Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Ýmislegir viðburðir

Félagar Hlaupasamtaka Lýðveldisins hafast ýmislegt að í fásinni sumarleyfisdaganna. Nú höfum við lokið við fjóra leggi af átta á Reykjaveginum, frá Nesjavöllum að Bláfjallavegi. Sá seinasti var frá Bláfjöllum að Bláfjallavegi Hafnarfjarðarmegin. Fórum m.a. hjá Þríhnúkagíg, sáum gæfan yrðling og jarðhýsi Einars Ólafssonar Bláfjallageims. Nú verður hlé að sinni á þessari göngu meðan Helmut og Jóhanna dvelja ytra. Svo höldum við áfram alla leið á Reykjanesið. 

Svo er hlaupið endrum og sinnum, en ekki alltaf góð mæting. Þó voru um 10 hlauparar sl. mánudag og var ýmist hlaupinn Hlíðarfótur  eða Suðurhlíð, og notaði skrifari tækifærið og skellti sér í sjóinn í Nauthólsvík. Í gær, miðvikudag, sást til hlaupara á Nesi og munu allmargir hafa skolað af sér í svalri Atlanzhafsöldunni.

Svo er bara að halda áfram á föstudag, ekki veitir af eftir niðurstöður þyngdarmælingar morgunsins. 


Hvað hélt stúlkan að hún væri að horfa á?

Mættir í hefðbundið hlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á mánudegi: Jörundur, Flosi, Helmut, Einar blómasali, skrifari, dr. Jóhanna, Ingi og Ragnar. Ákveðið að fara gamla Neshringinn, upp á Víðirmel, út á Suðurgötu og þá leið út að Skítastöð. Farið afar rólega yfir, enda nokkrir félagar að rifja upp gamla hlaupatakta. Flosi, Jóhanna og Ragnar komin vel framúr okkur á Suðurgötunni. Einar sagði okkur af ævintýrum helgarinnar.

Hann ók brúðhjónum á gömlu VW bjöllunni sinni á laugardaginn. Eftir hjónavígsluna var ekið um bæinn. Leiðin lá framhjá Bæjarins beztu. Þá sagði brúðurin: "Ég er svöng." Einari var hleypt inn í röðina og útskýrði fyrir afgreiðslustúlkum að hann væri með brúðhjón í bílnum hjá sér sem vildu ekkert heitara en fá SS-pylsu. "Þetta verðum við að bjóða upp á," sagði afgreiðslustúlkan og snaraði fram tveimur pylsum og kóki með það sama. "En þú sjálfur, vilt þú ekkert?" spurði stúlkan. "Jú, skelltu á mig tveimur með öllu og kókglasi," svaraði Einar, og hefur ekki í annan tíma sært jafnmiklar veitingar út úr ferðaþjónustubransanum til handa sér og sínum. En á móti kemur rótarfylling sem hann lenti í og kostaði hann skyrtukaup mánaðarins, fyrir utan sársaukann og allar verkjatöflurnar sem neyta varð. 

Jæja, við vorum þarna á ferðinni, blómasali, skrifari, Helmut og Jörundur. Fórum í Skerjafjörðinn og út hjá Skítastöð, og svo var lagt í hann tilbaka. Skrifari rólegur þar sem hann er að koma tilbaka eftir tveggja og hálfs mánaðar hlé frá hlaupum. Gekk þess vegna inn á milli. Það myndaðist góður sviti á svo stuttu hlaupi eftir svo langt hlé. Við Einar lukum hlaupi við Hossvallagötu, en þeir Helmut og Jörundur héldu áfram á Nes og afrekuðu óskilgreinda hluti þar.

Nú var Pottur eftir og hann var líflegur. Setið í drjúga klukkustund og ræddar mataruppskriftir, hlaup, göngur, m.a. næsta framhald Reykjavegar. Um það mál berast fljótlega upplýsingar frá Helmut. 


Fyrsti Föstudagur að skrifara

Föstudaginn 5. júlí sl. var Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar haldinn hátíðlegur að skrifara. Hann hafði staðið í ströngu allan daginn við þrif og matargerð. Klukkan 19:30 mætti fyrsti gestur, Þorvaldur Gunnlaugsson, og þétt á eftir kom þingmaður Samtaka Vorra, Vilhjálmur Bjarnason. Þeir voru báðir háttvísin uppmáluð og boðaði það gott fyrir kvöldið. Síðan komu aðrir gestir. Þessir voru: Kári, Maggie, Þorbjörg, Unnur og Biggi, Helmut og Jóhanna, Einar og Vilborg, Frikki og Rúna, Jörundur, Bjarni Benz og Bjössi kokkur, Denni og Hrönn. Margir komu færandi hendi í tilefni af afmæli skrifara nýverið. 

Skrifari stóð í eldahúsi og bar fram veitingar af miklum móð, flatbökur komu á færibandi og runnu jafnharðan ofan í gestina. Einar kvartaði yfir að hafa ekki fengið neitt. Benzinn lagaði Irish Coffee ofan í flesta viðstadda og mæltist sá drykkur vel fyrir.

Ljúf kvöldstund í góðra vina hópi.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband