Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Eins og sprunginn blöðruselur

Það gerðust tíðendi á Nesi. Meira um það seinna. En upphafið var sumsé það að hlauparar mættu til hlaups frá Vesturbæjarlaug. Þetta var slíkur aragrúi fólks að engin leið er að muna alla en þó skal getið próf. dr. Keldensis sem ekki hefur sézt mikið í seinni tíð, Helmut, Flosi, Þorvaldur, Einar blómasali, dr. Jóhanna, Hjálmar, Haraldur, Gummi Löve, Heiðar sálfræðingur, Ósk, Magga, Maggie, skrifari og einhver sem kennsl voru ekki borin á - gott ef ekki Kaupmaður líka.

Menn biðu í ofvæni úti á Plani eftir Möggu. "Magga, hvað eigum við að gera?" var spurt. Það voru Bakkavarir. Nokkuð sem skrifari er alveg hættur að leggja fyrir sig. Hersingin tók strikið út á Nes. Farið um Víðirmel niður í Ánanaust og svo á Nes. Skrifari var fremstur framan af, en smásaman seig hann aftur úr og niðurlægingin var fullkomnuð þegar blómasalinn sigldi fram úr honum áður en komið var í Seltjarnarneshrepp. Um leið voru einhver óheppileg ummæli látin falla sem voru til þess fallin að særa viðkvæmar sálir.

Skrifari hélt ró sinni. Hann þekkir blómasalann. Hann veit að rembingurinn fer fljótlega af honum, hann slappast og fer að gefa eftir. Ekki hafði lengi verið hlaupið á Nesi þegar skrifari náði blómasala og fór fram úr með glæsilegum spretti, en sýndi þann manndóm og þroska að viðhafa engin særandi ummæli í leiðinni. Vissi sem var að spretturinn var nægileg svívirða og móðgun.

Eftir þetta minnti blómasalinn einna helst á sprunginn blöðrusel, fyrst heyrðist tiplið, en svo dó það út og leit einna helzt út fyrir að hann væri hættur hlaupi. Skrifari hélt hins vegar reisn og tempói, fór út hjá Gróttu og Bakkatjörn, en sleppti golfvelli. Tilbaka í norðangjólu og var ekki vanþörf balaklövu. Það var farið um Lambastaðahverfi milli húsa til þess að verjast vindinum. Tilbaka á góðu tempói. Ekki sást til blómasalans á þessum tíma.

Pottur magnaður. Þangað mættu Kári og Anna Birna, en Anna Birna heldur í víking til Ástrallalíu á miðvikudag, flýgur til Lundúna, Singapore og ég veit ekki hvað og hvað, verður 30 klst. á leiðinni. Kemur ekki tilbaka fyrr en á Sumardaginn fyrsta. Mikið rætt um mat, Þorvaldur í stríði við landlækni út af léttmjólkurstefnu yfirvalda, en menn hugsuðu jafnframt til hans Bigga okkar sem þarf að láta hreinsa stíflaðar æðar. Megi honum vel farnast og mæta fljótlega að nýju í hlaup. Uppskrift dagsins: Kobbi flugmaður. Fyrsti Föstudagur á föstudag og einna helzt að heyra að Kári ætlaði að slá upp durum sínum í tilefni af grasekkilsstandi og það veit minn herra að verður vín og villtar meyjar! Vel mætt!


Fagur sunnudagur

Mættir til hlaups á sunnudagsmorgni í fjögurra stiga frosti, stillu og heiðskíru: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur, skrifari og Einar blómasali. Tekin fyrsta rispa á Plani áður en lagt var upp. Svo mjakaðist hópurinn af stað í þokkalegu færi niður á Ægisíðu. Allnokkuð rætt um fjárhagsleg málefni frá ýmsum sjónarhornum og leið furðu langur tími þangað til talið barst að mat og erum við þó stödd á Þorra miðjum. Fremur kalt að hlaupa í dag og ekki víst að menn vildu staldra við á tilgreindum stöðum jafnlengi og allajafna. Skrifari þungur á sér eftir þorrablót gærkvöldsins.

Í Nauthólsvík kom vísbendingaspurning: hvað hefur Baldur Símonarson sótt margar jarðarfarir á árinu? Það komu ýmsar ágizkanir, skrifari sagði 12, en rétt svar mun vera 13, en ekkert horn. Gengið skamma stund áður hlaup var upp tekið af nýju og stefnan sett á kirkjugarð. Hér sagði Jörundur frá því er hann beindi Kirkjuhlaupi annarsdags jóla inn að leiði Brynleifs og frú Guðrúnar og sagði sögu þeirra yfir 60 manna hópi hlaupara og fór rangt með öll meginatriði frásögu, alveg eins og Ó. Þorsteinsson hefur kennt honum hana.

Næst var tekið fyrir forsetaframboð á vori komanda. Upp er komin sú tilgáta að sitjandi forseti muni gefa frá sér framboð. Við svo búið mun Guðni Ágústsson standa með pálmann í höndunum og kastljósið á persónu sinni og vitanlega mun hann ekki bregðast okkur heldur gefa kost á sér. Verða þá ekki framar froskalappir eða gæsalifur í boði á Bessastöðum, heldur hafragrautur og súrt slátur með og e.t.v. mjólkurglas. Utanferðir leggjast af og samskipti við erlendar þjóðir falla niður. Nú fór skrifari að segja frá næstu Brusselferð og blómasalinn pantaði Jameson og súkkulaði.

Útvarpshæðin var söm við sig og áfram var haldið um Hlíðar, Klambra og ekki stoppað lengi. Á Sæbraut greip eitthvert óskiljanlegt kapp blómasalann og hann setti allt á fullt, skildi aðra hlaupara eftir og linnti ekki látum fyrr en við Laug. Hópurinn tvístraðist meira eða minna við þetta, utan hvað við Jörundur héldum hópinn frá Hörpu og til loka hlaups. Þetta var nú bara allt í lagi.

Potturinn mannaður hefðbundnum gestum og rætt um Lyfjafræðingatal. Síðan var hluti umræðu morgunsins endurunninn og endurfluttur samkvæmt hefð.


Þriggjabrúa í hríðarbyl og suðvestan strekkingi

Aðeins harðdálkar og karlmenni mætt í dag, sólskinshlauparar kusu að dvelja heima. Fremstar meðal jafningja þær Ósk og dr. Jóhanna, aðrir: Þorvaldur, Maggi, Einar blómasali, Snorri, Haraldur, Hjálmar, skrifari, Helmut, Gummi Löve - og svo náði Frikki okkur við Kirkjugarð. Engin spurning um vegalengd: Þrjár brýr eða dauði. Nema hvað Maggi og Þorvaldur voru búralegir og gáfu ekkert upp. Jóhanna upplýsti okkur um að hún hefði hitt hann Villa okkar og sagt að við söknuðum hans. Villi hafði einhver orð um það að gaman yrði að mæta til hlaups næsta sunnudag eftir Hreppakeppnina á föstudag þar sem Garðabær tekur þátt, þó ekki væri nema til þess að sjá hlandkoppasvipinn sem Jörundur og Ó. Þorsteinsson setja upp þegar þeir reyna að sýnast gáfaðir.

Lagt upp á rólegu nótunum, nema hvað sumir fóru hraðar en aðrir af stað. Við héldum hópinn Magnús, Einar, Helmut og skrifari. Magnús sagði Kirkjuráðsbrandara sem hægt var að hafa gaman af. Svo voru sagðar sögur af Alþingismönnum og var hlegið vel að þeim. Við töltum þetta í þokkalegu færi og með vindinn í bakið, bjuggumst jafnvel við að þurfa að taka strekkinginn í fangið á heimleiðinni. Menn höfðu áhyggjur af útfærzlu Schengen-svæðisins og afleiðingum þess næsta sumar, en skrifari bað menn að gæta orða sinna.

Það kom engum á óvart að þeir Þorvaldur og Magnús beygðu af í Nauthólsvík og styttu. En við Helmut og blómasalinn héldum áfram á Flanir og settum stefnuna á Boggann. Héldum kompaní og enn náði blómasalinn að hanga í okkur, en þegar kom í brekkuna fór að draga af honum og hann dróst aftur úr. Við dokuðum við eftir honum á Bústaðavegi og saman lögðum við á Útvarpshæðina. Ekki dugði það til að hann héldi í við okkur, en við héldum okkar striki og settum upp hraðann á Kringlumýrarbraut og alla leið niður á Sæbraut. Þar dokuðum við loksins við eftir Einari.

ÍSLAND VAR AÐ VINNA NOREG Í HANDBOLTA 34-32!!!!!

Sæbrautin var skelfileg, suðvestangarri í fangið alla leið og linnti ekki fyrr en við Hörpu. Vestið rifnaði utan af mér á leiðinni, svo stífur var vindurinn. Við fórum rólega tilbaka, en töltum þó upp Ægisgötuna án hvíldar. Stoppuðum á Landakotshæð og biðum eftir Einari. Þá tók hann upp gamalkunna takta, fór fram úr okkur og greikkaði sporið. Við Helmut leyfðum honum þetta, e.t.v. fengi hann eitthvað út úr því að "vinna" hlaupið. Svo fór þó ekki, því hann var strand á rauðu ljósi við Hringbraut og við kláruðum þetta saman. Frábært að koma tilbaka eftir hlaup við þessar aðstæður. Teygt í Móttökusal.

Potturinn var yndislega heitur og þar sátum við Helmut, Jóhanna, Einar, skrifari og Frikki og áttum gott spjall um ýmisleg málefni. Alltaf erfitt að hafa sig upp úr og fara að klæða sig í kuldanum.


Kleinuát eyðileggur hlaup

Er þetta breyskleiki? Er þetta græðgi? Eða bara minnisleysi? Hvernig geta menn sem hafa lýst yfir löngu hlaupi eyðilagt sama hlaup með því að borða fjórar stórar kleinur daginn langan og ekkert annað? Og eru svo hissa á því að þeir fá í magann í miðju hlaupi! Hvað er kleina? Fita og óhollusta. Um þetta fjallar pistill dagsins.

Mætt í hlaup: Einar blómasali, Þorvaldur, Helmut, Magga, Ragnar, Gummi Löve, Dagný, skrifari, dr. Jóhanna, Jóhanna Ólafs, Kaufmann Friedrich, Hjálmar, og einhverjir töldu sig sjá Harald í myrkrinu. Sumir ætluðu í Powerade á morgun og því ekki á því að fara langt; aðrir einbeittir í því að fara Þriggjabrúa, þ. á m. blómasalinn, skrifarinn og Helmut.

Svo einkennilega vildi til að þrír hlauparar ráku lestina: blómasali, skrifari og Dagný. Ekki leiddist henni Dagnýju, hún hló við hvert orð okkar blómasalans og hafði á orði hvað við værum skemmtilegir menn. Okkur þótti gott hólið. Vorum ekkert að flýta okkur, nutum ágæts veðurs og sæmilegrar færðar, hún versnaði þó er á leið hlaupið.

Helmut dokaði við eftir okkur í Nauthólsvík og blómasalinn var farinn að hægja á sér. Hér lýsti hann yfir því að hann væri kominn með magaverk og treysti sér ekki lengra. Hann var skammaður fyrir græðgi og sagt að það væri ekki nauðsynlegt að gleypa í sig fjórar kleinur, það þyrfti ekki að henda þeim, kleinur mætti frysta. Hann játaði á sig vanhelgi og þótti greinilega miður að hafa eyðilagt hlaupið með vanhugsuðu mataræði á hlaupadegi.

Við Helmut og Dagný héldum áfram á Flanir og var ákveðið að fara rólega. Hér fór færðin að valda okkur leiðindum, laus snjór á jörðu og hálka undir, eitt skef áfram, tvö afturábak. Við upp Boggabrekku og var Dagný greyið svolítið þung á sér, enda ekki búin að hlaupa síðan á Gamlársdag. Dokað aðeins við og svo áfram hjá RÚV, um Leiti og Fram, Kringla niður að Sæbraut. Fátt tíðinda að Hörpu, Hafnarhverfi og Ægisgata tekin með trompi. Þá var afgangurinn formsatriði.

Það var dapurlegt að koma tilbaka til Laugar, þar sást einungis Hjálmar í einhverju reiðileysi og svo Þorvaldur á hefðbundnu róli. En við Helmut vorum kátir að klára gott Þriggjabrúahlaup í góðu veðri. En fögnum, bræður og systur! Á föstudag ætlar blómasalinn að bjóða upp á heimili sínu at Reynimelis til þess að bæta fyrir kakó og Fyrsta. Vel mætt!


Sjálfbær eymd Hlaupasamtakanna, eða "Hvað er að Bigga?"

Fullkomin óvissa ríkti í kvöld um aðstæður til hlaupa eftir þær kárínur sem hlauparar hafa mátt þola af hálfu himnafeðga og borgaryfirvalda undanfarna daga með því að verstu hugsanleg skilyrði hafa verið til hlaupa og borgin ekki gert neitt til að bæta úr því. Það hafði snjóað og ekki að vita nema yndir væri hálka sem gæti komið upp úr á varasömustu stöðum og gert okkur grikk. Engu að síður var ágætlega mætt til hlaups og ber þar fyrstan að nefna sjálfan Jörund sem ekki hefur sézt í hópi vorum um langt skeið, aðrir: Flosi, Helmut, Hjálmar, Ósk, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Kári, Snorri, Gummi, skrifari - og síðar birtist Frikki í myrkrinu og það spurðist einnig til Haraldar.

Helmut kom með tillögu um hefðbundið. Í þessu sambandi er "hefðbundið" Víðimelur, Suðurgata, Skítastöð, Ægisíða, Skjól, Nes og svo ýmsir varíantar eftir það, ýmist Eiðistorg eða Lindarbraut. Vel var tekið í þessa skýru hugmynd og ekki dvalið lengi við heldur lagt í hann. Veður var í reynd hið ákjósanlegasta, 2 stiga hiti, snjór á jörðu sem gerði að verkum að það var vel hægt að hlaupa, nánast logn, snjóaði öðru hverju. Skrifari hljóp framan af með fremsta fólki og heyrði konur skrafa sín á milli um að Hlaupasamtökin væru í raun karlaklúbbur.

Trabantklúbburinn á sínum stað, en aðrar skiptingar eftir hefðinni. Á Suðurgötu náði blómasalinn skrifara með erfiðismunum og fylgdumst við að eftir það til loka hlaups. Flosi hafði farið á undan okkur og fór einhverja tóma vitleysu sem enginn áttaði sig á. Það var farið að snjóa og við vorum báðir þungir á okkur. Ekki vantaði umræðuefnin og féll aldrei niður spjall okkar þennan klukkutíma sem við hlupum. Við mættum sumsé Frikka þarna í myrkrinu í Skerjafirði, en ekki vissum við á hvaða ferð hann var. Stuttu síðar dúkkuðu upp hlauparar af Nesi, allir klæddir í sams konar búning, og mátti bera kennsl á Denna Skransala þar á meðal, en ekki var hann með fremstu mönnum í þetta skiptið eins og á föstudaginn.

Það var alveg inni í myndinni að hætta við Hofsvallagötu, en ég var í miðri frásögn og því var ekki um annað að ræða en halda áfram um Skjólin til þess að unnt væri að halda áfram sögunni. Eftir það kom ekkert annað til greina en fara Nesveginn alla leið út á Nes, en beygja þó af við Eiðistorg, fara niður á Norðurströnd og þá leið tilbaka um Lýsi, Grandaveg, Víðimel og svo sem leið liggur til Laugar. Þetta var rúmlega klukkutímatúr og lagði sig á slétta 10 km. Góð tilfinning að klára gott hlaup. Einhverjir aðrir fóru út á Lindarbraut og tóku þéttinga sem enduðu víst með skelfingu í einhverjum tilvikum.

Teygt í Móttökusal og gekk á með gamansögum. Pottur magnaður. Þar mætti Biggi, spikfeitur og óhlaupinn. Menn gerðust existensíalískir og fóru að tala um eymdina, og komust menn að þeirri niðurstöðu að sjálfbærni Hlaupasamtakanna fælist í eymdinni. Áður en Biggi kom til potts var um hann rætt og hlaupaleysi hans, einhver spurði: "Hvað er að Bigga?" Menn öskruðu af hlátri þegar spurningunni hafði verið ýtt úr vör. Bókmenntafræðileg analýsa á heimildarmynd um sr. Jón Ísleifsson sem var á RÚV í gærkvöldi. Síðan barst talið að alvörunni: hlaupum og göngum sumars. Dr. Jóhanna og Ósk hafa tekið að sér að skipuleggja göngur sumarsins, en atkvæði voru greidd um Laugaveg og virtist vera stemmning fyrir þátttöku af nýju í sumar. Ekki færri en átta hlauparar í Potti virtust ekki fráhverfir því að fara enn á ný um sandana.

Margt framundan og margs að hlakka til. Næst: Þriggjabrúa.


Benni mætir

Ha? Benni mættur! Það voru fleiri en skrifari sem ráku upp stór augu þegar Benedikt spretthlaupari dúkkaði upp í Brottfararsal óforvarandis og öllum á óvart. Menn töldu að hann væri vandari að virðingu sinni og vali á meðhlaupurum en svo að kjósa að hlaupa með okkur aumum harðdálkum í Vesturbænum. En þarna birtist hann bljúgur og alminlegur, bauð gleðilegt ár og spurði: "What´s up?" Aðrir mættir: Ingi Hermann Vilhjálmsson, Flosi, Magga, Þorvaldur, Helmut, dr. Jóhanna, Kári, skrifari, Einar blómasali, Gummi, Maggi og René - og seinna Ragnar, Hjálmar, Frikki og Jóhanna Ólafs.

Það var einboðið að hlaupið yrði Þriggjabrúa, ekki metra skemur. Menn tóku vel í þessa tillögu og var lagt upp. Veður með ágætum, 2 stiga frost og stilla. Spurt um Trabantklúbbinn, en hann ku liggja í rúminu. Einhverjir kváðust vilja vera í Trabanthópnum, en var tjáð að slíkt yrði ekki í boði í hlaupi dagsins. Það voru troðningar frá Laug og eitthvað niðureftir, en á Ægisíðu var þetta strax orðið skaplegt. Sosum ekki frá miklu að segja framan af hlaupi, fyrirsjáanleg framvinda og hefðbundin forysta.

Við Helmut héldum hópinn og ákváðum að taka blómasalann undir okkar verndarvæng, aðallega til verndar fyrir honum sjálfum. Hann lét sem hann drægist aftur úr og er það alkunn aðferð til þess að geta komið sér út úr hlaupi og stytt. En við biðum eftir honum á strategískum punktum og sáum til þess að hann héldi áfram. En þegar komið er upp Boggabrekku og upp hjá Úbbarti er leiðin hvort eð er hálfnuð og engin leið að stytta. Þá hættum við að bíða eftir honum og leyfðum hlaupinu að hafa sína eigin lógíkk. Farið allhratt niður Kringlumýrarbraut og sprett úr spori á Sæbraut, tekið vel á því. Gott að koma líkamanum á óvart með því að fara aðeins hraðar en mann langar til.

Því fór það svo að er við komum hjá Hörpu sáum við glytta í gamla barnakennarann sem hafði verið með fremsta fólki framan af. En ekki vorum við að rembast við að ná honum. Blómasalinn var einhvers staðar langt að baki okkur. Farið um Hafnarhverfið og upp Ægisgötu. Hofsvallagatan var lang versti hluti leiðarinnar, glerhál og varasöm.

Nú er frá því að segja að blómasalinn heyktist náttúrlega á því að vera með Fyrsta Föstudag, sagði að þetta bæri upp á Þrettándann sem væri hefðbundinn hátíðisdagur hjá fjölskyldunni! Dr. Jóhanna var ekki lengi að velta hlutunum fyrir sér, bauðst strax til þess að bjóða heim til sín eftir hlaup og vera tilbúin með næringu. Á móti hét blómasalinn því að bjóða upp á móttöku 13da jan eftir hlaup og einnig 29da jan eftir sunnudagshlaup, en þá yrði boðið upp á afganga úr Þorrablóti. Við getum horft björtum augum til framtíðar.


Gamlinginn sem skreið út um gluggann og - hljóp

Fjögurra stiga frost í Útiklefa, en menn létu það ekki hindra sig í að hlaupa. Mættir: skrifari, Þorvaldur, Benzinn, Maggi, Kári, Helmut, dr. Jóhanna, Maggie, Heiðar, Guðmundur, Magga, Haraldur, Frikki og við bættust Ragnar og Jóhanna Ólafs (að ég tel). Athygli vakti að hvorki blómasalinn né Flosi voru mættir og menn skulu nú ekki einu sinni nefna Trabant-klúbbinn á nafn. Einhverjir höfðu í flimtingum nafn bókarinnar sem sló öll met á jólum og hvort hún ætti nokkuð við um ónefndan prófessor í Kópavogi og hvort honum hefði tekizt að troða með sér göngugrindinni út um gluggann og svona. Menn eru svo kvikyndislegir.

Magga lagði til að við færum Víðimelinn út að Drulludælu, en við þessir formföstu og íhaldssömu ákváðum að hunza tilmæli hennar, fórum bara það sem við erum vanir að fara, sumsé Ægisíðuna í myrkri. Magga stóð og öskraði á eftir okkur en við létum sem við heyrðum ekki í henni. "Við" voru skrifari, Maggi, Kári, Benzinn og Þorvaldur. Mættum Ragnari í myrkrinu og hann virtist ekki vita hvort hann væri að koma eða fara, svo brugðið var honum að sjá þennan mannskap á hlaupi, líkt og hann tryði því ekki að betra væri ekki í boði. Hann þeysti af stað út á Nes í leit að einhverju skárra.

Nú var bara spurningin hvort búið væri að ryðja nægilega vel við flugvöll að menn kæmust áfram án þess að þurfa að rúlla sér eins og þeir Kári og Benzinn þurftu að gera föstudaginn fyrir áramót. Leiðir voru almennt vel ruddar og hreinar og ekkert mál að feta sig áfram á sandbornum stígunum. Verst hvað leiðin er víðast illa upplýst og væri skelfilegt að fara þetta ef snjórinn væri ekki.

Engin vandamál við flugvöll, búið að naga sig í gegnum skaflana og ryðja vel. Er kom í Nauthólsvík náði Ragnar okkur loks, kvaðst hafa farið á Nes í leit að þeim hinum en ekki fundið. Það var ákveðið að fara Hlíðarfót þar sem enn var þreyta í e-m eftir laugardaginn. Þar skildi Ragnar okkur eftir og spretti úr spori. Við á eftir rólega. Er komið var hjá Gvuðsmönnum vandaðist málið því þar hafði ekki verið rutt og aðeins um þröngt einstigi að ræða, erfitt að feta sig áfram.

Er kom á Hagamel urðu fagnaðarfundir. Þar beið okkar enginn annar en sjálfur Ó. Þorsteinsson Víkingur, Formaður til Lífstíðar. Menn féllust í faðma, óskuðu hverir öðrum gleðilegs árs og flutti Formaður langan pistil um stöðu landsmála, helztu jarðarfarir og ráðningamál hjá Ríki og Borg. Á meðan biðu óþreyjufullar ungmeyjar inni í kampavínslitum jeppa Formanns eftir því að komast í Kringluna. Meðal þess sem upplýst var er að Formaður var sæmdur gullmerki Víkings á Gamlársdag, 75 ára gamalt merki, mun eldra en karamellubréfið sem Forseti Lýðveldisins hengir á menn á Nýársdag.

Það ætlaði vart að takast að slíta þessum fundi, en þó varð að halda áfram hlaupi og Formaður að keyra ungmeyjar í Kringlu á útsölurnar. Þetta var frekar linkulegt hlaup hjá okkur, en þó góð byrjun á nýju hlaupaári og nýrri hlaupaviku. Í Potti var um það rætt að næsta stórhlaup Samtaka Vorra gæti sem bezt verið hinn 29. febrúar og gæti heitið Hlaupaárshlaup. Að hlaupi loknu mætti slá upp veizlu. Og meðal annarra orða: Fyrsti Föstudagur verður haldinn næstkomandi föstudag að heimili blómasala. Verður þar opnuð Lagavulin flaska sem lengi var týnd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband