Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

ÞETTA var erfitt!!!

Erfiðasta hlaup ársins er að baki! Um þetta voru allir hlauparar sammála að hlaupi loknu. Um allt þetta mál verður nánar fjallað í pistli kvöldsins, og ýmislegar afleiðingar sem af því urðu.

Varla þarf að fara mörgum orðum um veður í dag, heiðskírt, sterkt sólskin, hægviðri, hiti hátt í 30 stig, þótt opinberar ríkismælingarstöðvar hafi verið hógværari í mati sínu. Það hvarflaði að ritara hvort skynsamlegt væri að hlaupa við svona aðstæður og bjóst jafnvel við að þjálfarar myndu fresta hlaupi eða seinka því þannig að hlaupið yrði við viðunandi skilyrði. En þegar ekkert heyrðist pakkaði ritari saman mal sínum og hélt til Laugar. Þangað kominn og hafandi skipt í hlaupagírið stóð hann bullsveittur á gólfi Útiklefa - og hugsaði sinn gang: hvernig mun þetta ganga?

Stórmenni mætt í Brottfararsal: Gísli Ragnarsson, einhver fræknasti hlaupari Samtakanna, Jörundur Stórhlaupari Guðmundsson, Vilhjálmur, Þorvaldur, dr. Friðrik, Ágúst, Björn, báðir þjálfarar, Una, ritari, Birgir jógi, Einar blómasali, og Rúna - sem er nánast komin yfir til okkar frá TKS, enda fær hún markvissan undirbúning fyrir mikilvægt hlaup hjá afar hæfum og skipulögðum þjálfurum.

Ekki voru nú tök þjálfara á mannskapnum betri en svo að liðið rásaði af stað eins og rollur án nokkurrar stjórnar. Ég bar þetta undir Rúnar á leiðinni austurúr og hann hafði biflíulega útskýringu á þessu: á söndunum fyrir austan fer hirðirinn fyrir safninu, hann gengur með stafinn og ver safnið. Á Íslandi er þessu öfugt farið: þar fer hirðirinn aftast, en sigar skozkum fjárhundi framan á safnið til að halda því saman. Ritari benti honum á að upplag Íslendinga væri að mörgu leyti svipað og sauðkindarinnar: það væri ekki nokkur leið að fá fólk til að fara eftir fyrirmælum. Oft hefði hann lent í þessu í starfi sínu. Þegar settar væru opinberar reglur um hvernig fólk ætti að hegða sér væru það fyrstu viðbrögð þegnanna að spyrja: hvernig kemst ég hjá því að fara eftir þessum reglum? Og hann mundi að lýsa svipnum á rollunum sem hann rak úr túninu á sokkabandsárum sínum, þrjózkan skein úr augum rollnanna, þær stöppuðu niður fæti og voru aldeilis ekki á því að fara út um gatið í girðingunni sem þær höfðu komið inn um. Þennan svip hefur ritari oft séð á borgurum sem mætt hafa á fund hans í þeim tilgangi að fara ekki að þeim leiðbeiningum sem Stjórnarráðið hefur af náð sinni útmælt þeim að fara eftir. Hér voru rifjuð upp ummæli Kára, þegar hann sagði: Ég vildi frekar reyna að reka ketti á fjall en fá meðlimi Hlaupasamtakanna til þess að fara að fyrirmælum.

Það var afar óljóst hvað ætti að gera í dag. En við hinir sjálfstæðu og frumkvæðisríku hlauparar og forystusauðir vissum sem var að það yrði langt. "Langt" merkir hins vegar mismunandi vegalengdir eftir því hver á í hlut. Ágúst ætlaði 35 km - ritari kvaðst ekki mundu fara feti lengra en 35 km (Rúnar mælti með 28 km) - aðrir ætluðu styttra. Margrét þjálfari ætlaði langt á tempói og vildi draga Bjössa með sér. Ég hvatti hana til þess að gera það og helst að sprengja hann. Téðir aðilar voru fremstir og fóru hratt yfir, Rúnar ætlaði að vísu bara stutt, 10 km. Sól skein sterkt í heiði og fundu hlauparar vel fyrir hitanum. Lýsið rann. Mælst hafði verið til þess að stanz yrði gerður í Nauthólsvík til þess að leyfa hlaupurum að kæla sig - vorum Gísli og Friðrik helztir flutningsmenn þeirrar tillögu, en þegar til átti að taka lá Ágústi og Rúnari svo mikið á að ekkert varð af sjóbaði - enda var svo margt fólk þarna að það hefði ekki verið gaman.

Gísli stefnir á Berlín, en vill byrja á Reykjavíkurmaraþoni og sjá hvernig sér gengur þar, ef hann vinnur mun hann íhuga að taka þátt í Berlínarmaraþoni. Að öðru leyti er hann mjög hæverskur í markmiðssetningu sinni. Jörundur búinn að vera meiddur að undanförnu, en fékk meðferð í Laugarási í Byzkupstungum og gékk svo á fjöll, m.a. Kerlingu, hafandi farið framhjá Jómfrú og Bónda.

Ekki var stöðvað í Nauthólsvík, haldið áfram á Kársnes. Þar var svalandi að hlaupa inn í hafgoluna á Kársnesi og freistandi var að skella sér í sjóinn, en athyglisvert var að hvar sem farið var þennan dag leituðu þegnar landsins uppi öll möguleg vötn og polla til þess að kæla sig í hitasvækjunni. Ágúst var á undan mér, en á eftir komu blómasalinn og Rúna, Eiríkur og Birgir jógi. Ástand á þessum punkti var gott og ekki ástæða til að halda annað en að vel gengi, þó fann maður að hitinn hafði tekið sinn toll. Vandræðin hófust hins vegar þegar komið var sunnanmegin á Kársnesi og stefnan tekin á Kópavogsdal. Þá naut ekki hafgolu lengur og sumarsólin gassaði á fullu. Þegar komið var að fyrstu undirgöngum undir Reykjanesbraut var ritari nálægt meðvitundarleysi sökum álags. "Hvernig endar þetta?" varð honum hugsað. Ekki gefist upp, áfram um Dalinn, drukkið af vatnspósti við Digraneskirkju og svo áfram. Staldrað við í Lækjarhjalla - en ekkert að hafa þar, áfram upp í Breiðholtið. Stoppað við Olís í Mjódd og drukkið vatn, andlit og höfuð skolað undir vatnskrana.

Áfram niður í Elliðaárdal og upp í Fossvogsdal - ekki sagt orð af viti, enda ritari einn á ferð. Fyrir aftan hann voru fyrrnefndir hlauparar. Er kom í Fossvoginn var okkar maður algjörlega steiktur, hafði varla kraft í meira og þurfti að fara að ganga langa speli. En hljóp þess á milli. Er kom í Nauthólsvík drógu Einar blómasali og Rúna ritara uppi, hér neitaði blómasalinn að taka þátt í sjóbaði og kvaðst eiga mikilvægt erindi framundan. Þau tvö héldu áfram, en ritari lá í svalandi Atlanzhafsöldunni og hugsaði sem svo að hlaup væru mikil nautn ef þau buðu upp á sjó.

Ég ætla ekki að lýsa ástandi fólks þegar ég kom á Móttökuplan, fólk lá um reitinn gjörsamlega úrvinda og kvaðst ekki hafa hlaupið erfiðara hlaup þetta árið, þótt 32 km hlaupið sællar minningar sem Ágúst dró okkur í óumbeðið væri talið með. Allir sem ritari talaði við voru sammála um að steikingarmörkum hefði verið náð við 14-16 km mörkin - eftir það hefði fólk átt að hætta. Hér varð ritara hugsað til Ágústs sem lagði vonglaður upp í 35 km hlaup - og var ekki búinn að skila sér þegar hlauparar hurfu úr potti - hvað varð um þennan mikla hlaupara þetta kvöld? Þessi spurning var ritara efst í huga er hann hvarf til kveldverka að hlaupi loknu. Hann hugsaði sem svo: það hefði líklega verið nóg að fara 15 km við þessi skilyrði - eða seinka hlaupi um 2 klst. Þetta var hins vegar mikilvægur lærdómur og ætti að segja okkur að ef hiti verður mjög mikill í Berlín þá er hugsanlega skynsamlegra að parkera sér á einhverri útiserveríngu, panta öl og hvetja hina hlauparanan áfram. Pæling. Í gvuðs friði. Ritari.

Ný andlit

Fjöldi hlaupara var mættur í dag, mánudag, til hlaups, þar á meðal ný andlit, og nokkrar konur. Gefin var út lína um rólega viku og virtust flestir sáttir við það eftir átakahlaup í síðastliðinni viku. Þorvaldur heimtaði hlaupaleið sem eldri hlauparar könnuðust við, en ekki einhverja endalausa nýlundu og nýbreytni. Það var orðið við þessari beiðni og farinn afar hefðbundinn mánudagur: út að Skítastöð um Suðurgötu, og svo dólað í rólegheitum vesturúr. Mættum Neshópi á leiðinni og virtist hann öflugur og þéttur. Út að Bakkavör, þar var gerður stuttur stanz meðan hópurinn safnaðist saman. Svo voru teknar 6 Bakkavarir allþétt og tók það verulega á.

Það er óþolandi að sveitarfélög skuli stöðugt vera í framkvæmdum sem trufla hlaup manna - þarna voru vinnuvélar og verkamenn að störfum við gangstéttarlagningu.

 

Þarna geystist framhjá okkur handknattleiksgoðið Guðjón Valur Sigurðsson á töluverðum hraða og afþakkaði boð um að slást í för með okkur. Eftir 6 Bakkavarir héldum við hinir vanaföstu út á Lindarbraut og tilbaka um Norðurströnd, lokatölur ca. 14-15 km - aðrir fóru annað og skiluðu um 16 km. Mættir í hlaup dagsins: Ágúst, Vilhjálmur, Þorvaldur, Einar blómasali (mættur tímanlega), Kári, Eiríkur, ritari, Una, Margrét, Jóhanna, Þorbjörg, Björn kokkur og fleiri sem mig vantar nöfnin á.

Ekki varð ég var að orð af viti væri sagt - enda hljóp ég einn. En í potti lét einhver þau orð falla að ljúft yrði þegar þessu Berlínarmaraþoni væri lokið - þá gætum við farið að hlaupa eins og fólk aftur. Hér varð próf. Fróði hugsi og sagði: Já, nei, þetta er rétt að byrja hjá mér. Þessu lýkur ekki fyrr en í apríl. Rætt um kosti þess að geta eimað hland og borðað leðurblökur.

Á miðvikudag verður farið langt, 24-26 km, og er vonandi að menn haldi í skynsemina og ani ekki út í vitleysu. kv. ritari


Áætlunin fyrir 9. viku - rólegt

Æfingarnar
Þessi vika á að vera hvíldarvika með aðeins þrjár æfingar (I. – III.), fjórar fyrir þá sem ætla að vera í kringum 3.30. Eins og þið sjáið brjótum við regluna um að Langt eigi ekki að vera meira en 40% af heildar km vikunnar - en þetta er nú líka hvíldarvika!
Æfingaáætlun
I.a. Langt og rólegt, 25 - 27 km, 5:45 - 6:30. b. Langt og þétt, 26 km, 4:30 – 4:50 fyrir þá sem ætla sér að vera í kringum 3.30.
II. Brekkusprettir, 7 - 10 km, 3 km upphitun og 2 km niðurskokk, 2 - 5 km brekkusprettir, 4:15 - 4:30 - 5:15 (6 – 10 brekkusprettir)
III. Rólegt hlaup, 6 km, 4:50 - 5:30 - 6:00
IV. Interval, 10 km, 3 km upphitun og 2 km niðurskokk, 5 km Langt interval 5x1000m 3:30 – 4:00 (90s).

Manni fer bara aftur...

Ritari mættur til hlaups í dag, laugardag, kl. 11:30 og hugði á 16 km. Vel birgur af drykk. Veður virtist hið ákjósanlegasta á Plani. Reyndin varð önnur er komið var niður á Ægisíðu - þar var stífur austanstrengur alla leið austur að Kringlumýrarbraut. Ég var gjörsamlega búinn er þangað var komið og ákvað að fara upp Suðurhlíðar í stað þess að fara Fossvoginn og inn að Víkingsheimili. Ekki tók betra við þegar maður þurfti að keyra upp brekkuna alla leið upp að Perlu, en það tókst nokkurn veginn. Svo lagaðist þetta eftir Perluna, þá hallaði landslagið meira niður á við og ég hljóp í skjóli. Ég var eins og undin tuska þegar komið var til Laugar - mun hvíla á morgun, sunnudag. Það fréttist af öðrum hlaupurum kl. 10 - alla vega Rúnar og Björn, þeir fóru líka stutt, 11 km að sögn Björns. Í gvuðs friði þar til næst verður hlaupið.

 


Hitabylgja

Mönnum blöskraði þegar Bjarni heimtaði að fá að hlaupa ber að ofan vegna hitans. Ekki var minni efi í viðstöddum þegar Þorvaldur mætti í bleikum bol til hlaups. Þetta var ekki gæfulegt svona í upphafi hlaups þegar nokkrir vaskir karlar vildu hlaupa, þessir: Vilhjálmur, Þorvaldur, dr. Karl, Eiríkur, Ólafur ritari, Einar blómasali og Bjarni.

Rætt hafði verið um þétt hlaup með þéttingum á völdum stöðum. Hiti óbærilegur,  24 gráður og logn. Lagt í hann af skyldurækni einni saman og án þess að viðstaddir sættu aðkasti svo um munaði, þó urðu sviptingar í útiklefa milli manna sem hafa áhuga á efnahagsmálum.

Svo sem venja er var stefnan sett á Hefðbundið. Sumir voru framar en aðrir, Eiríkur fremstur á hröðu stími, Bjarni, blómasalinn og ritarinn þar á eftir, og aðrir þar á eftir. Þegar til átti að taka varð lítið úr þéttingum, ritari of þreyttur eftir tempóhlaup fimmtudagsins. Bjarni missti það út úr sér að Ó. Þorsteinsson væri með reisugilli í dag út af nýju háalofti. Menn urðu hálfhvumsa við og rak ekki minni til að hafa fengið boð um að mæta. Bjarni sagði að líklega hefði gengið illa að koma skilaboðum gegnum tölvurnar.

 

Sæbraut heillaði, en blómasalinn heimtaði Laugaveg þar sem hann taldi að þar yrði eftirspurn eftir myndarlegum hlaupurum. Laugavegurinn var hins vegar pakkaður og urðum við þrír að hlaupa á götunni megnið af leiðinnni. Ekki vildum við missa af reisugillinu, en vorum hissa á að vinur okkar og leiðtogi skyldi láta undir höfuð leggjast að bjóða okkur. Því voru gerð afbrigði. Farið um Austurvöll, þar sem fullt af fólki var að drekka áfengi í stað þess að hlaupa, Suðurgata, og staldrað við í kirkjugarðinum, þar fundum við vatnshana, skoluðum vel af okkur og drukkum. Áfram um Ljósvallagötu, Birkimel, Neshaga, Hjarðarhaga og á Kvisthaga. Þar var furðu hljótt og greinilegt að ef veizla var í gangi, voru veizlugestir afar hljóðlátir. Sannleikurinn var beizkur og rann upp fyrir okkur þegar Bjarni barði að dyrum og enginn svaraði. Ég var því feginn að Vilhjálmur var ekki með í för er hér var komið, hann hefði orðið æfur!

Fórum beygðir til Laugar yfir að hafa látið hafa okkur að fíflum, spurningin var bara: hver laug að hverjum. Var Bjarni að blekkja okkur eða lá eitthvað meira á bak við? Vilhjálmur var með hlutina á hreinu er komið var til Laugar: lýst hafði verið yfir reisugilli í Sunnudagshlaupi næstliðnu og því hafði Bjarni lög að mæla. Hér er skýringa þörf. 11,3 km. Takk fyrir.


Þar sem þögnin ein ræður ríkjum

Það fór þá aldrei svo að maður fyndi ekki hina fullkomnu hlaupaleið. Hún liggur frá Hótel Djúpavík, inn víkina og fram eftir, í átt til Norðurfjarðar, hvar bæði er hægt að komast í banka og kaupfélag. Reyndar er kaupfélagið lokað í hádeginu, en það breytir nú fáu, því afstæði tímans er einn af fjölmörgum kostum þessa staðar. Þá er ég hljóp frá Hótel Djúpavík á dúnmjúkum, rökum, leirbornum malarveginum, fannst mér eins og asfaltið borgarinnar væri snökktum síðra undirlag. Og þótt náttúrufegurð Vesturbæjar sé viðbrugðið, jafnast hún ekki á við Djúpuvík. Og það sem kannski var stærsta upplifunin; það var ekki kjaftur á ferðinni. Og þá meina ég það bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Ég tel til dæmis alveg víst að Big Joke þyrfti í umhverfismat ef hann ætlaði að trufla náttúruna á Ströndum í hlaupagírnum! Hlaupnir 10 kílómetrar í miklum vindi, sem jók enn á ánægjuna, og "...kætti hjartað í vöskum hal".

Var síðan haldið til Agureyris, með viðkomu í Vestur-Hún. á Gauksmýri, þar sem áð var. Einhverskonar hátíð var á Hvammstanga, miðvikudagskvöldið; gefin fiskisúpa og rabbabarapæ og hægt var að kaupa gamla, notaða hluti fyrir lítið fé. Svolítið torræð hátíð sem ég skildi ekki hvar byrjaði og hvar endaði.
Á Agureyris var farið í hlaupagírinn og haldið inn fjörð. Að sjálfsögðu mætti ég þar eina manninum sem alltaf er með "dótið" í bílnum. Svo var einnig nú. Það vantaði ekki að hann var skrafhreifinn en með öllu óhlaupinn. Til að deyfa samvizkubitið kjaftaði á honum hver tuska og komst ég hvergi í brekkusprettina mína í Kjarnaskógi, þaðan sem hann var að koma. Sjálfsagt búinn að hnoða í sig ómældu af grillkjeti. Spurður hvort hann kæmi ekki til hlaupa, sagðist hann vera á heimleið. Nema hvað; alltaf að koma eða fara; alltaf með gírinn óþveginn í aftursætinu. Saga sumra er endurtekning. Nú verður enn hlaupið nyrðra, fram í næstu viku og ég ekki væntanlegur til Laugu fyrr en á föstudaginn. Það eru góðir tímar framundan, hlaupin löng, í þögn. 
Því miður hafa engar fregnir, hvorki góðar né slæmar borist frá Lýðveldinu syðra.
Í fjarveru Aðalritara, en í hans náðuga umboði;  
Benedikt Sigurðsson  
vararitari

Tempó á fimmtudegi

Boðið er upp á hlaup á fimmtudögum á vegum Hlaupasamtaka Lýðveldisins, þótt alla jafna verði fáir til þess að þekkjast það boð, þrátt fyrir að tveir þjálfarar bjóði fram þjónustu sína í hlaupi. Svo var og í dag, mætt: Rúnar, Margrét, Björn kokkur og sjósundskappi, Ólafur ritari og Jóhanna (NB - ekki dr.). Algjört ráðleysi á Brottfararplani, engar hugmyndir eða áætlanir, annað en að fara stutt og fara rólega, enda munu einhverjir hafa farið langt í gær, Björn fór 24 km ef mig misminnir ekki. Sögur af hetjulegri framgöngu stórhlaupara í miðvikudagshlaupi, menn voru dregnir um Kársnes og Lækjarhjalla og þannig áfram. Hvað um það, við lögðum í hann og verður að segja að við höfum einfaldlega vonað það besta, þetta færi alla vega einhvern veginn.

Á tímum ráðleysis reynist ritari skárri en enginn - hann kom með tillögu um Föstudag. Þjálfarar hafa aldrei hlaupið Föstudag og því lenti forystukeflið í höndum ritara, hann varð að leiða hópinn áfram og fórst það vel úr... fæti? Án þess að fyrir lægju áætlanir þar um var tekið upp tempóhlaup þegar á Ægisíðu og tempói haldið allt til loka, enda frábærir hlauparar á ferð. Ritari uppgötvaði við flugvöll að hann var í hlutverki Benedikts, hins hljóðláta og einmana hlaupara sem leiddi hópinn og sagði ekki orð. Að baki honum gekk dælan, málæði nokkuð samfellt, en lítið sagt af viti sem ástæða er að halda til haga. Spurt var hvar ætti að fara um Öskjuhlíð. Um Hi-Lux, sagði ritari. Þau voru eitt spurningamerki. Þetta var því lærdómsríkt hlaup fyrir Þjálfara, beygt upp Hi-Lux og ekki slegið af upp brekkuna. Áfram um Kirkjugarð og Veðurstofuhálendi.

Hópurinn fór um Hlíðar og Klambratún og þaðan út á Sæbraut, Björn tók að sér Óðagotsdeildina, æddi yfir umferðarþungar götur og rétt slapp við að vera keyrður niður. Menn sáu að hann myndi spara gistingu í Berlín, honum dygði sjúkrabíll, ef ekki þaðan af verra. Hlaupi lokið á þéttu tempói. Lengd hlaups 11,3 km.

Á morgun er í boði hefðbundinn Föstudagur með þéttingum á fjórum stöðum.  Á laugardag er langt og rólegt. Í gvuðs friði, ritari.

Æfingaáætlun 10. viku - frá Þjálfara

Æfingarnar
Síðasta vikan af þremur í erfiðri lotu. Síðan kemur róleg vika. Framhaldið verður svo þannig að 8. og 7. verða erfiðar en 6. vika rólegri enda Reykjavíkurmaraþonið í þeirri viku. 5. vikan verður erfið, sú 4. með lengsta hlaupinu 30 – 35 km og síðan byrja hvíldarvikurnar.

Í þessari viku ættuð þið að taka 5 æfingar jafnvel 6 fyrir þá sem treysta sér. Í æfingaáætluninni er ekki gert ráð fyrir löngu hlaupi heldur er áherslan á hraðaæfingar. Þið sem hafið náð að hlaupa langt sl. vikur ættuð að taka ykkur frí frá löngum hlaupum í þessari viku. Sérstaklega þið sem hlupuð mjög langt í þessari viku, þið verðið að passa að slíta ykkur ekki út! Þið sem hafið ekki verið að hlaupa langt eða viljið endilega hlaupa langt getið tekið æfingu I. Sprettur út og sett langt hlaup þar í staðinn. Bætið alls ekki við vegalengdina. Hlaupið þá vegalengd sem þið hlupuð síðast, styttið helst um 2-4 km. Eins og áður hefur verið sagt takið eina létta æfingu snemma morguns (þið sem hlaupið sex sinum gjarnan tvær). Eins og áður er áætlunin sett þannig fram að æfingunum er raðað eftir mikilvægi en ekki eftir því í hvaða röð á að taka æfingarnar.

Æfingaáætlun
I. Sprettur! 11 - 16 km 3-4 km upphitun, 2 km niðurskokk 6 - 10 km sprettur 4:15 - 4:50 - 5:20 (Takið þessa æfingu út ef þið viljið frekar hlaupa langt 20 – 24 km ætti að vera hæfilegt jafnvel styttra).

II. Brekkusprettir 7 - 13 km 3 - 5 km upphitun 2 km niðurskokk 2 - 5 km brekkusprettir. 4:15 - 4:30 - 5:15 (10 – 4 brekkusprettir í Bakkavör).

III. Þétt hlaup 10 km 5:15 - 5:40. Fyrir þá hörðu Fartlek 15 km 3 km upphitun 2 km niðurskokk 10 km Fartlek 4:15 – 4:30

IV. Rólegt hlaup 8 - 10 km 4:50 - 5:30 - 6:00 (gjarnan morgunhlaup)

V. Rólegt hlaup 8 km 4:50 - 5:30 - 6:00. Fyrir þá hörðu millilangt (15-17 km).

VI. Rólegt hlaup 6 - 10 km 4:50 - 5:30 - 6:00 (gjarnan morgunhlaup)

Meiðsl
Hjá mörgum okkar er líkaminn farinn að finna eitthvað til! Það er allt í lagi svo lengi sem það eru ekki meiðsli sem hrjá okkur. Ef eitthvað er farið að gefa sig takið út hörðu æfingarnar. En reynið að halda inni löngu hlaupunum og tempó. Hlustið vel á líkamann, passið skóna, drekkið og farið ekki svöng í hlaup (nema morgunhlaupin).

Reynsluboltar
Í hlaupahópnum er fullt af fólki sem hefur mikla reynslu af maraþoni og getur gefið góð ráð, bæði um það hvað á að gera en eins um það sem á ekki að gera eða hefur ekki reynst vel. Það er óþarfi að vera sífellt að finna upp hjólið. Sendið hvort öðru póst með spurningum og ráðleggingum eða okkur þjálfurum og við komum þessu í vikupóstinn og prjónum kannski eitthvað við það! Eins ef þið viljið spyrja okkur beint um ráðleggingar endilega sendið okkur póst.

Maraþon
Fyrir venjulegt fólk er maraþon þrekraun. Að hlaupa í 3 til 6 tíma er mjög erfitt líkamlega. Gengið er mjög á líkamann og maraþonið sjálft getur seint talist líkamsrækt. Þess vegna er mjög mikilvægt að undirbúa sig eins vel og maður getur undir átökin. Líkami hlaupara sem hleypur maraþon á 5 tímum verðu næstum því fyrir helmingi meira álagi en líkami hlaupara sem hleypur marþon á 2,5 tímum. Æfingar eiga að stuðla að því að minnka álagið og gera líkamann hæfari að takast á við það álag sem hann verður fyrir. Hugsið vel um mataræðið, drekkið á hlaupunum og ekki keyra ykkur út. Ef þið verðið mjög þreytt sleppið því þá að hlaupa, hvílið ykkur frekar.


Hlaupið í úrinu...

Alla jafna er það svo að þriðjudagur er eini dagurinn í viku hverri sem félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins hlaupa ekki - en nú varð breyting þar á. Í ljósi þess að ekki var hlaupið í gær vegna óhagstæðra veðurskilyrða voru skúar reimaðir á fætur hér við Hreðavatn og tveir léttstígir (mér liggur við að segja lipurtær en sleppi því) hlauparar lögðu í hann. Þegar maður er í fríi skiptir ekki máli hvenær hlaupið er. Ég spurði Kára gær hvenær við ættum að hlaupa á morgun (í dag). Hann sagði: Í fyrramálið. Og hvað er fyrramál hjá þér, spurði ég. Það er svona klukkan eitt. Engu að síður var það svo að þegar ég kom hress í bragði til þeirra Önnu Birnu og Kára var kauði enn á náttbuxunum og að bralla eitthvað í tölvunni. Maður er svo frjáls af sér og ligeglad í sumarfríinu.

Veðurskilyrði hagstæð, rigningarúði og 14 stiga hiti, suðvestanstæður vindur að því er ég tel. Fórum sömu leið og síðast, nema hvað nú ætlaði minn að taka spretti upp brekkurnar samkvæmt boði þjálfara. Það varð einhverra hluta vegna frekar endasleppt, ég lét mér nægja að komast upp brekkurnar. Þrátt fyrir að Kári væri slæmur af mjaðmarmeiðslum eða einhverju í baki var hann bara sprækur og lét sig vaða í brekkurnar. Fórum aðeins styttra en á sunnudaginn, snerum við og tókum strikið gegnum Jafnaskarðsskóg og niður að vatni þar sem ég fékk mér örstutt bað. Grunnt vatn, mikið slý og óhreint vatn, ekki spennandi! Tekið þokkalega á því á lokasprettinum, við orðnir ágætlega heitir. Pottur á eftir. Svo er stefnan að grilla saman í kvöld.

Ritari kveður. Over and out.

Hlaupið í Jafnaskarðsskógi við Hreðavatn

Á sumarleyfistímum reima hlauparar skóna á fæturna og leggja land undir fót. Svo skemmtilega vill til að félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins eru staddir í sumarbústöðum við Hreðavatn. Hér ræðir um Kára og Önnu Birnu, annars vegar, og Ólaf ritara með fjölskyldu, hins vegar. Við höfum verið hér síðan á föstudag og notið borgfirzkrar veðurblíðu, sólar og 20 stiga hita. Í dag dró hins vegar fyrir sólu og fór að rigna, og því tímabært að fara að spretta úr spori. Kári og Ólafur fóru út að hlaupa eftir hádegið í dag, en Anna Birna gekk á Grábrók. Það var hlaupið úr Hraunvéum, þar sem Flosi ku einnig eiga sér athvarf, og farið norðan með vatni og inn í Jafnaskarðsskóg, ægifagra leið, skógi vaxna, en undirlagið var erfitt, grýtt og hætt við að menn misstígi sig. Þarna voru brattar brekkur og erfiðar - en það var bara gaman að takast á við þær og svitna svoldið. Ummerki eftir brúðkaup sem haldið hefur verið við vatnið. Fórum samtals 10,8 km - skelltum okkur í kaldan pottinn hjá Kára eftir hlaup í öllu gírinu. Ljúft! Kveðjur á malbikið úr Borgarfirði, ritari. 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband