Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Hausthlaup

Eftir tvo velheppnaða hlaupadaga, fyrst með Denna af Nesi sl. föstudag, og svo með frænda mínum og vini, Ó. Þorsteinssyni, sl. sunnudag, var tímabært að fara að spreyta sig með alvörufólki. Það var kominn mánudagur og engar smákanónur mættar til hlaupa í Brottfararsal. Fyrsta skal nefna dr. Jóhönnu sem er á leið í haustmaraþon á laugardag, Heiðar sömuleiðis maraþonefni, Ósk, Baldur, og þar á eftir síðri hlauparar, Þorvaldur, Jörundur, Tobba, Kári og skrifari. Eftir hlaup kom í ljós draugasaga um tannlækninn, meira um það síðar. 

Það var svalt í veðri, enda vetur í aðsigi og hlauparar farnir að klæða sig betur en áður. Nú er það ekki lengur svo að einhver "leiðtogi" standi á Plani og gargi fyrirmæli, hersingin silast einfaldlega af stað og e-r forystukind, oftar enn ekki Jóhanna, leiðir okkur áfram skynsamlegustu leiðina miðað við veðurfar og nennu hlaupara. Þannig var það í dag, enginn áhugi á Nesi, en stefnan sett beinustu leið niður á Ægisíðu og svo austur úr.

Sem fyrr segir eru tilteknir hlauparar á leið í maraþon á laugardag og því ekki langt í boði í dag, mesta lagi 12 km á rólegu tempói. Hópurinn skiptist fljótlega í tvennt, ef ekki þrennt og þarf ekki að fara nánar út í þá sálma. Aftari hópurinn var gróflega skipaður Þorvaldi, Tobbu, skrifara, Kára og Jörundi. Við fórum þetta af skynseminni, en Jörundur er enn að glíma við afleiðingarnar af byltunni með lambhrútinn í Norðurárdal.

Sumir fullyrða að hlaupin seinki innlögn og slái Allanum á frest. Skrifari er farinn að fyllast efasemdum um þetta resept fyrir heilbrigði og nefndi fjölmörg dæmi þess á hlaupum að minni félaga væri ekki eins óbrigðult og þeir héldu sjálfir. En þó verður því ekki móti mælt að endurtekin hlaup efla þrek og auka úthald og kom það í ljós í hlaupi dagsins, þar sem skrifari sýndi tilþrif eins og fjögurra vetra foli. Sama verður því miður ekki sagt um ónefnd athafnaskáld í hópi vorum, skáld sem yrkja um blóm og blessun kapítalismans og selja ónýtt skran. Menn sem dvelja langdvölum í útlöndum og graðka í sig erlendar steikur og svolgra í sig útþynntan mjöð á uppsprengdu verði. Þeirra dómur bíður nk. fimmtudags.

Jæja, hlaupið gengur bara vel fyrir sig, gott tempó í gangi og hlauparar sprækir. Spurt var hvert skyldi haldið. Skrifari gaf einföld fyrirmæli: "Suðurhlíð." Þeim var hlýtt, þ.e. af Tobbu og Þorvaldi, þau fylgdu skrifara áfram í stað þess að beygja af við Hlíðarfót, af Jörundi og Kára var allt tíðindalaust. Þetta var einstaklega áreynslulítið hjá okkur, fyrst upp Flanir, og svo niður hjá Kirkjugarði og út að Kringlumýrarbraut. Hér hefði einhver búist við stoppi, en það var ekki í boði, við héldum áfram upp Suðurhlíðina án þess að stoppa. Að vísu skal viðurkennt að hér þurfti skrifari að  beita hörðu til þess að píska þau hin áfram, en þeim til hróss má segja að þau gáfust ekki upp, heldur héldu áfram alla leið upp að Perlu, blásandi eins og fýsibelgir. 

Þá versnaði í því vegna þess að þau stoppuðu ekki þar, heldur steyptu sér niður Stokk á fullri ferð, bæði létt á sér, en skrifari hikaði við að láta vaða niðureftir, enda var ekki víst hvaða afleiðingar það gæti haft ef þessi þungi massi lenti á fyrirstöðu meðan áhættan var minni með létta líkami eins og þeirra hinna. Hér skildi með okkur og varð ég nokkru á eftir þeim á bakaleiðinni. En það dró ekki úr kraftinum í hlaupinu og var leggurinn til Laugar tekinn með áhlaupi. Komið tilbaka í rökkri og farið inn til að teygja. Um sama leyti komu þau hin tilbaka úr sínu 12 km hlaupi og heyrðist tölunni "4:50" fleygt um tempó dagsins.

Jæja, sem skrifari er að koma tilbaka rekst hann í fangið á Magnúsi Júlíusi flóttalegum. Taldi hann sig hafa gripið strákinn Tuma við að skjóta sér undan skyldum sínum. Magnús brást hins vegar vel við og kvaðst hafa hlaupið einn og sjálfur og farið af stað 10 mín. á undan okkur hinum. Hann hefði verið slæmur í mjöðm (og benti á lærið á sér) og búist við að við myndum ná honum. Hins vegar hefði mjöðmin (benti aftur á lærið á sér) bara virkað vel og hann hefði hlaupið Hlíðarfót með miklum ágætum.

Nú eru Hlaupasamtökin farin að líkjast einhverju. Hlauparar safnast aftur saman í Móttökusal að loknu hlaupi og bera saman bækur sínar meðan þeir teygja. Svo er setið í Potti og sagðar sögur, en blátt bann er lagt við pólutískum þrætum, en þó er heimilt að ræða mataruppskriftir. Menn ræddu af innsæi um aðgerðir lögreglu í Gálgahrauni í dag og hvort þeir hefðu flutt Ómar burtu í handjárnum. Jörundur rifjaði upp samskipti sín við réttvísina í verkalýðs- og þjóðfrelsisbaráttu sjöunda áratugarins og endaði ekki alltaf vel.

Næsta hlaup: miðvikudag, Þriggjabrúa, ekki styttra.  


Hrokkelsin flatmaga í heita pottinum

Vesturbærinn er menningarstaður. Þar iðka menn ljóðlist. Þekktast ljóða í Vesturbænum er hetjukvæði þjóðskáldsins Þ. Eldjárns um félaga Hlaupasamtakanna, sem er glúnti og er súnginn reglulega á samkomum Samtaka Vorra við gítarundirleik gamla barnakennarans. Nú hefur ný vonarstjarna bæst í hóp ungskálda Vesturbæjarins og heitir Gunnar Harðarson. Ljóð eftir hann helgað Hlaupasamtökunum getur að líta í Örlygshöfn og er hlaupurum þar líkt við hrokkelsin í Skerjafirðinum - og væri vart hægt að finna heppilegri samlíkingu, en nú verður vikið að hlaupi dagsins. 

Sem skrifari mætir í Brottfararsal er Benzinn mættur alvitlaus og þegar búinn að ná Steinunni upp á háaséið og boðaði ekki gott um framhaldið. Það var haldið í Útiklefa, en þar voru óvenju fáir snagar lausir, bera mátti kennsl á reyfið af Óðagotsættinni, en að öðru leyti virtust aðallega skillitlir aðkomumenn hanga á snögum. Skrifari varð að fara á snaga Helmuts, og uppskar lítið þakklæti, Benzinn fór á sinn snaga, barnakennarinn mætti litlu síðar og fann sér smugu.

Í Brottfararsal voru fyrir Magnús Júlíus, dr. Jóhanna, Kári, Tobba, Rúna, og svo kom Heiðar skömmu áður en haldið var af stað. Unga og spræka fólkið getur jafnan stært sig af löngum hlaupum um helgar, en við hóglífismenn getum einungis rifjað upp veislur helgarinnar, hvað var borðað, hvað var drukkið. Blómasalinn kom síðastur hlaupara með símann límdan við kinnina og virtist vera að ljúka viðskiptum dagsins á ensku. Dreif sig í skiptaklefa og náði að koma sér í gírið á undraverðum tíma. Ekki staldrað lengi við á Plani en drifið sig af stað. Gomez mætti okkur og uppskar fagnaðarlæti og aðdáun. Upp á Víðirmel og út á Suðurgötu, skrifari bara sprækur.

Grunnur að Húsi íslenskra fræða stendur opinn og verður hugsanlega nýttur undir skautasvell í vetur og ekki seinna vænna því  að menn eru nostalgískir eftir skautasvellinu á Melavellinum þar sem rómantíkin þreifst í merlandi tungsljósi hér forðum daga. Ekki meira um það! Það var eðlilega talað um mat á leiðinni út Suðurgötuna, skrifari í fylgd Tobbu og Rúnu og svo dúkkaði blómasali upp, fyrir aftan okkur voru Maggi og Kári - en þau hin fyrir framan okkur. Blómasalinn færði í tal Cadbury´s súkkulaðið sem hann fékk að gjöf frá skrifara og var enn ekki að fullu uppétið. Hann lýsti áhyggjum af stöðu kakómála í heiminum, en skortur ku vera framundan á kakó. Rúna fullyrti að kakóskorturinn væri að miklu leyti blómasalanum að kenna og mætti líkja súkkulaðineyslu hans við benzíneyðslu mannkyns, það yrði að hemja hana ef takast ætti að skapa kakóræktun sjálfbær skilyrði. 

Jæja, þarna líðum við áfram í algleymi suður í Skerjafjörð og þau hin taka ekki eftir því að skrifari er farinn fram úr þeim, sprækur og hress á mánudegi. Um leið hefst að baki honum baktalið og illmælgin. "Hann er að þessu til að léttast, hann óttast niðurstöður fimmtudagsins," heyrir skrifari að baki sér. Hann slóst í för með Þorvaldi og saman þreyttu þeir ágætt hlaup tilbaka frá Skítastöð og út að Hofsvallagötu og svo áfram á Nes. Mættum gömlum félögum af Nesi, TKS, á kunnuglegum slóðum, þ.m.t. gömlum skólasystrum skrifara, Jóhönnu og Ingibjörgu. Ekki var farið að öllu leyti á Nes, heldur látið nægja að fara út að Kaplaskjólsvegi og þá leið tilbaka. Blómasalinn og Tobba héldu áfram, en við hin skynsamari héldum til Laugar.

Pottur var aldeilis hreint magnaður, enda rjóminn af Hlaupasamtökunum eins og við þekkjum þau nú viðstaddur. Sem fyrr sagði var helsta skemmtun Pottverja að lesa ljóð Gunnars Harðarsonar um Hlaupasamtökin þar sem sagði að þeir liðu eftir Ægisíðunni og enduðu í Potti Vesturbæjarlaugar og flatmöguðu þar eins og dösuð hrokkelsi. Falleg samlíking það og við hæfi að fyrstu lesendur væru skrifari, Kári og blómasalinn. Í gvuðs friði. 


Benzinn fundinn

Það var föngulegur hópur sem mætti til hlaups á sunnudagsmorgni í sumarhita. Þessir voru: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Þorvaldur, Tobba, Rúna, skrifari og Benz. Benzinn mætti að vísu seint svo að við héldum af stað án hans og varð hann að gjöra svo vel að girða sig í brók og reyna að ná okkur. Við vorum afar hæg og hægastur allra var skrifari, mjög þungur á sér eftir veisluhöld undanfarinna daga. Magnús sagði nokkra Kirkjuráðsbrandara við upphaf hlaups og gekk fram af Formanni til Lífstíðar fyrir vikið, þeir eru víst ekki húsum hæfir á betri heimilum í Vestbyen þessir brandarar hans Magga. 

Við bjuggumst við að mæta Vilhjálmi við Lambhól, en sú von brást. Og raunar fór það svo að hann varð yfirleitt ekki á vegi okkar í hlaupi dagsins, ekki einu sinni í Grænuhlíð þar sem hann mundi ekki nafn frægasta Íslendingsins hér um daginn.

Það var verið að dóla þetta í rólegheitum og töluverð þyngsli í mannskapnum. Við ræddum um fyrirhugaða för dr. Baldurs til Bandaríkjanna, en Ólafur Þ. hefur tekið að sér að vera húsvörður á meðan, og er þar með orðinn kollegi Benzins sem gætir húss í Arnarnesi.

Gengið í Nauthólsvík eins og hefðin býður. Sagt er að blómasalinn ætli í októbermaraþon, en ekki er víst að það verði frægðarför miðað við fjarveru hans frá hlaupum. Benzinn upplýsti að hann hefði lést um 5 kg af því að taka eitthvert töfraduft og væri nú sprækur eins og lækur. Við félagar hans vorum á því að duftið hefði hreinsað eitt og annað gagnlegt innan úr honum um leið og raskað ákveðnu jafnvægi sem nauðsynlegt er mannlegum metabólisma.

Farið um Kirkjugarð, Veðurstofuhálendið, Hlíðar, þar urðum við fyrir aðkasti ónefnds ríkisstarfsmanns. Svo farið um Klambratún og Hlemm og sagðar fallegar sögur. Við Ólafur og Magnús fórum niður á Sæbraut og létum vaða vestur úr. Gengið upp Túngötuna þar sem við mættum Bjarna Benz. Hann heimtaði að við tækjum ofan pottlok við Kristskirkju, bugtuðum okkur og beygðum og gerðum krossmark. Ólafur taldi þetta óþarfa þar eð maðurinn á loftinu væri hvort eð er í Víkingstreyju.

Í Pott mættu auk valinna hlaupara dr. Baldur, Helga Jónsdóttir og Stefán - og svo kom Jörundur, sem er meiddur eftir að hafa orðið undir í átökum við lambhrút, en Jörundur er smalastrákur að aukastarfi á haustin. Spurt var um dr. Einar Gunnar en hann hefur ekki sést í Potti í nokkrar vikur.  


Barátta við aukakílóin - auglýst eftir Benz

Skrifari sá reyfið af blómasala í Útiklefa er komið var til Laugar í dag, á hlaupadegi. Skrifari hafði misst af heimilisbílnum og treysti sér því ekki til að mæta til hlaups, en mætti þegar hlauparar voru lagðir af stað. Hann hugsaði með sér að blómasali hefði náð hlaupi í dag og bölvaði honum í huganum. Það var þvegið sér og haldið í Pott. Þar blasir við hárugur og gildur skrokkur sem var kunnuglegur. Hver er ekki staddur í Potti nema blómasalinn að reyna að ljúga e-u í próf. dr. Svan Kristjánsson. Skrifari var fljótur að draga hann niður á jörðina og inna hann skýringa á fjarveru frá hlaupum. Hann bar því við að hann þyrfti að elda ofan í ómegðina og gæti því ekki fórnað tímanum í fánýta hluti eins og hlaup. 

Jæja, þar sem þeir fóstbræður hittast í Potti og upp hefjast kveðjur með kurteisi og elskulegheitum hefur dr. Svanur á orði að hlauparar hafi einkennilegan hátt á að tjá hverir öðrum umhyggju sína, þeir leggi lykkju á leið sína til þess að vera andstyggilegir og leitist við að brjóta niður alla góða viðleitni einstaklingsins til þess að bæta ráð sitt og verða léttari. Þetta gat skrifari aðeins staðfest, í þessari starfsemi væru félagar Hlaupasamtakanna sérfræðingar og merki um karlmennsku að vera ekki að sóa tíma sínum í uppbyggilegar umsagnir um félagana. Að vísu lét hann þess getið að hann væri sérstakur stuðningsmaður blómasala í vonlausri og fyrirfram tapaðri baráttu hans við kílóin, en glataði aldrei fyllilega voninni um að sigur ynnist. Einar hafði á orði Cadbury´s stykkið sem hann fékk að gjöf frá skrifara um daginn og kvaðst hafa eytt töluverðum tíma upp á síðkastið í að lesa milli línanna um þá gjöf. 

Svo birtist Helmut og það var skipt um Pott. Blómasali hvarf af vettvangi, en við tók langt spjall um erlend samskipti, fjallgöngur, maraþonhlaup, matreiðslu og fleira. Er komið var upp úr kom í ljós að hlauparar dagsins voru dr. Jóhanna, Frikki, Þorvaldur og Flosi. Þau hafa líklega hlaupið um 10 km.

Hérumdaginn spurði sundlaugarvörður um Benzinn, sagði vera langt um liðið frá því hann hefði látið sjá sig í Laug. Af því tilefni er spurt: hvar er Benz? Hvar er Villi? 


Forgangsröðun

Menn forgangsraða ýmislega. Forgangsröðun þykir bera vott um siðferðislegt mat manna og ekki síður verðmætamat. Þegar skrifari vaknaði á þessum fagra haustmorgni, sunnudaginn 5. október, hugsaði hann með sér: "Nei, nú kemur ekkert annað til greina en hlaupa í vaskra sveina hópi þar sem menn ræða persónufræði og bílnúmer, setja af ríkisstjórnir og mynda nýjar." Hann tíndi saman reyfi sitt og hélt til Laugar. Þar voru fyrir á fleti Ó. Þorsteinsson, Formaður Vor til Lífstíðar, og Þorvaldur Gunnlaugsson. Ólafur frændi minn var í djúpum samræðum við Jón Bjarnason, fv. ráðherra, um lífsgátuna. Seinna birtist svo Bjarni Fel. og þá var beint að honum spurningum um Tuliniusar-mótið, sem var undanfari Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu. 

Jæja, við biðum til kl. 10:10 - en héldum þá af stað út í blíðviðrið. Heiðskírt, stillt, en þó kalt. Tölt rólega af stað. Rætt um nýlegan fjárhagsskandal í jarðvísindastofnun og prestkosningar í Dölum vestur. Ólafur hafði allar persónufræðilegar upplýsingar á takteinum, stúdentspróf í Tjörn, slitrótt nám í gvuðfræði, störf í akademíunni, feilspor í fjármálunum. Mannlegur harmleikur. Rætt um skólafélaga þeirra Ólafs og Þorvaldar í Reykjavíkur Lærða Skóla sem gerðu Þorvaldi grikk og hann hefur ekki enn jafnað sig á.

Þar sem við líðum áfram í blíðunni rennir upp að hlið okkar hjólreiðamaður þakinn hlífðarfatnaði svo vart sá í skinn. Þó fékk hann ekki klætt af sér líkamsfitu sína og sást gjörla að hér var þekktur blómasali í Vesturbæ Lýðveldisins á ferð. Hann var spurður hvers vegna hann hlypi ekki með félögum sínum á svo ágætum degi. Hann svaraði því til að nú væri þreytt Nauthólshlaup og væri þátttaka endurgjaldslaus og lyki hlaupi á miklum málsverði í boði Jóhannesar í Múlakaffi. Kom hér í ljós munurinn á forgangsröðun tækifærissinnans og prinsippmannsins, við prinsippmenn, hlauparar sem alltaf gerum allt eins og líður best illa, veljum sunnudag í föruneyti Formanns í stað þess að hlaupa eftir súpugutli úr Múlakampi.

Það var komið í Nauthólsvík og þar var Þorvaldur, bróðir skrifara, að hita upp. Menn tóku tal saman og blómasali slóst í hópinn. Er bróðirinn vék burtu spurði blómasali: "Af hverju getur þú ekki verið grannur eins og bróðir þinn?" Hér upplýsti skrifari blómasala um fyrirbærið holdarfar og holningu, þá sem er ásköpuð mönnum og þeir hafa enga stjórn á. Menn geta hlaupið ævilangt en þeir losna samt aldrei undan áskapaðri ásýnd.

Haldið áfram í Garð og upp úr honum, um Veðurstofu og Grænuhlíð, þar sem Villi Bjarna beið eftir okkur hér um daginn. Áfram um Klambra og Hlemm niður á Sæbraut og hún tekin með trompi. Við veltum vissulega fyrir okkur þar sem hlupum framhjá Alþingishúsinu hvar hann félagi okkar væri með skrifstofu og leist einna helst á að það væri í gömlu húsunum við hlið Alþingishússins. Þar ku vera skrifstofur.

Ekki varð tíðinda er við fórum upp Túngötu og tilbaka til Laugar. Mímir var á förum er við komum til Laugar, en dr. Baldur var á leið í Pott. Ekki sást til dr. Einars Gunnars. Í Pott komu Helmut og Jóhanna búin að þreyta Nauthólshlaup, frú Helga Jónsdóttir og Stefán verkfræðingur, Unnur Birgisdóttir, Haraldur Jónsson myndlistarmaður, svo komu Flosi og Einar blómasali. Einar fékk með naumindum slitið sig frá tarínunni hafandi sett þrisvar sinnum á diskinn. Umræður voru sem fyrr í endurvinnslufasanum og rætt um fyrrnefnt meint fjármálamisferli á jarðvísindastofnun, með tilheyrandi persónufræðum, og kyrrlátan prestskap í sveit.

Næst hlaupið á morgun, mánudag. Í gvuðs friði.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband