Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Þýzka fyllibyttan

Fólk talar ósköp óvarlega á hlaupum, harla vel þó vitandi að allt sem sagt er fer í annála. Svo var og í hlaupi dagsins. Meira um það seinna. 

Í sólskini, 12 stiga hita, einhverjum andvara, voru eftirtaldir mættir til hlaups: próf. Fróði, Flosi, dr. Jóhanna, Rúna, Ó. Gunnarsson, Jörundur (seinn), skrifari, Ingi - svo bættust Haraldur, Frikki og Snorri við síðar í hlaupinu. Erfitt var að finna sér snaga til þess að hengja reyfin á fyrir hlaup. Prófessorinn upplýsti í Brottfararsal að hann væri skráður í eitthvert grískt ofurmaraþon í haust og búinn að fjárfesta í forláta drykkjarvesti. Ágúst sagði íbygginn: "Já, það er miðvikudagur í dag, það þýðir bara eitt: langt." 

Menn dóluðu sér af stað og fóru rólega. Á Ægisíðunni varð sumsé Rúnu á að spyrja: "Hvar er þýzki maðurinn með dálæti á því góða í lífinu?" Jóhanna svaraði að bragði: "Hann er líklega í vinnunni, hann var ekki kominn heim þegar ég fór í hlaup." "Um hvern ertu að tala?" spurði Rúna á móti. "Manninn minn," sagði Jóhanna. Þá sagði Rúna: "Nei, ég er að tala um þennan s.k. stórkaupmann sem fór til Berlínar og hefur verið að senda okkur myndir af bjórglösum."

Þannig getur komið upp meinlegur misskilningur. Og enda þótt skrifari minnti þær á að allt sem sagt er á hlaupum færi á Netið sinntu þær því ekki og hlupu áhyggjulausar áfram.

Hlaup þróaðist fljótlega þannig að þau hin skildu skrifara eftir og hann fór fetið í fullkominni einsemd. Á Nauthóli fóru þau flest hver inn á Hlíðarfót, en skrifari hélt áfram á Flanir, Ristru Flanir, og setti stefnu á Suðurhlíðar. Þar um slóðir voru hlauparar í brekkusprettum frá Perlu og niður að brú og upp aftur, þvílíkur kraftur í þessu fólki, sem sumt hvert var fremur feitlagið. Þetta sannar það sem við Kári og Einar blómasali höfum alltaf sagt: feitt fólk getur vel hreyft sig!

Tíðindalítið í brekkunni upp að Perlu, farið niður Stokk og hjá Gvuðsmönnum og þá leið vestur úr. Ég sat um stund í Potti með Jörundi sem var kominn tilbaka eftir Hlíðarfót. Ég kvaðst vera ánægður með að hann hefði enn á ný horfið til prentarastarfa, ekki væri vanþörf á, framundan væri löng Brusselsför. Svo kom Frikki og falaðist eftir starfskröftum okkar við vínuppskeruna í haust.

Í fyrramálið rennur stund sannleikans upp, þá verður stigið á vigt. Mikið vorkenni ég ónefndum stórkaupmönnum í Vestbyen sem hafa verið að belgja sig út af snitsel og bjór sl. viku.  


Fáeinir hlauparar hyggja á gagnaðgerðir

Það var mánudagur að loknum síðasta legg Reykjavegar undir styrkri forystu Helmuts og dr. Jóhönnu. Á Reykjavegi gengu Jörundur prentari og Helmut 16 km á 7 klst. - en kjöftuðu víst út í eitt, og tóku marga útúrdúra og skógarferðir svo að gangan varð kenski óþarflega löng. Þau hin hlupu, dr. Jóhanna og próf. dr. Ágúst og e-r tveir með þeim, og luku glæsilegu hlaupi á 3 klst. Engu að síður voru bæði Helmut og Ágúst mættir í hlaup mánudagsins. Aðrir mættir: Flosi, Ó. Gunnarsson og skrifari. Fleiri voru ekki mættir. 

Skrifari hugsaði sem svo: ég hef syndgað mikið að undanförnu og kannski kemst ég eitthvað áleiðis í Sgerjafjörð og þaðan heim aftur. Á var nokkuð gott veður, 8 stiga hiti, bjart, sólarglenna öðru hverju, og þetta leit ágætlega út. Illu heilli hengdi Helmut sig á skrifara og fór jafnhægt og hann. Skrifari hugsaði: "Hvað, ætlar maðurinn ekki að fara að drífa sig og hlaupa með alvöruhlaupurum?" En nei, hann hljóp við fót og fór sér í engu óðslega.  Flosi tengdi sig við þá Ólaf heilbrigða og próf. Fróða, en við Helmut héldum okkar ótrúlega tempói. Maður setti stefnuna á Skítastöð og hugsaði sem svo: gott væri að hvíla hér. Þegar þangað var komið var engin ástæða til að hvíla og því áfram haldið. Ekki einu sinni í brekkunni upp í Nauthól til hennar Jósefínu var ástæða til að hvíla, við Helmut brunuðum þetta áfram af krafti. En eftir 4 km er hefð fyrir smá slaka. Gengið um stund og svo sameinuðumst við Flosa, sem var á e-u óskilgreindu flögri á þessum slóðum. Prófessorinn og Ó. Gunnarsson farnir áfram og luku hefðbundnum föstudegi.

Jæja, við fórum Hlíðarfót og vorum gizka ánægðir með frammistöðu okkar. Hlaupið nokkuð stíft um nýja stíga og yfir hjá Gvuðsmönnum, og svo viðstöðulaust út að Akademíu, þar var að vísu rölt því að þar er mjög á fótinn. En eftir það bara sett á fullt stím um Mela og alla leið að Sundlaug Vorri. Hlaupið jafnaðarlega á hefðbundnu 6 mín. tempói til heiðurs Jörundi prentara. 

Þessa dagana er allt fullt í Sundlaug Vesturbæjar og varla hægt að skjóta inn einum kjafti í Pott, hvað þá að fylla pott með kjaftaglöðum einstaklingum eins og tíðkuðust hér í frægðartíð Samtaka Vorra. Er þá ekki að undra að undan fæti halli. en við því eru ráð. Nú hefur Jörundur prentari lagt á ráðin um gagnárás gegn KR sporti með auglýsingaherferð sem er hönnuð af Bigga Jóga, allur áróðurstexti saminn af skrifara og veggspjöld prentuð af Prentara Lýðveldisins. Við sættum okkur ekki við að það sé vaðið yfir okkur á skítugum skónum á þrjátíu ára afmæli Samtaka Vorra!  

Á morgun er hefðbundið miðvikudagshlaup: spurt verður hvar ónefndur Stórkaupmaður í Vesturbænum heldur sig. Er hann búinn að jafna sig eftir langvarandi dvöl meðal bjórdrykkjufólks í Austur-Þýzkalandi? 


Gæði umfram magn

Það var föstudagur og stórkaupmaður í Vestbyen var að sögn búinn að greiða gömlum barnakennara fyrir ónýtt Garmin-úr, uppsett verð, að sögn. Einhverjir hlupu í Icelandair hlaupi og náðu að setja persónuleg met; aðrir náðu að ljúka hlaupi. Svo fara Laufáss-hjón á fjöll á morgnana áður en nokkur maður er kominn á fætur. Ýmislegt hafast menn að. 

Þessir voru mættir í hlaup föstudags: próf. Fróði, Helmut, Bjarni Benz, skrifari, Kári og Ingi. Við áttum gæðastund í Brottfararsal fyrir hlaup og hvöttum hver annan til afreka á þessum degi. Helmut spurði að vísu hver væri stytzta þekkt vegalengd í hlaupi svo að það fengist viðurkennt sem hlaup. Prófessorinn misskildi spurninguna og fór að tala um 50 og 60 m hlaup - skrifari sagði hins vegar að stytzta þekkta hlaup hjá Samtökum Vorum væri út að Skítastöð og tilbaka.

Dr. Jóhanna og Rúna sviku okkur í dag, ákváðu að fara frekar á reiðhjólum inn í Heiðmörk.

Við lögðum af stað í ágætu veðri, sólbjart var, stillt og hiti 12 stig. Farið hægt af stað. Kári var ósáttur við að Maggi mætti ekki til hlaups, hann hafði fyrir því að viða að sér brandörum til þess að kæta tannlækninn, svo mætir hann ekki! Þess í stað sagði hann okkur brandarana. Einn var um konu sem kom á lögreglustöðina og sagði farir sínar ekki sléttar, Land Roverinn hefði drepið á sér þegar hún var á leið til vinnu og átti ófarna 100 m, svo að hún varð að snúa við og fara heim, en þegar heim var komið gómaði hún eiginmanninn við að máta kjólana hennar framan við spegilinn "og hvað á ég að gera, lögreglumaður?" "Sko, þegar Land Rover drepur á sér 100 m frá vinnunni þá er líklega kominn skítur í olíuverkið og það þarf að hreinsa það rækilega..." Svo var annar brandari um mann sem gat lýst bílnum sínum betur fyrir lögreglu en brotthlaupinni eiginkonu. 

Þarna dóluðum við okkur, missprækir, Gústi alveg að springa af orku og spenningi, Benzinn bara nokkuð flottur og sömuleiðis þeir hinir, skrifari í alveg þokkalegu formi. Ingi og Kári tóku skemmri skírn í dag, Kári kvaðst hafa farið Hlíðarfót, en við Benz og Gústi fórum hefðbundið, hjá Jósefínu, Hi_Lux, Kirkjugarður og Veðurstofa. Hér hafði skrifari orð á því að hafin væri herferð til höfuðs Samtökum Vorum á vefsíðunni hlaup.is - þar sem hlauparar sem ganga undir heitinu KR-skokk gefa sig út fyrir að vera einu hlaupararnir í Vesturbænum og hafi sankað að sér 50 manns, aðallega eldri og miðaldra einstaklingum í lítilli þjálfun. Það er til sanns um þá staðreynd að Hlaupasamtök Lýðveldisins eru hógværasti hlaupahópur landsins að þau skuli láta þennan ófögnuð yfir sig ganga og halda jafnaðargeði sínu. Enda afgreiddi prófessorinn málið með þessum orðum: "Það er sitthvað magn og gæði. Geta þessir einstaklingar eitthvað hlaupið? Hafa þeir unnið afrek?" Segir maður sem kýs að hlaupa 250 km í eyðimörkinni frekar en að draga á sig hlaupaskúa og drattast 7 km eins og sumir.

Jæja, þetta var svolítið erfitt, skrifari að koma tilbaka og byggir upp þrek og þol. Gústi beið eftir okkur á öllum strategískum punktum, svo sem í brekkunni í Öskjuhlíðinni og þá gekk ekki að drolla, við píndum okkur upp brekkuna. Sama gerðist á Klambratúni og Sæbraut, það var þéttingur frá Sólfari að Hörpu. Þar fundum við Benz slöngu sem kalt vatn rann úr, drukkum kalt vatn ekki vitandi hvaðan það var runnið, en gott var það! Einhver bið virðist ætla að verða á því að Hreppsnefndin skrúfi frá krönum Borgarinnar þrátt fyrir fögur fyrirheit. 

Höfn, Ægisgata og Ágúst framlengdi í Ánanaust, en við Benz tókum niður höfuðföt, hneigðum höfuð okkar í bljúgri bæn og signdum okkur frammi fyrir krossi Krists í Kristskirkju. Hér söknuðum við Denna sálufélaga okkar. Haldið niður Hofsvallagötu á hæfilegu tempói og lukum hlaupi löðrandi sveittir og þreyttir. Frábært!

Stuttur Pottur með þátttöku próf. dr. emeritusar Einars Gunnars Péturssonar, en minnt er á sunnudagshlaup kl. 9:10 nk. sunnudag. Mánudagur verður vandamál þar eð Laug verður lokuð, og Seltjarnarnesslaug verður einnig lokuð! Hvað gera bændur þá? Laugardalur?  


Garmin greiddur að fullu

Það var upplýst á eternum í dag að ónefndur stórkaupmaður í Vesturbæ Lýðveldisins væri búinn að greiða bláfátækum barnakennara uppsett verð fyrir forláta Garmintæki, sem samkvæmt verðlista á Amazon hefði átt að fara á miklu hærra verði. Um það var rætt á Plani fyrir hlaup hvernig kaupin gerast á Eyrinni, téður stórkaupmaður heimavið að múra svalir, en þessir mættir til hlaups: próf. Fróði, gamli barnakennarinn, Magnús tannlæknir, Tobba og skrifari. Hér upplýsti prófessorinn að Garmin tækið hans væri hætt að virka, hætt að taka tungl. Þá gall í barnakennaranum: "Gerðu bara eins og ég. Tékkaðu á prísnum á Amazon, láttu stórkaupmanninn vita að hann sé að kaupa Garmin tæki við gjafvirði. Skiptir engu máli þótt það sé ónýtt. Hann tekur ekki eftir því. Hann kann ekki á Garmin tæki." 

Jæja, það var fagurt veður fyrir hlaup, sól, stilla og ábyggilega 12-14 stiga hiti. Sumir vildu fara stutt og hægt í tilefni af Icelandairhlaupi á morgun, en prófessorinn vildi fara minnst 69 í tilefni af kjöraðstæðum. Skrifari setti markið á Suðurhlíðar. Lagt upp með bjartsýni í farteskinu. Léttleiki í liðinu framan af hlaupi.

En svo kom þessi hefðbundna skipting: prófessorinn setti upp hraðann, Maggi og barnakennarinn þar á eftir, svo skrifari og loks var bókasafnsfræðingurinn einhvers staðar að baki. Hlaup leit vel út, gott tempó og menn bara sprækir. Markmiðið var að geta hlaupið hindrunarlaust alla leið til Jósefínu. Það gekk upp, en hitinn var svakalegur og lýsið rann í lítratali. Þeir Flosi og Maggi beygðu af og fóru Hlíðarfót, en skrifarinn, sem er einn einbeittur karl, hélt sig við sín markmið að taka Suðurhlíðar og hélt því áfram upp Flanir, Ristru Flanir þar sem Lúpínan vex svo fagurlega ár hvert.

Hann sá að prófessorinn var að hringsóla nærri brúnni yfir Kringlumýrarbraut og svo birtist Sif Jónsdóttir langhlaupari í e-m óskilgreindum hlandspreng, manneskja sem maður hélt að heilbrigðisvísindin væru búin að afskrifa sem hlaupara. Jæja, skrifari fer upp brekkuna í Suðurhliðum, en það skal játað að stundum var gengið. Einhvers staðar á þessum kafla fór vísa flutt í Morgunpotti að herja á skrifara, svofelld:

Fljóðið unga sem fagurt var
forðaðist þunga getnaðar,
en Árni slunginn á sér bar
eistu, pung og þessháttar.

Þá vitið þið það, svona erum við Húnar í Morgunpotti: pornodogs. Það var kjagað áfram upp brekkuna og upp að Perlu, en svo datt maður niður Stokk hjá Dælu og Gvuðsmönnum. Eftir það var þetta eiginlega bara keyrsla, lýsið rann taumlaust og það var sveittur og einmana maður sem snöri til Laugar eftir átakahlaup.

Það var farið að fækka aðkomufólki í Laug, en utanVesturbæjarfólki hefur fjölgað mjög í Laug Vorri eftir að Nýi pottur kom. Örlygshöfnin nánast tóm, þar sat barnakennarinn, svo bættist Tobba í hópinn, Kári og loks kom Helgi aðstoðarskolli í MK ásamt dóttursyni, Helga Jökli. Áttum gott spjall saman um íbúðakaup og hjólaviðgerðir.  


Sundlaug lokuð

Þessi voru skilaboðin þegar skrifari kom til Laugar stuttu fyrir kl. 9 á þessum sunnudagsmorgni: "Sundlaugin er lokuð vegna of mikils klórmagns." Sundlaugargestir sem komu aðvífandi á sama tíma hurfu frá og settu stefnuna á Nes. Skrifari hugsaði sinn gang um stund, en ákvað síðan að fara á Nesið og hlaupa þaðan. Það kæmi þá bara í ljós hvort félagar hans kæmu líka. 

Starfsfólk Laugar Vorrar mætti vera örlítið nákvæmara í orðavali þegar það kemur skilaboðum á framfæri við laugargesti. Það kom nefnilega í ljós að Sundlaugin var ekki lokuð sem stofnun, aðeins laugin sem menn synda í og sem skrifari stígur aldrei fæti sínum í. Þeim, sem komu á eftir skrifara til Laugar, var nefnilega hleypt inn, þ. á m. félögum Hlaupasamtakanna og gátu þeir klæðst hlaupafatnaði venju samkvæmt. Meira um það síðar.

Það er einmanaleg iðja að hlaupa á Nesi. Manni er mætt með fjandskap í Neslaug og laugargestir fitja upp á nefið þegar þeir ganga fram hjá manni, tvinnandi saman blótsyrðum af fáheyrðri fimi. Ég tíndi á mig spjarirnar í búningsklefa, en hagur minn vænkaðist þegar Örlygur Hálfdánarson, bókaútgefandi kom og áttum við gott spjall saman. Svo var bara spurningin hvað maður kæmist langt í dag. Það yrði bara að koma í ljós. Veður ágætt, sæmilega hlýtt, stillt og hugsanlega einhver rigning í kortunum.

Ákvað að hlaupa til höfuðborgarinnar og í Vesturbæinn. Þræddi íbúðagötur og stíga þar til komið var í Skjólin, fór með sjónum um hið forna Flosaskjól og loks inn á Ægisíðuna. Þar hafði ég ekki lengi hlaupið er ég heyrði háreysti að baki mér, sá þar kunnuglegan klæðaburð og fóta. Voru þar komnir félagar mínir og fóru hefðbundinn sunnudag kl. 9:10 og voru þessir mættir: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Tobba og Einar blómasali. Við urðum sem gefur að skilja fegnir að hitta hverir aðra og urðu fagnaðarfundir.

Það er gott að hlaupa í hópi, einn saman er maður ekki mikill hlaupari og leitar að fyrsta besta tækifæri til þess að stytta og hætta og halda til Laugar. En nú var skrifari kominn með félagsskap og ljóst að það yrði til þess að lengja hlaup. Einar blómasali heimtaði að heyra sögu þá er skrifari hafði lofað í föstudagssamtali þeirra. Skrifari varð við þeirri bón, sagan var stutt en skorinorð, upplýsandi og falleg.

Það var komið að Skítastöð og skrifari hafði einhver orð um að nú væri komið nóg og e.t.v. tími til þess að fara að snúa við. Ó. Þorsteinsson heldur vel utan um sína hjörð og sagði það ekki koma til greina að hverfa frá hlaupi hér, það yrði að minnsta kosti farið til Jósefínu í Nauthól. Ekki þýðir að deila við Formann til Lífstíðar og skrifari fylgdi hópnum áfram. Í Nauthólsvík var gengið og sagðar nokkrar fallegar sögur. Hér hefði hugsanlega mátt lauma sér úr hópnum og fara Hlíðarfót, en e-n veginn skipti það ekki máli lengur. Hlaupið var nánast hálfnað, líðan góð, heitur skrokkur og lýsið rann. Það var bara að halda áfram.

Nú var farið hefðbundið það sem eftir lifði hlaups, við frændur vorum eitthvað rólegri en þeir hinir og drógumst aftur úr, en þannig vill það verða þegar næg eru umræðuefnin. Farin Sæbrautin og Miðbær, Austurvöllur og Túngata. Upplýst að í tilefni þrjátíu ára afmælis Hlaupasamtakanna á næsta ári yrði efnt til keppni um bestu frásögnina, af hlaupum eða úr potti. Þó mátti skilja kátínu formanns svo að hann hefði nú þegar valið bestu söguna. En ekki er úr vegi að benda á að skrifari hefur á sinni skrá 8 ára samfellda frásögn af hlaupum með ýmsum uppákomum og er ekki fráleitt að sagnfræðingar Samtakanna leggist í lestur á fyrirliggjandi gögnum í leit að bestu sögunni.

Er komið var til Laugar átti skrifari enn ófarna leið á Nes, en Jörundur bjargaði honum með því að keyra hann þangað, ellegar hefðu þetta verið um 16 km í dag. Það var skolað af sér á Nesi, en að því búnu haldið til Laugar Vorrar og í Pott. Mættir Ó. Þorsteinsson, blómasali, Jörundur og svo bættust við dr. Einar Gunnar, Mímir og Baldur. Vísbendingaspurningar gengu á víxl með tilheyrandi svívirðingum og ásökunum um fáfræði.

Góður dagur að hlaupum í frábæru veðri.  


Hlaupið á bíl og umferðarmerki

Fáeinir hlauparar mættir til hefðbundins föstudagshlaups á Fyrsta Föstudegi: próf. Fróði, Þorvaldur, Denni og Ólafur Gunnarsson. Aðrir voru uppteknir við þjóðþrifastörf í þágu lands og lýðs. Eftir á var okkur sagt frá því að hersingin hefði lagt af stað venju samkvæmt niður Hofsvallagötuna - en ekki var ferð þeirra orðin gömul þegar glymur mikill kvað við: Þorvaldur hafði hlaupið á bíl, nánar tiltekið vörubíl, enn nánar tiltekið á spegilinn á þessum tiltekna vörubíl. Hávaðinn var slíkur að heyrðist um gervallan Vesturbæinn. Þorvaldur virtist að sögn viðstaddra nokkuð vankaður að loknu þessu samstuði. Félagar hans spurðu: "Þorvaldur, ertu vankaður?" Hann svaraði: "Já, ég er vankaður." 

Upp úr þessu samstuði kviknaði á einhverri áru í Þorvaldi, það runnu upp úr honum brandarar óstöðvanda að sögn próf. Fróða, og muna menn ekki þá tíð að Þorvaldur hafi áður sagt brandara í samanlagðri hlaupasögu Samtaka Vorra. Mönnum var mjög brugðið. Þess vegna voru þeir þeim mun fegnari þegar hann hljóp á umferðarskilti stuttu síðar og hætti að segja brandara, varð normal, ef slíkt er hægt að fullyrða um meðlimi Óðagotsættar.

Nú voru nokkrir syndaselir mættir í VBL í sólskini og fallegu veðri, þ. á m. skrifari og Flosi, Denni kominn tilbaka eftir stutt hlaup út að Skítastöð. Þarna sátum við, dáðumst að stúlkunum, þróuðum með okkur góðan þorsta og biðum eftir félögum okkar. Við ræddum um góðan árangur körfuboltadrengjanna okkar í Vesturbænum, búnir að skila dollunni heim á rétta hillu og strákurinn hennar Möggu okkar meginhetjan.

Svo var haldið á Nes, á Ljónið hjá Hafsteini verti - enginn pantaði sér Benna, en þeim mun fleiri sem fengu sér bjór. Þarna komu saman Flosi, skrifari, prófessorinn, Denni, Ólöf, Þorvaldur, Jörundur, Ó. Gunnarsson - við skemmtum okkur við að rifja upp óheppni Þ. Gunnlaugssonar að hlaupum og alla árekstra sem hann lenti í á hlaupi dagsins og maður sá ofan í kokið á prófessornum þegar hann hló innilega að óförum þessa ágæta hlaupafélaga okkar. Sú var staðan þegar skrifari hélt heim á leið til þess að elda fyrir heimafólk.  Í gvuðs friði. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband