Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Maðurinn með hattinn - mafíuhattinn

Rigningin hrundi niður úr himninum er ritari gekk hægum skrefum frá bílastæðunum við VBL og yfir á brottfararplan. Um daginn hafði umræðan geisað svo við lá hallarbyltingu, upplýst að von væri á þjálfurum og búið að ákveða breytta hlaupatíma. Þessum fastheldna hlaupara, aðdáanda fastra, óbreytanlegra gilda og viðmiðana, var þungt í sinni. "Á nú að fara að breyta tilveru minni, þegar ég er loksins búinn að ná fótfestu?" Út í útiklefa - og sat þar einn um stund. Klæddist loks hlaupagíri og mætti í Brottfararsal. Þar mættu smásaman nokkrir hlauparar sem verða ekki nefndir á nafn. Furðulegast þótti mér að sjá tvo hlaupara, þ. á m. Ágúst þjálfara, skjótast út úr kompu forstöðukonu VBL, stuttu fyrir hlaup, og var engu líkara en hann hefði verið að gera eitthvað af sér. Hið sanna kom loks í ljós er hann kom upp aftur klæddur til hlaupa: "Það er búið að setja mig af sem þjálfara" sagði hann, og brast í röddinni svo við lá gráti. Hann reyndi að sjá það jákvæða í stöðunni og sagði með fölsuðu brosi: "Nú get ég einbeitt mér að því að hlaupa." Þetta var einum of gegnsætt. Hlauparar Samtakanna kenndu Ágústi um slakan árangur í seinasta Reykjavíkurmaraþoni, þar sem tímar flestallra voru lélegri en fyrr. Nú notuðu menn tækifærið og skiptu honum út í þeim tilgangi að bæta tíma hlaupara sem láta sig tíma í hlaupum engu varða! Kemur maður svona fram við vini sína? Ég bara spyr. Þetta gera bara KR-ingar.

Denni var mættur af Nesi og lýsti yfir því að nærveru hans bæri að skilja sem stuðning við Fyrsta Föstudag - þeirri góðu hefð mætti ekki breyta. Svo man ég að segja frá Birgi og Kára. Nú fer Kári að yfirgefa hópinn, ganga í klaustur í Franz og ígrunda ritgerð sína hina meiri, verður fjarri góðu gamni í þrjá mánuði. Ekki skil ég hvernig hann hyggst þreyja Þorra og Góu syðra og vera fjarri góðra drengja hópi, en menn gera svo marga vitleysuna nú um stundir...

Nema hvað, allmargir hlauparar mættir  í rigningunni, en aðeins ein kona: dr. Jóhanna. Lagt í hann. Aldrei áður hef ég upplifað jafn eindregna uppskiptingu hópsins í tvær fylkingar: hina fljótari og hina lakari. Mér er ljúft og skylt að viðurkenna að ég tilheyrði seinni hópnum, enda rétt að byrja að hreyfa mig aftur eftir maraþon. Í mínum hópi voru nokkrir góðir menn sem hölluðust að því að ræða klassísk fræði, mikið spjallað um Njálu og þann fróðleik sem þar væri að hafa: Eru köld kvenna ráð, Ung var ég gefin Njáli, Snemma gengur faðir vor til hvílu, Með lögum skal land byggja o.s.frv. Svona erum við þjóðhollir og klassískir í okkur. Maður vorkenndi hinum hraðari hlaupurum, en lakari andans mönnum, að hafa misst af þessum mikla fróðleik. Minn hópur fór afar hægt yfir, enda nutum við hvers fótspors eins og það væri ljúffengur biti af humar - vildum ekki spilla máltíðinni með því að kokgleypa allt í einhverjum æsingi. Við kunnum að njóta hlaups, hlaup færa okkur unað, við hugsum um mat á hlaupum og á andlit vor er ekki meitlaður harðlífissvipur, sem svo oft má greina á andlitum sumra hlaupara í Borgarlandinu.

Nema hvað, við týnum fremstu hlaupurum og sáum ekkert meira til þeirra það er eftir lifði hlaups. En það var allt í lagi. Í Nauthólsvík misstum við tvo hlaupara, sem styttu um Hlíðarfót, en aðrir fóru hefðbundið um Öskjuhlíð (með pissustoppi) - enginn datt um keðjuna. Áfram upp Hi-Lux, kirkjugarð, Veðurstofuhálendið og þannig áfram. Ég náði að koma Kára í ham yfir verðlagi og slökum gæðum á matvöru sem í boði er og allir sætta sig við - en eru ekki boðleg. Hér hvíldi einhver ró yfir okkur, rigningarúðinn buldi á okkur, enginn vindur, hiti sjálfsagt kringum 12 gráður - bestu skilyrði til hlaupa sem hægt er að hugsa sér. Við héldum áfram um Klambratún, Hlemm og út á Sæbraut.

Það var samdóma álit þeirra er með mér hlupu að þetta hefði verið yndislegt hlaup, jafnvel þótt við hefðum verið nokkru á eftir þeim sem fremstir fóru, enda er það ekki sérstakt kappsmál hlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins að vera fyrstir eða hlaupa á ákveðnum tíma eða einu sinni að bæta tíma: bara að hlaupa og finna til einsemdar, eða eins og einhver sagði á eternum í dag: "Ég hleyp ekki til þess að ná árangri eða til þess að hlaupa (enn) hraðar - ég hleyp af því ég er einmana og líður illa - þannig á það líka að vera. Þannig líður mér bezt."

Einhverra hluta vegna var ónefndur álitsgjafi og skoðanahafi og samvizka Þjóðarinnar mættur á Brottfararplani er við komum tilbaka - ekki vissi ég erindi hans, því ekki hljóp hann í dag. Hann var sem fyrr klæddur ljósum rykfrakka og með svartan Borsolino-hatt úr flanneli. Er hann kom auga á annálaritara rifjaðist upp fyrir honum að hann átti sitthvað vantalað við hann og vildi taka upp töluna frá því á miðvikudag og halda áfram að fjandskapast. En einhvern veginn var allt loft rokið úr honum og fjandskapurinn varð hálfmáttlaus - nánast vinsamlegur. Hér var upplýst að kúarektorar í henni Ameríku hefðu borið Stetson-hatta, en mafíósar á Ítalíu, og síðar New York, Borsolino-hatta. Þetta gat Kári staðfest, móðir hans starfaði í íslenzku diplómasíunni í Nýju Jórvík upp úr 1944 og man vel eftir velklæddu mafíósunum og höttunum þeirra. Hvers vegna mikilsvirtur álitsgjafi vill líkjast mönnum með vafasama fortíð og vafasamt siðferði - er oss hulið. En hins vegar skiljum vér nú hvers vegna álitsgjafinn brást svo illa við spurningu ritara s.l. miðvikudag, sem hann varpaði fram í fullkominni fáfræði, og spurði: Er þetta Stetson-hattur sem þú ert með. Okkar maður vill frekar vera mafíós en kúreki.

Sif Jónsdóttir, langhlaupari, var mætt til Laugar er hlauparar komu tilbaka. Sést þar bezt helzta einkenni Hlaupasamtakanna: fólk dregst að gáfum og kímni félagsmanna, þótt það telji betur fallið til að ná árangri í hlaupum að hlaupa með öðrum hlaupahópum. Allmargir hlauparar mættir í barnapott og þar var setið um stund. Prófessor Fróði kom skokkandi og mændu allir á hann úr pottinum í þeirri von að hann myndi misstíga sig og taka flugið - en því miður náði hann potti heill á húfi, og við misstum af góðri skemmtun.  Rætt um hlaupahátíðina sem fram undan er og hlutverk einstakra hlaupara.

Svo hurfu menn til skyldna sinna, matarlögunar og næringar. Í gvuðs friði, annálaritari.


Eygðu góðan dag...

Í morgunpotti hitti ritari fyrir þau heiðurshjón frú Línu og Magnús. Hann rifjaði upp tíma Magnúsar í hálfu maraþoni 18. ágúst s.l., 1:46:26. Magnús var alveg hissa, hélt hann hefði farið þetta á rúmum tveimur tímum. Lína var ánægð með sinn mann og sá að það var alveg þess virði að reka hann út að hlaupa öðru hverju. Svo hurfu þau á braut og Lína kvaddi með orðunum: Eigðu góðan dag! Þótt vel væri meint kveðjan sat hún nokkuð í ritara og honum varð bæði hugsað til ættjarðarinnar og fjallkonunnar. En þegar hann kom í hinn margfróða morgunpott, lærðan og lýrískan, var þessi kveðja útskýrð fyrir honum: hún sagði ekki "eigðu góðan dag" - heldu "eygðu góðan dag" í merkingunni: vonandi sérðu ljósið í dag. Ekki fannst mér þetta verra en hvað annað og gekk glaður í bragði til starfa minna í Lýðveldinu í dag.

Miðvikudagur, langt hlaup, mikil þátttaka. Búið að boða fund í barnapotti. Svo virðist sem fundarboð hafi fælt frá og fáir mættir: dr. Friðrik, Gísli, Ólafur ritari, Haukur, Þorvaldur og Benedikt. Guðmundur úti á stétt. Við sáum Pétur guðfræðiprófessor standa úti á plani og ræða þar við mann klæddan í ljósan rykfrakka með svartan, barðamikinn flónelhatt á höfði. Höfðu þeir staðið þar drykklanga stund í djúpum samræðum um æðri efni þegar e-r uppgötvaði að hattprýddi maðurinn var sjálfur Vilhjálmur Bjarnason. Loks kom að því að er honum þóknaðist að færa persónu sína nær brottfararsal VBL kom í ljós að VB var án hlaupafatnaðar. Inntur eftir þessari anómalíu kvaðst hann hafa ruglast á dögum, hefði átt að vera á fundi í HÍ - og því ekki tekið hlaupafatnað með til höfuðborgarinnar. Nú gerðist ritari forvitinn um hattinn og spurði: Er þetta Stetson-hattur? Hér skipti Vilhjálmur litum og jós óbótaskömmum yfir ritara, þótt ekki hefði hann gengið svo langt að kalla hann Framsóknarmann - en líkast til öll önnur skammaryrði þjóðtungunnar voru notuð til þess að útmála ritara sem argasta aumingja, drullusokk og fávita. Svo sagði VB: "Þetta er Borsolino-hattur." Þegar ritari vildi vita úr hvaða forlátaefni svo ágætur hattur væri gerður, varð fátt um svör og Vilhjálmi datt ekki einu sinni í hug nafnið á skepnunni sem framleiddi hráefnið í hattinn - en úti á stétt kom einhver tilgáta um flónel eða flannel-ullarefni eða eitthvað í þá veru - en flottur var hatturinn, því er ekki að neita.

Lagt af stað í rigningarúða og samstaða um að fara í sjóinn - en stutt að öðru leyti. Menn fóru sér í engu óðslega, enda hlaupatímabilið búið og ekkert annað framundan en að hafa gaman af mislöngum hlaupum. Á leiðinni inneftir var rætt um margt fróðlegt er lýtur að þroska mannsins og því hvernig áhugamálin þróast eftir því sem líður á mannsævina. Hraut margt spaklegt af vörum þeirra dr. Friðriks og Gísla - enda menn margreyndir og fróðir.

Það gladdi okkur innilega að koma í Nauthólsvíkina og vita að Ágúst myndi ekki fara í sjóinn í dag. Þar var krani að hífa ýmis flotildi úr sjónum, en við gerðumst heimafrekir og heimtuðum okkar pláss í sjónum þennan dag: dr. Friðrik, Gísli og ritari skelltu sér í sjóinn og syntu rekspöl frá landi. Við ræddum það hver áhrif sjósund gætu haft á heilsu manns eins og ritara sem er nýstiginn upp úr flensu - sem fyrr fullvissaði doktorinn viðstadda um að sjósund væri bara til bóta fyrir veika menn. Ég er ekki frá því að hann hafi á réttu að standa. Hér komu fram hjá Gísla ýmsar framsæknar hugmyndir um tilbrigði við hlaup n.k. laugardag - og verður fróðlegt að sjá hversu til tekst.

Nú var snúið við - enda ástæðulaust að vera að sperra sig þegar hlaupatímabili er lokið. En viti menn - þar sem við skeiðum fyrir flugvallarendann mætum við tveimur syndaselum, þeim Magnúsi og Ágústi, engar skýringar fengust á seinkomu þeirra og mér var létt í geði er ég upplýsti Ágúst um að farið hefði verið í sjóinn og sjóbaði væri lokið þennan daginn. "Nei, nei - ég er á leið í sjóinn" æpti prófessorinn og vildi ekki hlýða á hverjir hefðu þegar farið í sjóinn. Benedikt snöri við með þeim Magnúsi og Ágústi (og á ég bágt með að trúa að hann hafi LÍKA beðið eftir að hann baðaðist) - Magnús fór Hliðarfót að ég tel - hinir fóru að sögn Stokkinn, um 16 km.

Við hinir fórum á góðu tölti tilbaka, tókum á leiðinni fram úr tveimur ungum konum sem hlupu á Ægisíðu - skyndilega vorum við komnir á blússandi fart og Gísli sagði: Hvað! voðalega erum við frískir í dag! Þá heyrðum við hlátrasköll að baki okkur - það var víst séð í gegnum þetta. Menn rifjuðu upp ýmis afrek eða áföll í maraþonhlaupum síðustu áratuga, var margt lærdómsríkt að hafa þar.

Aldrei þessu vant tóku menn sér góðan tíma í að teygja á stétt. Loks farið í pott - en þar var fámennt og varla stætt á því að taka stórar ákvarðanir um laugardaginn. Inni í brottfararsal birtist prófessor Fróði alblóðugur - hafði tekið enn eina flugferðina og skaðast stórlega, það er sannarlega skammt stórra högga milli í hópi vorum. Svo birtist Birgir ábúðar-, ábyrgðar- og ásetningsfullur - en laus við alla hlaupalöngun og vildi aðeins funda um laugardaginn. Honum var bent á barnapottinn, þar stæði enn fundur og þangað skyldi hann hraða sér. Ágúst sagður vera að undirbúa mikið ávarp - en áhyggjur af því að Ó. Þorsteinsson hygði á hefndir og jafnvel upphlaup á brottfararplani á hlaupadegi.

Næst: föstudagur, þá megu menn sjá fréttina úr Héraðsfréttablaði Vesturbæjarins um hlaupahátíðina Miklu. Vel mætt. Í gvuðs friði. Ritari.

Blóðug barátta um völdin

Blóðug valdabarátta geisar innan Hlaupasamtaka Lýðveldisins þessi missirin, ef marka má heimildarmann ritara, hinn viðkunnanlega og velkynnta geðprýðismann, frænda og vin ritara, Ó. Þorsteinsson Víking. Margir Vesturbæingar munu kannast við sýnina þegar þessi geðþekki reykvízki aðalsmaður í kynslóðir ekur um á kampavínslitri jeppabifreið sinni og lítur hvorki til hægri né vinstri, nema þegar landslög kveða skýrt á um það, númerið hefur fylgt ættinni frá því bílaöld hófst í Reykjavík, R-158. Aumingi minn hafði krækt sér í flensu í Finnlandi og ekki mætt til hlaupa um skeið, en tók þá djörfu ákvörðun að mæta til sunds í hádeginu í dag, hættandi á það að mæta Vilhjálmi Bjarnasyni, sem lætur óhlaupna hlaupara gjarnan heyra það óþvegið. Ekkert skammaryrði veit hann ljótara en "Framsóknarmaður". Ég beitti taktískri innkomu, fór fyrst inn og rakaði mig, kom svo út og fór í heitasta pottinn, þaðan í gufu; þegar ég sá silúhettu Vilhjálms ganga hjá baði, lammaði ég mér út í Örlygshöfnina þar sem félagar mínir sátu og ræddu málin, þessir helztir: Ó. Þorsteinsson, Ó. Gunnarsson, Jörundur, Mímir, dr. Einar Gunnar Pétursson og dr. Baldur Símonarson.

Það bar sumsé helzt á góma að Ólafur Þorsteinsson telur öll teikn vera um valdabaráttu sem kraumar undir sléttu yfirborði kurteisi og gagnkvæmrar virðingar sem hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins alla jafna sýna hver öðrum. Um þetta hélt hann ekki færri en tvær þrumandi ræður á leið hópsins frá Vesturbæjarlaug, en aðal ræðustaður er í Nauthólsvík. Þar lét hann ónefndan viðskiptafræðing fá það óþvegið fyrir að trana sér fram í héraðsfréttablaði Vesturbæjarins, þar sem hann var ýmist titlaður heiðursforseti eða formaður Hlaupasamtakanna, meðan hið rétta er að Ó. Þorsteinsson er réttkjörinn formaður til lífstíðar, að svo miklu leyti sem kosningar eru viðhafðar um nokkurn hlut. Er fáheyrt að maður með fasta búsetu í öðru sveitarfélagi fái þann sess sem gerðist í þessu tilviki og verður ekki lagt út á annan veg en grímulaus gjallarhornssýki og sókn eftir mannvirðingum innan Hlaupasamtakanna og stól formanns til lífstíðar.

Á góma bar einnig Hlaupahátíð sú sem stendur fyrir dyrum næsta laugardag og það áberandi hlutverk sem sumum hlaupurum er fengið - meðan öðrum (les: Ó. Þorsteinssyni) er alfarið haldið utan við. Allt ber að sama brunni: baráttan kraumar undir yfirborðinu.

Nú er að segja frá því að Ólafur frændi minn og vinur átti leið í Melabúðina í gær til þess að sækja sér og fjölskyldunni eitthvað í svanginn. Nema þegar hann á leið þar um rekur hann augun í Audi Quattro, kolsvartan innan sem utan, og númerið VB-158. Nú þurfti ekki lengur vitnanna við - hér lyktaði allt af samsæri svo hörðu og ósvífnu að okkar manni rann kalt vatn milli skinns og hörunds.

Nú sátu menn sem lamaðir í potti er þeir ræddu þessa stefnu sem mál eru að taka viku eftir Reykjavíkurmaraþon. Hver dúkkar þá ekki upp í potti nema Einar blómasali, með raksápu í eyrum og blóðugur um kinnina svo jaðraði við heimsókn á Skadestuen: var mönnum nú alveg lokið, og einhver sagði: Et tu, Brute! Hér var þá kominn enn einn erfðaprinsinn sem gerði ósvífið tilkall til embættis formanns til lífstíðar. Viðbrögð hins viðkunnanlega blómasala voru þess eðlis að hér var greinilega eitthvað blandað saman við.

Áfram rætt um samsæri og valdabaráttu. Upplýst að blómasalinn er nýr flugmaður í hópi vorum eftir að hafa gleymt keðjunni góðu í Öskjuhlíð s.l. mánudag, þrátt fyrir að dr. Friðrik hefði hrópað upp: "Passið ykkur á keðjunni." Okkar maður tók flugið og skall með miklum dynk í jörðina, og bættist þar með í hóp Ágústs, Ólafs ritara og Þorvalds. Ekki munu þó hafa verið uppi hugmyndir um krossfestingu blómasalans.

Lýst yfir áhuga á að ganga á Fimmvörðuháls við tækifæri. Á morgun er væntanlega hefðbundið mánudagshlaup, ritari mun reyna að mæta ef heilsa leyfir og fara Aumingja. Í gvuðs friði, ritari.

Reykjavíkurmaraþon í yndislegu veðri

Sjö voru skráðir í Reykjavíkurmaraþon af okkar hálfu í dag og þeir mættu allir. Fjórir voru skráðir í hálfmaraþon og þeir mættu einnig allir til hlaups. Framvarðarsveitin mætti til undirbúnings í VBL og gekk þaðan ofan í bæ. Menn höfðu áhyggjur af einstaka hlaupara, en svo dúkkuðu þeir upp hver af öðrum, Magnús alhress, nýbúinn að skrá sig í hálft, blómasalinn sömuleiðis í hálft, dr. Jóhanna í hálft, og Vilhjálmur í sitt tuttugasta. Ekki sást til Sjúl. Það var talið niður og taugarnar þandar til hins ítrasta, einkum hjá nýliðanum, Eiríki - sem hafði haft slæmar draumfarir og aftur og aftur spurt sig hvort þetta væri það sem hann vildi gera. Í næsta nágrenni var það sem kalla má periferíuna, Hjörleifur og Þórarinn biðu þess spenntir að hlaup hæfist. Svo var ræst.

 Það var mikil stemmning á Lækjargötunni og mikil spenna. Ræstir saman þeir sem ætluðu heilt maraþon á undir fimm klukkustundum, og þeir sem ætluðu hálft maraþon. Framan af var ég í kompaníi við Birgi, Eirík, dr. Jóhönnu og Andreas. Þau fóru út á hröðu tempói, 5:20. Mér fannst ég ráða vel við það og hafði ekki athugasemdir við taktinn. Farið hefðbundið sem leið lá um Fríkirkjuveg, Skothúsveg, Suðurgötu, o.s.frv. Ég ákvað að leyfa hinum fremstu að halda sínum takti og frekar reyna að slaka á. Ekkert hafði spurst til Sjúl, og höfðu menn áhyggjur af því að hann hefði klikkað á hlaupinu. Nema hvað, þegar ég er á fullri ferð út Norðurströndina, hver dúkkar ekki upp þar annar en Sjúl. "Sæll, Ólafur!" segir hann. Hann sagði farir sínar ekki sléttar, væri slæmur í mjöðm og vissi ekki hversu honum tækist til í dag. Kannski færi hann ekki nema 10 km. Ég sætti mig við skýringar hans - og taldi ekki ástæðu til að vera með þrýsting.

Við héldum hópinn inn í bæ. En þegar kom að því að taka ákvarðanir um breyttar hlaupaleiðir ákvað Sjúl að halda áfram með mér, fara alla vega 21 km. Ég var feginn því að hafa félagsskap, enda skiptir hann sköpum ef samræður eru uppbyggilegar. Fórum sömu leið og farin var í fyrra, inn Sæbraut, niður hjá Eimskipum og þar í gegn, upp hjá Kleppi og vesturúr. Vorum báðir í fínum gír og allt gekk vel.


Við vorum á góðum tíma í 21 km - 2 klst. Inn í Elliðaárdal og svo upp aftur og inn í Fossvogsdal, þetta er öfug 69 og við komnir á kunnuglegar slóðir. Pössuðum upp á að drekka vel á öllum drykkjarstöðvum, bæði vatn og orku. Ég hafði sagt Sjúl að heimferðin hæfist í Fossvogsdalnum. Allt gekk vel, þar til í Nauthólsvík, þá neituðu fætur Sjúl að bera hann lengra. Um þetta leyti hafði ég pundað á mig orkugeli og fengið límonaðidrykk hjá Gísla. Var klár í framhaldið, það voru vonbrigði að félagi minn skyldi ekki geta haldið áfram, en svona er þetta  stundum. Ég hélt áfram og skeiðaði um gamalkunnugar slóðir, flugvallarenda, Skerjafjörð, Ægisíðu. Hérna fór ég að verða var við þreytu og neyddist til að hvíla mig eilítið á Nesveginum, en tók svo upp hlaupið jafnóðum.

Þegar ég var kominn 35 km velti ég fyrir mér hvers vegna ég væri að þessu. Mér fannst ekki gaman að hlaupa á þessum tíma, jafnvel þó að ég hefði þrjá fylgdarmenn, Ágúst, Gísla og Sigurð Gunnsteinss., sem báru í mig drykki og næringu og hvöttu mig á allan hátt. Mér leiddist og hugsaði með mér að gera þetta aldrei aftur. Á Nesi vestanverðu, rétt hjá Gróttu, náði Jörundur mér, hann var í góðum gír og hafði ekki tíma til að staldra við, keyrði áfram. Ég gerði slíkt hið sama, en þegar ég var kominn 38 km fékk ég krampa í innanvert læri, frá kálfa og upp í nára. Varð að hvíla, ganga góðan spöl. Fór svo að hlaupa við fót, en þegar ég kom inn á Tryggvagötuna, og Ágúst hamaðist við að smella af mér myndum, kom næsta áfall: krampi í utanvert læri hægra megin. Ákvað að ganga inn í Lækjargötuna og freista þess að hlaupa með reistan makka síðasta spölinn. Framan við Stjórnarráðshúsið tölti ég af stað - en þá kom stóra áfallið: báðir kálfar læstust í skelfilegum krampa og ég varð að stöðva hlaup. Eftir á var mér sagt að viðstaddir hafi verið í meira áfalli en ég við þessa uppákomu: Helmut var við það að fá taugaáfall (eða var það hjartaáfall?) - hann hafði alla vega þungar áhyggjur af mér. Ég varð að hökta áfram en tókst að tölta síðasta spottann og vonandi halda höfði. Tími: 4 klst. 32 mín., nokkru verri tími en í fyrra.

Upp úr stendur frammistaða Jörundar og seigla, og ágætur árangur Eiríks í fyrsta maraþonhlaupi, 4 klst. 19 mín - sami tími og Jörundur og Andreas náðu.

Ég vil þakka þeim Gísla, Sigurði Gunnsteinssyni og Ágústi fyrir veittan stuðning meðan á hlaupi stóð, hann var ómetanlegur og sýnir að þótt eldri borgarar séu oft óáreiðanlegir í umferðinni, geta þeir samt sem áður þjónað nytsamlegum tilgangi í öðru samhengi.

Í gvuðs friði. Æfingar halda áfram sem fyrr á næstunni. Ritari.


Slakað á fyrir maraþon - úrval hlaupara í potti

Svo sem sagt var í seinasta pistli fór í dag fram hefðbundið hlaup þeirra hlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem ekki hyggjast taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni, eða fara bara stutt, og voru mætt til hlaupa þau Gísli skólameistari og dr. Jóhanna. Þau ákváðu að fara bara stutt, hálfgerðan aumingja, út í Skerjafjörð og mátti skólameistarinn hafa sig allan við að halda í við dr. Jóhönnu. Er þau mættu til potts var þar fyrir nokkur fjöldi hlaupara sem slepptu hlaupi í dag en völdu að liggja í potti þess í stað. Þar lágum við í um eina og hálfa klukkustund og ræddum þau málefni er til framfara horfa í Lýðveldinu. Áhyggjum var lýst yfir stöðu góðs siðar og skikks í Hlaupasamtökunum, svo mjög hefur ágerst tilhneiging félagsmanna til þess að leggja í púkk með skemmtisögum eða vísum sem hafa vafasamt siðferðilegt inntak eða boðskap. Einnig var mikið rætt um lög og rétt, framferði lögreglunnar í Húnavatnssýslu sem hefur valdið félagsmönnum miklum útlátum undanfarin misseri fyrir sakir óbilgirni og ósveigjanlegrar túlkunar á lögum um hámarkshraða á vegum úti. Hér kom embættismaðurinn upp í okkar manni og hann reyndi að koma á framfæri því sjónarmiði að lög væru afar skýr um hámarkshraða á þjóðvegum og ef lögregla horfði í gegnum fingur sér með lögbrjóta væri hún að fremja embættisglöp. Þetta var ekki vinsælt sjónarmið, enda mikið af mannúðarsjónarmiðum á floti í pottinum.

Við Jörundur fórum í Laugardalinn í dag og sóttum gögnin okkar, verzluðum svolítið við Torfa í hlaupaverzluninni og melduðum Kommúnistana til þátttöku. Röltum um svæðið og þótti lítið koma til þess sem í boði var, aðeins hlaupaverzlunin og Asics, svo að vísu borð fyrir viðskiptavini Glitnis. Þeir sem ekki voru viðskiptavinir voru reknir í burtu og látnir skilja að þeir væru minniháttarfólk. Við fórum út og veltum fyrir okkur þeirri stöðu sem yrði uppi um kvöldið, þegar tónleikar Kaupþings hæfust. Við vorum þarna um eittleytið, hvernig yrði þetta þegar þúsundirnar færu að streyma í dalinn. Ég sagði við Jörund: "Var þetta ekki svolítið vanhugsað af Kaupþingi að planta tónleikum hérna í Dalnum akkúrat á sama tíma og Glitnir er að registrera í hlaup?" Jörundur horfði vantrúaður á mig og ég sá að hann hugsaði: "Er maðurinn virkilega svona vitlaus?" - en sagði svo: "Ég held þetta kunni að vera mótleikur Kaupþings til þess að skáka Glitni." Svo einfalt var það. Á laugardagskvöld fer síðan fram tónleikur á Klömbrum í boði þriðja bankaauðvaldsins, Landsbanka. Í potti var það staðfest að þátttaka Kommúnistanna í maraþoni væri í hæsta máta tímabær: hér færu fram lágvær og áberandi mótmæli til þess bærra aðila gegn yfirgangi Kapítalsins, sem hefur sölsað undir sig íþróttir og menningu í Lýðveldinu, varla er hægt að fara á Kamarinn án þess að það sé í boði Kaupþings, Glitnis eða Landsbanka. Má segja að menn séu með þátttöku sinni að segja: leyfið okkur, alþýðunni, að njóta fóbbolta og hlaupa í friði fyrir ykkar gráðugu fingrum! Á þann hátt leggja Hlaupasamtök Lýðveldisins baráttunni fyrir bjartari og malbiks- og lúpínulausri framtíð lið sitt.

En nú er komið að því: á morgun er Dagurinn. Mæting í útiklefa VBL kl. 8:00. Klæðning, smurning, pepping. Sjö hlauparar fara heila porsjón, þrír eru kandídatar fyrir hálfa. Fleiri kunna að bætast við styttri vegalengdir. Megi allir þátttakendur Hlaupasamtakanna verða þeim til sóma og ganga vel!

Í gvuðs friði, ritari.


Farið hægt í norðangarranum - og núllstilling

Miðvikudagshlaup var óvenjulegt að því leytinu til í þetta skiptið að meginþorri hlaupara fylgdi hlaupaáætlun Nagamura, AKA Ágústs Kvarans. Það var lokaundirbúningur fyrir maraþonhlaup og aðeins hlaupnir 5 km, sem með lítilsháttar ágústínskri styttingu urðu um 8 km þegar upp var staðið. Einhverjir munu þó hafa farið eitthvað lengra, þeir sem ekki hyggjast fara heila porsjón í maraþoni á laugardaginn. Helstu staðreyndir þessar, mættir: dr. Friðrik, Vilhjálmur, Flosi, Gísli, Ágúst, Sjúl, Birgir, Eiríkur, Jörundur, ritari, Guðmundur, Magnús, Þorvaldur og sonur dr. Friðriks, ég man ekki nafnið, biðst forláts. Vilhjálmur í góðu skapi og var enginn kallaður framsóknarmaður fram að hlaupi. Í brottfararsal söfnuðust hlauparar og voru bara spenntir. Enn voru fimmtán mínútur í hlaup og þarna sátum við og fögnuðum hverjum nýjum hlaupara er bættist í hópinn. Það flugu glósur og kerskniyrði, en allir gengum við heilir og ómeiddir út á brottfararplan. Norðangarri, ca. 7 m/sek, en þó ekki kalt, líklega um 13-14 stiga hiti.

Það var fyrirfram ákveðið að fara stutt og hægt - ekki þörf fyrir Garmin-tæki. Samt gátu verstu nördarnir ekki skilið græjurnar eftir heima, laumuðust til þess að stilla á tungl. Kvartað yfir stuttleika síðasta pistils, prófessor Fróði var rétt búinn með 1/4 af poppinu þegar lestri var lokið - fjölskyldumeðlimir litu hver á annan - "hvað gerum við nú?, tala saman?" - fleiri raddir um viðlíka vanda á heimilum manna. Ritari baðst velvirðingar á þeim tæknilegu mistökum er urðu við ritun s.l. mánudag, þá hafði hann í þágu persónufræði og sannleika, hafandi lamið takkana í á aðra klukkustund, ræst netvafrann og gerði ráð fyrir að hann opnaðist í nýjum glugga, en það varð náttúrlega ekki þannig. Netið ruddist inn yfir margorðan og ítarlegan pistil ritara, þurrkaði hvert einasta orð út - margar skemmtilegar persónulýsingar og lýsingar á spaugilegum atvikum og uppákomum - frústrasjónin algjör, "ekki nenni ég að skrifa þetta upp á nýtt!" hugsaði ritari. Setti í staðinn á blað stutta frásögn í skeytastíl og vísu með. Hvað um það, maður lærir vonandi eitthvað á þessu.

Þeir Gísli og Flosi eru gamlir í hettunni, þeir eru þeirrar skoðunar að menn séu mættir til hlaupa til þess að hlaupa, en ekki kjafta. Áður en maður vissi af voru þeir komnir fyrir pylsuskúrinn, en við Gústi og fleiri stóðum enn á brottfararplani og ræddum málin. "Þeir eru farnir!" hrópaði einhver, og við tókum viðbragð, tættum af stað. Nú eru hlauparar komnir inn á kolvetnahleðslufasa undirbúnings fyrir maraþon og allflestir þungir á sér. Stirðir, flestir kveinkandi sér undan meiðslum í hásinum, mjöðmum, kálfum, baki - Gísli sagði að það væri eitthvað undarlegt ef allir væru meiðslalausir er drægi nær maraþoni, aldrei hefði hann hafið maraþon nema heyra kvartanir frá öllum um alls kyns kárínur. Flosi gladdist er hann heyrði hversu var komið heilsu manna og kvaðst sannfærast enn og aftur um gildi kjörfrasa Hlaupasamtakanna - Okkur líður bezt illa.

Jörundur rifjaði upp grasekkilsstand Birgis. Hann sagði okkur frá þeim grun sínum að Birgir sinnti ekki fyllilega foreldrisskyldum sínum meðan á þessu ófremdarástandi stæði, börnin virtust síhungruð - og kötturinn eilíflega vælandi, þessi lati köttur, sem aldrei nennir neinu! Þó svo hann væri sveltur og nánast hungurmorða, dytti honum ekki í hug að rölta niður í fjöru og veiða sér til matar.  

Það var farið afar hægt - þrátt fyrir þetta skiptist hópurinn fljótlega í tvennt. En að þessu sinni voru óvænt bandalög uppi - Gísli, Ágúst, Flosi, en að hinu leytinu Jörundur, Sjúl, Vilhjálmur. Aðrir flæddu þar á milli og flutu línur fram og tilbaka alla leiðina. Menn voru þungir og stirðir á sér - en það er víst ekkert óeðlilegt þegar svo nálægt er komið hlaupi og kolvetnahleðsla hafin. Rætt um hverjir færu hvað á laugardaginn, hvaða tíma stefnt væri að - ýmis ráð gefin um undirbúning, matarfræðilegs, hlaupalegs og andlegs eðlis. Áréttað að hlauparar Hlaupasamtakanna hafa yndi af hreyfingu í bland við strákslegan og galsafenginn félagsskap og voru margir sem töldu það innsta eðli þessara samtaka, auk einsemdar og þjáningarástar.

Skeiðað niður að rampi í Nauthólsvík. Þessir rifu sig úr fötum og böðuðust að fullu: Ágúst, Flosi, dr. Friðrik, Eiríkur,  Birgir, Gísli og ritari. Við Ágúst syntum út að flotbryggju og klifruðum upp (þurfti krafta í kögglum) - lituðumst um yfir Flóann og hentum okkur svo í svala Atlanzhafsölduna. Hinir syntu svolítinn spöl í átt til Bessastaða, en hurfu frá því ráði að heimsækja Il Presidente - komu tilbaka. Um svipað leyti sáum við til fólks sem gekk niður að ylströndinni, heil hersing, og hafði einhver á orði að þar færu sjósundssamtök Lýðveldisins. Áður hafði Jörundur beðið menn að fylgjast vel með því hvort e-r kæmu utan af Faxaflóa syndandi sem væru til þess fallnir að varpa rýrð á sund Hlaupafélaga. Sjósund var hressandi, sjávarhiti 8,5 gráður, og allir líkamlegir kvillar hurfu eins og dögg fyrir sólu. Menn gengu brattir af rampi með helztu græjur núllstilltar.

Við klæddumst í horninu hjá Siglingaklúbbnum, þar var gassandi hiti. Þar var ræddur ýmis dónaskapur sem ekki verður hafður eftir á bloggsíðu virðulegra samtaka, og öllu var jafnóðum snarað á latínu, enda læknar og lærðir menn útskrifaðir úr latínudeildum Reykjavíkur Lærða Skóla viðstaddir. Er hér komin sönnun þess að bloggsíðan sætir gæðatryggingu er uppfyllir alla helztu siðferðiskvarða sem þekktir eru á byggðu bóli. Við vorum gizka ánægðir með okkur er við héldum af stað af nýju, Ágúst spurði hvort ekki ætti að fara Goldfinger, alla vega 69 - þegar hann fann litlar undirtektir sagði hann - orðinn vonlítill - "við hljótum að geta farið Stokkinn?" - en menn voru einbeittir, nei, hér yrði engin vitleysa höfð í frammi. Farinn Hlíðarfótur. Meira að segja þá sagði Ágúst "eigum við ekki að fara Stíginn í Öskjuhlíð?" - menn létu sem þeir heyrðu þetta ekki. Stefndu áfram á Hlíðarfót - þá hrópaði Ágúst í angist - "en..., það er malbik!!!" - "já", sagði Jörundur ísmeygilega, "en engin lúpína", og glotti eins og Skarphéðinn á Þingvöllum. Hér kviknaði umræða um undirbúning fyrir maraþonhlaup, hvað á að éta, hvað á að drekka? Carboload var dagsskipunin og nefndar allar ingredíensur í slíkum kúr. Óvænt skaut ónefndur læknir inn ábendingu um að hann hefði aldrei náð betri árangri í löngu hlaupi en þegar hann innbyrti tvo bjóra kvöldið fyrir hlaup. Þetta var ekki takt við pólitíska rétthugsun hlaupara - og menn voru satt að segja eilítið slegnir út af laginu, en hristu svo af sér þessa ábendingu sem kom á skakk og skjön við alla kúra og áætlanir Nagamúra.

Nú brá svo við að við fórum ekki um Valsvöll enda ekki stætt á því sem KRingum - það yrði bara hlegið að okkur. Fórum þess í stað inn á svæði sem heitir "Private Property" og var það ágæt hlaupaleið, stígur alla leið upp á Hringbraut - og þaðan vestur úr. Á aðkomuplani var Kristján skáld Hreinsson, góðvinur Hlaupasamtakanna. Hafði hann góð orð um viðleitni okkar og var fluttur kveðskapur og þjóðlegur fróðleikur þarna á tröppunum eins og við var að búast. Birgir sýndi nýtt reiðhjól sem framleitt er í Kína úr títani eða einhverju álíka og þykir sérlega módern því maður finnur fyrir öllum örðum og ójöfnum (hvað er spennandi við það? spyr sá er hér pikkar). Teygt, spjallað, farið í pott. Þar sátum við góða stund og gerðist það helzt að Eiríkur var vígður inn í félagsskapinn með Vassily-brandaranum. Sumum fannst að vísu ekki við hæfi að segja brandarann í potti, eðlilegra hefði verið að segja hann í brekku, helzt í brekkunni á Álftanesi þar sem Geðlæknir Lýðveldisins sagði hann fyrst. En, ekki var seinna vænna að vígja svo ágætan hlaupara til virðulegra verka í hinum merku Samtökum. Enda Stórhlaup framundan, þar sem Eiríkur ætlar sér eigi ósmáan hlut.

Nú að því sem skiptir máli. Þeir hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem EKKI ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni mæta sem fyrr n.k. föstudag til hefðbundins föstudagshlaups kl. 16:30, og fara sinn kúrs. Aðrir eru í hvíld fyrir hlaup, en auglýst hefur verið að pottsamkunda verði í Vesturbæjarlaug upp úr kl. 17 á föstudag til þess að stilla saman strengi og skapa stemmningu. Síðan er mæting að morgni laugardags kl. 8:00 í útiskýli VBL, þar fer fram klæðning, smurning og pepping. Þaðan ganga síðan tvær sveitir Kommúnista til maraþonhlaups, en þær eru svo skipaðar: Kommúnistarnir I: Sigurður Júl., Birgir, Eiríkur; Kommúnistarnir II: Jörundur, Andreas, Ólafur og Haukur. Þeim möguleika var velt upp að mynda þriðju sveitina, Kommúnistarnir III: Vilhjálmur, Einar blómasali og Magnús, hlaupandi hálft maraþon, en undirtektir hjá Villa voru vægt til orða tekið - dauflegar.

Hvað um það, framundan er hvíld og andleg uppbygging. Á laugardaginn rennur upp stund sannleikans - Eiríkur er að fara sitt fyrsta maraþon og brýnt að hann finni hvatning félaga sinna. Á hjólum verða Gísli, Ágúst, Sigurður Gunnsteinss., og Einar blómasali, flytjandi drykki, orku, smurning, og hvatning, og er þeirra að vænta hvar sem við verðum. Gangi oss okkur öllum vel. Í gvuðs friði, ritari.


Nú styttist í Stóra Daginn

Nú styttist í maraþon og spennan fer vaxandi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, hverjir fara heila porsjón, hverjir hálfa? Kandídatar í heila eru: Jörundur, Birgir, Sjúl, ritari, Eiríkur og vor danski félagi, Andreas. Vilhjálmur fer hálft tuttugasta árið í röð og verðskuldar eftirtekt. Aðrir eitthvað skemur. Nú eru menn í hvíldarfasa, farnir 10-12 km í dag, hlaupið á Nes, fremstu menn fóru e.t.v. á full hröðu tempói - aðrir skynsamari. Engin ástæða til að sprengja sig nokkrum dögum fyrir stóra hlaupið. Mættir: Ágúst, Vilhjálmur, Þorvaldur, Magnús, Gísli, Einar blómasali, ritari, Sjúl, dr. Friðrik, Birgir, Jörundur og Hjörleifur.

Á leiðinni féllu ýmis gullkorn og ráðleggingar um hlaup sem vonandi koma að góðum notum á laugardaginn er kemur. Og svo þessi saga: ónefndur maður var vínhneigður, kom heim til sín á laugardagskveldi, slompaður. Kona hans brást ókvæða við og hótaði honum því, að ef hann hætti ekki drykkjunni, færi hún frá honum, og það ekki seinna en á mánudeginum þar á eftir. Hann orti:

Eilítið ég á mér finn,
að mér setur kvíða,
ekki á morgun heldur hinn
hætti ég að drekka.

Í gvuðs friði, ritari.


Hlaupari tekur flugið, eða Píslargangan í nútímaútfærzlu

Hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins eru hugmyndaríkir og skapandi einstaklingar. Þeir eru gáfaðir gleðimenn, þeir gleðjast yfir tímamótum í lífi félagsmanna, framförum í hlaupum og öllu því sem má til betri vegar vísa í málefnum Vesturbæjarins. Saman takast þeir á við sorgir og gleði í hvunndagslífi félaganna, leggja í púkk, axla byrðarnar með félögum sínum, eru góðir sálufélagar, bjóða öxlina þegar e-r þarf að brynna músum (sem er ekki oft!) og þar fram eftir götunum. Þessi hlaupadagur bauð upp á dramatíska staðfestingu á öllu því sem að ofan greinir og verður sagt nánar frá því hér á eftir. En eins og allir vita er vika í Reykjavíkurmaraþon og hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins eru að trappa seríöst niður - í dag var stefnan að fara stutt og hægt, 10 km í mesta lagi. Svo 10 á mánudag og 5 á miðvikudag. Mættir þessir: Flosi, Gísli, Ágúst, Magnús, Þorvaldur, Haukur, Sigurður Ingvarsson, Jörundur stórhlaupari, Andreas hinn danski, ritari, Birgir og Einar blómasali, seinn að vanda. Blómasalinn var krímugur í framan sökum óskilgreindrar vinnu og var snupraður fyrir að mæta enn og aftur óþrifinn til hlaupa - en að snupra blómasalann er eins og að skvetta vatni á gæs - hann bara brosir og lætur aðfinnslurnar sem vind um eyru þjóta. Menn leiddu það í hug sér hvort einelti virkaði ekki gegn sumum einstaklingum og hvort nauðsynlegt væri að taka upp nýjar aðferðir. 

Að þessu sinni  var ekki beðið eftir Garmin-nördum, það var bara keyrt af stað og fóru þar fremstir Gísli og Flosi, þeir eru svo gamlir í hettunni að Garmin-dellan hefur ekki náð rótfestu hjá þeim. Þegar komið var á Ægisíðuna var ljóst að sumir hlauparar ætluðu ekki að fylgja ráðleggingum þjálfara og hlaupaáætlun Hlaupasamtakanna, þar á meðal var þjálfarinn sjálfur, Prófessor Fróði. Það var bara gefið í og menn hlupu eins og þeir ættu lífið að leysa fram alla Ægisíðuna og inn í Nauthólsvík. Maður gat sosum séð það fyrir með Sigurð Ingvarsson, en að góðir menn eins og Ágúst, Andreas, Magnús skyldu hegða sér eins og kálfar á vori kom á óvart. Við Haukur og Jörundur vorum skynsamir, fórum hægt, höfðum kompaní af Gísla og Flosa um stund, mikið rætt um Limlestina (Gay Pride gönguna) - skv. kenningu Hauks er ákveðin prósenta af samfélagsflórunni samkynhneigð. Þar á meðal í Hlaupasamtökunum - þótt menn eigi í brösum með að koma út úr skápnum. Skv. sömu kenningu eiga að vera 600 samkynhneigðir á Agureyri - en barþjónar þar um slóðir neita slíkum áburði, segja að "þeir" hafi allir flutt burt. "Eins og þú..." sagði einhver, en það heyrði það enginn.

Fremsti hópur var nokkuð á undan okkur Hauki og Jörundi. Gísli, Flosi og blómasalinn hafa líklega stytt eitthvað, sennilega farið Hlíðarfót. Við félagarnir vorum ekki í styttingarhug, fórum hefðbundið um Öskjuhlíð o.s.frv. Þegar kom upp fyrir Hi-Lux varaði ég félaga mína við keðjunni. Það sama mun ekki hafa gerst þegar fremsti hópur fór þar um stuttu á undan okkur. Þá vildi ekki betur til en svo að Þorvaldur rak tána í keðjuna og tók flugið, ekki ósvipað okkur Ágústi, sem höfum þegar sýnt miklar listir í loftköstum um ýmislegar hlaupaleiðir. Um svipað leyti hrópaði Birgir: Jesus Christ! Þetta hefur verið óskemmtileg lífsreynsla fyrir félaga okkar - en félagar hans voru strax uppfullir af góðum hugmyndum til þess að kæta geð hans og reyna að hefja upp fyrir sársaukaþröskuldinn. Birgir tók eftir að blóð streymdi niður höfuðið úr gati í miðju enni, og ennisbandið minnti á þyrnikórónu Frelsarans. Hann hafði orð á þessu og taldi sig fara þar með mikilvæga symbólíkk af Golgata, þar til einhver sagði: Kannski ættum við bara að krossfesta hann? Já, negla hann fastan við tréð! Hér kom til skjalanna hógvær, ónefndur tannlæknir og sagði: En, góðir bræður, viljið þið ekki leyfa mér bora fyrir nöglunum fyrst?

Það er ánægjulegt að sjá sköpunarkraftinn taka yfirhöndina, allir taka þátt, eru skapandi, bæta við, prjóna við, enginn situr hjá, úr verður fljótandi frásögn sem býður upp á endalausa möguleika. Seint verður sagt að hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins séu ókristilega þenkjandi, nei, við erum með hugann við kveðskap Halla Pé og hugsum um guðdómleg málefni meðan á hlaupum stendur. Íslensk hómilíubók er á náttborði hlaupara.

Við Haukur og Jörundur fórum skynsamlega, en samt allhratt. Við kirkjugarðinn lenti ég í deilu við Hauk um ýmisleg málefni er varða ráðstöfun almannafjár og varði Stjórnarráð Íslands ákaflega. Ekki olli þetta vinslitum, en við hlaupararnir erum enn að reyna að fá Hauk til að fara heila porsjón. Við ákváðum að fara Laugaveginn og þar nutum við athygli viðskiptavina á Laugaveginum.  Sumir fóru styttra, aðrir fóru á Sæbraut, en allir hittumst við á Landakotshæð þar sem kirkjan stendur. Þar varð mikill fagnaðarfundur. Og svo var keyrt á fullu niður Hofsvallagötu, enn ljóst að Ágúst gerir allt sem hann getur til þess að þurfa ekki að hlaupa maraþon.

Sif Jónsdóttir langhlaupari kom þar sem við teygðum á plani fyrir framan laug. Hún hafði enn áhyggjur af því að verið væri að koma illa fram við suma hlaupara í pistlum ritara. Farið í pott. Sem við liggjum þar og ræðum mikilsverð málefni kemur Helmut staulandisk, haltrandi, og talar um skaddaðan liðþófa. Það sem mönnum dettur í hug til þess að losna við maraþon!! Jóhanna hvergi sjáanleg.

Birgir hefur tekið að sér að útvega boli fyrir Kommúnistana sem munu hlaupa sem sveit í Reykjavíkurmaraþoni, þar verður Lýðveldisfáninn í grunni, lárviðarsveigur umhverfis og svo lágmynd af þeim Marx, Engels, Lenín og Jörundi þvert yfir. Gaman, gaman!!!

Næst er hlaupið mánudag, þ.e.a.s. fyrir þá sem fylgja hlaupaáætlun. Nes, og vonandi sjóbað á flóði. Í gvuðs friði. Ritari.



Mikill hlaupari Jörundur...

Mikill hlaupari er Jörundur Guðmundsson. Að loknu hlaupi dagsins var það niðurstaða annálaritara að Jörundur væri einhver mestur hlaupari sem Hlaupasamtök Lýðveldisins hefðu á að skipa. Um þá niðurstöðu verður fjallað nánar hér á eftir. En mætt til hlaupa á miðvikudegi voru Ágúst, Þorvaldur, Sigurður Júl., Eiríkur, Birgir, Rúna, Jörundur, Haukur, Guðmundur, Gísli, dr. Friðrik og annálaritari. Venju samkvæmt söfnuðust menn saman í Brottfararsal og báru saman bækur sínar, upplýstu um nýleg hlaup, líkamlegt ástand, og væntingar um Reykjavíkurmaraþon. Ritari verður var við að síminn hringir ákaflega í geymsluboxi - "skyldi það vera minn sími?" í ljós kemur að hinum megin á línunni er ónefndur blómasali, ákaflega daufur í dálkinn. "Ég er hér staddur á stýrifundi í fyrirtækinu... var greindur með bronkítis í dag, settur á æðavíkkandi lyf, get ekki hlaupið neitt að ráði á næstunni..." lá við að brysti á með gráti. "Ég sagði lækninum frá læknisráði dr. Friðriks, sjóböðum og koníaksdrykkju, en hann brást bara hinn versti við. Hafði enga trú þessu." Hér lá við að blómasalinn færi að kjökra. Ritari reyndi að hughreysta hann og sagði að hann skyldi bara reyna að hlaupa aftur á föstudag. "Já, ég reyni..."

Nokkuð margir voru með Garmin-tæki, en fæst virtust virka eins og til var ætlast. Lengi var beðið á stétt eftir að menn næðu tungli, en loks var lagt í hann og ákveðið að fara Stokkinn, enda er byrjað að trappa drastískt niður fram að maraþoni. Rigning, 14 stiga hiti í Vesturbæ. Menn voru léttir á sér, Birgir búinn að léttast um fjögur kíló - og orkulaus samkvæmt því, spurning hversu gáfulegt það var. Það var greinilegt að mikill léttleiki var yfir fólki, erfitt að halda hraðanum niðri, fremstir Eiríkur, Ágúst, og Guðmundur, þar á eftir ekki síðri menn. Fátt markvert inn í Nauthólsvík, en tempóið var gizka hratt, Eiríkur fremstur og við Ágúst strefuðum við að ná honum. Niður á ramp og í sjóinn: Ágúst, ritari, Gísli, dr. Friðrik og Birgir. Sem við erum að klæða okkur að nýju bendir Rúna út á sjóinn og hlær: Ha! Sjáið, þarna eru alvörusyndarar. Og þetta eru KONUR!!! Þarna var okkur öllum lokið, fjögur selshöfuð dúkkuðu upp á sænum og syntu inn að ströndinni þar sem við vorum nýbúnir að lenda á. Birgir tók mynd á símann sinn og við ráðgerðum að birta hana sem sönnun þess að VIÐ hefðum synt í sjó - en ráðagerðin þótti svo hneykslanleg að við hurfum frá því. 

Áfram um Flanir. Hér barst talið að manni sem missti af hlaupi vegna þess að hann þurfti að laga risið hjá sér. Eftir það var rætt um að hann ætti við risvanda að stríða. Á hlaupinu var farið í gegnum fyrirætlanir manna í maraþoninu, eitthvað var óljóst hvað Haukur hugsaði sér - heyrnarglöggir heyrðu hann segja Rúnu að hann ætlaði hálft maraþon. "Og ég á mér þann einn draum að verða á undan Vilhjálmi Bjarnasyni!" "Já, þú setur markið hátt," sagði Rúna.

Þegar gengið var á Hauk virtist hann ekki fráhverfur því að fara heila porsjón. Og ekki að undra eins og hann hljóp í dag, hélt sig að mestu við Ágúst og hlupu þeir saman eins og herforingjar þar til komið var til áfangastaðar. Þeim mun meiri vonbrigði að heyra að prófessorinn hyggist ekki fylla flokk Kommúnistanna í Reykjavíkurmaraþoni. Við skeiðuðum á hröðu tempói inn Fossvogsdal, 5:15 - 5:20, ég , Jörundur, Rúna og Birgir, ekki veit ég hvað varð um aðra. Yfir Elliðaárnar, þar sem ég þurfti að gera stuttan stanz til að pissa. "Ég staldra við eftir þér" sagði Jörundur. Ég náði honum á Stokknum upp á Réttarholtið, við tókum fram úr þeim Rúnu og Birgi, en Ágúst og Haukur voru of langt undan til þess að við næðum þeim. Stokkurinn er erfiður, allur upp á við, en ég var ánægður með að við skyldum ekki stoppa neitt eða finna til þreytu, það var ekkert hvílt, skeiðað framhjá Réttarholtsskóla og þannig áfram inn á æskuslóðir okkar bræðra. Eilíflega upp á við, endalausar brekkur, en aldrei stoppað til að hvílast. Og aldrei slegið af taktinum, ekki það ég hafi fundið fyrir þreytu, þvert á móti. En það þarf alltaf einhvern sem keyrir mann áfram og í þetta skiptið var það Jörundur sem sá til þess að hraðinn héldist og menn drægju ekki af sér. Á leiðinni vorum við að velta fyrir okkur hverju þessi taktur skilaði okkur í maraþoni, en jafnframt hvað það væri mikilvægt að ofgera sér ekki - margir hefðu flaskað á því að fara of geyst af stað og sprengja sig. 16 km hlaup segði ekkert til um hvaða takt maður réð við í heilu maraþoni. Hér sá ég hvílíkur hlaupari Jörundur er, honum vex ásmegin eftir því sem líður á hlaup, gefur bara í ef hann finnur að það er einhver kraftur í manni. Með svona félaga við hlið mér get ég vel hugsað mér að ljúka maraþoni á innan við 4 klst.

Á Miklubraut urðum við varir við bláa Toyota-bifreið, HY-060, ökumaðurinn flautaði á okkur glaður í bragði, vinnukonan í framsætinu veifaði og aftan í hékk vinnukerra, greinilegt að þessi ökumaður var ekki illa hrjáður af bronkítis þar sem hann stefndi til stórafreka á öðrum vettvangi en hlaupum. Hér varð okkur ljóst að menn grípa til ýmissa óyndisúrræða til þess að losna við hlaup. Í potti fullyrti Haukur að blómasalinn myndi fara heila porsjón - hann myndi sjá til þess!

Það er alltaf leiðinlegt að sjá Háskólann á miðvikudagshlaupi - þá veit maður að því er að ljúka. En, gott og vel! Við lukum því með bravúr. Teygt á heimkomuplani - þar var mætt Sif Jónsdóttir langhlaupari og hafði margar sögur að segja úr Laugavegshlaupi og ferðum á Vestfirði. Hún hafði áhyggjur af því að blómasalinn væri lagður í einelti í hópnum og vísaði þar til pistla annálaritara, og eitthvað blandaðist Veðurstofan í þá umræðu, en ritari getur viðurkennt að hafa tapað þræðinum þar.

Pottur með betra móti, við lögðum Örlygshöfnina undir okkur, KR sundkrakkar í legvatninu. Sátum þar í nærfellt 30 mínútur. Ýmislegur sannleikur afhjúpaður, svo sem um laun opinberra starfsmanna og annarra í Tekjublaði Frjálsrar Verzlunar. Það var okkur Gísla og Ágústi áhugavert nýnæmi að ef ríkisstarfsmaður vinnur eitthvað aukalega fær hann greitt fyrir það. "Meinaru, ef ég geri eitthvað meira en að mæta í vinnuna, að ég fái greitt fyrir það..?" spurði prófessor Fróði grallaralaus. Einhver taldi sig hafa upplýsingar um það að ef starfsmaður hjá Háskólanum rannsakaði eitthvert fyrirbæri og skrifaði að því loknu grein - gæti hann hagnast á því. Nú birtust dollaramerki í augum margra viðstaddra og greinilegt að reiknivélar fóru í fullan gír.

Yndisleg stund - þetta er það sem gefur því gildi að hlaupa. Vellíðan meðan á hlaupi stendur - og vellíðan á eftir.

PS - valkostirnir eru tveir:
1. knattspyrnulið karla sem gengur undir skst. KR verði gert brottrækt úr Vesturbænum og æfingaaðstaðan verði boðin hæstbjóðanda 
eða
2. stjórn "KR-SPORT" rekin eins og hún leggur sig - og stefnt að því að byggja upp alvöru KR-inga eins og stefnan var þegar við vorum að vaxa úr grasi.

Annálaritari   


Pottsund með meiru

Nokkrir vaskir hlauparar sem þjálfa sig fyrir Reykjavíkurmaraþon mættu til hefðbundins potthlaups í Kópavogi í gær kl. 15, þ.e.a.s. allir sem kunna á klukku. Ónefndur blómasali virðist ekki hafa öðlast kunnáttu þeim efnum sem dugar til þess að skila honum tímanlega til fyrirframákveðinna verkefna. "Hvernig skyldi hann vera í vinnu?" spurði einhver. Nei, okkar maður mætti kl. 15:25 og átti þá eftir að klæða sig í hlaupafatnaðinn og fá vökva á drykkjarbrúsa. Á meðan biðu Ágúst, Haukur, Jörundur og annálaritari þolinmóðir, en þó spenntir að hefja hlaup. Loksins var hægt að leggja í hann í sól og blíðu og haldið upp í Breiðholtið, þaðan upp í Elliðaárdal, yfir brúna rétt hjá lauginni og svo framhjá hesthúsunum. Talað illa um hestamenn. Farið á tempóinu 5:20 sem skilar hlaupurum á fjórum klukkustundum í maraþoni. Blómasalinn dróst aftur úr og Haukur aumkaði sig yfir hann og hljóp með honum. Við hinir héldum okkar hraða, en neyddumst til þess að stöðva öðru hverju til þess að týna þeim hinum ekki alveg. Við fórum ákaflega fallega leið kringum Elliðavatnið, stöldruðum við á einum stað og kældum okkur í einum læknum. Það voru endalausar brekkur, upp og niður, og Ágúst sagðist hlakka til "síðustu" brekkunnar, hún væri löng. Svo kom að síðustu brekkunni og við skröngluðumst upp hana - þá kom í ljós að tvær brekkur voru eftir á mótum Kópavogs og Breiðholts. Jörundur reif upp slatta af lúpínu og Ágúst sagði: "hér stendur sjálfsagt til að malbika fljótlega!" En svo kom að því að leiðin lá bara niður í Kópavogsdalinn og þá var gefið í - við fjórir vorum nokkuð jafnsnemma komnir í Lækjarhjallann, en blómasalinn langseinastur. í refsingarskyni var honum gert að gera við sláttuvél prófessorsins sem vildi ekki fara í gang.

Á meðan fóru aðrir í pott og hófu að vökva lífsblómið með öli. Fljótlega kom Birgir og slóst í hópinn. Það var þéttur hópur sem sat og saup á veigunum fram eftir degi, margt rætt spaklegt. Arkímedes flaut á öldunum innihaldandi sterkar flögur og salsasósu. Svo var tekið til við matargerð, grillað kjöt, og Medisterpylsur sem einn hlauparinn hafði keypt við vægu verði í Bónus (yfirleitt ekki flokkað sem matur). Setið lengi kvölds að spjalli.

Af þessari ástæðu mætti ritari hvorki til sunnudagshlaups né heldur mánudagshlaups kl. 10:10 svo sem hefðin býður. Hann mætti hins vegar til laugar í morgun og hitti þar Ó. Þorsteinsson sem upplýsti að bæði hefði verið farið í sunnudags- og mánudagshlaup, hið fyrra hefðu þeir þreytt V. Bjarnason, Þorvaldur og Ó. Þorsteinsson, en hið síðara aðeins hann og Þorvaldur. Mikil persónufræði í gangi báða dagana, og Vilhjálmur venju fremur önugur fyrri daginn, þáði m.a. ekki miða  á tónleika Stuðmanna sem Ólafur vildi bjóða honum. Þeir hittu Jakob Möller hrl. og áttu við hann langt spjall á Ægisíðunni um persónur í Lýðveldinu.

Næst verður hlaupið í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á miðvikudaginn er kemur, ca. 15 km.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband