Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Fegurð og vinátta í Fossvogi

Hópur einvalahlaupara mættur til hlaups og mátti vart á milli sjá hvaða andlit lýsti mestri gleði og eftirvæntingu. Er eitthvað skrýtið að maður taki vart á heilum sér allan daginn í aðdraganda hlaups af einskærri hamingju yfir því að vera að fara að hitta félagana og spretta úr spori á nýjum skóm, á góðum degi, í góðu veðri, á þéttri undirstöðu, með hafið andandi við Ægisíðuna, mannlífið blómstrandi í görðum og á gangstéttum, hvarvetna blasa við myndir sem minna á endurnýjun lífsins, gróandann og vaxtarmegn náttúrunnar? Er hópurinn mjakaðist af stað varð á vegi okkar kampavínslit jeppabifreið R-158 sem hægði á sér, út um rúðuna spennti ökumaður upp skjáina og taldi sauði sína. Engin leið að ráða við sig á degi sem þessum, Benedikt og blómasalinn ráða sér ekki og spretta úr spori. Ritari telur að þetta geti ekki enst lengi. "Hversu lengi?" spyr Margrét. "2 km" spáir ritari. Hann reynist sannspár. Þeir eru stopp við Drulludælu.

Áfram veginn, engin leið að hætta. Prófessor Fróði reynir að æsa menn upp í langt, helzt 30 km - og alls ekki styttra en 22. Menn taka þessu vel - en þjálfarar eru fastir í einhverju sem þeir kalla "hefðbundnu" miðvikudagshlaupi - Þriggjabrúa! Eins og það sé aldrei hægt að breyta til! Eftir 2 km spyr Benedikt hvort ekki sé ætlunin að taka tempó. Rúnar kveður jú við, en hann sé maður gamall og þurfi að hita upp fyrst. Ritari áréttar að ávallt beri að hlaupa að lágmarki 5 km áður en menn taka tempó.
 
Í Nauthólsvík eru blómasalinn, Flosi og prófessorinn á undan ritara og Þorvaldi og skammt undan eru Rakel og Dagný. Hér heimtar ritari sjóbað. Menn taka því ekki ósennilega, en niðurstaðan verður engu að síður sú að bíða með það enn. Hér vantar fólk eins og Gísla, dr. Jóhönnu og Helmut - þeirra er sárt saknað! Dömurnar og Þorvaldur stytta um Hlíðarfót, en aðrir áfram. Þegar komið er yfir Kringlumýrarbraut sézt að Flosi fer upp brekku hjá Bogga, en prófessorinn lónar við stjóra. Hópur hlaupara kemur á móti okkur, líklega bæði Laugaskokk og ÍR-hópur, m.a. Sif Jónsdóttir langhlaupari. Prófessorinn situr fyrir okkur blómasalanum og hefur okkur greinilega grunaða um gæzku.

Hér er gerður stanz og menn velta vöngum. Hvert á að fara? Niðurstaðan sú að við blómasali förum Stokk, en prófessorinn lengir í 20 km. Við niður hjá Bununni vestast í Fossvogi, hún er enn mannhæðarhá og mikið vatn að hafa. Nú tekur við einhver fegurstur hlaupakafli í gervallri Reykjavík, hér er jafnan gott veður, fagurt mannlíf og hér dafnar vináttan manna í millum. Við fórum fetið félagarnir og manni varð hugsað til þess hvað maður væri ríkur að eiga svona góða vini sem legðu það á sig að þrælast með mann bæjarenda á milli og hlusta á þvaðrið og kvabbið í manni!

Út í hólmann og yfir tilbaka. Við upp Stokkinn, en Ágúst norður úr, út á Langholtsveg og niður að sjó. Síðan hélt hann sem leið lá og linnti ekki ferð sinni fyrr en í Ánanaustum, svo tilbaka til Laugar um Grandaveg, Víðimel og Hofsvallagötu. En við Einar fórum Stokkinn og tókum vel á því, ræddum m.a. um löggiltar iðngreinar og mismunandi hæfni- og þekkingarkröfur í ólíkum iðngreinum.

Upplýst að n.k. laugardag fer fram samskokk hlaupahópa í Reykjavík frá Árbæjarlaug. Eru félagar hvattir til að fylgjast með starti á Hlaupadagbókinni.

Nýir skór vekja aðdáun og öfund

Það vekur jafnan aðdáun þegar hlaupafélagi mætir á nýjum skóm til hlaups. Á því varð engin undantekning í dag þegar ritari kom íklæddur nýjum Asics Nimbus Gel 11 og var heldur betur reffilegur. Þó varð vart við öfundarraddir inn á milli og Einar blómasali heimtaði að fá að máta skóna. Ekki var léð máls á slíku, enda blómasalinn smáfættari en ritari. Rifjaðar upp senur úr eftirminnilegum kvikmyndum, m.a. Peter Sellers myndum. Mættir auk blómasala og ritara Bjössi, Kári, Flosi, Þorvaldur, Rúnar, Margrét, Ósk, Gerður, Jóhanna, Haraldur, Melabúðar-Friðrik, Benedikt og Flóki.

Það var sett upp þétt prógramm fyrir viljuga hlaupara, farið hratt inn í Öskjuhlíð í blíðviðri, þar sem við tókum 7 spretti í brekkunum. Búið er að loka fyrir flestar helztu akstursleiðir svo að nú er hægt að hlaupa ótruflað fyrir bílaumferð. Ýsa með hömsum er ekki góður undirbúningur fyrir hlaup; enn síður ef menn fá sér þrisvar á diskinn, eins og blómasalinn gerði í hádeginu. Hann sprakk eftir einn sprett og fór Hlíðarfót tilbaka.

Þegar upp var staðið voru farnir rúmir 12 km á allnokkrum hraða, góður undirbúningur fyrir langt eða meðallangt á miðvikudag.

Föstudagshlaup - fámennt; Sunnudagur enn fámennari

Ritari tafðist í símanum og átti þess ekki kost að þreyta hefðbundið föstudagshlaup með félögum sínum eins og hann hefði viljað. En hann var þakklátur fyrir auðsýnda samúð og stuðning sem mætti honum er hann loks mætti til Laugar um það bil er hlaupi lauk og fann þar fyrir á fleti próf. dr. Ágústus Frodius og Bjarna Benz. Þeir teygðu í miklum ákafa og sögðu frá fámennu hlaupi. Það var farið í pott og þar rákumst við á Melabúðar-Frikka sem er orðinn einn alsherjar mannvinur í Vesturbænum og góðvinur leikskólabarna ef marka má myndir sem hanga uppi um alla Laug. Friðrik vissi ekki af þessari nýju stöðu sinni og var upprifinn. En hann var líka niðurrifinn, því hann er rifbeinsbrotinn og hljóp þanninn 20 km í Parísarmaraþoni, lenti í átökum við einhverja vitleysinga og fattaði ekki fyrr en eftirá að hann væri brotinn.

Jæja, hver mætir, ef ekki sjálfur blómasalinn, óhlaupinn, og taldi sér til afsökunar að honum bauðst flug til Ísafjarðar sem hann gat ekki sleppt. Stuttu síðar mætti dr. Einar Gunnar og eftir þetta var kátt á hjalla í potti.

Nú segir næst frá hlaupi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins að morgni sunnudags þegar þessir mættu: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur og Einar blómasali. Nú var ritari lasinn og gat aðeins með herkjum komið sér til potts. Þeir standa í Útiklefa Ólafur Þorsteinsson, Einar blómasali og Stefán Sigurðsson verkfræðingur og kjaftar á þeim hver tuska. Blómasalinn náði vart upp í nef sér af hneykslun yfir útlendingum sem hefðu elt uppi veizlurnar á Sumardaginn fyrsta sem verzlanir stóðu fyrir, m.a. grillaðar pylsur í Byko. Þar hefðu þeir raðað sér upp og raðað í sig pylsunum og endað með því að taka nesti. "Svona hegða sér þessir menn þegar þeir fá eitthvað ókeypis!" sagði blómasalinn æstur og það sló mig að stundum hreykja ónefndir menn sér af því að hafa getað farið með alla fjölskylduna í ókeypis morgunverðarhlaðborð á Golfdögum hjá Heklu, án þess að vera Golfeigandi. "Ég á bjöllu," afsakar hann sig gjarnan með.

Í potti auk framangreindra Mímir, dr. Einar Gunnar og frú Helga. Umræðan fór um víðan völl, borgarstjórnarkosningar, nýlega genginn dómur í máli höfðuðu gegn ónefndum dýralækni sem skipaði héraðsdómara með vafasömum hætti, nokkuð um drykkfellda lækna og ættir manna og heilsufar.

Næst hlaupið í Hlaupasamtökunum mánudag kl. 17:30.  

Sumardagshlaup frá Laug til Laugar

Sumardaginn fyrsta er jafnan hlaupið í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Af þeirri ástæðu var ritari mættur til Laugar stundvíslega kl. 10 og var hissa að sjá engan af félögum sínum á staðnum. Hafði að vísu séð til Jörundar hlaupandi á Hagamelnum, líklega 16 km hlaup. Sendi blómasalanum boð um hlaup 10:10, en hann kaus að hunza boðið, kvaðst vera að vinna! Mjög líklegt! Hefur trúlega verið mættur á stuttbuxum í skrúfgönguna frá Hagatorgi. Þarna var æskufólk úr sunddeild KR að selja kaffi og vöfflur til stuðnings starfi sínu. Mökkur af sundgestum á Plani, aðallega gamalmenni. Ég tíndi á mig hlaupagírið í þögn og lagði í hann í góðu veðri, stillt, sólskin en frekar svalt. Ekki fyllilega ákveðið hvert haldið skyldi, en áhugi á Goldfinger. Þetta yrði leikið af fingrum fram.

Fáir á ferð, þrátt fyrir að veður byði upp á frábæra útiveru. Ritari fann á sér að hann ætti inni fyrir löngu og fór að hugsa til brekkunnar upp í Smiðjuhverfið í Kópavogi. Hlaup gekk vel og kunnuglegar slóðir að baki. Búið að opna fyrir vatnsfonta víða á leiðinni. Er komið var niður í Fossvoginn blasti við mannhæðarhá buna úr nýjum fonti og mætti buna annars staðar taka mið af því.

Farið upp úr Dalnum og um Smiðjuhverfi, yfir í Breiðholt, Elliðaárdal og upp að Laug. Dokað við og fyllt á brúsa. Svo aftur niður úr. Yfir Elliðaár, undir Breiðholtsbraut og um Laugardalinn tilbaka. Ótrúlega fáir hlauparar á ferli í þessu góða veðri, e.t.v. hafði ÍR-hlaup eitthvað með það að gera. Það var lokið við hlaup með glæsibrag og þreyttur en ánægður hlaupari sem skellti sér í pott á eftir.

Næst trúi ég að hlaupið verði á morgun, föstudag, kl. 16:30.

Þeir sögðu að það hefði verið Jóhanna, eða: blómasali fær fræðslu um gamlan texta

Þetta varð sögulegt. Kalt í veðri, 2ja stiga frost og kuldanæðingur, en þó bjart yfir. Mættir valinkunnir hlauparar og hetjur frá París: Rúnar, Margrét, Benedikt, Einar blómasali, og svo við hin, ritari, Flosi, Þorvaldur, Magnús, dr. Karl, dr. Friðrik, Karl af Brimum, Jóhanna (eða svo sögðu þeir, ég veit hins vegar ekki að greina á milli Jóhönnu og Gerðar, því er þetta getgáta). Jæja, það var óskað fólki til hamingju með góðan árangur í París, enda hefur þetta lið ekki látið svo lítið að sýna sig að hlaupum síðan þau komu tilbaka. Margar nýjar upplýsingar komu fram þegar við upphaf hlaups.

Það var sosum ekkert nýtt að þegar hlauparar í París fóru á steikarstað eftir hlaup þar sem bjórinn kostaði 9 evrur, þá fór blómasalinn yfir á MacDonalds, pantaði ostborgara á 2 evrur, heimtaði ókeypis poka undir hann og hljóp með réttinn yfir á steikarstaðinn og snæddi innanum hlaupara sem átu 15 evru steikur og drukku 10 evru bjóra með. Þessu sagði blómasalinn stoltur frá. Hitt er nýtt að karlinn eyddi laugardeginum í búðaráp og notaði við það upp mikla orku sem hefði betur verið geymd fyrir sjálft hlaupið, kannski það hefði náðst sæmilegur árangur þá. Þannig gekk dælan í hlaupinu.

Jæja, planið var að fara upp á Víðimel, að Dælu og á Nes. Þorvaldur hlustaði náttúrlega ekki frekar en fyrri daginn. Var vitlausu megin við Hofsvallagötu og virtist ætla stytztu leið á Nes, en gætti þó að því hvert við ætluðum. Kom svo yfir til okkar á móts við Víðimel og fylgdi okkur, eða réttara sagt, var fremstur meðal jafningja á Suðurgötu. Um það leyti hljóp ég með Benedikt og sagði hann mér í löngu máli frá framferði blómasalans í París. Mætum við þá ekki hlaupara sem gerði sig breiðan og ekki líklegan til að víkja. Við í Hlaupasamtökunum erum ekki heldur þekkt að því að víkja. Þannig að það var bara um það að ræða að spenna fram kassann og sýna breiðfront. Téður hlaupari fékk heldur betur ástæðu til þess að sjá eftir afstöðu sinni, því að hann mætti ritara í öllu sínu veldi, skullu þeir saman og við það kastaðist hlaupari þessi langt út á Suðurgötu og var næstum lentur undir bíl. Mun hann að líkendum hugsa sig tvisvar um áður en hann býður Samtökum Vorum birginn.
Jæja, áfram. Þær hindur voru áfram léttfættar og það var stefnt áfram Fjörðinn. Staldrað við Drulludælu og beðið eftir eftirlegukindum. virðist sem Jóhanna sé ein í prógrammi, aðrir léttir á bárunni. Hún spretti úr spori, aðrir á eftir á dóli. Það var derringur í blómasalanum og hann gerði sér far um að fylgja félögum sínum frá Ódáinsvöllum, en svo sprakk hann og var þá mikið hlegið í mínum hópi. Hann kvaðst vera veikur og viðurkenndi að hann hefði hljómað eins og Andrés Önd að morgni dags. Af því tilefni rifjaði ritari upp þetta ljóð sem blökkusöngkonan Bessie Smith flutti árið 1933 og varð vinsælt:

If you want to have some luck
give your baby your last f...k
don´t come quacking like a duck
do your duty.

Það dugar sumsé skammt að koma kvakandi eins og önd. Jæja, áfram var haldið. Benzinn hafði blandað sér í málin einhvers staðar á leiðinni og þá fara hlutirnir jafnan að gerast. Það er hávaði, það eru sögur. Blómasalinn var við það að gefast upp, en við drifum hann áfram. Við Hofsvallagötu kvaðst hann uppgefinn. Á þetta var ekki hlustað og við nánast héldum á honum gegnum Skjólin. Út að Vegamótum og svo um Rauðvínshverfið tilbaka, Einar rifjaði upp æskuminningar úr hverfinu þar sem hann var frægur Skelfir.

Fjöldi baðgesta í Laugu, svo að við urðum að láta okkur nægja barnapott. Þangað mætti dr. Einar Gunnar og spannst fróðleg umræða um eldgos og málfar. Eitthvað rætt um mat. Flosi og Benzinn mættu í pott með munna fulla af súkkulaðikúlum og olli það blómasalanum slíkri hugarraun að hann hvarf á braut - vonsvikinn. Það hefði hann ekki átt að gera því að fljótlega flæddu súkkulaðikúlur út um allt. Skerjafjarðarskáldið heiðraði okkur með nærveru sinni og flutti ljóð. Rætt um kollubana. Næst hlaupið á miðvikudag. Langt.


Hlaupið á sögulegum tímum

Á tímum uppgjörs og endurskoðunar gegna Hlaupasamtök Lýðveldisins lykilhlutverki í greiningu og miðlun upplýsinga. Til hlaups á sunnudagsmorgni voru mættir Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Flosi, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur ritari. Magnús strax byrjaður að leita undankomuleiða eða afsakana fyrir styttingu og gátu menn sér til að hann ætti lista heima með afsökunum: þarf að hitta mann, þarf að fara í messu, þarf að fara á Kirkjuráðsfund o.s.frv. Nú brá svo við að frú Sigurlína var með og staðfesti að hann ÆTTI að hlaupa fullan hring í dag - og engar afsakanir! Nei, nei, Magnús sagðist hafa mælt sér mót við mann.

Gríðarlega efnismikið hlaup vegna hinna dramatísku atburða í stjórnmálalífinu í gær þegar tvær forystukonur  kvöddu vettvang stjórnmálanna með tárum. Um þetta var rætt og fleira í upphafi hlaups, en þó einkum um stakketið og fólk sem dvelst ýmist hérna megin að hinu megin stakkets. Farið rólega yfir eins og jafnan á sunnudögum. Rifjaðar upp sögur úr eldri hlaupum. Sumir hlauparar sáu viðtal við Melabúðar-Frikka á ÍNN í vikunni, og var áhyggjum lýst af útganginum á honum. Sagt frá Háskólahlaupi sem var þreytt sl. föstudag undir stjórn Ó. Þorsteinssonar og var heldur fámennara en á seinasta ári.

Fastur þáttur á sunnudögum er spurningaþátturinn Hvað er nýjast af Vilhjálmi? Undir þeirri rúbríkku greinir Ó. Þorsteinsson frá seinustu símtölum og svo reyna menn að geta í eyðurnar og draga fram mynd af tilveru þessa félaga okkar sem hleypur einn í fjarlægri kommúnu í stað þess að blanda geði við okkur, vini sína. Við dóluðum þetta hefðbundið um Nauthólsvík og Kirkjugarð. Það ber meira á því nú en áður að menn sleppi hefðbundnum stoppum. En það sáum  við frændur og Magnús um að yrði virt.

Er komið var að samkomuhúsi frímúrara kom í ljós aðstreymi meðlima á leið á neyðarfund og var ekki erfitt að geta sér til að fundarefnið yrði forystukreppan í Sjálfstæðisflokknum. Við áfram á Sæbraut þar sem við hittum ónefndan fréttamann á Ríkisgufunni sem svaraði greiðlega fyrirspurnum okkar frænda um aðila sem nýlega hafa verið í þáttagerð og vakið forvitni okkar.

Teygt stutt á Plani og svo farið í Pott. Mættir dr. Baldur og dr. Einar Gunnar ásamt frú Helgu. Ekki þarf að koma á óvart að helztu umfjöllunarefni voru Skýrzlan og Askan. Einnig rætt um lata eiginmenn sem eiga kort í líkamsræktarstöðvar en fást ekki til að róta sér af sófanum og telja það næga líkamsrækt að hreyfa kjálkavöðvana til að tala eða tyggja.

Í gvuðs friði. Ritari. 


Kvaran er ilskór

Í Njálu í útgáfu Jóns heitins Böðvarssonar er að finna eftirfarandi orðskýringu: kvaran = ilskór. Kvaran er tilgreint sem viðurnefni á írskum baráttumanni. Jón var lagður til hinztu hvílu í dag. En í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar safnaðist saman nokkur fjöldi hlaupara, eða nánar tiltekið þessir: Jörundur, Bjössi, Magnús, Flosi, Kári, Sigurður Ingvarsson, Ósk, Ólafur ritari, Anna Birna og Bjarni Benz. Jörundur var með tilgátu um hvað hefði skilað Einari blómasala þessum góða árangri í Parísarhlaupi. Þar ætti frú Vilborg allan heiðurinn því hún sýndi þá forsjálni að snoða kappann áður en hann lagði upp í ferð sína. Þetta varð til þess að hann var bæði léttari í hlaupinu sjálfu og mætti minni mótstöðu en ella hefði orðið.

Það voru bara þessir hlauparar, að viðbættri Rakel, sem kom seint. Við lögðum upp og vorum opin fyrir öllu í góðviðrisblíðu, það var nánast logn, 10 stiga hiti og jafnvel sól á köflum. Menn urðu að fækka fötum á leiðinni til þess að kafna ekki úr hita. Ýmislegt í boði, Hlíðarfótur, Suðurhlíð og Þriggjabrúahlaup. Ritari veit að segja frá því að hann, Jörundur, Benzinn, S. Ingvarsson, Ósk og Flosi fóru Þriggjabrúahlaup og það á töluvert hröðu tempói. Það hvarflaði að manni að fara í sjóinn, en af því varð ekki. Þó hlýtur að koma að því að ekki verði undan því vikist að skella sér í svalandi Atlanzhafsölduna. Hér sakna menn skörunga á borð við Gísla Ragnarsson sem heldur reglu á hlutunum.

Eftir brekkuna erfiðu við Boggann var gefið í og þar stjórnaði Benzinn ferðinni, en þau Flosi, Ósk og Siggi voru horfin okkur. Við tókum góðan þétting frá Miklubraut og niðurúr. Við Jörundur drógumst aftur úr þar eð Benzinn sýndi mikinn glæfraskap við að koma sér yfir umferðaræðar. Svo sáum við að hann náði með ótrúlegum krafti að draga Flosa uppi á Sæbraut og eftir það sáum við Jörundur jafnan til þeirra, allt þar til er þeir hurfu okkur á Geirsgötu, en við fórum um Lækjargötu og Hljómskálagarð, en höfðum tekið góðan þétting á Sæbraut.

Plan og Pottur eftir fastri reglu, en á miðvikudag verður tekið á því - stemmning hlýtur að vera fyrir Goldfinger og Breiðholti. Mæta Parísarfarar? Nauðsynlegt er að skipa afmælisnefnd til þess að undirbúa 25 ára afmæli Hlaupasamtakanna. Spurning hvort það verði gert með veizlu kringum Samskokkið í sumar?  Pæling.

Á Signubökkum

Félagar okkar hlupu í dag um Ódáinsvelli og á Signubökkum með eftirfarandi árangri:

Rúnar Reynisson: 2:59:00
Margrét Elíasdóttir: 03:10:45
Benedikt Sigurðsson: 03:12:21
Eiríkur Magnús Jensson : 3:14:21
Friðrik Ármann Guðmundsson: 3:22:30
Einar Þór Jónsson : 03:43:24
Rúna Hvannberg Hauksdóttir 4:11:51


Við óskum þeim til hamingju með gott gengi.

Á sama tíma var runnið hefðbundið sunnudagsskeið um Sólrúnarbraut. Valinkunn góðmenni í Vesturbænum fundust við Laug og áttu góðan hlaupasunnudag. Þessir voru: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Jörundur og Ólafur ritari. Veður gott, hiti um 7 stig og hægur vindur. Hlauparar sendu góða strauma yfir hafið til félaganna í París og óskuðu þeim alls hins bezta í átökum dagsins. Ýmislegt fór manna á milli í Brottfararsal sem ekki verður haft eftir hér.

Menn sögðu fréttir af skemmtanahaldi helgarinnar, sem var í alla staði hófstillt. Ýmsir aðilar hafa mjög sett sig í samband við Ólaf Þorsteinsson upp á síðkastið og óskað eftir upplýsingum frá honum um aðskiljanleg atriði, enda er hann maður fróður og upplýstur um persónur og atburði í nútímanum. Þannig var hlauipið með hefðbundnum stoppum og verður að segjast að hlaupið hafi í alla staði verið hefðbundið. Eina afbrigðið kom á Geirsgötu þegar ákveðið var að fara um Austurvöll og upp Túngötu. Þar hitti Ólafur Þorsteinsson mann sem hann VARÐ að tala við og missti því af okkur. Er komið var til Laugar gat hann þó engan veginn munað hvað maðurinn hét, en sá reyndist vera Eiríkur Guðmundsson, umsjónarmaður Viðsjár og mun á næstunni birta bókmenntalega greiningu á Þegar kóngur kom - bókinni sem er skyldulesning allra þeirra sem hafa borið gæfu til þess að útskrifast með studentexamen úr Reykjavíkur Lærða Skóla.

Pottur vel mannaður með helztu fulltrúum Samtakanna án hlaupaskyldu. Næsta hlaup á morgun, mánudag, kl. 17:30.


Hlaupið í suðaustanstrekkingi

Maður 1 lá í sófa sínum heima í stofu og las þunga bók. Frúin kemur heim úr vinnunni og fer að barma sér yfir löngum og erfiðum vinnudegi á stofnuninni. Þegar hún er búin að láta dæluna ganga góða stund segir maðurinn: "Hvað er í matinn?" Eftir þetta gengur maðurinn með lillablátt glóðarauga vinstra megin og telja kunnugir að hann hafi misst bókina í andlitið á sér.

Um þetta var rætt og margt fleira í Brottfararsal fyrir hlaup dagsins, m.a. afmæli Magnúsar hér um daginn. Fámennt en góðmennt, og var Denni af Nesi mættur. Auk hans Flosi, Ágúst, Björn, Ósk, Jörundur, Ólafur ritari, Þorvaldur, Rakel (kom síðar), Magnús - líklega ekki fleiri. Nú var frelsið algjört, og fengum við að ráða okkur að öllu leyti. Parísarfarar farnir og þreyta hlaup sitt á sunnudag, við munum fylgjast með.

Ákveðið að fara bakgarða í 107 enda langt síðan að það var gert síðast. Vindur á suðaustan og því ágætt að fresta því að takast á við mótvindinn. En ekki var því frestað lengur að fara í stríð er komið var út á Suðurgötu. Þetta var leiðindastrekkingur til að byrja með, en þegar komið var framhjá Dælu brast á með slíkum strekkingi að það var meiriháttarmál að halda áfram. En við helztu drengirnir fengum skjól af Ósk sem hljóp eins og herforingi á þessari leið. Erfitt og leiðinlegt hér. Við hefðum viljað hafa almennilegan snjóstorm i staðinn, að ekki sé talað um sandrok eins og var hér um árið þegar maður mætti sandblásinn tilbaka eftir hlaup.

Jæja, það var Hi-Lux og brekka. Við vorum þarna prófessorinn, Flosi, Björn, Ósk og ritari - aðrir eitthvað aðeins á eftir okkur. Svo var gefið í og farið um Veðurstofu, Söng- og skákskólann, Klambratún og þá var brostið á logn. Hlemmur og Sæbraut. Þá hafði undirritaður dregist aftur úr - sem var allt í lagi því að tempóið var allhratt.

Komið tilbaka til Laugar og teygt  á Plani. Þá kom þar að Rakel, sem hafði misst af upphafi hlaups. Pottur og galgopaháttur. Lögð drög að Fyrsta Föstudegi. Þorvaldur bað um frestun, en ekki var unnt að koma til móts við óskir hans. Menn voru einbeittir í því að láta ekki dragast frekar að halda hátíð í hópi vorum, ekki er vanþörf á.

Eftir hlaup var steðjað á Ljónið og innbyrtir ljúffengir borgarar og mikið drukkið með. Valinkunnir hlauparar mættir og voru lögð drög að frekara skemmtanahaldi.

Farið langt með einum alvitlausum

Ekki það bitnaði á mér, en ég vorkenndi prófessor Fróða að þurfa að hlaupa með honum. En tildrögin voru þau að safnast var saman til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á miðvikudegi eftir páska. Parísarfarar ætluðu Aumingja með snúningi, en við hinir ætluðum langt, höfðum á orði Goldfinger og Stíbblu. Mættir Einar blómasali, Eiríkur, Frikki Meló. Bjössi kokkur, Magnús hinn sextugi, Ágúst, Ólafur ritari, Tom, Ragnar, báðir þjálfarar, Benedikt, og Kári - og tvær konur sem mig vantar nöfnin á.

Það var Víðimelur og það var Dæla, við helztu drengirnir og Ósk héldum áfram, en þau hin ætluðu að sprikla í sprettum og enda á e-m 8 km. Jæja, hvað gerist við flugvöll? Kemur ekki S. Ingvarsson hlaupandi á móti okkur alhress, líklega búinn að hlaupa að heiman úr Grafarvogi, snerist á sveif með okkur og sneri við. Þeir skildu ritara fljótlega eftir einan og var það að líkendum: okkar maður bæði þungur á sér eftir páskana, illa sofinn og án næringarvökva. Auk þess hafði verið farið óþarflega hratt út.

Það verður að segja prófessor Fróða til hróss að hann fór hvers kyns þríhyrninga og lykkjur til þess að koma til móts við hæga ferð ritarans, en allt kom fyrir ekki, þeir hreinlega gátu ekki farið svona hægt yfir. Þeir voru tveir saman, prófessorinn og Tom. Varð það sögulegt. Hlutverk prófessorsins var það að halda aftur af hinum, sem átti það til að rjúka af stað á spretti í miðju hlaupi þegar átti að fara jafnt og rólega yfir. Þá átti hann til að henda sér niður á tvo fingur og taka tuttugu armbeygjur. Hann vildi fara þrjátíu, prófessorinn gekkst inn á að fara 24, upp að Stíbblu um Goldfinger eða þar um bil.

Jæja, ég náði þeim við Víkingsvöll og við lögðum í brekkuna góðkunnu. Hún er gamalkunn og erfið. En maður þrælaðist þetta og hélt áfram framhjá Goldfinger, undir Breiðholtsbraut, en sneri svo niður í Elliðaárdal í stað þess að fara upp í Breiðholtið og þá leið. Ég fann að ég myndi ekki klára meira en 20 í dag. Mætti fullt af hlaupurum, bæði í Fossvogi og í Elliðaárdal, þekkti einungis Sif Jónsdóttur langhlaupara.

Til að gera langa sögu stutta skal viðurkennt að þetta reyndist afar erfitt hlaup af framangreindum ástæðum, auk þess sem það kólnaði þegar leið á kvöld og það varð erfiðara að fá fæturna til að hlýða. Lauk 20 km hlaupi á rúmum 2 tímum og var dauðþreyttur á eftir. Teygðum vel í Móttökusal og hittum Benzinn þar, sem hafði enga skýringu á veru sinni þar, því ekki var hann að hlaupa. Meiri tiktúrur í Tom og heyrði ég það seinast og sá til þeirra prófessorsins, að prófessorinn var kominn niður í armbeygjur og hinn byrjaður að djöflast í honum með að styðja fæti á bak honum og prófessorinn hrópaði: "Nei, enga vitleysu, Tom!"

Á föstudaginn er kemur er Fyrsti Föstudagur samkvæmt réttu tímatali Hlaupasamtakanna. Hvað menn athugi.



Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband