Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

Yndislegur dagur

Dagurinn var yndislegur. Meira um það seinna. En hann byrjaði engu að síður með brunahringingu úr Garðabænum kl. 7:50 (á sunnudegi HALLÓ!!!). Húsráðendur töldu öruggt að einhver væri dauður. Hinum megin hljómaði rödd þingmannsins: "Hver er hinn maðurinn?" Frést hafði að V. Bjarnason hefði verið endurkjörinn skoðunarmaður reikninga hjá Hinu íslenska biblíufélagi og honum til fulltingis kosinn Pétur Þorsteinsson sóknarprestur Óháðra, sem er ekki allra. Vilhjálm setti hljóðan um stund er hann frétti hver hinn maðurinn væri, en sagði svo: "Pétur er ekki vondur maður. Mér er illa við vonda menn." 

Mættir til hlaups á sunnudagsmorgni Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Ólafur skrifari og svo Rúna og Frikki. Aðrir hafa greinilega talið sig undanþegna hlaupum. Íslenskt samfélag er undanþágusamfélag, um leið og sett hafa verið ný lög eða reglugerðir byrjar kórinn: "Get ég fengið undanþágu?" Ef Íslendingar fara í viðræður við aðrar þjóðir um samninga sem eru skuldbindandi fyrir Íslendinga er óskað eftir undanþágum frá skuldbindingunum.

Þessi hópur tók vakurt skeið um Ægisíðu á fögrum sunnudagsmorgni sem ég held við getum kallað vormorgun. Það var hlaupið rólega til að hlífa Frikka sem er enn að jafna sig eftir Tókýó maraþonið. Farnar þekktar leiðir, spurt um bílnúmer og Persónufræði, og í kirkjugarði laust Frikki upp miklu ópi:"Þetta er yndislegt!" Orð hans fönguðu vel stemmninguna í dag sem náði hápunkti í kirkjugarðinum. Lukum góðum 12 km hring (já, líka skrifari) og komum þreyttir en ánægðir á Plan. 

Pottur góður mannaður þekktum persónum, próf. dr. Einari Gunnari, Mími og Stefáni verkfræðingi. Baldur er í fríi frá Pottskyldum vegna búferlaflutninga og verður það næstu vikur. Sagðar krassandi sögur úr samkvæmislífi Reykvíkinga. 

Nú hefst kvíðinn. Skrifari mun mæta til hlaupa næstu daga. Verður einelti? Verður niðurlæging? Verður maður hrakyrtur og kallaður "Þessi"? Að öllum líkindum, já. Þá er að standa það af sér og þreyta eineltismánuðinn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband