Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Glerhált!

Fámennur hópur hlaupara mættur á mánudegi í prýðisveðri - en glerhált á götum og stígum. Magga, Maggi, Flosi, Siggi Ingvars, Karl Gústaf, Björn, Bjarni Benz, ritari, Ósk og Biggi. Rekistefna í Útiklefa yfir Stjórnlagaþingi, Benzinn og Bjössi lentu upp á kant hvor við annan yfir ólíkum sjónarmiðum um kosninguna.

Lagt í hann á rólegu nótunum, en hraðinn settur upp á Suðurgötunni og skeiðað út að Skítastöð. Þar skipti hópurinn sér, sumir tóku spretti á Nesi, aðrir héldu áfram í Hlíðina. Þeirra á meðal voru ritari, Benzinn, Flosi og Kalli. Fórum á hröðu tempói og drógum  Magnús uppi í Nauthólsvík, hann hafði svindlað og stytt hlaup sitt. Hér héldum við Flosi og Benzinn áfram á sama hraða tempói en Kalli kaus að dóla sér með Magga. Sem fyrr segir var nokkuð hált og máttu menn gæta sín víða á leiðinni.

Það fór svo að ég hægði ferðina og leyfði þeim að halda sínum hraða. Fór hjá Gvuðsmönnum, tók Þrjár brýr, hjá Háskóla, Háskólatorg, Aragötu og aftur niður á Ægisíðu, náði þannig 10,8 km í kvöld á alveg þokkalegum hraða, 59 mín. Teygt á Plani og aftur upphófust orðahnippingar yfir Þinginu, en nú æstust leikar og menn að hækka róminn. Svívirðingar gengu á báða bóga, atvinnurógur og persónulegt níð. Þau hin höfðu tekið 10 400 m spretti á Nesinu og farið út á Lindarbraut. Góður hlaupadagur, synd að svona margir skyldu missa af hlaupinu. Vakin athygli á Fyrsta Föstudegi næsta föstudag - ætli það verði ekki bara Ljónið?


Hvað veit Ólafur Þorsteinsson?

Mættir til hlaups á sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur, Flosi og ritari. Veður ágætt, heiðskírt, stilla, en nokkuð kalt. Lagt upp á hægu nótunum og raunar farið rólega allan tímann með stoppum á hefðbundnum stöðum. Við fengum fréttir af Villa sem hefur verið með bezta móti upp á síðkastið.

Ekki skal orðlengt um hlaupið, það var hefðbundið í alla staði og skilaði okkur frískum og kátum tilbaka á Plan. En í potti kom sagan af því þegar Ólafur landlæknir stóð við próvíantborðið eftir jarðarför Ólafs Björnssonar prófessors og Hannes Hólmsteinn sagði við hann: "Ég vissi ekki að þú værir svona skyldur honum Ólafi Björnssyni." "Ja, þá veiztu ekki mikið." "En ég var bara að lesa um þetta í blaðinu í morgun." "Það er nú seint í rassinn gripið." Reiðist þá Hannes og segir: "En Ólafur hefur verið miklu gáfaðri en þú." "Það má vel vera" svarar landlæknir, "en ég vissi meira um læknisfræði."

Það kom vísbendingarspurning um bezt hærðu konu á Íslandi sem stóð í röðinni sem Ó. Þorsteinsson lenti í þegar hann kaus til Stjórnlagaþings í vikunni og var hún heimfærð til sveitar á Héraði. Við Baldur áttum kollgátun, nefndum Sigrúnu Aðalbjörnsdóttur í Akademíunni - og Baldur leiðrétti um leið upplýsingar frænda um heimasveit Sigrúnar sem mun vera á Norðurlandi. Áfram héldu skylmingar með orðum þar sem m.a. var glímt við vísbendingaspurningar Ólafs sem sumar hverjar hafa ótraustar forsendur innbyggðar og menn þurfa oft að hafa það í huga þegar þeir leita svara.

Blómasalinn mætti í pott en var óhlaupinn, hafði verið úti á galeiðunni alla nóttina og því lítt sofinn. Áfram fjallað um jólahlaðborð Samtakanna og hefur laugardagurinn 11. desember verið nefndur. Meira seinna.


Fjórir fræknir á ferð á föstudegi

Þeir voru ekki margir sem sáu ástæðu til þess að hlaupa með Hlaupasamtökum Lýðveldisins frá Vesturbæjarlaug á þessum fagra vetrardegi þegar himinninn skartar sínu fegursta og sólin er við það að hníga til viðar um það er menn leggja í hann. Þessir fjórir voru Þorvaldur, Flosi, Bjarni og ritari. Þar sem þessir menn eru allir geðprúðir þá ríkti mikil eindrægni, samstaða og bræðralag í Brottfararsal fyrir hlaup. Eitthvað var rætt um jólahlaðborð, en einnig bar á að fjarverandi hlauparar væru bornir þungum sökum fyrir það að taka drykkjuskap og matarát fram yfir heilnæma útiveru og heilbrigt líferni í hópi glaðværra miðaldra hlaupara. Hvað um það, hér skyldi hlaupið.

Farið afar rólega af stað og voru Flosi og Bjarni aftastir til að byrja með. Þorvaldur æddi áfram á undan okkur í hugstola tryllingi, en tók svo eftir því að við náðum ekki að fylgja honum, varð því að snúa við og sameinast okkur. Við skildum ekki alveg hvað var í gangi og voru settar á flot kenningar um að þessi hraði félaga okkar myndi skila honum síðar í mark en okkur hinum. Hélt hann þó uppteknum hætti og hljóp á undan okkur og var ólmur að leggja sem flesta kílómetra að baki sér á sem skemmstum tíma.

Smásaman var hraðinn aukinn og var hann orðinn þolanlegur í Skerjafirði. Maður fór að velta fyrir sér hvort þetta gæti haldið áfram svona, við skiptumst á að hafa forystuna í hlaupinu, en þó hafa sumir okkar ekki hlaupið um nokkurt skeið vegna vinnu í þágu þjóðarinnar á erlendri grund. Nú eru hlutir að breytast í Öskjuhlíðinni, það er búið að gera dónamönnunum erfitt um vik að athafna sig, grjóti velt fyrir akstursleiðir svo að nú geta hlauparar um frjálst höfuð strokið og hlaupið hættulaust um stíga og götur. Við upp brekkuna samkvæmt venju og dokuðum við eftir öftustu hlaupurum. Svo var það bara áfram um Veðurstofu og Hlíðar.

Hér fóru þeir Flosi og Bjarni að derra sig og fór það svo að þeir skildu okkur Þorvald eftir. Raunar lenti ég á rauðum ljósum við umferðargötur oftar en mér þótti fyndið og tafði það fyrir hlaupi. Svo var það bara Sæbrautin og hér leið manni harla vel. Farin Svörtuloft og Geirsgata, mig grunar að þeir hafi lengt, því ég sá þá ekki. Þorvaldur trúlega stytt. Við sameinuðumst á Plani og teygðum.

Í potti var ungur sveinn 18 mánaða gamall sem hélt uppi skemmtun og hændist mjög að þeim Bjarna og Kára sem bættist í pott, enda eru þeir meir í ætt við tröllkarla en venjulegt fólk. Sá ungi hefur trúlega haldið að hann væri staddur í ævintýri þar sem honum væri ætlað mikilvægt hlutverk. Það urðu nokkrar umræður um hvernig menn geta yfirgefið persónu sína við erfiðar aðstæður og horft á sjálfan sig utan frá. Var Kári skárri en enginn í því að greina frá fólki sem farið í gegnum ýmisleg hamskipti í þessum skilningi.

Fámennt en vel heppnað hlaup að baki.


Flosi hljóp í dag

Ritari mætti í dag til Laugar og fann þar Flosa barnaskólakennara í fullu hlaupagíri, kvaðst hann ætla að lulla stutt hafandi steikt hlaupara gærdagsins á geðveiku tempói í Þriggjabrúa. Ég spurði hann hvort blómasalinn hefði farið langt. "Tja, hann fór álíka og við hin." Var þetta vegna þess að blómasalinn hafði lýst því yfir í sms-skeyti að hann hefði farið langt. Þriggjabrúa er ekki langt. Þriggjabrúa er tempóhlaup. Hér var maður afhjúpaður. En stúlkurnar fóru hratt að sögn Flosa, náðu honum á Kringlumýrarbraut og skildu hann eftir.

Er nú ekki að orðlengja það nema þegar ritari kemur út úr Melabúðinni hafandi höndlað til kvöldverðar ræðst téður blómasali að honum, rífur upp innkaupapokann og heimtar útlistun á því sem keypt var. Þar sem ritari er góðmenni útskýrði hann fúslega hvað var keypt og hvernig til stæði að matreiða herlegheitin, en meiningin var að elda gúllassúpu, enda nautagúllas á afslætti í dag. "Þetta er ekki nautagúllas! Þetta er beljukjöt!" sagði blómasalinn. Ritari tók upp hanzkann fyrir vin sinn Frikka Meló og sagði að þetta væri fínasta nautakjöt, UN-1, það gerðist ekki betra.

Næst gerist það að hlaupið verður á föstudegi hefðbundið og verður gaman að sjá hverjir mæta og hverjir kjósa frekar að nýta tímann til þess að láta traktera sig á ókeypis mat og drykk í boði Samskipa. Heyrst hefur að framundan sé mikill frami á síðum Dödens avis. Hvað merkir það?


Sunnudagar eru einstakir

Þekktir hlauparar söfnuðust saman við Vesturbæjarlaug í dag til þess að þreyta hlaup: Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Einar blómasali, Ólafur ritari og René. Veður var afar fallegt, sól, logn, þriggja stiga hiti. Einstakur dagur til hlaupa. Lagt upp rólega enda sumir búnir að vera frá hlaupum um nokkurt skeið. Rætt um úrslit leikja í enska boltanum og um óhagstæða niðurstöðu í leik ónefnds kappliðs í Austurbænum gegn gvuðsmönnum úr Hafnarfirði. Þann leik vissi Formaður um enda hljóp hann alla leið austur að Víkingsheimili í gærmorgun og tilbaka aftur, 16 km, takk fyrir!

Aðventan er á næsta leiti og því orðið tímabært að huga að hefðbundnu jólahlaðborði Samtakanna. Sú hugmynd hefur komið upp að halda boðið í heimahúsi og annað hvort draga sjálf saman aðföngin eða kaupa hlaðborð hjá fagmanni. Blómasalinn bauð fram hús Jörundar til þessara nota og var vel tekið í það boð. Ritari gerði tillögu um 4. eða 11. desember sem mögulega hátíðardaga og er það með hliðsjón af utanlandsferðum hans. Jörundur blés á þessa tillögu og sagði að það yrði ekkert tillit tekið til þess hvort ritari er á landinu eða ekki. Þetta sárnaði ritara.

Rætt um jólabækurnar og um framboð til Stjórnlagaþings. René er einn frambjóðenda og kvaðst vera á leið upp í Útvarp í viðtal sem verður útvarpað. René hljóp í stuttbuxum í dag og hlýtur að hafa verið kalt. Menn lögðu fram óskalista um það sem ritari ætti að taka með heim úr næstu utanlandsferð: Cadbury´s súkkulaði, 400 g, reyktan ál, paté, leverpastej, belgískt súkkulaði og ég veit ekki hvað.

Komið í Nauthólsvík og gerður fyrsti stanz dagsins. Gengið um stund, en enginn tæmdi skinnsokkinn þarna. Haldið áfram í kirkjugarð þar sem Jörundur og blómasalinn tóku á sig sérstakan krók til þess að leita að vökumanni garðsins, sem ku hafa verið grafinn þarna 1932. Svo var haldið áfram sem leið lá um Veðurstofuhálendið og þann pakka allan.

Það var stoppað á réttum stöðum og staða mála tekin. Meðal annars var spurt: hvar er Villi? Hvað skyldi hann vera að gera í dag? Nú hefur fækkað neyðarhringingum á sunnudagsmorgnum og því harla fátt að rapportéra, annað en að hann ku hafa verið í Írlandi að flytja út ráð - og varla hafði hann sleppt orðinu hjá frændum okkar þegar Cameron reif upp veskið og bauðst til þess að beila út írsku bankana. Svo máttug eru orð Villa á Eyjunni grænu.

Jæja, það var farið um Rauðarárstig og niður á Sæbraut. Við urðum að vísu viðskila við Ó. Þorsteinsson, það fór eins og stundum gerist að hann þurfti að taka mann tali og þá varð bara að sætta sig við það. Það var múgur og margmenni á Sæbraut, aðallega túristar frá hinum Norðurlöndunum. Gegnum miðbæ, Grófina og út á Ægisgötu. Þetta var fínn túr hjá okkur og gott að hreyfa sig örlítið á milli flugferða.

Baldur Símonarson mættur í pott og var settur í bílnúmerapróf sem hann flaskaði illilega á. Hann veit ekki mikið um bílnúmer. Þarna  voru líka frú Helga Zoega Gröndal Flygenring og Stefán maður hennar. Það var rætt um mat og aftur bar reyktan ál á góma sem og annað góðgæti.

Nú verður enn hlé á að ritari hlaupi, en ég bið fólk að velta fyrir sér dagsetningum fyrir jólahlaðborð.

 

 


Að lokinni Afmælishátíð - lífið heldur áfram

Föstudaginn 12. nóvember héldu Hlaupasamtök Lýðveldisins upp á 25 ára afmæli Samtakanna í Safnaðarheimili Neskirkju. Um 50 prúðbúnir gestir mættu til gleðinnar og voru eftirvæntingin uppmáluð er komið var á staðinn. Þar stóðu þeir Björn kokkur og Rúnar þjálfari á haus og höfðu dúkað borð og gert klárt fyrir kvöldið. Þeir tveir sáu um matreiðslu og framreiðslu og uppvask allt og eiga heiður skilinn fyrir góða frammistöðu.

Ólafur Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, setti hátíðina með hugðnæmri ræðu þar sem rifjuð voru upp grunngildi Samtakanna, fornir sigrar og nýir auk þess sem minning frumherjanna var heiðruð. Nú var borin fram hátiðarmáltíð kokksins, humarveizla með aðskiljarnlegum salötum og öðru meðlæti. Var borið mikið lof á kokkamennskuna. Síðan var hátíðarávarp: Flosi Kristjánsson barnaskólakennari heiðraði hlaupara fyrri tíðar og sagði frá aðdragandanum að stofnun Samtaka Vorra.

Nokkrir félagar, með eða án hlaupaskyldu, ávörpuðu samkomuna og var gerður góður rómur að málflutningi ræðumanna. Stefnt er að því að birta ávörp hér á bloggi Samtakanna svo að fjarstaddir fái notið þess að heyra það sem um var rætt. Almennt má segja að hátíðin hafi tekizt í alla staði hið bezta, og samkvæmt viðteknum vísum urðu engir verulegir skandalar.

Jæja, að hlaupi dagsins. Mættur allnokkur hópur afbragðshlaupara í leiðindaveðri, hiti við frostmark, vindur á norðan, en þó bjart. Blómasalinn mætti nýklipptur á slaginu hálfsex þegar hersingin er vön að liðast af stað. Við Bjarni ákváðum að bíða eftir kallinum, enda á hann ekki marga vini eftir hér í Vesturbænum. Saman þræluðumst við þetta upp á Víðimel, út á Suðurgötu og þaðan út í Skerjafjörð. Þar gerði blómasalinn sig líklegan til þess að taka spretti með fremstu hlaupurum og hvarf eitthvað út í myrkrið. Við Benzinn gerðum okkur ekki miklar grillur út af þessu, vissum sem var að við myndum tína hann upp á leið okkar er drægi nær Hofsvallagötu.

Forspá okkar sannaðist, hann náði ekki einu sinni Hofsvallagötu, við drógum hann uppi í myrkrinu á Ægisíðu og teymdum hann með okkur á Nes. Honum hafði daprast flugið og var afar spakur er hér var komið, þurftum við jafnvel að bíða eftir honum og hann bað okkur aftur og aftur um að bíða eftir sér. Fórum út að leikskólanum Mánabakka á Nesi, þaðan út að Haðkaupum og svo bakgarða tilbaka til Laugar. Öskruðum á Bigga er við hlupum framhjá húsi hans, en hann svaraði ekki. Tókum 9,3 km á 55 mín. - sem er með því rólegra. Sannaðist hér að við Benzinn erum góðmenni og sannir vinir, að halda blómasalanum við efnið og tryggja að hann færi þokkalega vegalengd í dag, en hann var greinilega á þeim buxunum að gefast upp og fara bara aumingja.

Matreiðsla til umfjöllunar í potti, ýmsar áhugaverðar uppskriftir ræddar. Hér voru upplýstar utanlandsferðir viðstaddra, blómasalinn pantaði strax nokkur kíló af Cadbury´s enda síðustu forvörð að gæða sér á slíkum lúxus áður en hækkanir á súkkulaði herja á. Í gvuðs friði. Ritari.


Fámennt á miðvikudegi

Aðeins helztu naglarnir voru mættir í hlaupi dagsins: Benzinn, blómasalinn, Kári, Bjössi, Þorvaldur, Maggi, Helmut - og svo sást Jóhanna í mýflugumynd. Magga mætti í Brottfararsal með dóttur sína, lítið skinn sem faldi sig bakvið mömmu sína þegar hún sá Bjössa og Kára sem vildu vingast, hún hefur trúlega haldið að þeir væru tröllkarlar. Einhver hafði á orði að á morgun yrði Powerade-hlaup og því mætti fara stutt í dag. "Já," sagði Helmut, "eigum við ekki að fara Hlíðarfót rólega?" Ritari samsinnti þessu og ekki þurfti að snúa upp á handlegginn á Magga til þess að fá hann til að fallast á stutt.

Veður var fallegt, hiti við frostmark, heiðskírt en farið að dimma og logn. Stefnan sett á Ægisíðu og hraðinn settur upp, farið á ca. 5 mín. tempói  inn í Nauthólsvík með Bjössa, Jóhönnu og Helmut. Þar ákváðum við að bíða eftir hægari hlaupurum, Magga, Bjarna og blómasalanum. Er hér var komið vildi blómasalinn halda áfram og fara Þriggjabrúa, við þvældum honum Hlíðarfótinn með fyrirfram sviknu loforði um að hlaupa Powerade með honum á morgun. Hér gáfu þeir Benzinn í. Hægðu þó á sér á plani hjá Gvuðsmönnum. Þar náði ég þeim, laumaðist upp að hægra eyranu á blómasalanum og öskraði eitthvað um að drulla sér áfram, fitubollan þín! Hann tók kipp og skaust áfram og stakk okkur af, hefur líklega aldrei hlaupið jafnhratt á ævinni, enda sýndi klukkan hans 4 mín. tempó hraðast í dag.

Á Hringbrautinni fórum við Þrjár brýr til að lengja og enduðum í 8,4 km á meðaltempói 5:25. Teygðum á Plani, enda veður enn með miklum ágætum. Þar tóku menn að munnhöggvast, m.a. um jólin. Blómasalinn sagði að ef maður tæki matinn, drykkinn og gjafirnar út úr jólajöfnunni mætti alveg eins fella þau niður. Talið barst að Jóni Gnarr og Orkuveitunni, sem Benzinn vildi meina að hefði farið á hausinn við að kaupa einhverja sveitahitaveitu af Borgfirðingum, sem aðrir töldu að hlyti að vera misskilningur.

Pottur stuttur og snarpur. Rætt um transfitusýrur og beztu poppunaraðferðina. Bjössi gaf út lýsingu, nota grænmetisolíu, Isio-4 eða Canola, láta fljóta yfir baunirnar og hitann í botn. Þegar lokið færi að lyftast er hitinn tekinn af, pottur af hellu og lok tekið af til þess að tryggja ferskleika. Biggi var mættur í pott er hér var komið og gaf út eigin lýsingu, sem hann át að mestu leyti upp eftir Bjössa. Blómasalinn á leið í Kópavoginn að borða saltkjöt og baunir. Hann var minntur á vogun í fyrramálið - það runnu á hann tvær grímur og hann vissi ekki hvernig hann gæti leyst þetta dilemma.

Föstudagur og afmælishátiíð Hlaupasamtakanna á næsta leiti - sjáumst hress og kát!


Rólegur mánudagur að loknu Samskokki

Mikil ánægja var með Samskokk í boði Hlaupasamtaka Lýðveldisins laugardaginn 6 nóvember. Veður mun hafa verið einstakt. Ó. Þorsteinsson Formaður var viðstaddur og þótti tilkomumikil sýn að sjá á annað hundrað hlaupara skeiða af stað eftir hlaupastíg á Ægisíðu og sást vart annað en hlauparar svo langt sem augað eygði. Hér fylltist formaðurinn stolti. Að hlaupi loknu dúkkaði blómasalinn upp og hafði tekið að sér flutning aðfanga fremur en að hlaupa. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram á þessu háttalagi blómasalans og verður ekkert fullyrt hér. Veitingar miklar og rausnarlegar í boði Melabúðar eftir hlaup. Viðstaddir voru ánægðir með fiskikar fullt af köldu vatni, en menn lýstu jafnframt vonbrigðum yfir því að fá ekki að berja augum þær þjóðsagnakenndu sögupersónur blómasalann og ritarann - og einstaka átti sér þá ósk heitasta að fá að sjá Benzinn. ´Nú, nú, það verður ekki á allt kosið.

Margir afbragðshlauparar mættir í hlaupi dagsins. Síðustu drög að afmælishátíð lögð  og verður dagskrá fljótlega send þeim sem staðfest hafa þátttöku. Fremur kalsalegt var í veðri, vindur og lágt hitastig. Þrjár vegalengdir í boði: Hlíðarfótur, sprettir á Nesi og Stokkur. Ég ákvað að slást í för með Magga, Benzinum, dr. Jóhönnu og Georgi - en öll fórum við stytztu leið, sem í hlaupinu hlaut nafnið "Hlífðarfótur" vegna þess að aðeins lökustu hlauparar láta það fréttast að þeir hlaupi þessa skammarlegu vegalengd. En við vorum alveg róleg og bara ánægð með okkur. Við Benzinn sýndum Magnúsi mikla gæzku, biðum eftir honum og hvöttum hann áfram. En þegar komið var í Hlíðina fórum við að herða á kappanum, öskruðum á hann að drullast úr sporunum og halda uppi einhverju tempói. Maggi kvartaði sáran undan hraðanum og hörkunni sem við sýndum honum, en það var engin miskunn hjá... Benzinum.

Dr. Jóhanna nokkuð á undan okkur ásamt Georgi, en Rúnar hjólandi á hælunum á okkur. Við ákváðum að taka þrjár brýr á Hringbrautinni, enn og aftur var það Benzinn sem stjórnaði för og keyrði okkur áfram. En þetta var rólegt, stoppuðum iðulega og tókum spjall saman. Kláruðum þetta svo með góðum spretti. Teygt í Móttökusal og fljótlega komu þau hin sem tóku spretti á Nesið í skítakulda og létu illa yfir hlutskipti sínu: Flóki, Magga, Siggi Ingvars og Frikki Meló.

Í potti spunnust umræður um hvað þeir Flosi og Fróði hefðu tekið sér fyrir ... fætur. Var rifjaður upp sá vani prófessorsins að  teyma menn með sér, helzt út fyrir bæjarmörkin, skilja þá eftir þar og taka sprettinn heim. Í pott kom Flosi og kvað þá Fróða hafa hlaupið austur að Elliðaám. Þar reyndi prófessorinn að skilja Flosa eftir, en tókst ekki, enda átti hann í erfiðleikum með Stokkinn fyrsta spölinn. Það var ekki fyrr en við Umferðamiðstöð að prófessorinn náði að hrista barnaskólakennarann af sér og skilja hann eftir, sem getur varla talizt mikið afrek er þar var komið.

Blómsalinn lýsti með fjarveru sinni í dag, enda fluttur með rekstur sinn í Hafnarfjörð og þyrfti helzt að taka bátinn frá Álverinu í bæinn til að ná hlaupi.


Hlaupasamtökin eru gestgjafar Samskokks 6. nóvember

Laugardaginn 6. nóvember nk. verður þreytt Samskokk frá Vesturbæjarlaug. Það eru Hlaupasamtök Lýðveldisins sem annast undirbúning og skipulag skokksins að þessu sinni. Lagt er upp frá Laug kl. 9:30 og farnar valdar leiðir eins og lýst hefur verið á Hlaupadagbókinni. Að hlaupi loknu er boðið upp á vel valdar neyzluvörur úr hillum Melabúðar. Gaman verður að sjá sem flesta hlaupara af Höfuðborgarsvæðinu (og jafnvel víðar) taka þátt í hlaupinu.

Fleira stendur fyrir dyrum hjá Samtökum Vorum. N.k. er Fyrsti Föstudagur og verður hann haldinn hátíðlegur með hefðbundnum hætti hvað sem öllu samskokki líður. Ennfremur er verið að leggja lokadrög að 25 ára afmælishátíð Samtakanna og verður fljótlega send út lokadagskrá og veittur lokafrestur til skráningar, en hátíðin sjálf verður föstudaginn 12. nóvember í safnaðarheimili Neskirkju.

Allt var þetta uppi á borðum í hlaupi dagsins, sem ritari missti af sökum anna í þágu upplýsingar í Lýðveldinu. Hann vanrækti hins vegar ekki að láta sjá sig í potti þegar hlauparar komu þangað. Varð fagnaðarfundur meðal hlaupara sem ekki höfðu sézt í allnokkurn tíma, svo sem blómasala og ritara, en viðstaddir höfðu á orði að þeir hefðu bætt á sig aðskiljanlegum fjölda kílóa í formi fitu. Við tóku miklar umræður um matargerð, m.a. rætt um brezka eiturbrasarann Nigellu Lawson, sem ritari hefur ekki miklar mætur á. Gefnar upp uppskriftir af ýmislegu tagi. Voru þarna mætt dr. Jóhanna, Helmut, Frikki, Bjarni Benz, auk fyrrgreindra feitlaginna ferðamanna, og svo kom Flosi hafandi farið 18 km og dottið á svelli.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband