Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Ótrúleg snerpa

Þar sem skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins gengur úr Brottfararsal Laugar Vorrar um hádegisbil sl. sunnudag til Útiklefa furðar hann sig á skepnunni sem liggur ofan á höfðinu á honum Haraldi Jónssyni arkitekts Haraldssonar leikara Björnssonar og því lá beinast við að spurja hvað þetta væri. Haraldur gaf þá skýringu að þetta væri óþekkt dýr sem hefði veiðst í Bjarmalandi og móðir hans hefði innhöndlað honum til handa. Ekki það þetta væri ekki aðdáunarverður gripur, en hálf ólögulegur engu að síður. 

Er út var komið í klefa blasti við ótrúleg, en þó, kunnugleg sýn: búið var að hengja til þerris hlaupafatnað svo að hann blokkeraði eina 9 (segi og skrifa: NÍU) snaga. Ekki þurfti lengi að rýna í garmentið til þess að sjá að hér voru leifarnar af Þorvaldi af Óðagoti komnar á snagann að loknu hlaupi. Ég útskýrði þetta fyrir Haraldi, sem stóð enn opinmynntur og trúði eiginlega ekki sínum eigin augum.  Það reyndist erfitt að útskýra hinar félagslegu og sálfræðilegu implíkasjónir er fæddu af sér innsetningar af þessu tagi, sem Haraldi þótti allt annað en listrænar. Svo var sturtað sig.

Bjarni að vanda með hávaða og leiðindi og réðst að skrifara með óbótaskömmum. Pottur venju fremur vel mannaður og maður sá einhvern prakkaraskap í fari dr. Baldurs. Það voru Flosi, Bjarni, Jörundur, dr.  Mímir, Ó. Þorsteinsson, Tobba, próf. dr. Einar Gunnar - og svo Sverrir. Er skrifari var mættur var upplýst að Baldur væri með vísbendingaspurningu úr bílnúmeraflokki - óvænt uppákoma svo ekki sé meira sagt! Rifjuð var upp spurning Potts sl. sunnudag: RE-884. Nú kom dr. Baldur með spurninguna: "... en hver átti bifreiðina RE-883?"

Hér setti menn hljóða - og þó engan hljóðari en frænda minn og vin, Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar. Er hann sagði: "Þetta veit ég ekki," þurfti ekki lengi að bíða andsvars dr. Baldurs: "Ja, þá veiztu ekki mikið!" Nú var dr.  Baldur minntur á að þetta ætti að vera vísbendingaspurning - og hverjar væru vísbendingarnar. Jú, eigandi téðrar bifreiðar var kominn til álita og tveggja mikilsvirtra embætta á unga aldri. Vísbending tvö: seinni kona hans var nánast tekin í gvuða tölu meðal Íslendinga á fjórða áratug aldarinnar er leið. Hér kviknaði týra í andliti Formanns og hann sagði: "Sigrún Ögmundsdóttir." Og í framhaldinu varð ljóst að spurt var um Árna Tryggvason, er bæði var orðinn héraðsdóms- og hæstaréttardómari innan við fertugt. Síðasta vísbending var svo "fæddur 1911".

Mikill smeðjuskapur uppstóð er Agnes Bragadóttir blaðamaður birtist í Potti og spurði hvort þetta væri karlaklúbbur. Þeir Bjarni og Flosi hömuðust við að rifja upp gamla tíma og gamla bekkjarfélaga úr Réttarholtsskóla sem hefðu verið samtíða Agnesi þar eystra. Skrifara var ekki meir en svo skemmt og lét sig hverfa fljótlega úr Potti.  


Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar

Enn var bólginn ökklinn skrifara svo að ekki var hlaupið á þessum fyrsta hlaupadegi á nýju hlaupaári. Engu að síður taldi hann nauðsynlegt að mæta til Laugar að hlaupi loknu og vera félögum sínum fyrirmynd og hvatning til góðra verka. Fyrstan hitti hann fyrir blómasala á hröðum flótta, nýhlaupinn að vísu og nýskrúbbaðan, en flóttalegan engu að síður. Við félagar féllumst í faðma óskandi hvor öðrum góðs nýs árs og heitandi ævarandi vináttu. Blómasali upplýsti að Bjarni væri á svæðinu og væri á góðum nótum. 

Að aflokinni skrúbbun var haldið til Potts, fyrst þess heita, þar sem eitthvert þýzkt leiðindatúristalið var til almennra leiðinda, svo var gufa og loks Örlygshöfn. Þar var ekki annað mannval fyrir en Stefán Sigurðsson verkfræðingur.  Þar næst bættist við Anna Birna - og svo birtist Bjarninn, öskrandi eins og bjarndýr, hrópandi á skrifara, lýsandi því miður skemmtilegum orðum hvað ætti að gera við skrópagemlinga eins og hann. Flosi og Ólafur Gunn voru í Barnapotti. 

Mættir í hlaup dagsins voru Bjarni, blómasali, Þorvaldur, Magnús og Ólafur Gunnarsson. Uppi var ráðabrugg um að hlaupa í Kópavoginn og alla leið í Lækjarhjalla með rúmrusk til að hvekkja þann fróða góða prófessor sem þar býr, og jafnvel ráðast í Pott. En meður því að í för voru ráðagóðir og geðstilltir menn var þeirri fyrirætlan forðað. 

Bjarni flutti langan og snjallan fyrirlestur um nafna sinn og kollega, Bjarna Pálmarsson, leigubílstjóra, flugvirkja og píanóstillingarmann, sem var góðvinur Nixons, Kissingers og Bob Hope. Er hér var komið og enginn Denni mættur var orðið ljóst að ekki yrði af Fyrsta á Ljóninu.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband