Ýmislegt í gangi

Hátt í tuttugu hlauparar mættir á Brottfararplan á miðvikudegi, þar á meðal dr. Friðrik, Magnús Júlíus og Helmut. Báðir þjálfarar. Menn bara opnir fyrir ýmsum útfærslum, þjálfarar spurðu að fyrra bragði hvort einhverjir ætluðu í sjóinn! Ja, öðruvísi mér áður brá. Möguleikarnir ýmislegir í stöðunni: Þriggjabrúa, Elliðaár, eða jafnvel einhver afbrigði. Lagt í hann. Ritari mátti sitja undir því á leiðinni að hafa tjáð áhyggjur sínar af heilsufari blómasala í seinasta hlaupi. Hann þrætti fyrir og heimtaði leiðréttingu, en sá er um fjallaði neitaði að draga þessar dylgjur tilbaka og hélt óhróðrinum statt og stöðugt fram.

Ritari var meðmæltur sjó. Undirtektir góðar. Farið á rólegu tempói inn í Nauthólsvík. Er þangað var komið fóru þessir í sjóinn: Helmut, ritari, blómasali og Kári. Svamlað á grunnsævi. Dr. Jóhanna fór upp að hnjám. Þetta var yndislegt. Að þessu loknu var haldið austur Flanir þar sem lúpínan blómstrar um þessar mundir. Svo upp í Hlíðina áður en komið var í kirkjugarð. Hlaupið um skógarstíga sem þessi hlaupari hefur aldrei farið um áður. Aftur niður í Nauthólsvík og svo stytztu leið tilbaka.

Fólk mættist á Plani mjög á sama tíma og var teygt vel og lengi. Ekki var farið lengra en Þrjárbrýr í hlaupi dagsins. Drög lögð að næstu hlaupum, einhverjir ætla 6:25 í fyrramálið, aðrir ætla í Álafosshlaupið á föstudag, enn aðrir munu hlaupa á Nes á föstudag og fara í sjó í hefðbundnu föstudagshlaupi.  Kári átti góðar rispur í potti.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband