Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Jörundur er ekki vinalaus aumingi - sex hlupu honum til heiðurs 69

Þetta leit ekki vel út í byrjun, við Ágúst vorum tveir mættir í Brottfararsal á afmælisdegi Jörundar þegar til stóð að hlaupa 69 honum til heiðurs. Þó var vitað af Flosa og Benzinum í Útiklefa, en engu að síður spurðum við okkur: "Hvar eru vinir Jörundar?" En svo lagaðist þetta smásaman og það tíndust fleiri hlauparar inn: þjálfarar báðir, Benedikt, Magnús, Ragnar, Þorvaldur og Friðrik Meló. Og svo Jörundur sjálfur, að sjálfsögðu. Ekki var vitað til þess að veittar hefðu verið undanþágur frá hlaupi fyrir þá sem hyggjast hlaupa í París.

Jörundur fékk afmælisgjöf frá dóttursyninum sem hann valdi sjálfur. Hann var vakinn með pakka í morgun. Þegar pakkinn var opnaður kom í ljós púsluspil með 1000 bitum. "Þetta er mjög gott fyrir þig," sagði sá stutti. "Þetta þjálfar nefnilega heilann."

Mönnum voru ofarlega í hug góðar óskir sem streymdu að í allan dag til Jörundar og hlýnaði mönnum einkum um hjartarætur yfir þeirri vinsemd og vinarþeli sem ónefndur álitsgjafi í  Garðabænum sýndi afmæliisbarninu. Eru vonir bundnar við að þetta séu fyrstu teikn um þíðu í samskiptum og að áður en langt um líður verði gamlir vinir farnir að hlaupa með okkur á ný.

Parísarfarar ætluðu bara stutt í dag og skilst mér að þeir vildu sprikla eitthvað í Öskjuhlíðinni. En það voru einbeittir menn sem settu stefnuna á 69 og Jörundur þar í fylkingarbrjósti, eða þannig. Að vísu skal viðurkennt að tvær grímur voru á Magnúsi Júlíusi alla leið inn að Kringlumýrarbraut. Greinilegt var að litli lati kallinn í höfðinu á honum hamaðist á fullu við að brjóta niður allan vilja til langhlaupa og Magnús fór að spyrja Jörund hvort hann ætlaði virkilega langt í dag. "Viltu ekki frekar fara stutt með mér, fara Suðurhlið?" Nei, Jörundi fannst það ekki nógu gott á svo ágætum degi. Það skyldi farið yfir brúna á Kringlumýrarbraut. Hér gat Magnús ekki snúið við eða farið einn Suðurhlíð svo að það varð ekki hjá því komist að halda áfram.

Ekki var heldur fýsilegt að fara upp brekkuna hjá Bogganum, og við sögðum Magnúsi að þegar komið væri í Fossvogsdalinn væri þetta nánast búið. Hann tók það gott og gilt og hélt áfram með okkur. Það var trimmað inn dalinn og skiptust  menn á að hafa forystuna, prófessorinn með krók í Kópavoginn. Mættum félögum í Laugaskokki en þeir voru ekki mjög margir á ferð í kvöld. Haldið áfram hefðbundið hjá Víkingsheimili og niður að Elliðaám, yfir í hólmann.

Síðan var farið í Laugardalinn og fóru menn ýmsar leiðir þar. Hjá kirkju og niður á Sæbraut. Beðið eftir afmælisbarninu, en þegar það lét ekki sjá sig var haldið áfram og gefið í. Geta fróðir menn sér til að meðaltempóið í dag hafi verið 5:40 eða því sem næst. Svo var farið um miðbæinn, um Hljómskálagarð og hjá háskóla. Fámennt að Laugu við lok hlaups. Þar fór fram vísindaleg umræða um bóseindir sem verið er að framleiða í evrópskum hraðli.

Hvað gerist næst? Boðið er upp á samskokk frá Árbæjarlaug laugardaginn 3. apríl kl. 9. Ennfremur munu framsæknir menn í Vesturbænum hlaupa hefðbundið sunnudagshlaup þann sama dag frá Laug kl. 10:10.

Lifað á háskalegum tímum

Þar sem ritari kom á hjólfáki sínum hjá áttstrendu blokkunum hans Guðna mætti hann kunnuglegum bíl, bláum Landcruiser jeppa, bílstjórinn með símann límdan við andlitið á sér og brosið náði frá eyra til eyra. Hér var verið að gera góðan díl. Ég hafði allan vara á þar sem ég vissi ekki hverju ég mætti búast við af tíktúrum. Slapp þó með skrekkinn í þetta skiptið og gat komið hjóli mínu ósködduðu í hjólastand við Laug. Hitti prófessor Fróða og átti við hann orðaskipti. Dreif mig út í klefa til fataskipta. Í Brottfararsal stóðu þeir og spjölluðu saman Rúnar, blómasalinn og Bjössi kokkur. Svo dreif fólkið að, Möggu, Dagnýju, Benedikt, Benzinn, Friðrik, Flosa, Jörund, Kalla og einhverja fleiri. Það var losarabragur á öllu, þjálfarar gáfu út fyrirmæli um hlaup og lögðu í hann, en enginn með þeim. Þeir urðu að snúa við og sækja mannskapinn, eitthvað farið að fenna yfir minninguna um hver það er sem stjórnar.

Jæja, það var Víðimelur og Dæla. Blómasalinn fór 30 km á laugardag og í tvær ferminarveizlur á eftir. Við vorum nokkur sem ræddum saman um þær hættur sem framundan eru og helgast af því að nú eru bæði fermingarveizlur í fullum gangi og páskar framundan, sem sagt brauðtertur og páskaegg. Hvernig fer þetta? Töldu menn líklegt að hringt væri í fermingarbörn í Vestbyen og eftirfarandi díalóg færi fram: "Halló?" "Já, sæll og blessaður, góði minn. Þetta er hann Einar frændi þinn." "Ha, hver?" "Einar Þór, frændi þinn, manstu ekki eftir mér?" "Nei." "Jú, við erum fimmmenningar og ég var að frétta að það væri ferming framundan hjá þér..."

Farið rólega út að Skítastöð, síðan stilltu Parísarfarar sér upp til spretta, aðrir máttu ráða hvað þeir gerðu. Hér er greinilega komin stéttskipting á í röðum Hlaupasamtakanna og þeim skipað í yztu myrkur sem ekki leggja metnað í að hlaupa maraþon á miðjum vetri. Jæja, þau strituðu eitthvað þarna á stígunum, en við hinir fórum sem leið lá vestur á Nes, ritari fór alla leið út á Lindarbraut, Ágúst fór fyrir golfvöll, Benzinn og Kalli í Skjólin, Flosi og Jörundur á Eiðistorg, aðrir eitthvað skemmra. Það var fínt að hlaupa á Nesinu, alls ekki kalt og í raun ekkert mikill vindur.  Þetta var í reynd bara hressandi og gekk vel, þrátt fyrir að þessi hlaupari hafi ekki hlaupið í viku. Kom sæll og glaður til Laugar og heyrði á mæli Parísarfara þar sem þeir plottuðu um að eta saman hádegisverð á morgun á leyndum stað, bara ekki bjúgu, sagði einhver.

Er nú að geta þess hvað framundan er. Á miðvikudag verður Jörundur okkar 69 ára og verður af því tilefni hlaupið 69 honum til heiðurs. Á föstudag verður Magnús Júlíus sextugur, en þá er Föstudagurinn langi og allt lokað. Hefur Formaður Vor til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víkingur lagt til að hlaupið verði á laugardagsmorgun kl. 10:10 frá Laug til heiðurs Magnúsi. Er þeim möguleika komið á framfæri við hlutaðeigandi, en jafnframt minnt á langt hlaup frá Árbæjarlaug, samskokk hlaupahópa. Spurning hvort menn vilji halda upp á Fyrsta föstudag þarna upp úr hádegi á laugardag með brönsi. Pæling.

Goshlaup

Ekki man ég að segja frá því hvað Bjössi sagði við blómasalann þar sem við hlupum upp á Víðimel, en allt fjallaði það um kolvetni, en kokkurinn er búinn að snarminnka inntöku kolvetnis og er búinn að léttast um 5 kg. Maður hefði haldið að blómasalinn hefði áhuga á þessum næringarfræðifyrirlestri. En þegar hann er búinn að horfa tómeygur á Bjössa fara með pistilinn segir hann:"Ég sá 2 kg páskaegg frá Góu á Akureyri um helgina."

Ekki voru mjög margir mættir til hlaups og saknaði maður manna eins og prófessors Fróða, Þorvaldar, S. Ingvarssonar, Jörundar, Flosa og fleiri. Þó var bót í máli að dr. Friðrik var mættur og prúðmenni eins og Magnús Júlíus og Bjarni Benz. Þá heyrir til tíðenda að Biggi var mættur eftir langa fjarveru. Svo voru nokkrir til viðbótar.

Hópur dagsins skiptist nokkurn veginn í tvennt, Parísarfara og hina sem heima sitja. Það voru sprettir og það var rólegt. Farið hefðbundið út á Suðurgötu og í Skerjafjörðinn. Þar kom Biggi með yfirlýsingar um Svíþjóð sem ég sá ástæðu til þess að gera athugasemdir við. Þær þurfti að kalla með krafti í gegnum einhvern óskilgreinanlegan hávaða sem Benzinn framkallaði af annarlegri þörf fyrir að gera Bigga gramt í geði.

Sprettir stöldruðu við Skítastöð, en við hin héldum áfram og fórum Hlíðarfót. Ritari var með eindæmum þungur á sér og með tak í vinstra læri að auki, svo maður gerði engar rósir í dag. En enn dapurlegra ástand var á blómasala sem átti að fara 100 km í síðustu viku, en fór eingöngu 20. Hann fékk fyrirmæli um að fara Aumingja í dag til þess að starta sér að nýju.

Þetta var létt og löðurmannlegt hlaup í dag, en ágætur undirbúningur fyrir hlaup vikunnar.

Hvers konar undirbúningur?

Í gær, föstudag, var ritari Hlaupasamtakanna mættur í Laug eftir erilsama ferð til útlanda í þágu Lýðveldisins. Lá þar í potti og spjallaði við Kára og Önnu Birnu, sem voru löt eins og ritari. Sá einnig hlaupara dagsins, sem voru Ágúst, Jörundur, Benzinn og Ragnar, og að auki Hjálmar. Þeir veittust að honum með hefðbundnum árásum og níði. Í morgun sá hann svo Eirík, Rúnar og Möggu sem fóru 32 km í dag. En nú er spurt: hvar er blómasalinn? Á sá maður ekki að vera að fara 100 km í þessari viku? Er það satt, sem flogið hefur fyrir, að hann sé á skíðum á Agureyri? Er það góður undirbúningur fyrir maraþon? Þegar þjálfari var í morgun spurður þessarar spurningar kvað hann nei við. Það er ekki góður undirbúningur fyrir maraþon.

Á morgun, sunnudag, verður hlaupið hefðbundið 12 km sunnudagshlaup kl. 10:10 - verður þá af nægu að taka í umfjöllunum dagsins. Vel mætt!

Hrekkjusvín herja á reiðhjólaeigendur í Vesturbænum

Hrekkjusvín hafa hreiðrað um sig í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Ekki einasta eru grandvarir heimilisfeður í Vesturbænum lagðir í einelti, þeim er strítt í það endalausa með hvers kyns fráleitum uppátækjum sem ganga úr hófi fram. Meira um það síðar í þessari frásögn.

Það verður nú barasta að segjast eins og er að þjálfarar voru aldeilis grallaralausir þar sem þeir stóðu á Brottfararplani og höfðu enga hugmynd hvað þeir vildu láta menn gera. Á endanum var fallist á að fara um Víðimel út að Skítastöð og þaðan á Nes. Mættur allnokkur fjöldi hlaupara. Jörundur var búinn að lesa DV með viðtali við prófessor Fróða sem bar þá hógværu yfirskrift: Maraþon er bara upphitun. Hér skín í gegn lítillæti og hógværð eins og Hlaupasamtökin eru einna helzt þekkt fyrir.

Sumir fóru 34 til 36 km í gær og voru því kærulausir í dag. Farið afar hægt af stað. Æ fleiri skarta nú frumgerð yfirvaraskeggs og fara Hlaupasamtökin smásaman að líta út eins og deild í Village People. Einhver þyngsli voru í mönnum , jafnvel leti, enda mánudagur og heil hlaupavika framundan.

Hlaupið út að Skítastöð eða þar um bil og þá snúið í vestur og lagt á Nesið. Þjálfarar vildu að menn tækju ca. 1 km sprett einhvern tíma á leiðinni. Ritari var ekki að nenna þessu og ætlaði bara Aumingja, 6 km, ljúka hlaupi við Hofsvallagötu. En svo fór blómasalinn fram úr honum á Ægisíðu og tók stefnuna á Skjólin. Þá var ekki undan því vikist að halda á Nes. Við Jörundur áttum samleið og svo voru einhverjir að dóla sér í kringum okkur, Þorvaldur, Flosi, blómasalinn. „Jæja, kannski maður fari út að Eiðistorgi“ hugsaði þessi hlaupari.

Nei, nei, það var haldið áfram. Mættum Línu hans Magnúsar á Nesi og vörpuðum kveðju á hana. Hún spurði hvar Magnús væri – við sögðum sannleikann. Svo var bara haldið áfram, Benzinn og blómasalinn fóru í áttina að golfvelli, en við Jörundur fórum Lindarbraut og svo Norðurströndina tilbaka. Ég tók sprett einhvers staðar á leiðinni, líklega kílómetra eins og þjálfarar höfðu lagt fyrir, á tempóinu 4:40 eftir því sem Jörundur taldi.

Eftir pott kom ég út en fann ekki reiðhjólið mitt. Ég sá að blómasalinn og Benzinn voru eitthvað grallaralegir, og á endanum benti blómasalinn á stað við hliðardyr Laugar þar sem fatlaðra merki er, þar var hjólið mitt og hafði einhver grallari fært það. Svona eru menn nú uppátækjasamir og spaugsamir á mánudegi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins.

Ritari heldur á vit ævintýranna í útlöndum og hleypur að líkendum ekki fyrr en á laugardag.


Kynslóðabilið - eða: Þeir kalla þetta jafnrétti!

Maður 1: hann er heima allan daginn, liggur ýmist í sófanum og les, milli þess sem hann dottar; eða fer fram í eldhús og fær sér kaffi. Konan kemur heim klukkan fjögur eftir langan og slítandi dag í vinnunni, fer beint inn í eldhús að undirbúa kvöldmatinn. Klukkan sex er kvöldmaturinn tilbúinn og karlinn kemur röltandi eins og heimiliskötturinn, sezt við eldhúsborðið orðalaust og slafrar í sig matnum. Þegar því er lokið stendur hann upp og gengur orðalaust út, fer upp á loft og sezt við tölvuna. Fer svo niður aftur og horfir á fréttirnar í sjónvarpinu. Þá er konan búin að vaska upp eftir kvöldmatinn og ganga frá í eldhúsinu. Hún kemur inn í stofu og spyr: var eitthvað í fréttunum?

Maður 2: hann kemur til Laugar klukkan að verða hálffimm, dauðþreyttur eftir erfiðan dag í vinnunni, nær að slíta af sér reyfið og troða sér í hlaupagírið, fer hring með félögunum. Kemur heim til sín upp úr sjö, þar situr frúin í stofunni og les tímarrit, krakkarnir sitja glorhungraðir við eldhúsborðið og hamra með hnífapörum í borðplötuna og grenja: pabbi, hvenær kemur maturinn. Maðurinn hendir frá sér dótinu sínu, drífur sig beint í að laga kvöldverðinn, gómsætan kjúkling með chutney og hnetum. Það tekur hann bara klukkutíma að galdra fram kóngafæði. Þegar hann er svo búinn að ganga frá öllu, sezt hann nður dauðþreyttur og spyr konuna: var eitthvað í fréttunum?

Þeir kalla það jafnrétti, eða eitthvað í þá veruna.

Svona voru andstæðurnar dregnar fram í hlaupi dagsins og ályktað sem svo að hlutskipti mannanna væri misjafnt. Allmargir mættir í  Brottfararsal. Þarna mættu Benedikt, Eiríkur, Magga, Rúnar og Frikki að fara langt 35 eða þar yfir. Svo vorum við þarna sunnudagsklúbburinn undir stjórn frænda míns og vinar, Ó. Þorsteinssonar. Við vorum ritari, blómasali, Magnús, Þorvaldur og Jörundur. Það var setið og skrafað um stund um ýmis persónufræði áður en lagt var í hann. Magga kvaðst hafa farið út að hlaupa í gærmorgun kl. 9:30 og lokið eðllilegu hlaupi. Svo hefði hún farið að sinna sínum hefðbundnu helgarerindum og séð blómasalann enn þá hlaupandi um eittleytið - það hafi komið henni á óvart.

Þau hin fóru út og í stað þess að hefja hlaup settust þau inn í bíl og óku af stað, féleg byrjun á hlaupi eða hitt þó heldur! Hinir fóru af stað rólega, Einar búinn að fara eina 34 km í gær, en samt furðusprækur þrátt fyrir það.

Í tilefni Útsvars var eðlilega mikið rætt um Vilhjálm vin okkar og spurt hver hefði síðast heyrt í honum. Einna helzt er að Ólafur Þorsteinsson hafi fregnir af honum, en enn hringir síminn á Kvisthaga þegar stórtíðindi eru. Um daginn var t.d. hringt í tilefni afmælis og spurt: jæja, fer þetta ekki að verða búið hjá þér?  Það var rætt af trúnaði og einurð um ýmisleg málefni, en þess jafnan gætt að ekkert færi út fyrir hópinn eða kæmist í almæli. Stoppað í Nauthólsvík og sagðar sögur.

Magnús og Þorvaldur þreyttust á okkur í kirkjugarði og hlupu áfram án þess að stöðva til þess að njóta hefðbundinnar sögustundar þar. Nú var ekki meira með það nema hvað á Klambratúni var farið að leita að trénu hans Magga og voru menn ekki á eitt sáttir um hvaða tré það væri. Næst gerist það að við nálgumst Svörtuloft. Jörundur staðnæmist við hornið og þar er stór pollur á götunni. Ég hélt menn væru meðvitaðir um hann. Ég hrópa til Jörundar að passa sig á honum. Jörundur glottir. Ólafur frændi minn er á undan mér og stoppar hjá Jörundi, en Jörundur færir sig lítið eitt til hliðar. Í sömu svipum kemur bíll akandi hjá og fer beint  ofan í pollinn svo að gusan stendur yfir persónu Ólafs Þorsteinssonar alla. Hann snýr sér örsnöggt undan og sleppur við versta vatnsganginn, en fær samt eitthvað á sig. Sáu menn nú hvað fyrir Jörundi vakti: teyma Ólaf í gildru og láta hann taka á sig mikið vatn. Jæja þarna stöndum við og virðum fyrir okkur járnskúlptúrinn á Tónlistarhúsinu sem verið er að skrúfa saman. Þegar því er lokið verður glerinu komið fyrir. Þetta er allt að koma.

Nú var rætt um sumarferðir. Ákveðið var að efna til árlegrar göngu Hlaupasamtakanna einhvern tímann í júli og fara um Laugaveginn - bjóða fjölskyldum með okkur ef áhugi er til staðar. Fararstjóri verður Jörundur Guðmundsson. 2-3 daga ferð með tjöldum og öllu. Enda í Þórsmörk þar sem blómasalinn stendur fyrir grillveizlu.

Ánægjuleg og fróðleg stund í potti. Þar söknuðu menn þó Helgu Jónsdóttur Zoega Gröndal, sem mun vera lasin heima. Auk hlaupinna voru þar dr. Baldur, dr. Einar Gunnar og Stefán verkfræðingur. Næst hlaupið á morgun, mánudag. Vel mætt!

Skeggsöfnun stendur yfir - framlög óskast

Nei, maður segir svona. Þegar ritari kom hjólandi á hjólfáki sínum framhjá októgónu blokkinni þar sem hann Guðni bjó (býr?) og fór inn á bílastæðin sá hann Bjarna Benz sem var nýkominn og var að huga að bifreið sinni. Útundan augnlokunum á ritara sást til bifreiðar, ef bifreið skyldi kalla, sannkallaðs bílhræs, og þykkur reykjarmökkur inni í bílstjórarýminu og engu líkara en að bein leiðsla lægi frá útblástursröri bifreiðarinnar og inn í stjórnunarklefa hennar. Ritari hægir á sér, en sér sér til skelfingar að bíllinn eykur ferðina og tekur stefnuna beint á þennan ríkisstarfsmann. Með naumindum tekst að forða stórslysi og bíllinn kemst loks í örugga höfn nokkurn veginn milli strika. Bjarni Benz er orðinn trítilóður yfir þessu framferði bílstjórans, ræðst að bílhurðinni, rífur hana upp og þrífur til bílstjórans. En hver kemur þá í ljós? Er það ekki sjálfur blómasalinn illa vankaður af útblástursgufum, og var reikull í spori er hann loks náði að fóta sig á malbikinu fyrir framan Vesturbæjarlaug.

Jæja, blómasalinn slapp við líkamsmeiðingar í þetta skiptið, en það mátti litlu muna. Er inn var komið mætti ritari Bjössa kokki. Við horfðum ánulega hvor á annan, báðir að safna yfirvaraskeggi í þágu krabbameinsleitar í eistum karla. Björn hefur fengið meinlegar athugasemdir heima fyrir út af "burstanum" sem hann er kominn með, en ritari getur bara upplýst um almenna aðdáun og ánægju á sínum fronti. Hins vegar er óvíst hvort þeir minna frekar á Pólverja eða Village People. Farið út í Útiklefa og klætt sig. Þar voru Benzinn, Bjössi, blómasalinn og ritari - og þar ríkti einskær gleði. Í Brottfararsal bættust við prófessor Fróði, S. Ingvarsson, Ragnar, Jörundur, og fleiri, samtals 10 hlauparar. Jörundur gat upplýst um það að hann væri sannkallaður lífgjafi. Í dag hefði hann komið heim og við blasað lögregla að stumra yfir meiddum ketti. Löggan gerði sig líklega til þess að moka kettinum upp með kíttispaða og fjarlægja hann, en Jörundur greip inn í og kvaðst þekkja þennan kött. Þetta væri köttur nágrannans. Tók hann köttinn í sína vörzlu og færði Birgi og fjölskyldu köttinn síðar. Er þetta sami aðili og hefur árum saman migið og skitið undir pallinn hjá Jörundi og framtak hans þeim mun merkilegra. Síðdegis hafði svo Biggi samband og sagði að kötturinn væri að braggast.

Jæja, þetta átti nú ekki að verða frásögn af köttum, en stundum æxlast samtöl bara svona. Jörundur var ánægður með dagsverkið og gat vel við unað. Föstudagur og við fáum að ráða okkur sjálf. Áður en við náðum að hafa okkur af stað kom Melabúðar-Frikki á Plan og veifaði flösku með bleikum orkuvökva. Einhverjir þefuðu af drukknum, en töldu innihaldið ekki til þess fallið að efla styrk og þrótt fyrir hlaup. Frikki ætlaði aldrei þessu vant að fylgja fyrirmælum sjúkraþjálfara og hvíla sig. Við dóluðum okkur af stað og fórum niður á Ægisíðu. Veður áfram hreint með eindæmum, hiti 7 stig, nánast logn og uppstytta.

Það var ung stúlka með í för í dag sem ég hef ekki nafnið á, en hún virtist viðkunnanleg og vel hlaupandi. Höfðum við hinir betri hlauparar fullt í fangi með að gæta hennar fyrir óvandaðri hlaupurum. Hópurinn skiptist fljótlega upp samkvæmt venju, og vorum við hinir skárri hlauparar í fararbroddi, ritari, prófessor Fróði, S. Ingvarsson, Benzinn og stúlkan. Fórum á á að gizka 5 mín. tempói og jukum bara í ef eitthvað var. Aldrei þessu vant var lítið rætt um áfengi, en það er annars aðalumræðuefnið á föstudögum. Eitthvert lítilræði af baktali og illmælgi, en allt í góðu og velmeinandi ásetningur að baki. Spurt var: hvar er Flosi, hvar er Þorvaldur? En þessir hlauparar hafa ekki sézt mikið alla vikuna.

Farið hefðbundið um Hi-Lux og brekkan góða tekin léttilega. Sigurður týndur. Við áfram um kirkjugarð og upp í hverfið hjá Öskjuhlíðarskóla. Veðurstofa, Saungskóli og þau dæmi öll. Sigurður fundinn. Við skiptumst á að hafa forystuna, ritari, prófessorarnir, Benzinn og stúlkan, en þegar komið var að Blindraheimilinu þá hurfu þeir fremstu og ritari fór að herða hlaupið. Hér var tempóið anzi hratt. Farið sem leið liggur yfir Miklubraut (biðum óþarflega lengi á ljósum) og áfram um Klambra. Hlemmur og Sæbraut og þannig áfram. Þegar ritari kom á feiknarhraða suður Hofsvallagötu mætti hann Rúnari þjálfara og Benedikt hlaupara, aldeilis grallaralausum og hortugum, þeir reyndu að hefta og trufla för ritara með óforskömmugheitum, en hann rétti út járnhnefann og þeir heyktust á hrekkjunum.

Það er alltaf gaman í potti þegar líður á vor, nú varð óvenjufrjó umræða um matargerð, enda meistarakokkurinn Bjössi á staðnum, og áhugakokkurinn Einar ekki langt undan. René mætti í pott óhlaupinn og gat bætt í umræðu um mat, enda ættaður frá Toskana-héraði á Ítalíu. Menn lögðu drög að matseðlum kvöldsins, sem hljómuðu hver öðrum áhugaverðari. Í fyrramálið munu einhverjir hlaupa langt, aðrir fara á sunnudag. Nú er toppað, lágmark 35 km. Er þetta ekki frábært?

"Hin sælan er betri."

Fyrirsögnin er sótt í ummæli sonarins þegar spurt var hvort hann vildi frekar fara á árshátíð eða helga sig sundæfingum. "Það má sleppa þeirri skammvinnu sælu sem árshátíðin er - hin sælan er betri." Átti þá við rússið sem menn fá af stífum æfingum. Segja má að þetta hafi verið einkennisorð þeirra hlaupara sem hlupu langt í dag samkvæmt hefð - það voru þeir Ólafur ritari, Einar blómasali og prófessor Ágúst, sem gat slitið sig frá Atacama maraþoninu í sjónvarpinu. Aðrir mættir til hlaups á þessum degi: Jörundur, Bjössi, Eiríkur, Magnús, Rúnar, Margrét, Ragnar, Kalli, Kári, Melabúðar-Friðrik og líklega einhverjir fleiri sem ég man ekki eftir í svipinn. Orð var haft á hve fáir væru mættir til hlaups í vorblíðunni, en veður var með eindæmum flott.

Það var vandræðagangur á Plani, einhverjir ætluðu að fara 12 km vegna þess að framundan er Powerade-hlaup á morgun, fimmtudag, sem einhverjir ætla í. En aðrir hvísluðu um langt og gættu þess að láta þjálfara ekki heyra: "24?" "Nei, 27" Jæja, það kæmi allt í ljós hvað yrði úr hlaupi.

Bjössi að fara á stúfana á ný eftir mikla fjarveru vegna meiðsla. Að þessu sinni var farið afskaplega rólega af stað, utan hvað hefðbundið æði rann á ónefnda Parísarfara og þeir hurfu fljótlega. Við hinir tókum lífinu með ró. Það var spenna í mannskapnum enda langt framundan, maður sá Fossvogsdalinn, Kópavogshæðir, Breiðholtið fyrir sér í huganum og fann jafnframt lífsmagn jarðar og vorangan í lofti, fuglasöngur í trjám. Endurnýjun lífsins að hefjast - enn á ný. Þetta eru hinir ákjósanlegustu tímar á hlaupaárinu, vorið og sumarið.

Maður fylgdist svosem ekki mikið með því hvað varð um aðra, en við blómasalinn og prófessorinn héldum áfram í Fossvoginn. Það sló mann hversu fáir hlauparar voru á ferli, eina skýringin er sú að menn ætli almennt í Poweradið. Ágúst tók hefðbundnar slaufur en við Einar héldum áfram. Hann náði okkur áður en farið var upp úr dalnum. Þegar við fórum undir Breiðholtsbraut varð ritara á orði, að Flosi hlyti að verða stoltur og ánægður fyrir okkar hönd í sínum veikindum með þetta langa hlaup sem þreytt yrði í dag. Óðara var hann grunaður um gæzku og talið víst að hann myndi senda bróður sínum sérstakt skeyti til þess að kvelja lasinn manninn sem missir af góðu og löngu hlaupi. En svo bætti Ágúst við: "En hugsið ykkur hvað hann verður ánægður þegar hann heyrir hvað ég fer langt í dag, því ég ætla upp að Breiðholtsbraut!"

Einar hlýtur að hafa verið meðvitundarlaus öll skiptin sem við fórum upp úr Breiðholtinu, hann var fyrst í dag að átta sig á því að mamma Gústa byggi í Stekkjunum þar sem við förum alltaf um í hinum lengri hlaupum. Þarna gaf hann í og skildi okkur eftir.  Sem er allt í lagi því að hann er sá sem fer til Parísar, ekki við. Farið framhjá Stíbblu og alla leið upp að Árbæjarlaug, nema hvað Ágúst hélt áfram upp Ellliðaárdalinn og í brekkurnar þar. Við fengum okkur að drekka við Laug og horfðum í kringum okkur, en héldum fljótlega tilbaka áður en við stirðnuðum. Hratt niður dalinn og brekkuna hjá Rafveituheimilinu, yfir árnar.

Hér leyfði ég blómasalanum  að halda áfram á sínu tempói, en fór að draga mig í hlé, enda búinn að gera mitt í kvöld, fylgja honum á góðu tempói fyrstu 14 km. Eftir þetta var það bara spurning um að komast tilbaka skammlaust. Það var farið að kólna og smásaman fór maður að stirðna upp, þá varð erfiðara að hreyfa sig. Vökvun góð, appelsínusafi blandaður í vatni. Ágætur kostur. Ég missti sýnar á blómasalanum við Kringlumýrarbraut og dólaði mér tilbaka á eigin tempói eftir það. Tókst það nokkurn veginn. Teygt í Móttökusal og spjallað við fólk, Er upp var staðið kom í  ljós að við blómasalinn höfðum farið 24,4 km - en Ágúst 28,4. Megu vér allir vel við una. En þetta er ekki búið, meira á morgun, en þó einkum á föstudag, hefðbundið hlaup þá er 12 km. Vel mætt!

Framan við skjáinn

"Hvar er Ágúst?" var spurt. Siggi Ingvarss. sagði að hann hefði plantað sér framan við sjónvarpið til þess að horfa á eyðimerkurmaraþon sem þreytt er þessa dagana í Chile. Maraþonið heldur áfram alla vikuna, og prófessorinn mun ekki róta sér fyrr en því er lokið. Því sést hann að líkindum ekki utandyra aftur fyrr en í næstu viku. Ágætlega var mætt, og af báðum kynjum í þetta skiptið. Maður nokkur kom að máli við ritara og kvartaði yfir því að vera ekki rétt nefndur í frásögn. Einhver hafði laumað því að mér að hann héti Haukur og væri kenndur við Húsavík, en hið rétta er að hann heitir Haraldur og leiðréttist það nú.

Þjálfarar lögðu til að farið yrði hægt út að Skítastöð og svo sprettir á eftir. En menn leggja misjafnan skilning í hugtakið "hægt" - þegar á Suðurgötu var komið rífandi tempó í hlaupara sem hélt bara áfram að aukast. Við flugvöll fór blómasali að derra sig og tók fram úr ritara. Ritari, sem er að aðstoða við þjálfun blómasalans fyrir París, fór léttilega fram úr þeim feita og hrópaði jafnframt: "Koma svo, feitabollan þín!" Hvatning af þessu tagi hefur jafnan virkað vel. Margrét, sem var stödd nálægt okkur hélt að ég væri að kalla á hana og tók því ekki vel að fá þennan stimpil.

Í Nauthólsvík stanzaði hópurinn og fór inn á stíginn hjá Hlíðarfæti. Þar voru teknir 10-20 200 m sprettir. Ritari hélt hins vegar áfram og fór Þriggjabrúahlaup á ágætu tempói. Hann var einn alla leið og því er sosum ekki frá neinu merkilegu að segja, öðru en að veður var aldeilis frábært og maður fær reglulega vortilfinningu af því að vera úti í svona veðurblíðu.

Á Plani hitti ég Rúnar og Frikka og fljótlega kom Egill Helgason úr Laug og tók upp spjall við okkur. Hann hefur ákveðin áform um að snúa á ný til hlaupa, en hleypur enn um sinn innandyra í Ræktinni á Seltjarnarnesi. Upplýst að hann ætti 1:30 í hálfu maraþoni, sem er líklega með beztu tímum sem þekkjast í Samtökum Vorum.

Teygt vel úti sem inni og rætt um vikuna sem framundan er. Lagt á ráðin um hlaup í fyrramálið kl. 05:55, rólegt á miðvikudag, Powerade-hlaup á fimmtudag og langt á sunnudag.

Kynlausir þvergirðingar

Dagurinn var hreint frábær á hlaupum, Ólafur Þorsteinsson lék á als oddi og geislaði af frásagnargleði. Ýmislegt fróðlegt bar á góma, það voru stjórnmál, það var persónufræði, það voru vísbendingar. Meira um það seinna. Mættir til hlaups jafnbeztu og jafnlyndustu hlauparar Samtakanna, menn sem kalla ekki allt ömmu sína: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Einar blómasali og ritari. Menn skröfuðu hljóðlega í Brottfararsal og það var varpað fram vísbendingaspurningu um persónu í spurningaþætti. Engan óraði fyrir hvað framundan var - dæmandi af hljóðskrafinu einu saman.

Lagt af stað rólega. Einar upplýsti að hann hefði ekki farið í langt hlaup í gær frá Grafarvogslaug og hafði þá skýringu að það hefði enginn haft samband við sig um það að hlaupa. Þó á að heita að þessi maður sé að undirbúa sig fyrir Parísarmaraþon og á að vera að fara langt. Nei, nei, það var setið í afmælisveizlum og innbyrt mikið magn af mat. Við hlupum framhjá lögmanninum Möller og vörpuðum á hann kveðju, Ólafur frændi minn varð að stoppa aðeins og ræða málin, eins og hann gerir jafnan þegar mikilsháttar menn verða á vegi hans. Vitanlega vær rætt um þjóðaratkvæðagreiðsluna og voru menn almennt sammála um að hún hefði verið marklaus þar eð ekki var ljóst um hvað væri spurt eða hverju menn væru að svara með atkvæði sínu.

Í Nauthólsvík var stanzað og rætt um fólk. Áfram haldið og í kirkjugarði var áfram haldið að ræða um fólk. En þar var allt sagt í fullum trúnaði og fer ekki lengra. En á Klambratúni gerðust hlutirnir. Það var stanzað og Ó. Þorsteinsson bað um orðið. Þar stóðum við ekki skemur en í 10 mínútur meðan hann lét móðan mása um hús eitt í Norðurmýrinni sem hafði verið renóverað afar smekklega og er sannkallað fjölskylduhús. Sagði hann sögu fjölskyldunnar alla frá 1939 til þessa dags, sem er saga föður, móður og sona. Saga velgengni, uppgangs, framgangs, auðs, smekkvísi, meiri auðs og skynsamlegra fjárfestinga.

Eftir þessa sögustund leið okkur eins og nýjum mönnum og á leiðinni niður á Sæbraut gerðum við okkur grein fyrir því menningarhlutverki sem Hlaupasamtökin leika í þjóðlegum efnum. Um stund veltum við fyrir okkur að fara Laugaveginn og telja tóm verzlunarrými, en ákváðum að gera það seinna. Niður á Sæbraut og enn var stanzað til þess að hlýða á fleiri sögur frá Formanni Vorum. Er upp var staðið var þetta líklega eitthvert lengsta sunnudagshlaup til þessa, þvílík var frásagnargleðin.

Ekki minnkaði sagnaefnið í potti þar sem Mímir, dr. Einar Gunnar, dr. Baldur og þau hjón Stefán og Helga voru mætt venju samkvæmt. Áfram var haldið með umræðuefnið "kynlausir þvergirðingar" sem var leiðarhnoða dagsins á hlaupum. Þar er ekki komið að tómum kofanum sem frú Helga er, hún á alltaf til viðbót við upplýsingar Samtakanna. Þannig lauk umræðum dagsins á hátimbruðum nótum. Í næstu viku ætlar blómasalinn að hlaupa 105 km - fróðlegt verður að sjá hvernig hann ætlar að gera það, endaþótt hann losni við að elda alla vikuna.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband