Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Gamlárshlaup ÍR 2011 - síðasta hlaup ársins

Það var ævintýri og uppskrift að vandræðum að taka sér fari með blómasalanum og Bigga. Til stóð að vera fyrir utan Bræðraborgarstíg 18 kl. 11:15 - en þeir komu loks 11:35, stuttu fyrir hlaup. Og voru þó búnir að vera að hringja í allar áttir um morguninn. Jæja, blómasalinn byrjaði á að festa sig í skafli hér fyrir utan og á eiginlega ekki að vera hægt á stórum fjallajeppa. Loks komumst við af stað og það leit út fyrir að það yrði hlaupið.

Gríðarlegur fjöldi fólks fyrir utan Hörpuna og hópur hlaupara hljóp í halarófu í hringi, upphitunarhlaup. Dr. Jóhanna og Helmut lýstu með fjarveru sinni, ætluðu í mótmælahlaup í morgun kl. 10 frá Vesturbæjarlaug. En auk fyrrgreindra hlaupara mátti bera kennsl á Melabúðarkaupmann, Dagnýju, Flosa, Guðrúnu og síðar sást til Kalla, Péturs og Alberts. Þá var sá aldni meistari Sigurður Gunnsteinsson áberandi í hlaupinu, en hvergi sást til Trabanthópsins. Hersingin hélt út á Sæbraut og það var ræst með flugeldi.

Stefnan var sett á rólegt hjá okkur blómasala og héldum við hópinn fyrstu fjóra kílómetrana, þá blandaði Dagný sér í málin og þar með var sælan búin. Hún náði að æsa blómasalann upp, en sem kunnugt er þykir honum miður að bera lægra hlut fyrir konum. Þau hertu hlaupin og yfirgáfu mig, ég hélt mig áfram á rólegu nótunum. Leiðin var ekki eins leiðinleg og ég átti von á, farið inn að Kleppi og niður hjá Eimskipum og þá leið tilbaka. Mikið af þungstígum hlaupurum á ferð og því engin hætta á að skrifari yrði síðastur.

Eitt af þessum hlaupum sem eru búin áður en þau hefjast. Skrifari kom í mark á 56 mínútum, blómasalinn á 53 og það flaug fyrir að Flosi hefði verið á 49, sem er bara bilun um miðjan vetur! Í þetta skiptið var nóg að drekka að hlaupi loknu, bæði vatn og orka og ber að fagna því. En enginn prófessor með freyðivín að taka á móti mönnum og var það miður.

Skrifari vill nota tækifærið og þakka félögum Hlaupasamtakanna fyrir ánægjulegt hlaupaár 2011 með mörgum ánægjulegum vörðum, svo sem Hamarshlaupi, Laugavegi og RM. Óska ykkur gleðilegs nýs árs með heitstrengingu um að taka enn betur á því á nýju ári. Í gvuðs friði.


Það var hlaupið - og rúllað

Fámennt í dag. Mættir voru: Bjarni Bens, Haukur og ég, Kári. Bæði var hvasst og mikill snjór, en svo ætla víst margir að hlaupa í gamlárshlaupinu á morgun.

Haukur sneri fljótlega við vegna einhvers skavanka en við Bjarni fórum Hlíðarfót, upp að Valsheimili og eftir gömlu Hringbraut til baka.

Ægissíðan hafði ekki verið rudd og við flugbrautina voru snjóþyngslin slík að við Bjarni klofuðum snjóinn upp að mitti. Á köflum urðum við að leggjast flatir og velta okkur því snjórinn var of djúpur. Það er gott að enginn var viðstaddur til að ljósmynda þær aðfarir.


Biggi mætir í hlaup - Benzinn springur á limminu

Það taldist til tíðenda í kvöld er Biggi jógi, sá hinn sami og hafið hefur uppreisn gegn sitjandi Formanni til Lífstíðar, mætti til hlaups eftir að hafa lýst með fjarveru sinni í allt haust. Hann kvartaði yfir umsátri Jörundar, sem léti ekkert tækifæri ónotað til þess að vera með leiðindi og ónot í garð nágranna síns í tilefni af valdaránstilrauninni. Kettirnir væru orðnir taugaveiklaðir og kanínurnar varar um sig. Að ekki sé talað um heimilisfólkið. Biggi er vanur að bæta á sig tíu kílóum yfir vetrarmánuðina og menn höfðu ekki mikla trú á að hann sýndi mikið í hlaupi dagsins.

Þá er að sjá hvort skrifari muni hverjir voru mættir: Magga, Benzinn, Kári, Biggi, Helmut, dr. Jóhanna, Guðrún, Gummi, Ragnar, Frikki, Rúna og Þorvaldur. Menn spurðu: hvar er Jörundur, hvar er blómasali? Skrifari í eiturgrænum hlaupajakka sem vakti athygli. Flestir vel merktir endurskinslitum og Gummi þó til fyrirmyndar í jakka í endurskinslit. Ekki lagt upp með neitt ákveðið prógramm, en þó heyrðist nefnt Þriggjabrúahlaup þrátt fyrir að á laugardag verði þreytt Gamlárshlaup ÍR. Einhverjir í fýlu yfir að leiðinni hafi verið breytt. Skrifara fannst það óþarflega mikil tilfinninga- og íhaldssemi.

Gaman að sjá hvað fólk er létt á sér þrátt fyrir kulda og snjó, færð þó allgóð enda búið að ryðja vel alla stíga. Byrjaði með Helmut, Rúnu, dr. Jóhönnu og fleira fólki og hékk í þeim inn í Skerjafjörð. Jibbí, hugsaði skrifari, þetta verður félagshlaup. Við ætlum að fara rólega og halda hópinn. Loksins erum við orðin félagslegur hlaupahópur! Sú sæla varði ekki lengi. Fyrir Skítastöð voru þau horfin í snjóreyk og sást ekki mikið til þeirra eftir það. Athygli vakti að bæði Helmut og Biggi skipuðu sér þar í flokk, en voru ekki líklegir til afreka í hlaupi dagsins í byrjun.

Þarna paufaðist maður áfram í félagsskap við Benzinn og Þorvald. Þeir eru fámálir menn, en gefa frá sér búkhljóð. Er kom inn í Nauthólsvík sprakk Benzinn og fór að ganga, Þorvaldur fór Hlíðarfót. Skrifari áfram á Flanir. Nú var það spurningin: verður það Suðurhlíð eða verður það Þriggjabrúa. Eg hafði sætt særingum fyrir hlaup af hálfu Helmuts um að þreyta Þriggjabrúa, en færðist undan slíkum skuldbindingum. En er komið var niður fyrir Kirkjugarð og sást djarfa í fremstu hlaupara var ákvörðun tekin: það verður Þriggjabrúa í dag.

Áfram yfir brú á Kringlumýrarbraut og upp Boggabrekkuna. Færð enn ágæt, gangstétt rudd. Líðan góð er hér var komið og engin ástæða til annars en að hlakka til þess sem framundan var. Það var leiðindafærð hjá Útvarpshúsi, óruddir gangstígar og því varð að hlaupa á götunni. En eftir þetta var ekkert mál að komast leiðar sinnar á hreinum stígum. Hefðbundið hjá Fram-heimili, niður Kringlumýrarbraut og niður á Sæbraut. Forvitnilegt að sjá hvaða aðstæður bíða okkar í hlaupinu á laugardag. Sæbrautin þokkaleg, hvorki verri né betri en aðrir stígar á leiðinni. Farið hjá Hörpu, hafnarbakka og upp Ægisgötu. Komið á þokkalegu stími tilbaka, en á hægara tempói en alla jafna, bæði vegna færðar og þyngdaraukningar yfir jól.

Góð tilfinning að ná að ljúka Þriggjabrúa. Þó er enn meiri furða að Biggi, afmyndaður af fitu, skuli klára þetta hlaup með fremsta fólki eins og hann hafi ekki gert annað í haust en hlaupa. Það er til fyrirmyndar.

Nú er bara að skrá sig í Gamlárshlaup ÍR og vera með, jafnvel þótt hlaupaleiðinni hafi verið breytt!


Kleppur - Hraðferð

Ætla má að þeir vegfarendur sem sáu félagsmenn í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í kvöld í glerhálku hafi spurt sig: "Er þetta fólk ekki með öllum mjalla?" Það hvarflaði satt að segja að skrifara hvort við værum fyllilega með fulle fem, svo geðveikisleg var færðin að það datt oní mann hvort ekki væri skynsamlegast að snúa við þegar á Ægisíðunni.

Tildrögin voru sumsé þau að hlauparar söfnuðust saman við Vesturbæjarlaug, þessi voru: Magga, dr. Jóhanna, Benzinn, Þorvaldur, Heiðar sálfræðinemi, Guðmundur, Pétur, skrifari, Helmut, Magnús og blómasalinn. Það var stemmari fyrir Þriggjabrúa og raunar hafði blómasalinn sent út póst fyrr um daginn með hvatningu til Þriggjabrúahlaups. Menn lögðu almennt upp með þann ásetning að ljúka téðu hlaupi hið minnsta.

Stemmningin breyttist lítillega þegar komið var niður á Ægisíðu. Þar var bara gler, því verður ekki öðruvísi lýst. Þegar svo við bættist stífur vindur í fangið má merkilegt heita að maður haggaðist yfirleitt eitthvað fram á við. Þau voru furðu brött, dr. Jóhanna, Magga, Pétur og Gummi, að skella sér strax á hlemmiskeið og virtust litlar áhyggjur hafa af glerinu. Við hinir varkárari og skynsamari einbeittum okkur að því að fylgjast með hverju fótspori svo ekki yrði flogið á hausinn.

Þetta kom þannig út að Þorvaldur, Maggi og Benzinn skildu okkur hina eftir, þar á eftir kom Helmut á nöglum og rákum við blómasalinn lestina, og hefur það ekki gerst í háa herrans tíð að svo ágætir hlauparar lendi síðastir. Nema hvað, við erum báðir framsettir og miðar því seinlegar áfram en öðrum, og svo kom stormurinn í Skerjafirði og þá fór maður alvarlega að velta fyrir sér að snúa við. Um þessar mundir fæddist sú ákvörðun að stytta og láta Hlíðarfót nægja.

Þegar hlaupið er af þessari varkárni og einbeitni stífnar maður allur upp, hlaupið verður erfiðara og áreynslan meiri, þreytan setur fyrr inn. Það var bara Hlíðarfótur og hjá Gvuðsmönnum og þá leið tilbaka. Ekki var ástandið betra á stígum við Hringbraut og raunar ekki fyrr en á Hagamel að við fundum auðar gangstéttar. Fyrstir til Laugar, rúman klukkutíma að fara 8 km.

Það var einmanalegt í Potti til að byrja með, en svo duttu þau inn hvert af öðru og var þá upplýst að Maggi, Þorvaldur og Benzinn hefðu farið Hlíðarfót, Klambratún og Laugaveg, en þau hin fullt Þriggjabrúahlaup. Einnig var sagt frá því að dr. Jóhanna var næstum dottin í drullupytt við Skógræktina, en Pétur lenti í hávaðarimmu við Gumma út af samkeppnismálum, þó héldu þeir fulltri einbeitingu og fullum hraða á glærum stígum. Ekki er vitað hvar umræðunni var komið þegar Pétur loks flaug á hausinn við Ríkisútvarpið. Var honum þó klappað lof í lófa að hafa haldið rifrildið og hlaupið svona lengi út.

Að öllu jöfnu ætti næst að hlaupa föstudaginn 23. desember, þá lokar Laug kl. 18. Hvað menn athugi. Hyggist menn hlaupa laugardaginn 24. desember má hafa til hliðsjónar að Laug er lokað kl. 12:30. Í gvuðs friði.


"... það er enn rúðuvökvi á bílnum!"

Þegar líður nær jólum er eðlilegt að menn hugi að velferð sinni og sinna og leiði hugann að því með hvaða hætti þeir fái notið kyrrðar jóla. Margir falla í þá freistni að halla sér að mat og drykk með ótæpilegum hætti. Meira um það seinna. Mættur flokkur manna og kvenna í hlaup í Hlaupasamtökunum á mánudegi þegar veður voru válynd og færið erfitt. Þessir voru: Flosi, dr. Jóhanna, Kári, Benzinn, blómasalinn, Helmut, skrifari, Magnús - og svo bættust við Ragnar, Jóhanna Ólafs, Guðmundur Löve og Snorri.

Enga leiðsögn að hafa en menn settu stefnuna engu að síður á flugvöll. Ekki þarf að eyða orðum á jetsettið, það var gone in 60 seconds. Við þessir tilvonandi félagsmenn Trabant-klúbbsins vorum skynsamari og fórum á viðráðanlegu tempói. Upp kom hugmynd um að bæta við nýjum kategoríum, svo sem Bjöllu-klúbbi fyrir þá sem fara aðeins hraðar en Trabbarnir, og svo Göngugrindadeild fyrir þá sem fara enn hægar. Einhver missti út úr sér að gera mætti próf. Fróða að heiðursmeðlim í síðastnefnda klúbbnum, en það gæti líka hafa verið misheyrn.

Eins og fram er komið var færðin erfið, frosið og snjóað hafði ofan í slabb og mátti fara varlega. Allmargir á utanvegaskóm, sem gefa góða raun við þessar aðstæður. Eins og oft áður lenti skrifari einn með sjálfum sér í eigin félagsskap en öðru hverju dúkkaði Benzinn upp á stígunum, orðinn sprækur eins og lækur. Við flugbraut heyrði ég í hlaupara á eftir mér og datt einna helzt í hug að þar væri á ferðinni ónefndur blómasali að rembast við að ná skrifara. Var þó ekki alveg viss á hlaupastílnum, en heyrði næst hlauparann bölva og falla um koll. Ekki sá ég ástæðu til þess að snúa við og athuga með heilsufar téðs hlaupara, þetta eru engin góðgerðasamtök, og ef þetta hefði verið blómasalinn væri þetta bara lexía fyrir hann.

Nema hvað, Helmut dúkkar upp við hlið mér og kveðst hafa flogið á hausinn rétt í það mund að hann var að ná mér í hlaupinu. Þá örlaði á samvizkubiti hjá þessum hlaupara, en ekki lengi. Við slógumst svo í lið með Benzinum og settum stefnuna á Suðurhlíð. Ansi var maður þungur á sér í dag! Fjarvera frá hlaupum og mikill fatnaður. Suðurhlíðarbrekkan var lögð að velli og sömuleiðis brekkan upp að Perlu, en þá var aðeins staldrað við til að kasta mæðinni.

Eftir þetta var málið einfalt, einfalt stím tilbaka. Teygt í Móttökusal og skrafað við Skerjafjarðarskáld. Pottur stuttur og snarpur - upplýst að blómasalinn hefði teygt Kára eina 13 km á hægu tempói. Í tilefni jóla var rætt um mat og drykk, einkum drykk. Færð var til þessi gullvæga setning frá ónefndum manni: "Ég er ekki alkóhólisti. Það er enn rúðuvökvi á bílnum!"


Einn á ferð í þæfingsfærð

Það má merkilegt heita að ekki fleiri hlauparar sjást á ferð á degi sem þeim sem nú rann, en þverfótaði ekki fyrir hundum og eigendum þeirra. Vaknað seint á sunnudagsmorgni og því náði skrifari ekki ferð með Lýðveldishópnum sem alla jafna leggur af stað á sunnudögum kl. 10:10. Mætti því til Laugar upp úr 11 og hengdi af mér reyfið í Útiklefa. Hélt af stað í fögru veðri, frostlausu, logni og vetrarblíðu.

Tíðindalítið framan af, en skrifari allþungur á sér eftir fjarveru í vikunni og því mikilvægt að ná alla vega 10 km í dag vegna frekari fjarveru í næstu viku. Smám saman lagaðist ástandið og eftir 3-4 km var hér kominn flottur hlaupari með reistan makka. Þó verður ekki hjá því komist að hafa orð á ástandi stíga. Er komið var úr Skerjafirði og út að flugvelli var slík ófærð að maður varð að ganga, hnédjúpir skaflar sem greinilega hafa legið óhreyfðir dögum saman. Varð skrifara spurn á hvort ekki starfaði útivistarfólk hjá Borginni, hvort menn þar á bæ færu yfirleitt aldrei út fyrir hússins dyr. Ekki minnist skrifari þess að hafa séð ástandið jafnslæmt á stígum.

Það var mikil freisting að stytta í Nauthólsvik og fara Hlíðarfót, en enn meiri freisting að halda áfram og taka Suðurhlíð og í hana féll ég, hélt sumsé áfram niður hjá Kirkjugarði og út að Kringlumýrarbraut. Ástand stíga hér nokkurn veginn bærilegt og alveg upp að Perlu. Eftir þetta var það bara spurning um að stíma vestur úr og ná Potti með félögunum.

Í Potti var upplýst að þeir hefðu farið fjórir um morguninn: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Jörundur og Magnús. Hefðbundin uppstilling í Potti utan hvað Baldur lét sig vanta. Mikil umræða um Reykjavíkur Lærða Skóla og skólaskýrzlur sem þar voru gefnar út um árabil og Ólafur Þorsteinsson á til innbundnar í leður. Skýrzlur þessar munu vera ómissandi á mannamótum þegar ræðir um helztu persónur í samfélaginu og þarf að rifja upp frammistöðu þeirra í menntaskóla. Þótti mönnum horfa til afturfara í skólum þar sem æ meira er stuðst við símat en hætt að láta menn þreyta alvörupróf með tilheyrandi upplestri.

Ætla má að hlaupið verði í Hlaupasamtökunum á morgun kl. 17:30 og myndu menn sýna skynsemi í því að hafa tryggt sér mokstur á helztu leiðum, t.d. með tölvupósti á Reykjavíkurborg. En skrifari verður sumsé kominn til Brussel um það leyti. Í gvuðs friði.


Þrír hlunkar á Nesi

Það var fámennt í hlaupi dagsins, enda 6 stiga frost. Helmut, Flosi, Benzinn,skrifari, Magga, dr. Jóhanna, Magnús - og svo bættist Hjálmar við í Ánanaustum og tveir aðrir sem ég bar ekki kennsl á. Ákveðið var að fara á Nes og nefnd Bakkavör. Bakkavör þýðir erfiði og strit og því heillar það ekki þunglynda, fámála og staðfasta miðaldra hlaupara. Við leyfðum hinum yngri hlaupurum að taka stefnuna á Bakkavör, en Helmut, Benzinn og skrifari héldu út í myrkrið á Nesi. Við vorum fremur þungir á okkur, enda kappklæddir í miklum vetrarkulda. Því var það hugrekki að hverfa frá því að fara Lindarbraut, en taka strikið út hjá Gróttu.

Við slömpuðumst þetta í næturmyrkrinu og var erfitt á stundum því skafrenningur var í norðaustan vindinum og fennti í slóðina. En það var mesta furða hvílíka seiglu menn sýndu á þessum kafla þótt þeir væru eiginlega ekki að nenna þessu. Engu að síður var nauðsynlegt að halda áfram og gera sitt bezta til þess að vinna á fitusöfnun og þyngdaraukningu helgarinnar. Fáir á ferð, en bjart og fallegt í vetrarríkinu.

Þau hin voru komin tilbaka er við komum á Plan. Höfðu tekið 6 Bakkavarir og bara verið slök. Stuttu síðar kemur Magnús tannlæknir og hafði farið afar stutt, settist inn í verzlun með tannbursta sem var opin og kjaftaði þar við kaupkonuna. Misjafnt höfumst við bræður að!

Framundan Powerade-hlaup og svo hefðbundinn föstudagur. Í gvuðs friði.


Flatbökuveizla Hlaupasamtakanna við Bragagötu

Að loknu hlaupi dagsins var mannskapnum stefnt til hinnar árlegu flatbökuveizlu Hlaupasamtakanna við Bragagötu. Þar er ónn einn góður sem bakar flatbökur á svipstundu. Á staðinn mættu: Helmut og Jóhanna, Flosi, Þorvaldur, próf. Fróði og Ólöf, Denni, Ragnar og frú, Frikki og Rúna, Pétur, skrifari, Bjössi og húnninn, Benzinn, Kári og Guðrún. Góð mæting og var gleðin við völd.

Þótt hvert rúm hafi verið skipað völdum einstaklingi, vakti eftirtekt að ónefndur blómasali lét ekki svo lítið að mæta á staðinn þrátt fyrir yfirlýsingar öndverðrar náttúru fyrr um daginn. Var mörgum getum leitt að því hvað ylli. Fyrstu getgátur voru á þá leið að hann kynni ekki á klukku. Svona geta menn verið illgjarnir!

Skrifari vissi þó að upplýsa að blómasalinn hefði ætlað í sumarhöll sína í Byskupstungum og trúlega hefði hann séð þann grænstan að halda beinustu leið í sveitina í stað þess að vera að staldra við í 101 og eyða peningum í mat sem mætti sem bezt útbúa kominn austur. Alla vega veltu menn vöngum fram og tilbaka um ástæður þess að hinn ágæti félagi okkar léti undir höfuð leggjast að mæta á Fyrsta Föstudegi.

Kvöldstundin var hin ánægjulegasta og nutu menn góðs matar og drykkja á Eldsmiðjunni - haldið var út í nátt og snæ í góðum gír.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband