Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

30. apríl 2012: dagurinn þegar Hlaupasamtökin voru lögð niður

Skrifara skildist að Hlaupasamtökin hefðu verið lögð niður í dag. Forvitnin rak hann þó til að mæta til Laugar 17:15 til að sjá hvort þessir þvergirðingar hefðu tekið mark á tilmælunum. Nei, það er sem ég hef alltaf sagt: Íslendingar eiga einhverja samleið með sauðkindinni í andlegu atgervi sínu, sauðþráir og þverari en andskotinn! Haldiði ekki að það hafi mætt hátt í tuttugu manns sem ákváðu að hunsa fyrirmæli um að leggja niður starfsemina, en halda henni áfram og margefla í staðinn. Þarna voru Ólafur Gunnarsson og bróðir hans, Flosi, Jörundur, Þorvaldur, Helmut, Pétur, Bjössi, Benzinn, skrifari, dr. Jóhanna, Ósk, Hjálmar, Magnús tannlæknir og ég veit ekki hvað og hvað. Þannig að segja má að sama daginn hafi Samtökin verið lögð niður og vakin til lífs á ný - og það án hjálpar auðmagnsins!

Eðlilega urðu fróðlegar samræður í Brottfararsal, en frá þeim verður ekki greint hér af tillitssemi við viðkvæma. Dr. Jóhanna tók þegar að sér liðsstjórn af miklum myndugleik og lýsti hlaupi dagsins: út á Suðurgötu, út að Skítastöð, snúa þaðan í vestur og taka 1 km spretti, fjóra talsins, með mínútu hvíld á milli. Ha ha hæ, sagði skrifari og klappaði á kvið sér. Þetta er nú aðeins of mikið fyrir mig. Þá horfðu viðstaddir á bumbuna á skrifara og sögðu að þetta væri NÁKVÆMLEGA það sem skrifari hefði gott af. Hann fyrtist við.

Athygli vakti að blómasali var ekki mættur, maður sem er á leið í Kaupmannahafnar-maraþon. Út var steðjað og stefnan sett á Víðirmel og þaðan í austur á Suðurgötu. Það var þetta venjulega, maður var skilinn eftir og lenti með svona mönnum eins og Jörundi og Magga. Jæja, það var svo sem allt í lagi. Kjellinn eitthvað þungur á sér og þreyttur, enda er það ekkert sældarbrauð að vera ríkisstarfsmaður. Það rigndi svo ekki sá út úr (gler)augum og erfitt að fóta sig af þeirri ástæðu. En þetta gekk sæmilega. Helmut og Bjarni komu inn í hópinn við Hótel Sögu, voru seinir fyrir.

Það var barist út að Skítastöð og þar setti liðið sig í stellingar, en við snörum við og héldum í vestur átt. Fljótlega komu hraðfarar fram úr okkur og létu dólgslega. Við héldum stillingu okkar og vonuðumst til þess að sjá vini okkar af Nesi, en þau voru greinilega ekki á hlaupabuxunum í dag, svo af vinafagnaði varð ekki.

Skrifari lét nægja að hlaupa að Hofsvallagötu, en aðrir héldu áfram, sumir alla leið að Eiðistorgi og þaðan tilbaka um Lýsi og Víðirmel til Laugar. Pottur þéttur og langur. Rætt um fjallgöngur sumars og skemmtanir framundan, en Kári og Anna Birna hafa boðið til Fyrsta Föstudags 4. maí nk. með BYOB formerkjum.


Sótt hart að Formanni

Sjö voru mættir í hefðbundið sunnudagshlaup Hlaupasamtakanna á fögrum vordegi, sólskin, hægur vindur og 6 stiga hiti. Þetta voru Formaður til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víkingur, Magnús tannlæknir, Jörundur prentari, Flosi barnakennari, Þorvaldur hvalafræðingur, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Varla var Jörundur fyrr stiginn út úr bíl sínum en hann heimtaði skýr svör frá Formanni: Er Víkingur með hlaupahóp? Já. Er þjálfari á launum við hópinn? Já. Hver greiðir honum launin? Nú, Víkingur. Hvaðan fær Víkingur peninga til að greiða launin? Hér komu vöflur á Formann og hann fór að japla og jamma. Spurt var: er það rétt að ÍSÍ hafi yfir sjóðum að ráða sem aðildarfélög geta sótt í til þess að efla almenningsíþróttir hjá sér, t.d. hlaupaklúbba? Aftur fór Formaður í vörn og neitaði að gefa skýr svör. En Jörundur gaf ekkert eftir, neitaði að gefast upp og hélt áfram að pressa Formann um svör allt hlaupið. Það sjá allir sem vilja úr hvaða átt Jörundur var að koma: það eru starfræktir tveir öflugir hlaupahópar sitthvoru megin við KR-heimilið og hafa verið í 27 ár: hvað gengur fólki til að vera að stofna nýjan hóp í stað þess að efla þá sem fyrir eru? Péningar!

Vel á minnst: hlaup. Það var hlaupið. Einar að koma af Nesi hafandi farið eina 9 km og hélt svo áfram með okkur. Eitthvað voru plönin öðruvísi hjá þeim Flosa, Þorvaldi og Einari því að þeir skildu okkur hina bara eftir, meðan við dóluðum þetta eftir Ægisíðunni. Þeir ku hafa hlaupið alla leið, aldrei gengið, og jafnvel farið á tempói nálægt 4:30. Næg voru umræðuefnin hjá okkur hinum. Ísland í dag: forsætisráðherra er kona, verðandi forseti er kona, byzkup Íslands kona. Þetta er búið hjá okkur strákunum og ekkert eftir annað en krókurinn. Þannig gekk dælan í dag.

Veðurblíða mikil og menn jafnvel of vel klæddir á köflum, sem kom ekki að sök því að það blés á móti er komið var yfir Veðurstofuhálendið. Jörundur sór þess dýran eið að hlaupa aldrei framar í hlaupum sem skipulögð eru af íþróttafélögum. Jörundur er svo mikill andkapítalisti. Fyrstu lúpínurnar að skjóta upp brúskinum og Jörundur réðst á þær af heift og sleit upp. Í Kirkjugarði fór hann með vísu um Brynleif og Skjaldborgina.

Maggi fór í Krónuna um daginn og ætlaði að kaupa sér lambalæri. Við kassann hvíslaði kona að honum: "Ekki kaupa lambalærið hér. Ég eldaði læri úr Krónunni um daginn og það rýrnaði um 30% í ofninum." "Ertu að segja satt?" sagði Magnús. "Sérðu þessa lopapeysu, ég þvoði hana um daginn og þegar ég tók hana úr vélinni hafði hún skroppið saman um 30% - þetta hlýtur að vera af sömu rollunni."

Okkur tókst að draga Ó. Þorsteinsson með okkur hjá Hörpu, sem hefur aldrei áður gerst. Hann hefur alltaf farið yfir Sæbraut hjá Sjávarútvegshúsi og verið óhagganlegur í þeirri hefð. "Það þarf að vera agi og system í galskabet" sagði Formaður. Jæja, á þessu varð breyting í dag. Það auðveldaði umskiptin að hann var sjálfur í miðri sögu er kom að þessum kafla og átti ekki gott með að stoppa.

Þetta var nú rólegt hjá okkur, meira eða minna gengið, svo að maður var orðinn hálfstirður af hreyfingarleysi. Komið til Laugar og teygt á Plani. Í Potti voru lögð drög að Holtavörðuheiðarhlaupi sem áætlað er að fari fram í lok júlímánaðar. Hlaupið verður frá Fornahvammi yfir að Melum í Hrútafirði, 25 km leið. Þaðan verður haldið í laugina á Hvammstanga þar sem menn skola af sér. Svo verður ekið tilbaka sem leið liggur að Melum, grillað kjöt og skemmt sér. Nánar um hlaupadag og tilhögun síðar. Ennfremur var spurst fyrir um Jónsmessugöngu, en hugmyndir eru uppi um að ganga á Skarðsheiðina þá.

Framundan er bara gleði.


Afbrigði þegar Fyrsti er haldinn með undanþágu

Enn voru umræður um nýstofnaðan hlaupahóp í Vesturbænum, KR-sporthlaup ehf., sem ku vera knúinn áfram af hugsjónum Mammons og ekki heilbrigðum lífsgildum eins og þau eru ræktuð með félögum Hlaupasamtaka Lýðveldisins og hafa verið um 27 ára skeið. Hvað rekur fólk til þess að efna til samkeppni um þessar fáu sálir í Vesturbænum sem nenna að leggja braut undir sóla og stunda hlaup? Follow the money, segir Jörundur. Það er péninga að hafa ef menn geta pakkað ásetningnum inn í réttar umbúðir. Hvað veit skrifari, hann er bara einföld sál.

Jæja, það var föstudagur og ekki margir mættir. Þó hafði skrifari gefið út instrúx um úttekt á ónotuðum Fyrsta. Vitað var að Denni myndi mæta, enda er hann félagslyndur og menningarsinnaður. Aðrir mættir: Þorvaldur, Flosi, Benzinn, Bjössi, Einar blómasali og skrifari. Jörundur hljóp líka en ekki með okkur. Jæja, það varð að láta þennan félagsskap duga.

Bjössi, Flosi og Benzinn biðu ekki eftir öðrum hlaupurum og héldu af stað. En við vinir blómasalans biðum eftir honum, enda var hann seinn að vanda. Við dóluðum okkur af stað, ég, Denni, Þorvaldur og blómasalinn. Það var ætlunin að halda hópinn og fara nógu rólega til þess að Denni næði að hanga í okkur. Hann virtist vera þeirrar skoðunar að það væri fyrirfram glatað plan. Við hinir vorum bjartsýnni. Það var ekki raunsætt. Denni gafst nánast upp áður en hlaup hófst, veit ekki hvort hann náði Skerjafirði áður en hann bað okkur hina að halda áfram, hann myndi ná okkur á Klömbrum.

Jæja, Einar les slúðurblöðin og upplýsti okkur um nýfætt barn lögmanns sem hann átti með stúlku sem er einu ári yngri en dóttir hans af fyrra hjónabandi. Hér fór móralistinn skrifari á flug og útmálaði svona fólk sem óverjandi og óferjandi. Nema hvað Þorvaldur hleypur við hlið okkur og þá hvarflaði að skrifara að hann hefði betur haft aðgát í nærveru sálar. En stundum hleypur manni svo kapp í kinn af hugsjónaástæðum að maður sést lítt fyrir. Þorvaldur brást snilldarlega við fram komnum sjónarmiðum með því að snúa þeim upp í umræðu um hvalavísindi, sléttbak, sem er með hreðjar upp á mörg tonn og mikla sæðisframleiðslu, svo mikla að af verður "sperm competition" meðal kvendýra. Mátti af þessari útleggingu skilja að það væri nánast náttúrulögmál óviðráðanlegt að þegar konan fer í eggjaframleiðslu verði ekki við neitt ráðið og hún skipi sér undir fyrrgreinda samkeppni um heppilegasta sæði, og má þá einu skipta hver fyrir valinu verður. Ekki verri kenning en hver önnur!

Hefðbundið á föstudegi þýðir Hi-Lux-brekka. Sá grunur læddist að skrifara að hún yrði erfið, en þegar til kom var ekkert mál að sigrast á henni og við fórum hana allir með glans. Staldrað við er upp var komið og gengið um stund. Í Hi-Lux berst hugsun manna alltaf að Ágústi okkar stórhlaupara. Hann var svo hugfanginn af Hi-Luxinum og því sem fram fór þar. En nú er hann bara meiddur hlaupari og allir sakna hans, einkum potthlaupanna frægu og skemmtilegu sem iðkuð voru í Kópavogi og nágrannasveitarfélögum. En það er víst svolítið langt í að haldin verði potthlaup.

Svo var hlaup tekið upp af nýju og farið um Veðurstofu, saung- og skák og Klambra. Ekkert bólaði á Denna og því var haldið áfram, Þorvaldur ákvað að fara Laugaveginn, en við Einar steðjuðum niður á Sæbraut. Skrifara lék nefnilega forvitni á að vita hvort Orkuveitan hefði skrúfað frá vatnsleka af fonti á Sæbraut, svo sem lofað var og upplýst var í fjölpósti á félaga Hlaupasamtakanna. Stóð eins og stafur á bók! Bunan há og myndarleg á Sæbraut og svalaði þorsta skrifara.

Við áfram alla leið að Hörpu, gengum þar, en hlupum áfram um Hafnarsvæði og hjá nýju hóteli sem starfrækt er við gamla Slippinn. Merkileg aðstaða hótels! Upp Ægisgötu, en það gleymdist að signa sig við Kristskirkju, við vorum svo djúpt sokknir í samræður. Eftir þetta var bara dól niður að Laug. Teygt á Plani eins og hefðin býður og hlakka menn til þess er vorið kemur og Jóginn fer að taka okkur í jógatíma.

Jæja, það var Pottur og góð mæting þar. Jörundur mættur og hafði þungar áhyggjur af afskiptum auðvaldsins af íþróttum í Vesturbænum. Mun áhugi hans trúlega beinast frá lúpínunni að kapítalískri misnotkun á íþrótt sem menn hafa stundað af hugsjón svo áratugum skiptir í Vesturbænum.

Góð mæting einnig á Ljónið að hlaupi loknu og menn þyrstir. Öl kneyfað af áfergju, sumir fengu sér Benna. Þarna voru skrifari og dóttir hans, Benzinn, Jörundur, Biggi, Denni, og svo dúkkaði Kaupmaðurinn upp og sagði okkur skemmtisögur úr Lundúnahlaupi. Skemmtileg kvöldstund. Í gvuðs friði.


Vá steðjar að - samkeppni hafin um hlaupara í Vesturbænum

Fyrr í dag barst sú frétt um Netheima að stofnaður hafi verið nýr hlaupahópur í Vesturbænum: KR-skokk. Ekki er hægt að amast við hlaupahópi með svo göfugt nafn, en þó kviknuðu ýmsar hugrenningar með skrifara er hann leiddi sér í hug tilganginn með stofnun hópsins. Spyrja má hvaða þörfum honum er ætlað að mæta sem Hlaupasamtök Lýðveldisins mæta ekki. Einnig má spyrja hver markhópur hinnar nýju hlaupahreyfingar er. Af myndum sem fylgja hópnum á Facebook virðist mega draga þá ályktun að þar fari ungir, grannvaxnir, glaðbeittir hlauparar, konur og karlar, sem stefni upp á við, fara lengra og hraðar. Þar verður bannað að baktala náungann, bannað að segja kjaftasögur, og blátt bann lagt við vísbendingaspurningum um bílnúmer og kosningaúrslit. Einungis talað um hlaup, vegalengdir, tempó o.þ.h. Þetta er í hrópandi ósamræmi við þann hóp er einna helst hleypur frá Vesturbæjarlaug reglulega: miðaldra, feitlagnir, vinalausir karlmenn sem alltaf gera allt eins og líður best illa. Persónufræðingar, ættfræðingar, gáfumenni. En í ljósi þess að KR-skokk hleypur á öðrum tímum en Hlaupasamtökin og munu ekki ógna intellektuellum yfirburðum Samtakanna í Vesturbænum munum við ekki fetta fingur út í starfsemina.

Í yfirlýsingu frá hinum nýja hópi segir að hlaupið verði á mismunandi hraða og má skilja það svo að enginn verði skilinn eftir. Já, takk! Herra Brandarakarl, kanntu annan? Hvað hefur maður ekki heyrt þessa yfirlýsingu oft? Enginn skilinn eftir?

Jæja, hvað um það. Stofnun nýs hóps hafði engin áhrif á einbeitta hlaupara Hlaupasamtakanna. Þeir mættu í tonnavís til hlaups. Mátti þar bera kennsl á S. Ingvarsson, Flosa, dr. Jóhönnu, Benzinn, Bjössa, blómasalann, skrifara, Þorvald, Hjálmar, Ósk, Ólaf Gunnarsson (gamlan hlaupara endurheimtan) og Björn bróður hans, Frikka Meló, Möggu, Pétur og Magga. Frikki nýkominn úr Lundúnamaraþoni og var í bata. Honum var fagnað, náði enda frábærum árangri ytra.

Á Plani voru ýmis plön uppi: heitstrengingar um Kársnes og langt, aðrir voru hófstilltari, Þriggjabrúa eða jafnvel bara Hlíðarfót. Blómasalinn fór í fylkingarbrjósti þeirra sem stigu á stokk og heimtuðu langhlaup, en skrifari var raunsær og taldi við hæfi að farið yrði Þriggjabrúahlaup. Blómasalinn ætlaði að fylgja dr. Jóhönnu, en með henni voru fleiri frambærilegir hlauparar eins og Pétur og Hjálmar.

Eitthvað virðist blómasalinn hafa misreiknað tempóið sem myndi duga til að fleyta honum á Kársnes með súper-hlaupurum eins og Jóhönnu, því að hann dróst aftur úr þegar á Hofsvallagötu. Og það sem meira er: hann virtist ekki hafa áhyggjur af þessari þróun mála eða sýna viðleitni til þess að bæta úr því sem upp á vantaði í hraða. Hann raðaði sér meðal öftustu hlaupara og virtist una hag sínum vel þar.

Skrifari var í millihópi með Benzinum og Þorvaldi. Það er ekki slæmur félagsskapur. Þrátt fyrir að sumir kunni að vera annarrar skoðunar eru þeir kumpánar hvorki verri né betri en hverjir aðrir hlauparar. Jú,jú, það er sosum hávaði og kjaftagangur, alla vega í Benzinum, en allt er þetta á réttri leið og má ætla að á Jónsmessu verði kominn á hlaupafriður í Samtökunum og menn geti hlaupið án þess að vera stöðugt með einhvern vaðal í eyrunum.

Þetta gekk giska vel þrátt fyrir allt. Við Benzinn tókum vel á því þrátt fyrir að vera þungir á okkur og tíminn leið hratt, við lögðum hvern malbiksmetrann á fætur öðrum undir sóla og áður en við vissum af vorum við komnir inn í Nauthólsvík. Þar var ekki stoppað heldur haldið á Flanir og var haft á orði að tilhlökkun væri að því að takast á við Boggabrekkuna, við myndum dröslast þetta á síðustu bensínlítrunum ef svo færi.

Við litum um öxl er komið var að Brekku og sáum hlaupara að baki okkur sem við þekktum, Flosa, Magga og blómasalann. Settum í overdrævið og tókum Brekkuna með trompi, ekki blásið úr nös er upp var komið. Þar gerðum við stutta tímajöfnun og leyfðum blómasalanum að ná okkur. Hann blés eins og fýsibelgur og hreytti út úr sér eitthvað um schnitzel í hádeginu. Þar var komin skýringin á því hversu hægur hann var í dag: hann hefur fengið sér schnitzel með frönskum og bernaise-sósu í hádeginu!

Jæja, Flosi náði okkur líka og saman var kjagað yfir Útvarpshæð og tekið upp létt skokk yfir um Hvassaleiti, yfir Miklubraut, út á Kringlumýrarbraut og svo niður eftir. Það var góður gangur í hlaupurum og við skiptumst á að hafa forystuna. Er komið var niður undir Sæbraut sást til Magnúsar og mátti furðu sæta að hann skyldi hafa kraft í að ná okkur, ekki það við færum eitthvað sérstaklega hratt.

Við tókum Sæbrautina með látum og linntum ekki látum fyrr en komið var að Hörpu, gengið hjá hljómleikahöllinni, en svo haldið áfram um Hafnarhverfi og upp Ægisgötuna. Ekki sást til hinna lakari hlaupara, eingöngu bræður tveir á ferð sem signdu sig er upp var komið að Kristskirkju. Og svo rólega til Laugar. Blómasali með allra dapurlegasta móti í dag og kvartaði yfir slæmsku í baki, en hélt að vísu um magann á sér til stuðnings gegn bakverkjum. Dr. Jóhanna kom á Plan um svipað leyti og við hafandi farið 17,8 km - en við 13,6 eða þar um bil. Og svo Hjálmar og Björn stuttu síðar. Þar er allnokkur munur.

Samtökin lögðu undir sig Barnapottinn og var þó Benzinn ókominn. Rætt um hlaup, vegalengdir, hraða, tíma, tempó og annað sem tilheyrir. Frikki fékk kastljós kvöldsins og sagði frá Lundúnamaraþoni, með samanburði við þau fjölmörgu önnur borgamaraþon sem hann hefur þreytt.

Frábær hlaupadagur í frábæru veðri og frábærum félagsskap. Meira á föstudaginn er kemur. Í gvuðs friði.


Dýrðardagur í Lýðveldinu

Hvern sunnudagsmorgun er hlaupið frá Vesturbæjarlaug kl. 10:10. Þar koma saman fulltrúar Hlaupasamtaka Lýðveldisins og taka léttan sprett á sama tíma og tekin er rispa á þjóðmálunum, menningarmálunum og kjaftasögunum. Að þessu sinni voru mættir Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Biggi, Benzinn og skrifari. Þeir áttu létt spjall við geðþekka sundlaugargesti sem mættir voru til að þreyta sund á þessum fagra degi en komu að lokuðum dyrum Laugar. Ekki er opnað fyrr en kl. 11 og má heita að sæti furðu, að Vesturbæingar skuli ekki fá aðgang að einni helstu auðlind þjóðarinnar, heita vatninu, fyrr en langt er liðið á dag. Þessu þarf að breyta.

Vitanlega var rabbað stuttlega um afmæli vinar okkar, Vilhjálms Bjarnasonar, en jafnframt um frammistöðu hans í Útsvari, sem var alveg með ágætum, utan hvað leikið atriði þótti under sygekassegrænsen. Spurt var: "Hver í Garðabænum heldur að Vilhjálmur geti leikið?" Jæja, við vorum svo sem ekkert að svekkja okkur á þessu en fórum af stað á léttu skokki.

Einnig var rætt um þátttöku félaga okkar í vormaraþoni í gær - og ekki síst þá sem taka þátt í London Marathon í dag, Frikka, Rúnu og Benna. Voru bundnar vonir um góðan árangur þessara frábæru hlaupara.

Þrátt fyrir að búið sé að gera sérstaka stíga fyrir hjólreiðafólk þráast það við að fara þar sem því er ætlað, en fer um göngu- og hlaupastíga, hlaupurum og gangandi vegfarendum til mikils ama. Bjarni tók til sinna ráða og las þeim sumum pistilinn og lá við handalögmálum í e-m tilvikum.

Við mættum dr. Einari Gunnari snemma hlaups, hann var í löngum göngutúr en stefndi að því loknu á Laug.

Í Nauthólsvík var stanzað og fyrstu sögur sagðar. Það er jafnan hátíðarstund þegar sagðar eru sögur í Víkinni, og vill dragast af þeirri ástæðu að menn taki upp hlaup af nýju, fetuðum okkur í átt að Flönum þegar menn mundu loks eftir að taka til fótanna.

Í Garði var gengið að leiði stofnanda og fyrsta formanns Víkings, nú man ég ekki nafnið, en hann var Andrésson. Þessu næst var haldið áfram og farið hefðbundið hjá Veðurstofu og um Hlíðar. Á Klambratúni rákumst við á Hirðsmið Kvisthaga og áttum við hann stutt spjall. Rætt um þök og viðgerð á þökum. Biggi kvaðst vera með ónýtt þak, en sagðist ætla bíða þangað til það yrði alveg ónýtt áður en hann skipti um.

Við tókum Sæbrautina og Hörpu, en Ó. Þorsteinsson breytir ógjarnan út af fornri venju og fór yfir Sæbrautina hjá Sjávarútvegshúsi og fór þá leið um Miðbæ. Við hinir um hafnarhverfið og upp Ægisgötu. Hjá Kristskirkju gera menn hefðbundinn stanz, taka ofan höfuðföt og signa sig. Svo var haldið áfram til Laugar. Teygt á Plani og eftir það farið í Pott. Það var varla þverfótandi fyrir börnum og útlendingum í Laug. Ef Laugin opnaði á eðlilegum tíma væri ekki þetta kraðak af fólki þegar fastagestir eins og Hlaupasamtökin mæta á svæðið.

Sem fyrr skiptist hópurinn í tvo potta: barnapott og Örlygshöfn. Hávaði í Benzinum og höfðu sumir á orði að það þyrfti hljóðkút á hann. Aðrir höfðu meiri trú á öðrum meðulum. Þarna var rætt af kappi um frambjóðendur til Forseta Íslands og sýndist sitt hverjum. En þó mátti ætla að menn teldu sitjandi forseta og hana Þóru Arnórs eiga mesta möguleika á kosningu.


Vináttan

Vináttan er einn meginþátturinn í starfsemi Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Það sáum við með áþreifanlegum hætti sl. laugardag þegar haldin var árshátíð Samtakanna í Viðey, þar sem saman voru komin 30 manns í gleðskap og fögnuði yfir sigrum síðastliðins árs, en aðallega vegna þess að maður er manns gaman (konur teljast líka með). Vináttan kemur ekki af sjálfri sér og lifir ekki af sjálfri sér, hún er þarna einhvers staðar í bakgrunninum, en hana þarf að rækta og efla. Forðast ber að leyfa illgresi minniháttar sjónarmiða að granda vináttunni. Ef menn höndla ekki aðstæður þar sem reynir á vináttuna ætti að forðast að koma sér í slíkan vanda.

Hvað um það. Fámennt í hlaupi dagsins. Fyrstur í Útiklefa var skrifari á nýju, ryðguðu Mongoose-hjóli. Svo komu Bjössi og Kári. Kári fór í sturtu og rakaði sig. Svo kom Einar blómasali. Fátt var með honum og kokkinum. Saman steðjuðum við þó til Brottfararsalar. Áður hafði skrifari spáð því að Denni myndi mæta vegna þess að hann eygði von um Fyrsta. Stóð eins og stafur á bók er mætt var í Sal. Kom ekki Denni kjagandi upp úr kjallara og horfði vonaraugum til okkar hinna. Hófust svo samningaviðræður um framhaldið, en lauk ekki að sinni.

Kári hljóp af stað segjandi að við myndum ná honum. Það sem Kári vissi ekki var að við ætluðum ekki sömu leið og hann. Við fórum á Nes. Kári fór hefðbundið. Á leið á Nes voru skransali, skrifari og blómasali og kokkurinn. Það voru einhver þyngsli í mannskapnum og fljótlega dróst skransalinn aftur úr okkur hinum. Bjössi setti upp tempóið og skildi okkur Einar eftir. Við vorum ekki að gera okkur rellu út af þessu, tókum því rólega, enda um nóg að tala. Ég sagði Einari sögu af æskuslóðum hans sem kannski verður sögð síðar.

Okkur varð hugsað til vinar okkar, Vilhjálms Bjarnasonar, sem er sextugur í dag. Við hugleiddum með hvaða hætti Hlaupasamtökin gætu komið á framfæri hamingjuóskum til hans án þess að valda misklíð. Engin niðurstaða.

Við Gróttu var dokað við og tímajafnað, beðið eftir Denna. Svo var haldið áfram. Denna var mikið niðri fyrir vegna kvótafrumvarpsins, enda er hann fulltrúi Útgerðarauðvaldsins í okkar hóp, sem sér þá ógn mesta að fólkið í landinu fái loksins notið arðsins af auðlindinni sem er sögn eign hennar. Það væri skelfilegt ef arðurinn rynni til þjóðhagslega hagkvæmra hluta, en ekki í vasa útrásarvíkinga sem vilja spekúlera með fjöregg þjóðarinnar í útlöndum.

Jæja, við kjöguðum þetta hjá Bakkatjörn og svo þá leið tilbaka. Athygli vakti að Seltjarnarnessbær er búinn að skrúfa frá vatni á hlaupaleiðum og streymir vel úr lindum. Farið um íbúðagötur, Lambastaðabraut og niður á Nesveg. Denni vildi sýna okkur tré með kirsuberjum, en ég veit ekki á hvaða efnum hann var þegar hann sá berin, trén fann hann engan veginn og var samt hlaupið fram og aftur blindgötuna. Komum loks til Laugar og sáum dr. Jóhönnu sem hafði lokið 28 km hlaupi eins og að drekka vatn.

Pottur flottur. Þangað mættu Biggi jógi og Anna Birna óhlaupin. Sagðir brandarar af ýmsum toga, en ritari minnist þess að hafa heyrt orðið "ljóshærð kona" koma fyrir í sumum þeirra. Skrifari ók hjólfák sínum heim á leið framhjá heimili blómsala, en var óðara boðinn inn að meðtaka bjór sem þar hafði verið á kælingu um nokkurt skeið. Blómasalinn er höfðingi heim að sækja og hjálpsamur í hvívetna.

Á morgun er víst eitthvert hlaup. Í gvuðs friði.


Síðasta hlaup vetrarins - þvílík hamingja!

Fámennt í hlaupi dagsins, síðasta dag vetrar, sem var fagur dagur: sól, bjart, tiltölulega stillt og allhlýtt, 8 stiga hiti. Þó lúmskt. Mættir: Bjössi, Flosi, skrifari, Maggi, Gummi, dr. Jóhanna og Snorri. Blómasalinn sást sitjandi úti í bíl með símann í hnefanum, trúlega að ljúka viðskiptum við fjarlægar álfur. Hann lét viðskiptin ganga fyrir hlaupum. Við biðum ekki. Lögðum í hann. Mættum Frikka Meló sem flautaði á okkur. Haldið niður á Ægisíðu.

Við Maggi einsettum okkur að fara Suðurhlíð hægt. Þvílík þyngsli á skrifara! Öndun þung og hröð, engin smá átök að flytja þennan 92,4 kg skrokk áfram, drösla honum áfram, liggur mér við að segja. En hér skyldi ekki gefist upp. Nú var að duga eða drepast. Og fyrr skyldi ég dauður liggja en gefast upp. Sem betur fer hafði ég félagsskap af Magga og Flosa, þeir virtust ekkert vera að flýta sér. Hinir löngu farnir, þetta er fólk sem talar um hvoru megin við 3:30 það lendir í maraþonum! Við, þessir vinalausu aumingjar, við erum sáttir við að ljúka maraþoni yfirleitt.

Jæja, það var fallegt veður og ástæða til þess að gleðjast yfir því að á morgun brestur á með sumri, dag tekur að lengja og farið að birta upp úr 5 á morgnana, þegar menn eru að tínast á fætur í Vesturbænum. Yfir þessu glöddumst við Magnús sérstaklega, menn morgunárrisulir, mættir í sund kl. 6:30 dag hvern.

Þetta var erfitt púl, því var ekki að neita. Fyrstu 4-5 km voru erfiðir, það var puðað og haft fyrir hlutunum, en erfiðið skilaði árangri áður en yfir lauk. Á Flönum var líðanin strax betri og við vorum sprækir neðan við Kirkjugarð. Þar rak á fjörur okkar góðan félaga, Inga Boga Bogason, aðstoðarskólameistara Borgarholtsskóla, mikinn KFUM-vin Magnúsar, söngfélaga og Vatnaskógs með öðru. Miklir fagnaðarfundir urðu með vinum og vináttan efld með góðu atlæti. Síðan héldu menn áfram. Við stóðum við ásetning okkar að fara Suðurhlíð.

Brekkan er á við Boggann, erfið. En við þraukuðum, tókum okkur gönguhlé er upp var komið, en hlupum svo áfram upp brekkuna að Perlu. Þar var aftur genginn smáspölur og svo ekki eftir það. Þvílík hamingja að ná upp góðri stemmningu og góðu tempói eftir að hafa verið í mínus um lengri tíma. Við tókum Hringbrautina með trompi, fórum hjá Háskólaakademíunni og þá leið tilbaka. Vorum ánægðir með gott hlaup.

Hittum Kára á Plani. Skipst á brandörum, m.a. þessum: Læknirinn við flugstjórann: "Hvenær höfðuð þér síðast samfarir?" "1950." "Er svo langt síðan?" "Læt ég það vera, klukkan er nú bara 20:20." Svo sagði Magnús brandara sem er líklega ekki hafandi eftir sökum pólitískrar kórvillu, en skrifari býðst til að segja völdum félögum ef eftir er leitað.

Fámennt í Potti, Kári sagði sögur frá Ástralíu. Er við vorum að fara upp úr kom blómasalinn, óhlaupinn með öllu og kunni ekki að skammast sín.

Á morgun opnar Laug kl. 9 - ástæða til að vekja athygli á því. Við kveðjum vetur og minnumst hans sem snjóþungs, óveðursvetrar sem bauð lítt upp á hlaup. Fögnum sumri og þeim ævintýrum sem bíða okkar á hlaupum og gönguferðum. Í gvuðs friði.


Erfitt að byrja aftur eftir árshátíð

Hlaupasamtökin héldu hina árlegu árshátíð sína í Viðey sl. laugardag, 14. apríl. Örlygur Hálfdánarson tók á móti okkur á Skarfabryggju og benti hópnum á kennileiti úr landi, Þórsnes, Kvennagönguhóla o.fl. 30 manna hópur flaut með ferjunni hans Tuma út í eyna og var kominn á augabragði yfir. Þar hélt kynningin áfram og benti Örlygur á ýmislegt merkilegt sem fyrir augu bar. Gengið til kirkju og sátu hlaupafélagar prúðir á bekkjum meðan Viðeyjarjarl talaði. Síðan var gengið um kúmenbrekkur, að minnismerki um Skúla fóveda, gengið austur eyna, skoðaðar húsarústir og barnaskóli. Skrifari bar það á Örlyg að hafa ævinlega komð of seint í skólann þrátt fyrir að hafa búið hinum megin við götuna. Kvað Örlygur það vera helvítis lygi.

Viskífleygar sáust á lofti, það hýrnaði yfir mönnum. Síðan var haldið í Vatnstankinn, félagsheimili þeirra Viðeyinga. Þar sló Bjössi kokkur upp dýrindisveislu með úrbeinuðu lambakjöti, meyru svo það bráðnaði á tungum viðstaddra. Ekki sló aðstoðarkokkurinn, Steinn Logi, slöku við og stóð sig með prýði og er verður verkalauna. Formaður til Lífstíðar setti hátíðina og flutti hjartnæm minningarorð um fallna félaga, þá Jón Braga Bjarnason og Ingólf Margeirsson, sem féllu frá á seinasta ári.

Síðan tók við mikil menningarvaka sem einkenndist af hófstillingu í öllum atriðum, en mikilli menningu, kurteisi, skemmtun og söng. Veður var með eindæmum fagurt, og mátti standa úti á palli langt fram eftir kvöldi, en þar stóð Lagavúlin-flaska í eigu Bjarna Benz og sýndu margir innihaldi hennar áhuga. Loks var tekið til við tiltekt og haldið heim er rökkva tók. Rusl allt fjarlægt og poki með flöskum og dósum. Kvaðst Eyjarjarl sjaldan hafa upplifað jafnmikla kurteisi og hófstillingu af hálfu gesta Viðeyingafélagsins. Vel heppnað kvöld og eftirminnilegt!

Jæja, sumir mættu í sunnudagshlaup daginn eftir - og sumir ekki. En á mánudegi var afskaplega fámennt: það var Þorvaldur, Flosi, blómasali, skrifari, Bjössi kokkur, Kári og Benz. Svo dúkkaði Ragnar upp eftir að hlaup var hafið. Lagt upp í leiðindastrekkingi og var skrifari frekar þungur á sér eftir schnitzel í hádeginu. Hélt í við þá hina í nokkur hundruð metra, en dróst svo aftur úr og fór inn í Skerjafjörð við Suðurgötu, út að Skítastöð og þaðan tilbaka vestur úr. Mætti Benzinum og saman skeiðuðum við tilbaka til Laugar. Þetta var ágætt hlaup svona í byrjun viku!

Svo var legið í Potti í klukkutíma og skrafað um flug og fleira. Ég fór með væmna vorvísu fyrir Benzinn sem er svona:

Þröstur minn, vorið og þú eruð eitt.
Þið berið ljós inn í sálarhró mitt.
Ég dillandi sönginn þinn dýrka heitt,
svo drullarðu á bílinn minn, helvítið þitt!

Haft eftir organista úr morgunpotti.


Þyngsli í slyddu

Þrátt fyrir slyddu var fjöldi hlaupara mættur til reglubundins miðvikudagshlaups frá Laug: Jörundur, Helmut, dr. Jóhanna, Magga, Björninn, Beta, Biggi,skrifari, blómasalinn, Maggi, B. Sævarsson, og einhverjir fleiri sem kennsl voru ekki borin á. Mikið rætt í Brottfararsal um árshátíð Samtakanna í Viðey n.k. laugardag. Mikil spenna fyrir þessum árlega viðburði.

Það var slydda er komið var út á Plan og blómasalinn teygði höndina upp í loftið með úrinu á, en við Jörundur gripum hana strax svo að það liti ekki út eins og Hitlerskveðja. Magga spurði hvað menn vildu gera, það var bara Þriggjabrúa, nema hvað? Við Jörundur vorum hæverskir og héldum okkur aftarlega ásamt með Bigga og Betu, þetta var Trabantklúbbur dagsins. Skrifari eitthvað þungur í dag, en kokkurinn í Arnarhváli bauð upp á grænmetis canneloni með spínati, mexíkóska kraftsúpu og salat. Frikki dró okkur uppi og skildi okkur eftir. Hann er á leið í London-maraþon.

Spurt var um skemmtiatriði á árshátíðinni. Ja, þar mun Formaður flytja ekki færri en þrjár ræður, hverja annarri skemmtilegri, með viðeigandi útúrdúrum og afbrigðum. Hér mun reyna á athyglisgáfu viðstaddra, en eins og menn vita er ekki öllum gefið að fylgja þræði Formanns þegar hann kemst á flug. Síðan má vænta þess að hvers kyns skemmtan verði höfð í frammi, söngur og gleði.

Nú, við kjöguðum þetta Trabantarnir og gekk bara bærilega. Aðrir voru löngu horfnir í snjóreyk. Við veltum vöngum yfir maraþonhlaupum og árangri félaga okkar í næstliðnum hlaupum, sem eru alla vega. Síðan var rætt um göngur á fjöll, t.d. Hvannadalshnjúk. Hvaða leyndarpukur var þetta á henni Ósk okkar hér um daginn? Hún kvaðst vera á leið á Hvannadalshnjúk með celebra manneskju. Það skyldi þó aldrei hafa verið hún Kate okkar Winslet? Fór í nístandi kulda á fjallið og stóð sig bara vel.

Er komið var í Nauthólsvík var okkur Jörundi orðið kalt og við nenntum ekki að halda áfram, snörum inn á Hlíðarfót. Biggi og Beta að baki okkur að teygja. Mættum hópi göngumanna sem gengu ákveðið á móti okkur og viku hvergi undan. Farið yfir hjá Gvuðsmönnum og þá leið tilbaka um Hringbraut, slakað á við Háskóla, en klárað með góðu hlaupi alla leið á Plan.

Teygt innan dyra. Þar dúkkaði upp Bjarni Benz og var kátt í vaskra drengja hópi. Rætt um bíla, mat og fleira. Haldið áfram undirbúningi árshátíðar. Góðir tímar framundan.


Engu logið á Einar

Marsmánuður var heldur dapurlegur að hlaupum hjá skrifara. Hlaupnir rúmir 40 km á einum mánuði og langt á milli hlaupa. Síðast hlaupið í Svíaríki fyrir tíu dögum. Þrálát meiðsli valda því að ekkert verður af samfellu og uppbyggingu. En á þessum sunnudagsmorgni skyldi tekið á því. Dagurinn var fagur og lofaði góðu, sól skein í heiði, stillt, hiti um 5 gráður. Mæting eftir því: Formaður, Þorvaldur, Jörundur, Magnús, skrifari, og svo bættust Magga, Gummi og Biggi í hópinn stuttu síðar.

Þegar svo langt er liðið frá því að frambærilegir hlauparar hittist var um margt að skrafa. Einkum hvarflaði hugur manna til ágætrar frammistöðu hans Villa okkar í Útsvarinu og voru menn stoltir af því að vera samtímamenn hans. Þá var einnig rætt um kvikmyndina 79 á Stöðinni sem sýnd var í sjónvarpi nýlega og tekin að einhverju leyti upp á æskuheimili hans Þorvaldar okkar við Dunhaga. Myndin þótti söguleg heimild um útlit Vesturbæjarins 1962 með fátæklegri byggð og ómalbikuðum, holóttum götum. Beint framhald af þeirri mynd var svo Mamma Gógó, þar sem Kristbjörg var komin með Allann.

Jæja, þar sem við erum komnir að Flugbraut heyrist hratt tipl. Það hljómaði kunnuglega í eyrum. Hver kemur ekki á hröðum spretti nema Einar blómasali og þeysist fram úr okkur. Við Jörundur vorum sammála um að þessi sprettur myndi ekki endast og hann myndi springa fljótlega eins og blaðra. Sem varð raunin þegar kom í Nauthólsvík, þá var Einar gangandi og sýndi engin tilþrif eftir það. Hér var engu logið á blómasalann.

Gummi og Magga voru enn með okkur er hér var komið en settu stefnuna á lengra eftir Flanir svo að við fórum okkar hefðbundna sunnudagstúr í Garðinn. Það eru alltaf hátíðlegar kyrrðarstundir í Garðinum og ekki lætin þar. Rifjuð upp ganga Hlaupasamtakanna á Fimmvörðuháls í sumar og óheppni Einars með gönguskóna og afdrif þeirra. Þetta var eftirminnileg ferð, ekki síst það að Biggi þurfti að rífa sig úr öllu við hvern foss fyrir myndatöku. Og skemmtileg kvöldstund í Skagfjörðsskála að göngu lokinni.

Framundan er spennandi árshátíð í Viðey nk. laugardag og eru margir spenntir að njóta leiðsagnar heimamanns um Eyna.

Farin hefðbundin leið um Veðurstofu, Hlíðar, Klambra og niður á Sæbraut. Menn leiddu hugann að því hvort Vilhjálmur okkar biði eftir okkur á reiðhjóli við kínverska sendiráðið, en svo reyndist ekki vera. Greiðlega gekk að komast yfir Sæbraut og hlaupið samfellt að Hörpu, um Hafnarsvæði, upp Ægisgötu og svo til Laugar. Nú var veður svo gott að það mátti teygja úti á Plani og ræða við aðsteðjandi laugargesti sem voru margir.

Það er til vansa að Laug opnar ekki fyrr en kl. 11 á sunnudagsmorgnum. Það þýðir að alltof margir þyrpast til Laugar á sama tíma um hádegisbil, sem skerðir lífsgæði hlaupara í Hlaupasamtökunum. Í stað þess að geta lagt heilan pott undir okkur og gáfumannahjal okkar um bílnúmer og kosningaúrslit, slitnar hópurinn í tvennt, annar hírist með eldri borgurum í Örlygshöfn, en hinn með ómálga börnum í Barnapotti. Ekki gott. Þannig skortir alla heildarsýn á umræður dagsins.

Næst er reglulegt hlaup á miðvikudag. Í gvuðs friði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband