Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Snúið aftur til hlaupa

Á fögrum febrúarmorgni í stillu og 4 stiga frosti sneri skrifari Hlaupasamtakanna aftur til hlaupa eftir tveggja mánaða hlé vegna ökklameiðsla. Honum var tekið fagnandi sem vonlegt er, utan hvað Jörundur starði óþarflega lengi á persónu skrifara eins og hann vildi láta í ljós mikla furðu á nærveru hans. Aðrir mættir: Ólafur Þorsteinsson, Flosi, Þorvaldur og Maggie. Nú klæðast karlmenn hlaupafatnaði í inniklefa og þar geta hafist fyrstu frásögur dagsins af fólki sem Formaður hefur hitt nýverið. 

Við fórum afar rólega af stað sem kom sér vel fyrir skrifara, sem er bæði þungur á sér og aumur í fótum. Menn furðuðu sig á fjarveru Magnúsar og var spurt hvar hann gæti verið. Einna helst töldu menn hann hafa verið boðaðan á mikilvægt Kirkjuráðsþing til skrafs og ráðagerða um sálarheill þjóðar. Jörundur fékk fljótlega í bakið og átti erfitt með hlaup, kvaðst vera farinn að finna til Elli kellingar.

Í Skerjafirði brá svo við að kunnugleg týpa virtist vera búin að stilla hjóli sínu upp við flugvallargirðingu og gera sig kláran til hlaupa með okkur: Einar blómasali. En svo kom á daginn, eða það fullyrti hann alla vega, að hann hefði týnt lyklinum að lásnum á hjólinu og því þorði hann ekki að skilja það eftir. Hjólaði bara með okkur í staðinn.

Hér var skrifari farinn að finna til þyngdar og mæði og dróst aftur úr, en spjaraði sig þó inn í Nauthólsvík. Þar var gerður góður stans meðan beðið var eftir Jörundi. Ökklinn skrifara enn til friðs og því haldið áfram og stefnan sett á Kirkjugarð. Þar var gengið samkvæmt áralangri hefð, en svo haldið áfram um Veðurstofu og Hlíðar, klakabúnkar á víð og dreif og náði blómasalinn að detta af hjóli sínu á einum slíkum.

Er komið var á Klambra ákvað skrifari að láta gott heita og taka stystu leið tilbaka, enda aðeins farinn að finna fyrir eymslum í ökkla. Fór um Hringbraut og gekk megnið af leiðinni, endaði á Plani þar sem Flosi og Maggie voru þá þegar mætt.

Pottur óvenjuvel mannaður: dr. Baldur, dr. Mímir, próf. dr. Einar Gunnar, dr. Magnús Lyngdal Magnússon, Helga og Stefán, Tobba, Maggie, Flosi, Jörundur, skrifari og Ó. Þorsteinsson. Svo mikið var rætt um persónufræði, bílnúmer og tónlist að menn gleymdu sér alveg og klukkan farin að ganga tvö er við loksins rönkuðum við okkur og fórum að tínast úr potti til hefðbundinna verka sunnudagseftirmiðdagsins, svo sem að gúffa í okkur Swedish meatballs á eina veitingastað Garðahrepps.

Í gvuðs friði! 


Öldungar

Ekki er fráleitt að tala um helstu öldunga Hlaupasamtakanna þegar í hlut eiga Jörundur prentari, Flosi barnakennari, Þorvaldur fræðimaður og Ó. Þorsteinsson Formaður til Lífstíðar, en þessir þreyttu einmitt hlaup að morgni þessa dags og fóru svo ótt og títt að skrifari varð að grípa til bifreiðar sinnar til þess að draga þá uppi langt komna inn á Ægisíðuna. Ákafa skrifara að ná þeim má að hluta skýra með því að tveir óskyldir honum í hópnum skulda enn fyrir Þorrablót í janúar sl. - en það er önnur saga og ekki til þess fallið að varpa rýrð á rótgróna vináttu, en samt, það er alltaf prinsippið, ekki það séu peningarnir, en prinsippið, menn eiga vitanlega að gera upp skuldir sínar við aðra, þetta finnst manni að eigi að vera ákveðið leiðarljós hjá fólki. Gera fljótt og vel upp við þá sem taka að sér að sjá um félagslíf Samtaka Vorra og standa í streðinu og leiðindunum.

Nema hvað, þarna taka þeir skeiðið og skrifari er fullur öfundar, en við því er ekki að gera. Ekki er hægt að rökræða málin við ökklann, hann lifir sínu eigin lífi og er ofurseldur eigin forsendum. Þannig að það er bara hægt að horfa, dást og öfunda. Að sama skapi má samgleðjast félaga okkar Hjálmari sem náði settu marki í framboðsslagnum í Reykjavík og fyllir hóp glæsilegra einstaklinga sem munu bjóða fram í Hreppnum á vormánuðumm.

Viðstaddir tóku eftir því að Einar blómasali var ekki með á hlaupum og hlýtur það að teljast áhyggjuefni öllum þeim sem vilja stuðla að heilbrigðum lífsstíl, meiri fegurð og menningu í Vesturbænum. Ef einhver þarf að hlaupa, léttast og njóta menningar og persónufræði þá er það  blómasalinn. Meðan kílóin fjúka af skrifara þá ýmist stendur þessi garpur í stað eða bætir við sig fleiri kílóum. Nú er vorið að koma og ekki seinna að menn fari að reka slyðruorðið af sér. Hér er verk að vinna og skulum vér, félagar Einars, taka hann í umsjá okkar og hjálpa honum að takast á við þyngdina. Já, við eigum að gæta bróður okkar!


Brennivínssvelgur

Gríðarlega efnisríkum fundi í Potti að loknu hefðbundnu Föstudagshlaupi er lokið. Mættir voru: próf. dr. Einar Gunnar Pétursson, hlaupari án hlaupaskyldu, próf. dr. Ágúst Kvaran, próf. dr. S. Ingvarsson Keldensis, Denni skransali, Flosi barnakennari, Jörundur prentari og loks hinn halti skrifari Hlaupasamtaka Vorra. Er komið var i Pott var skipst á kveðjum og þökkum fyrir einstaklega vel heppnað Þorrablót sl. föstudag að heimili þeirra Hrannar og Denna á Nesi. Menn luku lofsorði á allan undirbúning, aðbúnað, mat og drykk. Mönnum var ofarlega í huga gæði matarins sem MelabúðarKaupmaður bar inn í trogum, einkum tvær tegundir af hákarli og tvær af harðfiski, að ekki sé minnst á vel heppnað uppstú og þjöppu. Hér gall í próf. Fróða að hann hefði talið sig sleppa afar vel frá viðburðinum með 2.000 króna innborgun þegar litið var til þess magns af brennivíni sem hann hefði innbyrt. Hér brugðust menn við af skilningi og sögðu: "Já, Ágúst minn, við vitum þetta vel. Þú varst heppinn."

Rætt var um hlaup sl. mánudag þegar þeir fóru fetið saman, próf. dr. Fróði og Einar blómasali. Einar er með böggum hildar yfir þyngd skrifara þessi misserin, sem ku slaga í 95 kg og er farið að daðra við desítonnið. Þannig sat blómasalinn eftir vigt í gærmorgun á bekk í inniklefa í Vesturbæjarlaug, frávita af geðshræringu og tautaði með sjálfum sér: "95 kíló! 95 kíló!" En í hlaupinu á mánudaginn er var varð prófessornum að orði að það væri merkilegt að maðurinn gæti hlaupið svona hratt verandi 95 kg. Blómasalinn misskildi þessi ummæli á þann veg að þau beindust að sér og varð harla glaður. En prófessorinn var hér vissulega að lýsa aðdáun sinni á skrifara Samtaka Vorra, sem lætur ekki tímabundnar breytingar í líkamsvigt koma í veg fyrir að hreyfa sig hratt.

Nema hvað, eðlilega varð mönnum hugsað til Ástsæls Forseta Vors þar sem hann eykur hróður Fósturjarðarinnar í Bjarmalandi og hittir stórmenni. Nú fer að síga á seinni hlutann hjá okkar manni og var farið að velta fyrir sér framhaldinu. Það var spurt hvort raunhæft væri að tilnefna traustan KRing, Boga Ágústsson, næst þegar kosið verður, en það kom fýlusvipur á viðstadda og mönnum leist illa á hugmyndina. Skrifari benti á þá augljósu staðreynd að æskilegt væri að nýr forseti væri vanur utanferðamaður og ekki væri verra að hann héti Ólafur. Ef hann héti t.d. Ólafur Grétar væri ekki svo erfitt fyrir þjóðina að læra nafnið á nýjum forseta.

Einhverjar vöfflur voru á mönnum við þessa hugmynd. En þegar upplýst var að nýtt forsetaefni myndi gera Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar og persónufróðasta mann Lýðveldisins, að formanni Orðunefndar og í framhaldinu að festa orðu á brjóst helstu drengjanna í Hlaupasamtökunum, þá glaðnaði yfir selskapnum og menn sáu strax í hendi sér að hér væri harla góð og hagnýt hugmynd á ferð. Sumir höfðu þó áhyggjur af viðbrögðum þingmanns Samtakanna úr Garðabænum, en forsetaefnið benti á að næg væru embættin sem mætti nýta til þess að friða menn, t.d. Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.

Nú var baðast enn um sinn, í Pott bættist Sveinn Margeirsson og við tók fjörug umræða um málefni háskóla og rjúpnaveiðar. Denni rifjaði upp veiðar á heiðum uppi þar sem Sveinn og Björn bróðir hans unnu afrek ungir að árum, en Denni engin.

Öndvegispottur sem aldregi fyrr, mönnun með eindæmum, sól fer hækkandi og veður batnandi. Nú fer skrifara að batna ökklameiðslin, en fyrst kemur ein Brusselferð sem Jörundur borgar, en eftir það má búast við því að skrifari mætti beittur til hlaupa á ný. Í gvuðs friði, skrifari.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband