Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Stólfóturinn

Mönnum er minnisstæð frétt í Ríkissjónvarpinu um afhendingu stólfótar á Árbæjarsafnið er notaður hafði verið sem barefli í Gúttóslagnum 9. nóvember 1932. Tildrög málsins voru þau að verkalýðurinn í Reykjavík vildi mótmæla launalækkun í atvinnubótavinnunni og burgeisarnir siguðu lögreglunni á fátæklingana. Nema hvað menn slógust fyrir utan Gúttó og notuðu hvaðeina til þess að vinna andstæðingnum mein. Þar með talið stólfætur úr sal bæjarstjórnar. 

Er liðið var á dag kom lögreglumaður inn á lækningastofu Ólafs Þorsteinssonar, háls-, nef- og eyrnalæknis í Skólabrú, með stólfót fastan við haus sér. Skrúfa eða nagli tryggði að stólfóturinn sæti fastur. Nú kom það í hlut læknisins að losa stólfótinn. Eftir það var fóturinn settur inn í skáp og var þar næstu 80 árin eða allt þar til sonarsonur læknisins og nafni,  Ó. Þorsteinsson, Formaður Vor til Lífstíðar, kom stólfætinum á Árbæjarsafn.

Við athöfnina þótti eðlilegt að bjóða fulltrúa réttvísinnar, Herði Jóhannessyni, yfirlögregluþjóni, og fulltrúa verkalýðsins, sem var sveit vaskra einstaklinga frá Eflingu stéttarfélagi, eina verkalýðsfélaginu þar sem verkafólk er enn við völd. Ætlunin var að bjóða Jörundi Guðmundssyni prentara að vera fulltrúi hinna börðu, hafandi verið barinn sjálfur af lögreglu, en það fórst fyrir. Við þetta þótti Jörundi svo við Ólaf Þorsteinsson að hann kom þeim sögukvitti á kreik að stólfóturinn væri falsaður, raunar hefði hann séð stólfót með nákvæmlega sama mynstri undir mublu á heimili Ólafs.

Jæja, þá var komið að þætti V. Bjarnasonar, en eftir því sem Ó. Þorsteinsson segir varð Vilhjálmur æfur er hann frétti að Spaugstofan hefði með það sama tekið upp Stólfótinn í þætti, en VB sjálfur hangið á húninum hjá ríkisfjölmiðlinum síðasta áratuginn án þess að úr því yrði efniviður í Spaugstofu.

Um þetta og önnur  dæmi var rætt í Potti eftir Sunnudagshlaup sem var fremur fámennt.  


Nú kannast maður við sig

Ekkert tíðinda gerðist í Útiklefa. Þó mættu þar skrifari, gamli barnakennarinn, Helmut og Benz, auk blómasala sem enn er ekki úrkula vonar um að geta pressað Benzinn niður fyrir öll siðsemismörk í gjaldtöku fyrir akstur til Flyvehavnen. Svo var gengið til Brottfararsalar. Þar bættist Denni við og var útlit fyrir hefðbundið hlaup. Svo kom Maggi hlaupandi á síðustu stundu og sagði okkur að hlaupa af stað, en við sögðum að við biðum alltaf eftir vinum okkar. Skipti sosum ekki máli því að Benzinn var hvort eð er ekki kominn úr Útiklefa. Helmut og Denni lögðu af stað, þeim lá á að komast af stað, einhverra hluta vegna. Við hinir biðum.

Svo komu þeir, Benzinn og Maggi og við gátum lagt í hann. Fljótlega kom í ljós að skrifari var hægari en þeir hinir, ekki að hann væri þreyttur eða þungur á sér, bara hægari. Dróst aftur úr, samt var þetta hefðbundið föstudagshlaup, sem er félagshlaup og enginn skilinn eftir. En ekki að örvænta, þetta færi einhvern veginn! Maður þraukaði og hugsaði til þess að eftir því sem liði á hlaupið myndi skrokkurinn hitna og verða sprækari.

Þeir hinir voru þarna einhvers staðar aðeins á undan mér, ekki langt, kannski eina mínútu. Þegar þeir hinir komu í Nauthólsvík lagði Benzinn til við blómasalann að bíða eftir skrifara. Slíkum hugmyndum var hafnað snarlega. En Benzinn er sannur vinur vina sinna og beið, blómasalinn áfram. Hér ætlaði sá gamli að stytta, fara Hlíðarfót og hitta mannskapinn á Klömbrum. Skrifari sagði að það kæmi ekki til greina: hefðbundið merkir hefðbundið. Hi-Lux, Öskjuhlíð og þannig áfram. Hér voru þeir hinir rétt á undan okkur og reyndist brekkan þeim sumum erfið. Við vorum nánast búnir að ná þeim er upp var komið brekku.

Jæja,við fórum fram úr Denna og skildum hann eftir. Veðurstofa, saung- og skák, Hlíðar, Klambrar, Hlemmur og Sæbraut. Hér náði skrifari að fara fram úr flestum hlaupurum, nema Benzi sem stytti sér leið eftir Veðurstofu. En á Sæbraut losnaði skóþvengur á skúm skrifara og þar með var þetta búið. Ég mátti horfa á eftir þeim hinum þumbast áfram og ég að hnýta skúa mína. Hlaupið hjá Hörpu, um Höfn og upp Ægisgötu. Við Kristskirkju fór fram heilög signing og svo niður Hofsvallagötu. Þar var Denni, hann hafði náttúrlega stytt um Laugaveg, nema hvað.

Að hlaupi loknu er oss efst í hug þakklæti fyrir góða heilsu, gott líkamlegt ástand, gott veður og góða félaga. Gott hlaup, þrátt fyrir að það vantaði nokkra góða félaga eins og prófessor Fróða, Þorvald, Jörund o.fl. En nú er maður farinn að kannast við sig, farinn að renna hefðbundnar leiðir Hlaupasamtakanna með viðeigandi hreinsun hins innri manns. Framundan er vorið, birta, þingkosningar, og meðal annarra orða, þetta: 

D.ritstjóri betur um bætti 
og bullaði' að Morgunblaðshætti. 
Maðurinn mæddur 
svo mikið varð hræddur 
um kvöld eitt þá Kötu hann mætti.
 

Mannval

Þegar skrifari sá Maggie í Brottfararsal, sagði hann: "Ég hef ekki séð þig lengi!" Hún svaraði: "Það er líklega vegna þess að þú hefur ekki sést lengi sjálfur. Ég hljóp t.d. í gær, sunnudag." Aðrir hlauparar tóku undir þetta hjá Maggie og gerðu ósmekklegan aðsúg að skrifara. Prófessor Fróði vildi skipuleggja hlaup í Viðey og árshátíð í framhaldinu. Skrifari spurði um það smáatriði að þrífa sig eftir hlaupið. "Hva! Er ekki vatn í Viðey? Það er vatnstankur í eynni!" Hann vissi greinilega ekki (eða mundi) að seinasta árshátíð var haldin í þessum sama vatnstanki.

En hvað sem öðru líður var gríðarlegt mannval í Brottfararsal við upphaf hlaups í dag. Þarna mátti bera kennsl á gamla hlaupara eins og Jörund, Ágúst, Flosa, Kalla, Magga, Helmut, Þorvald og Benzinn. Einnig yngri hlaupara eins og Einar blómafræðing, Ólaf skrifara og Ólaf heilbrigða. Og svo allir ofurhlaupararnir: dr. Jóhanna, Pétur Einars, Maggie, Ósk, Hjálmar - en Gummi Löve var veikur. Hann hrópaði á okkur út um glugga eftir að hópurinn var kominn á hreyfingu. 

Stemmari fyrir gömlum Neshring, upp á Víðimel, út á Suðurgötu og þannig út í Skerjafjörð. Við Einar og Maggi daprir og við siluðumst af stað með Jörundi. Maggi sagði sögu af konu sem kom í apótek og vildi kaupa arsenik. Jörundur upplýsti að Einar væri ekki blómasali heldur  blómrekstrarfræðingur. Sagt frá manni sem útskrifaðist úr viðskipta- og rekstrarfræði og hefði kallað sig viðrekstrarfræðing til styttingar. Svona ganga skeytin stundum þegar vel liggur á mönnum. Einar eitthvað slappur í dag og hætti áður en komið var í Skerjafjörð, hélt tilbaka.

Við dóluðum þetta út að Skítastöð og snerum í vestur. Sást lítið til annarra hlaupara, nema við sáum ofurhlauparana á undan okkur á leið á Nesið. Kalli kom á móti okkur og fór með Jörundi vestur úr, en við Maggi beygðum af við Hofsvallagötu. Okkur skilst þeir gömlu hafi farið út að Eiðistorgi og svo tilbaka á hröðu tempói. M.a. mun prófessor Kvaran hafa tekið fram úr fremsta fólki spyrjandi hvar fremstu hlauparar væru. Hann er allur að koma til - í ósvífninni!

Hefðbundin hátíðarstund í Potti með sögum úr hlaupum, Kvaran með ádíens.   


Allt á réttri leið

Furðu má hann heita værukær, Jörundur prentari, maður sem ætlar að standa fyrir Fyrsta Föstudegi n.k. föstudag og mætir ekki í hlaup dagsins til þess að búa sig undir verkefnið andlega. En á þessum ágæta miðvikudegi var glettilega harðsnúinn hópur mættur: próf. dr. Fróði, gamli barnakennarinn, dr. Jóhanna, Pétur Einars, Gummi Löve, Heiðar, Þorvaldur, Benzinn, Einar blómasali, Hjálmar, Ólafur skrifari, Maggi, Frikki og Rúna. Í þetta skiptið má heita að við höfum lagt upp saman með einhvern snefil af sameiginlegum ásetningi um hlaup. Veður ágætt, hiti 4 stig, einhver vindur. 

Fljótlega varð þó hefðbundin skipting, þekktir hlaupagikkir fremst, meðalhlauparar næst, skrifari þar á eftir og allra síðust Rúna og blómasalinn. Ástandið fer batnandi með hverju hlaupi, þol og þrek eykst og vellíðan í sama mæli. Hlaup lengjast og sól hækkar á lofti. Þessi hlaupari hljóp af augum og yrði kylfa að ráða kasti um hvert hlaupið yrði í dag. Áður en maður vissi af blasti Nauthólsvíkin við augum og það sást til lakari hlaupara beygja af inn Hlíðarfótinn. Skrifari tók ekki í mál að hætta og setti stefnuna á Flanir. Fyrir framan hann mátti greina Fróða og Flosa og líklega einhvern annan. Að baki beygði Blómasalinn af og hélt á Hlíðarfót, afar þungstígur og hægur.

Hlaupið út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlíð. Skrifari í þungum þönkum yfir ástandinu í Lýðveldinu og gleymdi því að verða þreyttur, en hljóp sem leið lá alla brekkuna án þess að blása úr nös, alla leið upp að Perlu. Þar er heimilt að ganga stuttan spöl, en svo er bara tekið strikið niður Stokk, hjá Gvuðsmönnum og Hringbraut tilbaka til Laugar. Furðu áreynslulítið og árangursríkt hlaup. Góð tilfinning er komið var á Plan. Innandyra var blómasalinn að teygja. Eftir hvað veit ég ekki.

Aðrir hlauparar voru svo seinir í dag að Skrifari var aleinn í Potti með hugsunum sínum. Í Útiklefa talaði Hjálmar eitthvað um Kársnes og spretti. Það mun bíða enn um sinn að Skrifari fari í slíka leiðangra. Að sama skapi mega menn fara að búa sig undir Fyrsta og að hlakka til.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband