Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Af gömlu fólki

Hinn 12. nóvember n.k. verða liðin 100 ár frá andláti lang-langafa okkar Ólafs Þorsteinssonar, Ólafs bæjarfulltrúa Ólafssonar og Danabrókarmanns, fædds 1831. Um þetta var rætt er við frændur hittumst framan við Vesturbæjarlaug, sem enn er lokuð á sunnudögum til kl. 11 og enn drífur fólk að sem ekki veit af því. Við vorum tveir einir að hlaupi líkt og síðasta sunnudag, og var þó ekki hægt að kvarta yfir veðri. Við dokuðum við um stund, en héldum svo af stað í hefðbundið sunnudagshlaup.

Eðlilega var rætt um ættfræði og persónufræði og gat frændi upplýst mig um gamlar Lækjarkotsfrænkur hans megin í ættinni og um afdrif þeirra. Þetta var mikilvirkt handverksfólk, eins og þær eru frænkurnar mín megin í ættinni. Einnig var rætt um fjarverandi hlaupara og ættir þeirra. Ég gat frætt frænda um svör Jörundar við fyrirspurn minni á föstudaginn um hvers vegna hann hefði ekki heilsað okkur í síðasta sunnudagshlaupi. Ólafur varð hugsi um stund, en kvað svo upp úr með það að þetta væri klárlega Allinn að herja á félaga okkar. Á því væri ekki nokkur vafi.

Ekki verður sagt að óvæntir viðburðir hafi átt sér stað í þessu hlaupi, það voru kunnuglegir áfangar, Nauthólsvík, Kirkjugarður, Veðurstofa, Saung- og skákskóli, Klambratún og svo Sæbraut. Stoppað á hefðbundnum stoppustöðum. Að þessu sinni var þó talin ástæða til þess að doka við framan við hinn nýja Þór og berja þann glæsilega farkost augum.

Í Pott mættu auk hlaupara dr. Einar Gunnar, Ragna Briem, Helga Jónsdóttir og Stefán Sigurðsson - og svo kom Einar blómasali og kvaðst hafa látið fjölskylduna ganga fyrir þennan morgun. Hann snaraði umbeðinn fram forláta kjúklingauppskrift sem Helga kvaðst mundu notfæra sér. Málin rædd framundir eitt, að menn tíndust úr Potti til skylduverka. Enn einn frábær hlaupamorgun að baki.


Allinn ríður ekki við einteyming

Jæja, er komið var úr Útiklefa í Brottfararsal og Jörundur mættur var óhjákvæmilegt að drægi til tíðinda: High Noon. Hann reyndi að gera sér upp sakleysi, ef ekki einfeldni. Skrifari sat þungbrýnn og leyfði honum að kveljast. Loks var ekki hjá því komizt að spyrja spurningarinnar frá því síðasta sunnudag: "Jörundur, af hverju léztu sem þú sæir ekki okkur Ólaf frænda minn á okkar hefðbundna sunnudagshlaupi á sunnudaginn eð var?" Hann setti upp furðusvip:"Ha, hvað? Ég? Hvað áttu við?" Ég útskýrði fyrir honum að við hefðum mætt honum í Skerjafirði sl. sunnudagsmorgun og hann hefði horft framhjá okkur eins og við værum ekki til. Hefðum við þó hrópað og kallað á hann. "Ha, ég hef ekki tekið eftir ykkur." Já, mjög líklegt! "Sennilega hefur sólin blindað mig" sagði hann, gjörsamlega þrotinn að skýringum. "Já, en Jörundur, veiztu ekki að sólin kemur upp í austri og þú hafðir hana í bakið þennan morgun."

Mættur flottur hópur karlhlaupara: Flosi, Jörundur, blómasalinn, skrifari, Benzinn, Bjössi, Maggi, Kalli, Denni skransali svermandi fyrir Fyrsta, og svo ungur sálfræðinemi sem ég hef ekki nafnið á. Það var ekki mikill metnaður í loftinu og var mönnum hugsað til Gústa gamla, sem liggur bara uppi í sófa í aðdraganda Marathon de Sable. Það getur ekki verið gott. En við vorum brattir í ákjósanlegu veðri og gaman að renna skeiðið á Ægisíðu.

Menn voru afar rólegir, barnakennarinn og sálfræðineminn fóru fyrir hópnum, þá komu Maggi, Kalli og skrifari, og hinir fyrir aftan okkur. Við erum þekkt góðmenni og því var beðið eftir Jörundi eftir Öskjuhlíð og fylgdi hann okkur eftir það. Áhugi á að skoða Þór á leið um Höfnina. Ef eitthvað hætti mönnum til að fara heldur hratt yfir, óþarflega hratt, enda var ætlunin að hafa rólegt félagshlaup og byggja upp góðan þorsta fyrir kvöldið.

Nema hvað, þegar komið var framhjá hinu nýja, glæsilega skipi Landhelgisgæzlunnar heyrðist kunnuglegt tipl og fram úr okkur nokkrum hlaupurum kemur orðalaust Einar blómasali og telur sig greinilega hafa unnið sigur. Skrifari þekkir hins vegar kauða og veit hvernig á að brjóta svona menn niður. Það var gefið í og tætt fram úr blómasalanum og hann skilinn eftir við Skeifu. Það var farið hratt upp Ægisíðu, signingum sleppt við Kristskirkju, en haldið áfram á hröðu tempói. Eftir ljós á Hringbraut var gefið í og sprett úr spori. Þá var blómasalinn gjörsamlega niðurbrotinn og hafði engin svör við þessum hraða.

Teygt vel á Plani og spjallað saman. Eitthvað er bræðralag þeirra Denna og Benzins farið að trosna og ganga ásakanir á báða bóga. En þegar rætt er um ávirðingar katólskra presta fyrr á árum þétta þeir raðirnar og standa saman sem einn. Svo var haldið í Pott og setið um stund. Gott að Bjössi er búinn að skila sér aftur, tekið til við sagnir þar sem frá var horfið fyrir margt löngu. Fáir segja sögur eins og Bjössi.

Í fyrramálið er í boði langt hlaup, ekki styttra en 21,1 km. 9:30, ef gvuð lofar.


Frá Englandsför

Fagur sunnudagsmorgunn var upp runninn, en aðeins tveir frændur mættir til hlaupa við Vesturbæjarlaug, sem enn er lokuð á sunnudagsmorgnum til kl. 11. Við Ólafur Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, runnum skeiðið léttilega og fyrirhafnarlítið, enda vel á okkur komnir þótt vinalausir séum. Hann sagði mér frá Englandsför sinni sl. helgi þegar hann fór að horfa á Arsenal leika á móti Sunderland. Tækifærið var notað til þess að rifja upp kynnin við allar betri herrafataverzlanir, svo sem Cecilius C í Shrewsbury Avenue, þar sem menn báðu fyrir kveðju til Vilhjálms Bjarnasonar, þess sem innhöndlaði jarðarfarahabít í búðinni með ógleymanlegum hætti árið 1979. Sama var upp á teningnum í öðrum verzlunum, alls staðar var spurt um Vilhjálm og hagi hans.

Nú gerist það að við hittum Gunnlaug Júlíusson hlaupakappa, gerum stuttan stanz og eigum við hann spjall. Hann hefur átt við meiðsli að stríða og tók því ekki þátt í Haustmaraþoni í gær. Áfram er haldið og næst verður á vegi okkar Jörundur Svavar Guðmundsson, prentari og hlaupakappi, trúlega að koma úr 20 km hlaupi, alla vega var hann svo aðframkominn af þreytu eða Allinn langt genginn, að hann lét sem hann sæi okkur ekki og sinnti ekki kveðjum okkar. Við áfram. Rætt um afbragðsárangur okkar fólks í maraþoninu í gær.

Dagurinn var einstaklega vel fallinn til hlaupa, stillt, bjart, heiðskírt og hiti um fjórar gráður. Tókum okkur hefðbundin gönguhlé á gefnum stöðum og tókum þetta á rólegu nótunum. Ekki voru margir á ferli og fátt er bar til tíðinda enda einstakir heiðursmenn og grandvarir á ferð.

Í Potti varð hefðbundin umræða um bílnúmer og persónufræði, en einnig vikið lítillega að byggingastöðlum og lofthæðum húsa.


Haustmaraþon og aðrir viðburðir

Skrifari missti af hlaupi gærdagsins vegna mikilvægra embættisstarfa í kansellíinu, en ákvað að fara langt á laugardegi. Mætti um tíuleytið í Laug Vora, enda á hann ekkert erindi með þeim sem hlaupa kl. 9:30, auk þess sem ætla mátti að sumir hverjir myndu spreyta sig á hlaupabrautinni í Haustmaraþoni. Stefnan sett á strípaðan 69 án útúrdúra eða lenginga. Drykkjarbeltið með í för. Lagt upp á rólegum nótum, skrifari í góðum gír.

Framundan mér á hlaupabrautinni birtist skyndilega ástsæll Foringi Vor til Lífstíðar ásamt eiginkonu sinni, frú Helgu Jónsdóttur frá Melum. Voru þau á hefðbundnum laugardagstúr sínum. Ég dró þau uppi og bauð góðan dag. Var mér vel fagnað og áttum við frændur gott spjall alla leið inn að Kirkjugarði, þar sem leiðir skildu. Í millitíðinni höfðum við mætt fjölda hlaupara í Haustmaraþoni, þ. á m. Guðmundi Löve, Sigga Ingvars og Ragnari. Hlaupasamtökin gerðu það gott í hlaupinu, Guðmundur í fjórða sæti í karlaflokki, og þeir hinir tveir þar þétt á eftir, allir á fínum tímum. Magga vann sinn aldursflokk í kvennaflokki í hálfu. Á persónulegu nótunum var Þorvaldur bróðir minn í fyrsta sæti í sínum aldursflokki í heilu á 3:59, maður kominn á sjötugsaldur!

Ég beygði niður fyrir Kirkjugarð og þaðan yfir brú og inn í Fossvog. Það var fjöldi annarra hlaupara á ferðinni utan þeirra sem voru í maraþoninu. Fór yfir í hólmann í Elliðaánum og svo tilbaka aftur og setti stefnuna á Miklubraut. Gekk brekkur. Átti góðan sprett frá brúnni yfir Miklubraut og að Laugarneskirkju og aftur á Sæbraut að Hörpu, um Hafnarsvæðið, en gekk upp Ægisgötuna. Kom á góðu dóli til Laugar og teygði vel að hlaupi loknu. Gott hlaup að baki og greinilegt að skrifari er enn í fínu formi eftir sumarið.


Maðurinn hennar Vilborgar

Tekin hefur verið upp sú nýbreytni að kenna menn við konur sínar. Samkvæmt þessu voru þessir mættir: Helmut hennar Jóhönnu, Flosi hennar Rögnu, skrifari kenndur við Írisi, Benni hennar Dagnýjar, Jörundur hennar Önnu Dísar, Ólafar-Fróði, Þorvaldur kvennablómi, Magga, Vilborgar-Einar, Ragnar (hvað hét konan hans aftur?), Frikki hennar Rúnu og einhver óþekktur ungur maður sem hljóp af kappi. Hjálmar hennar Óskar ofurhlaupara.

Veður gott til hlaupa, einhver austangjóla og farið að kólna. Höfð voru í frammi heit í tölvupóstum um langt í dag, 69++ og eitthvað meira í þá áttina. Einkum voru það þrír hlauparar sem gengu fremstir í yfirlýsingum: prófessorinn, barnakennarinn og blómasalinn. Aðrir höfðu orð á að hlaupa Þriggjabrúa, en Frikki og Ragnar eru á leið í maraþon svo að þeir ætluðu að taka því rólega. Svo var hann René mættur, en ekki hlaupaklæddur, líklega á leið í maraþon líka. Frikki fer utan á föstudag og þreytir hlaup í Feneyjum um helgina ef mig misminnir ekki.

Nú er hætt að hafa formála að hlaupum, bara lagt upp. Þokkalegt tempó þegar í byrjun og þekkt andlit sem fóru fyrir hópnum. Skrifari þar á eftir með dr. Jóhönnu, Dagnýju, Ragnari og Þorvaldi. Það er kvalræði að hlaupa við hlið Þorvaldar. Ef hann reynir ekki að þvælast fyrir manni og flækja löppunum í hlaupalappirnar á næsta manni, þá er hann með slíkum búkhljóðum alla leið inn í Nauthólsvík að maður er við það að missa vitið.

Tempóið sumsé gott þegar í upphafi og Flosi, Fróði og Einar urðu fljótlega aftastir ásamt þeim Helmut og Jörundi. Skrýtið bandalag það! Skrifari hefur slegið slöku við hlaupin undanfarið og óttaðist að hann væri farinn að vera slakur, en það voru óþarfa áhyggjur, bara flottur inn í Nauthólsvík og austur Flanir, upp Boggabrekkuna og hafðist það stórvandræðalaust. Yfir hjá RÚV, Fram og yfir á Kringlumýrarbraut. Tíðindalítið niður úr. Farið að dimma.

Nú fékk maður vindinn í bakið og gekk vel að þreyta hlaupið. Farið hjá Hörpu og nýjum veitingastað við Höfnina, þetta fer bara batnandi. Nýr tapas-staður hjá Slippnum, verður gaman að fara þangað á næsta sumri. Áfram upp Ægisgötuna og var skrifari þá farinn að þreytast eilítið og fór að ganga. En ekki var við slíkt unandi og upp tekið hlaup af nýju. Góðu hlaupi lokið á meðaltempóinu 5:30.

Í Potti var rætt um nýja tapas-staði og ákváðu sumir hlauparar að prófa þá um kvöldið. Ennfremur rætt um virkjanir og álver og pólutík á Norðurlandi. Er farið var upp úr Laug komu þeir þrír kumpánar og langfarar tilbaka nær dauða en lífi af þreytu og vosbúð. Höfðu hlaupið tæpa 22 km, þ.m.t. um hlaðið á Kleppi án teljandi eftirmála. Síðastur kom maðurinn hennar Vilborgar og kvaðst ekki hafa stytt. Sumir tóku hann trúanlega.

Næst er hlaupið hefðbundið á föstudag.


Sama, gamla sagan - aðeins þeir hörðustu

Það gustaði eitthvað af austan og rigndi, en nægði til þess að fæla frá heilan her af sólskinshlaupurum, t.d. blómasalann sem var með miklar yfirlýsingar sl. mánudag um að fara 69Plús. Þessi mætt: próf. Fróði, Flosi, Magnús, Þorvaldur, Ólafur skrifari, dr. Jóhanna, Dagný, Ragnar og René. Alhörðustu naglarnir. Verið var að koma upp græjum til tónlistarflutnings. Maggi fór að kynna sér málið, en kom svo tilbaka og sagði að þetta væri dönsk hljómsveit. "Er þetta Nýdönsk?" spurði skrifari. "Nei, Gammeldansk." Magnús á það til að vera spaugsamur.

Ýmsar vegalengdir í boði, einhverjir ætluðu í Powerade-hlaup morgundagsins og stefndu því á stutt. Ágúst eyðimerkurfari vildi hins vegar fara langt því að hann er að fara í langt í apríl á næsta ári. Lagt upp orðalaust og var skrifari í sama góða skikkinu og á mánudaginn eð var. Fínt tempó innúr en vindurinn allhvass og það er leiðinlegt að hlaupa í slíku veðri. Blés fullmikið til þess að hægt væri að tala saman, auk þess sem Þorvaldur var alltaf að flækjast fyrir manni og reyna að fella mann.

René og Ragnar fremstir, en aðrir á eftir, við Maggi aftastir. Hann sagði mér frá konu sem kannaðist við mig, en mundi ekki eftir því hvað hún hét, lítil hjálp í því. Svo var komið í Nauthólsvík og þá datt vindurinn niður. Við fórum Hlíðarfót og vorum fjögur: Maggi, Þorvaldur, Dagný (nýkomin úr Óslóarmaraþoni á 4:16) og skrifari. Dóluðum þetta með góðri samvizku, en gáfum þó í á Hringbraut og fórum allgreitt tilbaka.

Tónlistarflutningur í gangi í Móttökusal er komið var á Plan. Farið í Pott. Fljótlega sást til blómasala sem reyndi að skjótast milli potta óséður enda óhlaupinn. Hann kom þó í Pott og upplýsti að auk blómasalanafnsins gegndi hann nöfnunum Nenni nízki og Silli. Upplýsandi. Fínt að hafa skellt sér í hlaup, gvuð má vita að ég var ekki að nenna því.


"Varst þú nokkuð með þessa hárgreiðu?"

Ýmislegt skondið gerist í Útiklefa. Meira um það seinna. En upphaf þessa máls er að til Laugar Vorrar mætti fjöldi góðra hlaupara, þeirra á meðal: Jörundur, próf. Fróði, Magnús, Flosi, Karl, Einar blómasali, Bjarni Benz, Ólafur skrifari, Kári, Magga þjálfari, dr. Jóhanna, Helmut, Pétur, Haraldur, Ragnar, Jóhanna Ólafs og Benedikt. Vona að ég gleymi engum. Veður fagurt, heiðskírt, stilla og hiti um 8 gráður. Engin leiðarlýsing var gefin upp fyrir hlaup, en þvagan lúsaðist af stað orðalaust og virtist fylgja einhvers konar forritun.

Ágúst sagði frá síðustu uppgötvun sinni, "ákjósanlegri" hlaupaleið upp á 40 km sem hentar vel miðlungshlaupurum eins og félögum Hlaupasamtakanna. Hann kvað helzta ókostinn vera þann að menn þurfa að byrja nógu snemma til þess að lenda ekki í myrkri. Það var einmitt það sem hann óttaðist mest í hlaupinu, myrkrið, hann kvaðst vera hræddur við myrkrið og það sem í því dylst. Við reyndum að hughreysta hann og sögðum að það væri engin ástæða til þess að vera hræddur.

Jörundur sagði frá viðtali við Styrmi Gunnarsson sem hann hefði verið sammála að þessu sinni. Þar sagði gamli Moggaritstjórinn að það þyrfti að skera niður alla stjórnsýslu til þess að bæta fyrir afleiðingar hrunsins. Skrifari var ósammála þessu, enda starfsmaður hins opinbera og er að drukkna í verkefnum sem ekki sér fyrir endann á.

Skrifari var óvenju léttur á sér að þessu sinni og hékk í prófessornum langleiðina inn í Nauthólsvík, en á undan fóru þekktir hraðafantar, að baki voru þó gizka góðir hlauparar eins og Helmut, Flosi og Jörundur. Það er góð tilfinning að koma tilbaka eftir 10 daga fjarveru og vera þó enn í þetta góðu formi. Ég lenti í slagtogi við dr. Jóhönnu og blómasalann, Jóhanna dottin í sama vanann og blómasalinn að neyta fæðu fyrir hlaups sem eyðileggur æfinguna. Mættum dr. Friðriki Guðbrandssyni sem var úti að ganga með hund sinn.

Við Öskjuhlíð ákváðu Einar og Jóhanna að halda til Hlíðar í brekkuspretti, skrifari áfram í humátt á eftir prófessornum og í Suðurhlíðina. Var í góðum gír og hélt ágætu tempói. Ekki varð ég var við aðra hlaupara á eftir mér, en eftir hlaup kvaðst Jörundur hafa farið sömu leið, snúið þó tilbaka inn í Nauthólsvík á Flugvallarvegi, meðan skrifari fór hjá Gvuðsmönnum tilbaka um Hringbraut. Gaf jafnvel svolítið í á Hringbraut og lauk góðu hlaupi í góðum fílíng.

Teygt á Plani áður en haldið var til Potts. Þar lögðu Hlaupasamtökin undir sig Barnapottinn og flæmdu burtu aðra gesti með ófagurri ásýnd að því er ég tel. Oftlega kom fyrir að fólk nálgaðist pottinn en hörfaði frá þegar það rak augun í félagsmenn Samtaka Vorra, engir sérstakir nefndir. Nú gerist það sem oftar að menn fara upp úr. Skrifari heldur til Útiklefa og þangað koma einnig Kári og blómasalinn. Fyrir er karl nokkur sem hefur skolað af sér og er að klæðast. Hann er við það að hverfa á braut þegar skrifari rekur augun í frekar groddalega hárgreiðu á gólfinu og spyr (með magann fullan af góðum ásetningi): "Varst þú nokkuð með þessa hárgreiðu?" "Ertu að grínast í mér?" segir tattóveraður maðurinn og bendir á snöggklippt höfuðið. Kári og blómasalinn bogna af gleði meðan maðurinn gengur á braut og skrifari biðst innvirðulega afsökunar á þessum mistökum.

Á miðvikudaginn er langt, jafnvel 69+.


Akademían 100 ára

Þessir voru mættir: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Magnús tannlæknir, Ólafur skrifari, Ragnar og Guðrún. Enn var lokað að Laugu og streymdi fólk að sem varð frá að hverfa vonsvikið. Ólafur frændi sagði frá afmælisveizlu akademíunnar í Hörpunni í gærkvöldi og hverjir hefðu verið þar. Brunahringing að morgni dags og hinum megin á línunni var álitsgjafi Lýðveldisins sem bað um lista yfir alla þá sem Formaður hefði talað við, eða réttara sagt, hefðu talað við hann. Það var ærið langur listi.

Haldið rólega upp í ákjósanlegu veðri. Rifjaðar upp gamlar sögur sem hafa verið sagðar nokkrum sinnum áður. Ólafur tilkynnti að við myndum rekast á V. Bjarnason áður en langt væri liðið á hlaup. Tíðindalítið inn í Nauthólsvík og raunar alveg niður á Klambratún, utan hvað Guðrúnu var sögð sagan af andláti Brynleifs menntaskólakennara og Guðrúnar konu hans. Við kínversku Belgjagerðina gerðust hlutirnir. Þar var gerður stanz til úttektar. Ber þá að hjólreiðamann sem virtist kunnuglegur. Það var sjálfur V. Bjarnason og fór fram mikil úttekt á hinni vélstýrðu flaggstöng. Verkfræðingurinn leit skjótlega á hana og úrskurðaði hana handstýrða og með línu, þvert á niðurstöðu Formannsins. Staðfesti Vilhjálmur þetta. Það var staldrað við góða stund og Guðrún kynnt fyrir Villa, en þau bjuggu bæði við Grænuhlíð í æsku. Lagðar fyrir hann vísbendingaspurningar um foreldra Guðrúnar sem Villi réð vandræðalaust og gat í leiðinni hnýtt í Reykjavíkur Lærða Skóla.

Haldið áfram Sæbrautina rólega, hjá Hörpu og um miðbæ yfir Austurvöll. Rólega um Túngötu og Hofsvallagötu, fínn undirbúningur fyrir hlaupaviku. Í Pott mætti hefðbundið klientel. Auk hlaupara komu þar Mímir, Baldur Símonarson, Stefán verkfræðingur og frú Helga. Mikið rifrildi spratt upp um hæð nýrra stúdentagarða í mýrinni þar sem knattspyrnufélagið Rimmugýgur atti kappi hér fyrr á tímum og mun skyggja á hús við Oddagötu og gengu svívirðingar fram og tilbaka um pottinn, virtist eima eitthvað af eldri umræðu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband