það menn eins og ritari sem stefnir ekki á neitt og vill bara hlaupa til þess að gleyma. Ég vélaði blómasalann með mér í Stokk, veit jafnframt að prófessorinn ætlaði 30 km - aðrir stilltu hlaupagleðinni í hóf, nefndar Suðurhlíðar með trukki. Frikki sagði okkur eftir á að það hefði verið tekið tempó frá Drulludælu út að Kringlumýrarbraut, upp Suðurhlíð hjá Perlu, niður Stokkinn, Flugvallarveg tilbaka út í Nauthólsvík og þaðan á tempói út að Dælu, 7 km, góðan daginn! Við Einar vorum skynsamari. Fórum í Fossvoginn. Satt bezt að segja gerðum við okkur vonir um að einhver húsmóðirin væri að steikja buff tartar, hakkabuff með lauk, sósu, rauðbeðum, eggjarauðu - og að við myndum finna ilminn.

Mættum mýgrút af hlaupurum, sem horfðu forvitnum augum á okkur, því óneitanlega vorum við eilítið þekktari heldur en síðast, hafandi prýtt síður heimsblaðsins alkunna, og heilsuðu okkur margir og vildu greinilega ná að kynnast okkur. Gekk þetta svo langt að er komið var austarlega í Fossvoginn slógust hlauparar í för með okkur, eða við með þeim, og við trekktir upp í sprett, 4:10 í ca. 500 m, en þeir ætluðu lengra. Þetta voru tvær konur og þær tóku vara við því að við værum með derring í hópnum, nýir mennirnir. "Eruð þið KRingar? Eruð þið kannski úr Vesturbænum?" Okkur þóttu spurningarnar lýsa furðulegri vanþekkingu á þessum geðþekku hlaupurum, þessum þekktu andlitum úr Vesturbænum. Um þetta leyti ættu allir hlauparar á Íslandi að þekkja okkur. En við tókum sprettinn með þeim af hjartans lítillæti, slógum af inn við Elliðaár og fórum út í hólmann. Er hér var komið áttuðum við okkur á því að kokkamennska lá niðri í Fossvogi.

Aftur undir Brautina og upp Stokk. Hérna leyfðum við okkur að ganga, enda höfðum við um margt að ræða og gátum ekki haft hlaup of stutt, það varð að fara djúpt í málefnin. Það var farið hjá Réttarholtsskóla og greindir karaktérar í Hlaupasamtökunum. Líðan góð, farið að kólna, en þó vorum við sammála um að hlaupurum er nauðsynlegt að fara á dolluna fyrir hlaup og tæma sig. Einhver ólga gerði vart við sig og hamlaði árangursríku hlaupi. En þetta var allt í lagi, heilt yfir.

Komið tilbaka, engir á Plani, engir í Komusal. Við teygðum lítið en drifum okkur í pott. Þar lágu rektorinn, barnaskólakennarinn, kokkurinn, Benzinn, Jörundur og Friðrik kaupmaður. Þýzkir ferðamenn flæmdir úr potti með klúrheitum og vafasamri hegðun, samanburði á fótum og rasskinnum. Rætt um hlaup helgarinnar sem framundan er. Benzinn á leið til Írlands í óljósum erindgjörðum. Þarna lá maður í heitum pottinum og hugsaði sem svo að hér væri lokið enn einu árangursríku hlaupinu sem myndi lifa með manni um ókomna tíð.

Hvatt er til hlaups n.k. föstudag, kemur Skransalinn?


Kaaaaaaaalt!

Vel mætt í fyrsta kalda hlaup haustsins, hiti fallinn í 5 gráður og farið að blása af norðri. Mættir Ágúst, Gísli, Flosi, dr. Friðrik, dr. Jóhanna, Helmut, Melabúðar-Frikki, Jóhanna, Rakel, Bjössi, Benzinn, ritari, Eiríkur, Hannes, Magga og Rúnar, enn á reiðhjólinu. Það var líf og fjör í Útiklefa eins og venjulega, rætt við dr. Svan um ýmsar venjur Hlaupasamtakanna. Afhentur listi yfir boðsgesti frá Formanni. Einar blómasali mætti, en hugði ekki á hlaup, gerði peningamerki með fingrunum til þess að réttlæta fjarveru.

Á Plani voru lagðar línur um hraðaleik, en fyrst rólega út að Dælu. Farið á 5 mín. tempói þangað. Sumir héldu áfram austur úr, einhverjir fóru Hlíðarfót, Ágúst fór tæpa 20 km. Við hin tókum spretti vestur á Nes, mislanga, en fjári góða, frá 500 upp í 1000 metra, með stuttum hvíldum á milli. Ég hékk í þeim fyrstu tvo sprettina, en dróst svo aftur úr. Haldið á Nes um Skjólin, og ég orðinn einn þar til Rúnar dúkkaði upp á hjólinu og fylgdi mér svo eftir alla leið tilbaka um Lindarbraut og Norðurströnd. Farið á hröðu tempói síðasta spölinn, kringum 5 mín. eða þar um bil.

Teygt lengi í Móttökusal, áform um Mývatnsmaraþon rædd, þurfum að fara að taka ákvörðun og hefja skipulagningu. Áhugi á að leigja rútu og fara með allan hópinn norður. Pottur vel heitur og setið lengi, eða allt þar til Ágúst kom úr sínu langa hlaupi. Nú fer að verða kalt að fara upp úr eftir hlaup og maður dregur það við sig í lengstu lög.


Fæddur með múrskeið í munni...

Er komið var í Útiklefa dró ritari upp pakka með fjórum kókosbollum og tvær dósir af appelsínulímonaði og stillti þessum varningi upp. Mættir: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Einar blómasali, Ingi og Jörundur. Einar varð glaður við er hann sá uppstillinguna og spurði hvort ekki væri hægt að fara stutt í dag. Rætt um sumarhöllina sem er í smíðum í Grímsnesi og ýmislega verkþætti þar, m.a. pípulagnir og múrverk. Menn spurðu hver ynni verkin. "Það geri ég" sagði blómasalinn. "Ertu með réttindi?" var þá spurt. "Ég er fæddur með múrskeið í munni..." sagði þá blómasalinn og vísaði til uppruna síns, Murmejster Breiðdal. Þetta var gott og bar enginn brigður á að Einar væri fullfær um að inna af hendi vel unnið verk.

Hefðbundið hlaup á sunnudagsmorgni í ágætu veðri. Rætt um dagskrá hátíðarafmælis og gestalista. Einhverjir höfðu farið út að hlaupa í gær, meðal þeirra var Ólafur Þorsteinsson. Lýsti hann því hvernig hann hefði fyrir slysni lent með fólki eins og Möggu og Jóhönnu og þær bókstaflega skilið hann eftir í reykmekki. Svo hefði Melabúðar-Frikki mætt á svæðið og hefði sú saga farið á sömu lund, og frændi hlaupið einn eftir það. Rætt um veikindi í hópnum og mikilvægi þess að halda áfram að hlaupa til að halda heilsunni.

Stanzað í Nauthólsvík. Þar er búið að skrúfa fyrir vatnið, eins og raunar er búið að gera á Sæbraut. Þessu þarf að mótmæla, þetta er eini lúxusinn sem við höfum, ókeypis vatn á tveimur stöðum á hlaupaleiðinni og búið að skrúfa fyrir á báðum stöðum. Hringjum í hlutaðeigandi aðila hjá Reykjavíkurborg og látum opna fyrir vatnið á ný! Enn rennur þó vatn í Kirkjugarði og var það drukkið ótæpilega meðan sagðar voru sögur af greftrunum, duftkerjum og væntingum manna um hinztu vist.

Haldið áfram upp úr garði og farið hjá Veðurstofu. Að þessu sinni var tekinn Laugavegur og engin goðgá að því, vegna þess að langt er síðan auð verzlunarrými hafa verið talin. Nú kom í ljós að þeim hefur fjölgað á ný, voru 10 í seinustu talningu, eru orðin 16. Einhver slatti af útlendingum hingað komnum til þess að hlýða á tónlist sem mikið er af. Ekki talin ástæða til þess að fara hjá Kaffi París eða um Austurvöll, við erum vinalausir aumingjar sem enginn vill hylla.  Áfram til Laugar.

Blómasalinn var ekki búinn að gleyma því hvers vegna hann mætti í hlaup dagsins: kókosbollur og appelsínulímonaði. Stoppað stutt við á Plani og farið til Útiklefa. Þar var þessum gæðum úthlutað og við sátum sælir og glaðir, hvor með tvær bollur og dós af appelsíni. Það kemur sérstakur svipur á Einar þegar hann er gladdur með góðgæti, það er svipur algleymisalsælu og ekkert truflar einbeitingu hans á meðan.

Sama agaleysið og venjulega í potti, menn tala þvers og kruss og engin leið að fylgjast með vitrænum umræðum. Blómasalinn og verkfræðingurinn tala saman þvert yfir pottinn um breiðband, ljósleiðara, Símann, Vodafone, tengingar, loftnet. Ég er löngu búinn að segja Einari að fá sér Vodafone Gull og ekki ræða málið meira. Nei, nei, hann þarf að pæla meira í hlutunum, velta þeim fyrir sér fram og tilbaka, láta svína á sér, eins og Símiinn gerir, klippir í breiðbandið án þess að bjóða nokkuð í staðinn og hefur engan fyrirvara á breytingunni. Svona fyrirtæki eiga menn ekki að skipta við.

Fyrirætlanir margvíslegar eftir hlaup. M.a. upplýsti Ólafur frændi minn að hann ætlaði á eina veitingahúsið í Garðabæ. "Veitingahús í Garðabæ, hvað er það?", spurðu menn. Jú, IKEA með sínar sænsku kjötbollur, full porsjón 15 stykki. Takk fyrir!


Kúplingsfótur stirðnar og veldur deilum

Föstudagur rann upp bjartur og fagur með fögrum fyrirheitum. Flosi stóð úti á Stétt og horfði á sólaruppkomuna og munaði minnstu að hann brysti á með söng og færi með "Sjá roðann í austri" - en hann hafði taumhald á tilfinningum sínum og barg mannorði sínu. Það var rigning er menn mættu til Laugar síðdegis og búið að opna Útiklefa. Verið að gera klárt fyrir hana Lovísu sem ætlaði að skemmta með söngvi á Iceland Airwaves. Við þessir helztu drifum okkur í Útiklefa og klæddumst. Mættir: Formaður til Lífstíðar Ó. Þorsteinsson Víkingur, Gísli rektor Armulensis, Þorvaldur, Jörundur, Flosi, Kári, Benz,Guðrún B. Bjarnadóttir, Ólafur ritari, Einar blómasali - og fleiri vorum við að líkindum ekki.

Ljósmyndari frá Fréttablaðinu mætti í Brottfararsal og tilkynnti tilhögun ljósmyndunar í tilefni af 25 ára afmæli Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Bað hann menn um að raða sér upp í snyrtilega röð á Ægisíðu þannig að hann næði bæði hæðarmynd og breiðmynd. Ekki veit ég hvað hann átti við, hvort sérstakrar tækni væri þörf til þess að ná svo feitlögnum einstaklingum á mynd. Og hægja á sér, svo að hann næði örugglega óhreyfðri mynd. Ritari fullvissaði hann um að lítil hætta væri á að hann næði ekki hópnum nánast óhreyfðum, svo hægt væri farið yfir.

Jæja, það stendur eins og stafur á bók. Ljósmyndarinn bíður eftir okkur á tilsettum stað og smellir af, gefur svo þumalfingursmerki um að myndatakan hafi verið harla vel heppnuð. Við ánægðir og höldum áfram. Blómasalinn fer eitthvað að orða það hvort ekki megi snúa við úr því að myndatöku sé lokið, en ritari tekur slíkt ekki í mál. Menn eru pískaðir áfram. Frændi minn er upptekinn maður og gegnir veigamiklu hlutverki við að halda uppi viðunandi atvinnustigi í landinu og neyðist því til að fórna sér og hverfa frá hlaupi í Skerjafirði og er afsakaður.

Ritari fer með Gísla rektor og Jörundi, sem eru einhverjir ágætastir og uppbyggilegastir hlauparar sem hann þekkir. Góður félagsskapur það. Jörundur er að velta fyrir sér haustmaraþoni, ef veður verður skaplegt mun hann þreyta hlaup, en ef verður stormur á norðan eða suðaustanhvassviðri þá mun hann mæta á bíl og hvetja hlaupara. Gísli hins vegar hleypur langt á laugardagsmorgnum í vaskra sveina hópi og fer því rólega og bara stutt á föstudögum. Hann fór Hlíðarfót í dag og snöri til Laugar að því búnu.

Við Jörundur áfram upp Hi-Lux og löngu brekkuna, sáum hlaupara á undan okkur sem fóru hægt yfir. Náðum þeim í tröppunni hjá Veðurstofu og tókum fram úr þeim. Römbuðum þar á Benzinn og blómasalann, hvað var í gangi? Benzinn meiddur og blómasalinn bara latur, reyndi að vekja samúð viðstaddra með því að rifja upp löngu gleymd veikindi. Við Jörundur hlustuðum ekki á slíkt, rifum þá með okkur og héldum uppi tempói.

Hér fór hraði að aukast og má segja mér að farið hafi verið að nálgast 5 mín. tempóið á Klömbrum. Bjarni spurði Jörund hvað hægt væri að gera við meiðslum sem hæfust neðan við hné. "Hlaupa meira!" sagði Jörundur. Líkt og þegar maður kom hóstandi til Dags skálds segjandi "ég verð að hætta að reykja". "Vitleysa!" sagði skáldið. "Þú reykir ekki NÓGU mikið." Jörundur sagði honum að hætta þessu væli og herða hlaupið. Við áfram.

Á þessum kafla voru þau horfin okkur, Guðrún, Flosi og Þorvaldur, fóru á ægilegu tempói sem fæst ekki uppgefið enn á ritandi stundu. Að vísu var upplýst eftir hlaup að Þorvaldur hafði venju samkvæmt svindlað og stytt, farið Laugaveg með Guðrúnu, en Flosi farið Sæbraut. Við drengirnir fórum Sæbraut, og þarna fór blómasalinn að braggast. Margt skrafað og skeggrætt á þessum kafla sem ekki verður upplýst og aðeins vísað til þess trúnaðar sem ríkir með föstudagshlaupurum: við látum ekkert uppi, en ef fólk vill vita hvað sagt er getur það bara mætt í hlaup!

Farið um Hljómskálagarð tilbaka og voru menn bara sprækir. Teygt á Plani. Tónlist í Móttökusal, Lay Low að kveða að. Hlauparar fóru í Útiklefa. Pottur margvíslegur, fólk á fleygiferð milli potts og út í laug að hlusta á tónlistarkonuna, fóru sagnir af því að Björk væri í Laug og útlendingar hefðu misst sig fyrir því. Hér mættu Anna Birna, dr. Jóhanna og Biggi Jógi. Ekki fór svo að menn brystu út i söng þótt föstudagur væri, ritari reyndi að tóna fyrir Roðann í austri, en ekki var tekið undir þann tón. Bjarni mættur með bilaðan fót, fékk greiningu hjá dr. Karli, sprungnar æðar eða eitthvað í þá veru, má vera að þetta lagist á næstu 4-6 vikum. Gott að það var ekki nárinn. (Spurning hvort það megi vera með sjúkdómsgreiningar á bloggi? Er það ekki persónuverndarmálefni?)

Hlaup ku enn vera iðkuð frá Laug á laugardagsmorgnum kl. 9:30. Hvað veit ég?


Sprettir á mánudegi

Útiklefi lokaður þegar komið var til Laugar. Maður er ekki vanur því að þurfa að klæða sig í innan um illa þefjandi hlaupara, en varð að taka því. Sveifluhálsfarinn heimtur úr helju og lét vel af hlaupi, sagði að það hefði verið "yndislegt", enginn barlómur, ekkert fjas um kreppu og hrun, bara náttúra, útivera og hlaup. Fór hann 43 km á laugardaginn og leið bara vel á eftir, hvað annað? Aðrir mættir: Kári, Maggi, Rúnar, Friðrik í Melabúð, dr. Friðrik, Björn, Rakel, Benzinn, Flosi, Ósk, dr. Jóhanna, Ólafur ritari, Jóhanna, Georg og Helmut.

Lagt upp með rólegt út að Dælu. Þar máttu þeir sem vildu taka 1 km sprett austur úr. Flosi dokaði ekki við, heldur hélt áfram. Við hin tókum sprettinn. Hvílt á eftir, og svo annar sprettur inn að HR. Þar fórum við nokkrir í brekkuna, meðan þau duglegustu luku við kílómetrann. Þrír hringir í Öskjuhlíðinni og svo annar kílómetrasprettur tilbaka út í Nauthólsvík, endað við "rafmagnsskápinn". Margir áttu erfitt með að skilja hvað þjálfarinn var að meina, könnuðust ekki við neinn rafmagnsskáp, ég er næstum viss um að þetta hafi ekki verið rafmagnsskápur heldur símaskápur. Eftir þetta rólegt fyrir flugvöll, en svo mátti taka einn lokasprett út að Dælu. Svo dólað rólega tilbaka, en tempóið náttúrlega keyrt upp á Ægisíðu.

Teygt bæði utandyra og innan við komu tilbaka. Dr. Jóhanna hafði sig mjög í frammi á stétt og veittist að fólki sem kom út. M.a. var þar heimilisfaðir sem var svo séður að vera búinn að klæða dætur sínar í náttfötin eftir laugarferð. Það var hrópað: "Heyrðu manni, ertu nokkuð að gleyma konunni þinn? Það kemur kona á náttslopp hlaupandi...!" Og annað eftir því. Þetta þótti okkur hinum dólgsleg framkoma.

Þegar komið var niður mætti ég Kára. Við urðum mjög hissa, könnuðumst ekki hvor við annan í þessu samhengi. Horfðum skilningsvana hvor á annan: "Þú hér?" Þetta var skrýtin tilfinning. Í potti voru lögð drög að afmælishátíð Hlaupasamtakanna og verður upplýst meira um hana fljótlega. Sumum lá á að komast heim að horfa á U21 leikinn við Skota.

Jörundur búinn að hlaupa 30 km - ja, hérna, er maðurinn brjálaður?


Þetta fer bara batnandi...

Getur gott orðið betra? Já, ekki ber á öðru. Endalaus veðurblíða þessa haustdaga, sól skín í heiði, hiti eins og á góðum sumardegi og það hreyfir ekki vind. Vel auglýst hlaup lokkar til sín vaska drengi: Jörundur, Gísli, Flosi, Þorvaldur, Bjössi, Benzinn, Kári, Ólafur ritari, Ingi - og loks, Einar blómasali, seinn að vanda. Það var lagt í hann stundvíslega 10 mínútur og 10 sekúndur yfir 10.

Farið afar hægt af stað að beiðni viðstaddra. Ekki var beðið eftir blómasalanum, enda löngu búið að ákveða brottfararstund. Það er bara hans mál ef hann hunsar fyrirfram ákveðna brottfarartíma, hann sér þá að það er ekki beðið eftir honum. Ægisíðan skartaði sínu fegursta, hafflöturinn spegilsléttur, sjóbað hvarflaði að einhverjum, og Gísli sagði að það hefði verið gott að fara í sjó, "en það er bara aldrei gert á sunnudögum". Þar með var ekki talað meira um það. Spurt eftir Sveifluhálsfaranum, engar fréttir. "Ætli hann sé ekki enn að hlaupa" sagði einhver.

Er komið var í Skerjafjörð mætti okkur einkennileg sjón: Ó. Þorsteinsson á reiðhjóli og kona hans Helga hlaupandi með. Vissulega hópuðust hlauparar um Foringja sinn og spurðu almæltra tíðinda. Hann varðist frétta, en lofaði tveimur góðum sögum í potti. Við áfram með það. Gerður hefðbundinn stanz í Nauthólsvík þrátt fyrir að menn vildu helzt halda áfram, en hefðirnar eru sterkar.

Gísli var skilgreindur "nýr" í hópnum og þurfti því að fá að heyra söguna um hjónin í Garðinum. Jafnframt fylgdu einhverjar glósur um umgengni frænda míns um staðreyndir, sem ku vera alla vega. Við hlupum áfram upp úr Garði og hefðbundna leið hjá Veðurstofu niður á Klambratún. Enn var rifist um nafnið á túninu. En það stöðvaði okkur ekki frá því að taka sprettinn og fórum við nokkrir á undir fjögurra mínútna tempói þar.

Farið niður á Sæbraut og horft á Hörpu. Einar blómasali farinn að blanda sér í hlaupið. Mýrargata, þar rákumst við á dr. Friðrik á reiðhjóli, Ægisgata, Hofsvallagata. Teygt lengi vel á Plani og spjallað við aðvífandi gesti. Biggi mættur á reiðhjóli, ásamt konu og dóttur, óhlaupinn. Í potti var dr. Baldur spurður að því hversu mörg prófastsdæmi væru í landinu. "Það veit ég ekki og hef engan áhuga á að vita heldur." "Ja, þá veiztu ekki mikið!" var svarað að bragði. Rifjuð upp saga þessara ummæla, og talið að þau eigi rót að rekja til jarðarfarar þar sem meðal gesta voru Ólafur landlæknir og HHG. Frábær dagur í frábærum hópi að baki. Það gerist varla betra.


Fagurt mannlíf á föstudegi sem endar með saung í potti

Í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sameinast ólíkir hópar úr öllum stigum samfélagsins, allt frá framkvæmdastjórum í minniháttar fyrirtækjum og allt upp eða niður í fulltrúa í æðstu stjórnsýslu, og getur þó engu að síður lynt saman í sameiginlegu áhugamáli: hlaupi. Þarna koma ekki saman hlaupaeðjót sem hugsa einvörðungu um vegalengdir, hraða, tempó, úthald, snerpu og annað í þeim dúr. Nei, til eru þeir sem njóta samveru við skemmtilegt fólk, njóta þess að hreyfa sig þótt á hægri ferð sé. Slíkur hópur var saman kominn í hlaupi dagsins í Hlaupasamtökunum, nánar til tekið voru það við helztu drengirnir: Jörundur, Þorvaldur, Flosi, Karl Gústaf, Helmut, Kári, Ólafur ritari, Benzinn og Gísli rektor. Ákveðið að fara hægt í dag. Talið að prófessorinn væri að hvíla fyrir Sveifluhálsinn á morgun.

Veður fagurt í Vesturbænum í dag, hiti 10 stig, logn, bjart. Margt spjallað á Ægisíðu. Einhver spurði hversu langur texti hefði safnast saman í Króniku Samtakanna. Ritari taldi að árið 2006, sem þó væri aðeins skráð til hálfs, teldi 112 blaðsíður. Ályktuðu menn að frásagnir af hlaupum til þessa hlytu þá að nema 1000 blaðsíðum hið minnsta. Mætti jafna þessu við ævisögu Jóns Sigurðssonar eftir Pál Eggert Ólason, sem aðeins er vitað til að einn maður hafi lesið til enda og sá lenti inni á Kleppi.

Auðvitað fór það svo að sumir drógust aftur úr, en þá voru bara teknar lykkjur til þess að lengja hlaup og gefa þeim kost á að ná okkur. Farið nokkuð samtímis upp Hi-Lux og þá sáum við bíl sem var á leiðinni inn á slóðann, en snöri við er hann sá okkur. Greinilega Snusk-Pelle á ferð sem hafði grátt í hyggju. Gott er til þess að vita að hlauparar Samtakanna geta látið gott af sér leiða og fælt menn frá óviðurkvæmilegu athæfi. Stefnan sett á brekkuna. Gísli virtist vilja kanna afbrigði, við hinir töldum að það væri í sama tilgangi og Magnús tekur sér hlé í sunnudagshlaupum, en það sanna kom síðar í ljós.

Ekki var staldrað lengi við efra, heldur hlaupið hjá Kirkjugarði og þá leið, upp hjá Veðurstofu, niður Hlíðar, Klambratún, þar tóku Flosi og Benzinn þvílíkan sprett - og telja dómbærir menn að þar hafi jafnvel verið farið undir fjögurra mínútna tempó! Við hinir rólegir. Er hér var komið héldu hópinn ritari, Jörundur, Karl og einhver fjórði sem ég er búinn að gleyma. Nálguðumst Hörpu og veltum fyrir okkur hvenær hægt yrði að hlaupa kringum hana og endurvekja þannig Hafnargönguhópinn. Nema, hvað, við Sjávarútvegshús rekumst við á fígúru með kunnuglegan baksvip og hlaupastíl. Var þar kominn sjálfur Denni skransali af Nesi. Ekki kunni hann trúverðugar skýringar á veru sinni þarna, en féllst á að hlaupa með okkur. Fórum um Miðbæ og Fríkirkju, þar sem hann fór með katólska bæn fyrir okkur.

Stefnan sett á Hljómskálagarð. En hvað gerist? Við ljósin rekumst við á kampavínslita jeppabifreið af Landcruiser gerð með einkennisnúmerinu R-158, innan við glerið sat Formaður Vor til Lífstíðar og þeytti flautuna okkur til hvatningar og uppörvunar. Við fögnuðum foringja vorum og stöðvaði hann bifreið sína til þess að hleypa okkur yfir götuna, þótt hann væri á grænu og við á rauðu. Svona gera bara höfðingjar með auktorítet!

Farið á góðu tempói tilbaka og hér sagði Karl okkur söguna af brunninum og verðinum. Svo var mál með vexti að ákveðið var að setja upp brunn í Tjörninni syðri hér á árum áður (sem Þorgeir Þorgeirson rithöfundur kallaði brunnmig). Brunninum var fjarstýrt. Of langt var fyrir fjarstýringuna að fara alla leið úr miðbænum, svo að frændi Kalla sem bjó við Bjarkarstíg tók að sér að annast stýringu á brunninum, sem var m.a. nauðsynlegt vegna þess að það gat þurft að slökkva á honum í óheppilegri vindátt. Jæja, nú kemur ljósmyndari sem hyggst taka mynd af gosbrunninum og stillir upp tækjum sínum á tjarnarbakkanum. Frændinn ákveður að sprella með ljósmyndarann. Þegar ljósmyndarinn er búinn að stilla upp þrífæti og öllum græjum, slekkur frændinn á gosbrunninum. Ljósmyndarinn er grallaralaus. Rífur hár sitt. Frændinn fer út úr húsi og niður á tjarnarbakka, stendur þar og mænir á gosbrunninn, fer svo að hoppa á bakkanum, og viti menn! Brunnurinn tekur til við að sprauta vatni á ný! Frændinn hverfur síðan á ný til híbýla sinna, en fylgist með ljósmyndaranum. Brunnurinn var hættur að blása vatni. Ljósmyndarinn var við það að örvinglast, en dettur þá í hug það snjallræði að hoppa á tjarnarbakkanum. Og viti menn....!

Hlaupi lokið á þéttu tempói. Mættum rektornum í Móttökusal og hafði lokið hlaupi. Hann ætlar að mæta í hlaup sunnudagsins, sem er 10.10.10.10.10.10, þ.e. 10. október 2010, kl. 10.10:10, tíu mínútur og tíu sekúndur yfir tíu. Verður ekki magnaðra. Sátum í potti og við bættust Anna Birna og dr. Jóhanna. Á föstudögum er að skapast sú hefð að menn syngja ættjarðarsöngva. Í þetta skiptið var sungið ljóðið "Hver á sér fegra föðurland?"  - og vakti almenna hrifningu og vatn rann milli skinns og veggjar.

Næstu hlaup: hið árlega hlaup til minningar um John Lennon í fyrramálið kl. 9:30.  Og sunnudagurinn, sbr. það sem segir um það hlaup hér að framan.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband