Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Á mánudegi!!!!?

Já, mánudegi. Það var hlaupið í dag, mánudag, frá Vesturbæjarlaug. Sem endranær var það hinn knái hópur úrvalshlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem safnaðist saman í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar og skemmti þar gestum og gangandi með hnyttilegum athugasemdum og gamansömu glensi. Það hefur færst í aukana að konur hlaupi með okkur þessi missirin, og ritari getur státað af því að þar sem hann sat við borðið út við norðurgluggann var hann um tíma umvafinn kvenfólki (það get ég svarið) og hefur slíkt aldrei áður gerst í þessum hópi. Ekki kom ég tölu á konurnar, og allt í allt vorum við líklega um tuttugu talsins, þar á meðal Vilhjálmur Bjarnason í góðum gír. Engir voru þjálfararnir í þetta skiptið, og var ekki laust við að ráðleysis gætti vegna þess. Því að þótt Ágúst sé tekinn til við þjálfun á ný, þá sér hann bara um þá ofurhlaupara Benna og Eirík, og blómasalann og ritarann í hjáverkum - aðrir njóta ekki góðs af reynslu hans. Hér voru góð ráð dýr. Veður hið albesta sem hugsast getur til hlaupa, stillt, svalt og ekki mjög hált.

Einhvern veginn komst hreyfing á hópinn og smásaman silaðist fólk af stað. Rætt um hvort við hæfi væri að kalla blómasalann blómasala öllu lengur þar eð hann hefur haft endaskipti á hlutunum, orðinn sjálfstæður atvinnurekandi (auðvaldsbulla, kapítalistasvín sagði einhver) - nú hlýtur að verða að fella niður starfsheitið blómasali og taka um virðingarheitið framkvæmdastjóri. Ekki fékk þessi tillaga miklar undirtektir, menn töldu óþarft að vera að breyta ágætu nafni sem auðvelt væri að muna.

Ákveðið að fara út að Kringlumýrarbraut á tempói sem hefði líklega orðið fyrir valinu hefðum við haft þjálfara með. Ónefndir Kaupþingsmenn fóru fyrir hópnum og settu á fullt, aumingja Ágúst reyndi að ná þeim en það var náttúrlega vita vonlaust. Einhverjar konur aumkuðu sig yfir hann og leyfðu honum að fara með sér. Það voru teknir sprettir öðru hverju, en hvílt á milli. Við Suðurhlíðar myndaðist svolítill kjarni: Helmut, dr. Jóhanna, Björn, Ágúst, Þorbjörg, ritari og blómasali og saman skeiðuðum við upp að Perlu. Niður stórhættulegan stokkinn og svo vesturúr. Menn fóru þetta mishratt eins og gengur og gerist, en komu þó nokkuð jafnsnemma til Laugar.

Rætt um hlýðna eiginmenn og óhlýðna, muninn þar á og mikilvægi þess að halda þeim aðgreindum svo að hlýðni smitist ekki á milli.

Fullur pottur og mikið rætt um hlutabréf og stöðu einstakra banka. Einhver (ég man ekki hver) lét drýgindalega og ýjaði að því að hann gæti orðið heppinn í kvöld. "Á mánudegi!?" hrópaði Ágúst, en sá sig svo um hönd og horfði skömmustulega í kringum sig, það gat varla verið gjaldgengt sjónarmið í þessu samhengi hvaða dagur vikunnar varð fyrir valinu.

Nema hvað: menn eru fullir kapps og stefna á að fara langt á miðvikudaginn, 18 km hægt. Og á föstudag er Fyrsti Föstudagur. Þá er skyldumæting á Mimmanum. Í gvuðs friði, ritari.


Hvernig rekur maður ketti á fjall?

Ritari ákvað að umstabbla forgangsröðinni hjá sér þennan daginn, sleppa hlaupi en gefa fjölskyldu tímann í staðinn. Af þeirri ástæðu átti hann þess ekki kost að fara með félögum sínum í hlaupi dagsins, sem var að sögn viðstaddra bæði fagurt og gjöfult. Þeir sem fóru stytzt fóru út að Suðurhlíð og þann legg, 10,1 km - aðrir létu sér ekki duga minna en Stockel (brautarstöð í Brussel, æ mig auman, ég er kominn með fráhvarfseinkenni!), 16 km.

Sjálfur sat ég í potti og vorkenndi sjálfum mér þegar fyrstu hlauparar komu tilbaka, Gísli, Þorvaldur, Jörundur, Einar blómasali, Kári, Anna Birna og Benni. Loks Sigurður Ingvarsson stórhlaupari, fleiri munu hafa verið í för, Helmut hitti ég í útiklefa og svo voru dr. Jóhanna og sjálfur Ágúst skammt undan. Áfram haldið umfjöllun um Berlín og hvort þar yrði hótel að hafa - e.t.v. yrði að fara að finna íbúð að vera í, leita á háskólavef einhverjum að Íslendingum sem tækju okkur inn.

Rúnar og Margrét voru einnig að hlaupi. Menn dáðust að úthaldi þeirra og þrautseigju að fást við þennan óstýriláta hóp. Jörundur upplýsti að hann hefði þegar í upphafi varað Rúnar við og sagt að hann myndi aldrei áður hafa fengist við svo erfiðan hóp einstaklinga sem Hlaupasamtökin. "Já," sagði Kári, "ég myndi frekar vilja reka ketti á fjall en reyna að hafa hemil á meðlimum Hlaupasamtakanna og fá þá til þess að fylgja settum fyrirmælum."

Góður rómur ger að orðum Kára og talið líklegt að hér væri komið gullkorn kvöldsins. Í potti rætt um hinn nýja Framsóknarflokk: Alfatah (jakkar að vísu með götum eftir hnífa í bakinu).

Tilveran er falleg! Í gvuðs friði, ritari.


Niðurbrotin sál mætir til hlaupa

Ritari var mættur til hlaupa að nýju eftir nokkra fjarveru. Honum mættu strax hnýfilyrði: átt þú hnífasettið sem stendur út úr bakinu á blómasalanum? Konur, sem mættar voru til þess að hlaupa, voru varaðar við honum og sagt að halda sig fjarri ef þær vildu ekki lenda á bloggsíðum Moggans með sakleysislegar athugasemdir sínar. En þó mátti innan um heyra hlý orð, e-r gekk m.a.s. svo langt að fullyrða að ritara hefði verið saknað! Trúlegt það, eða hitt þó heldur!

Jæja, nóg af þessu. Töluverður fjöldi mættur til hlaups. Enn og aftur voru mættar konur sem enginn kannaðist við og hétu allar Helga. Margrét var mætt eftir helgi í London þar sem hún sá leik Fulham og Arsenal. Helztu hlauparar mættir: Ágúst, Magnús, Friðrik, Þorvaldur, og svo nokkrir minni spámenn. Færi slæmt, snjóslabb, hálka og austanstæður vindur, stormur í aðsigi. Leiðindaaðstæður á Ægisíðunni. Þjálfari fór með þuluna, rólega út, tempó eftir Skerjafjörð og helzt út að Kringlumýrarbraut. Ég hljóp lengst af með Helmut, en hann hélt áfram eftir Nauthólsvík, ég beitti skynseminni og fór Hlíðarfót. Lenti þar með Þorvaldi, Þorbjörgu og Margréti - en ekki lengi, þau hurfu á blússandi tempói. Rætt um bifreiðastöður í Vesturbæ og víðar, nánar tiltekið þá tilhneigingu bíleigenda að leggja bílum hvar sem þeim dettur í hug, upp á gangstéttum, og helzt inni í mjólkurkælinum í Melabúðinni sé þess nokkur kostur, þannig að gangandi og hjólandi fólk kemst ekki leiðar sinnar. Hvimleitt virðingarleysi sem er útbreitt, algengt og óþolandi. 

Ekki lagði ég á minnið hverjir fóru hvaða vegalengd, en það truflaði mig lítillega að sumir hlauparar leika þann ljóta leik að fara langt og hratt, skilja félaga sína eftir í reyk, tæta fram úr hlaupurum sem fóru styttra - og gera þetta allt "af því að ég get það", algjörlega hunzandi það hvaða áhrif þetta hefur á okkar minnstu bræður og systur. Við verðum að muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar, sumir kunna að taka það nærri sér að vera niðurlægðir á þennan hátt. Menn ættu altént ekki að gera þetta að gamni sínu. Ég las Benedikt pistilinn á tröppum Vesturbæjarlaugar, en hann hefur aftur og aftur skilið Ágúst eftir einan með e-m minniháttar hlaupurum.

Í potti sýndi Ágúst hins vegar hvílíkt karlmenni og keppnismaður hann er. Hann lét sér fátt um finnast og sagði bara: Ég er að þjálfa Benedikt! Og Eirík. Hvar er Eiríkur, annars? Téður Eiríkur lá í potti þegar við komum, kvaðst vera meiddur. Þeir Benedikt geisuðu yfir versta degi í Kauphöllinni til þessa, ofan á þetta bárust hryllingssögur úr Ráðhúsi Reykjavíkur sem gerðu menn aldeilis stúmm. Athyglisverðar samræður um mínus óendanleika, recursion, og fleira gáfulegt. Svo mætti Skerjafjarðarskáldið og hélt ádíens. En ritari varð að yfirgefa vegna föðurlegra skuldbindinga, áður hétu menn því að fara langt á miðvikudag, alla vega Stokk. Og það hratt.  

Enn fjölmenni, og það í vondu veðri

Oss er ljúft og skylt að rapportéra að í gær, sunnudag, mættu fjórir dánumenn til hefðbundins sunnudagshlaups í Hlaupasamtökunum, til eflingar andanum og uppbyggingar viðtekinna gilda í Vesturbænum. Þar voru á ferð sérlegir heiðursmenn, nefnilega sjálfur Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur og Einar blómasali. Jörundur kom í pott, hlaupinn úr Kópavogi um Heiðmörk og víðar, sem og ritari, en ástand hans var dapurlegt. Hlauparar voru frískir og kátir og sátu lengi í potti, nema VB sem fór í kolaportið að höndla.

Á mánudegi var enn og aftur fjölmenni mætt til hlaupa, þrátt fyrir leiðindaþræsing, kulda og austanblástur. Á þriðja tug hlaupara, þar af átta konur, mættu í dag og má segja að Hlaupasamtökin hafi fengið rífandi start á þessu nýja ári. Ekki verða einstakir hlauparar taldir upp hér - engin óvænt andlit. Jú, prófessor Sigurður Ingvarsson, stórhlaupari. Þjálfari var mættur og gaf hefðbundin skilaboð, fara út að síðasta húsi í Skerjafirði og spretta úr spori þaðan og helst út að Kringlumýrarbraut. Þó var heimilt að stytta um Hlíðarfót.

Þessi hlaupari var þungur og þreyttur og mikið klæddur sökum kuldans, en það blés kaldur vindur móti okkur alla Ægisíðu inn að Öskjuhlíð. Ég hélt mig við dr. Jóhönnu, blómasalann og Þorbjörgu - nema hvað doktorinn hélt áfram út að Suðurhlíð, en við hin fórum Hlíðarfót. Við hlýddum þjálfaranum, fórum á tempói á réttum stöðum, og m.a.s. aftur á Hringbrautinni á leiðinni tilbaka, fórum hratt þar. Aðrir fóru út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlið, Benedikt náttúrlega fyrstur á tempói sem hann sagði eftir á að hefði verið þægilegt. Ofurhlauparar eins og Sigurður Ingvarsson og Ágúst voru honum langt að baki (æ, nú verð ég óvinsæll!). Nú verður mér ekki boðið í afmæli framvegis.

Enn er barnapotturinn lokaður sökum "viðhalds" - hvar er viðhaldið? Ég bara spyr. Því var setið í Örlygshöfn og hlýtt á Kristján Hreinsmög Skerjafjarðarskáld sem hélt ádíens og sagði ófagrar sögur af úr tónlistarheiminum. Næst er hlaupið á miðvikudag - verður farið langt? Eða verður farið í ískaldan sjóinn í fjegurra stiga frosti? Góðar kveðjur - ritari.


Maður settur út í kuldann, hunzaður

Óvenjulegt var við hlaup kvöldsins að þá mættu óvenjumargir úrvalshlauparar, menn sem ekki hafa látið sjá sig að hlaupum um langt skeið. Fyrstan og fremstan meðal jafningja og vina skal  nefna sjálfan Vilhjálm Bjarnason, sem er endurheimtur eftir langa fjarveru. Hann stóð í Brottfararsal og átti langt samtal við sjálfan Söngvara Lýðveldisins, Egil Ólafsson, og var þeim mikið niðri fyrir. Þá var mættur Karl kokkur og urðu fagnaðarfundir í Brottfararsal er þessir ágætu menn mættu og áttu góðar samræður við félaga sína. Létt var yfir mönnum og gleðin skein úr hverju andliti. Konur voru mættar: dr. Jóhanna, Brynja, og Rúna mætti er við vorum á útleið. Ástæða er til að telja upp það mannval sem þarna var saman komið: Ágúst, Þorvaldur, Vilhjálmur, Bjarni, Gísli, Helmut, Denni, Rúna, Brynja, dr. Jóhanna, Benedikt (einnig kallaður Benjamín), Jörundur sjálfur, Hjörleifur, ritari og þá held ég upptalningin sé fullkomin. Jörundur kom síðastur á slaginu hálffimm þegar við erum vön að leggja af stað. "Skiljum hann eftir!" hrópaði ritari. "Nei, við bíðum eftir honum" sagði Vilhjálmur. "Jörundur er vinur minn." Þegar Jörundur var áminntur um stundvísi og klukkufræði, sagði hann: "Já, þið eruð ekkert nema ríkisstarfsmenn og auðnuleysingjar og getið þess vegna farið úr vinnu þegar ykkur hentar." Ég leit í kringum mig og varð að viðurkenna að hann hafði nokkuð til síns máls.

Berlínarmaraþon enn til umræðu og hvatt til þess að menn skráðu sig. Veður stillt, fremur kalt en gott að hlaupa. Enn var rætt um persónu non grata eða persónu non existant í félagsskapi vorum, Birgi hinn gleymna eða blinda, Birgi blinda, sem "gleymdi" að setja myndir af félögum sínum í hið árlega tímarit bróður síns. Héldu menn áfram að ræða það með hverjum hætti hægt væri að hrella þennan fyrrum félaga vorn. Jörundur upplýsti að hann væri búinn að loka fyrir köttinn hans og byrjaður að hrella hann (köttinn) andlega. Ritari lofaði að fjarlægja myndir af téðum aðila af bloggi Hlaupasamtakanna, dr. Jóhanna heimtaði að myndir af sér með fyrrnefndum aðila yrðu fótóshoppaðar til þess að hreinsa syndina úr röðum vorum.

Eitthvað var maður þungur á sér, að hluta til vegna hins langa miðvikudagshlaups, að hluta til vegna þess að ritari er vakinn og sofinn yfir hagsmunum Lýðveldisins og gjarnan andvaka af áhyggjum yfir stöðu mála í Lýðveldinu. En við ákváðum nokkrir að fara bara stutt og fara hægt. Þetta voru þeir Gísli, Ágúst, Bjarni, Kalli og ritari. Við styttum og fórum Hlíðarfót, aðrir fóru lengra. Það er athyglisvert að Ben. hleypur óskynsamlega, fór langt miðvikudag, fór fimmtudag, og aftur í dag, föstudag, fór hratt og langt á undan öðrum, uppskrift að meiðslum! Aðrir sem fóru hratt voru Helmut, dr. Jóhanna, og einhver sem ég man ekki eftir.

En við skynsömu drengirnir fórum Hlíðarfót og áttum góð samtöl um fyrri tíð. Við reyndum að baktala hver annan eftir megni, fórum ekki hjá Gvuðsmönnum, heldur þvert yfir einskismannsland, klakahellur og ófærur. Á þessum kafla flaug alls kyns dónaskapur sem ekki verður hafður eftir, enda er hér í gangi gæðatrygging og siðferðis. 

Enda þótt menn fagni því að fá Vilhjálm Bjarnason að nýju í hópinn voru þeir jafnframt haldnir fortíðarþrá vegna þess tíma þegar þeim mætti einungis skætingur og önugheit. Veltu menn vöngum yfir því hverju þetta sætti 

Er þessi hlaupari fór úr potti og gekk til útilklefa mætti hann Einari blómasala sem kvaðst hafa verið að hlaupum í tvær klukkustundir. Var vissulega á hlaupaklæðum, en ekki mjög móður. Næst er farið á sunnudag kl. 10:10 - Öl-hópur fer frá Salalaug kl.  9:30 að ég hygg. Góðar stundir.


Enn eitt gullkornið fellur...

"Vinnan er böl hinna drekkandi stétta." Kári Harðarson.

Mótlæti - meðlæti

"Ég þrífst jafnt á mótlæti sem meðlæti."
                                   Einar blómasali


Ágúst yngir upp - farinn Stokkur

Það var fremur svalt í dag í veðri, en stillt, og þarafleiðandi dágott veður til þess að spretta úr spori, einkum fyrir miðaldra háskólaborgara og húsmæður í Vesturbænum. Meðal viðstaddra við brottför voru allmargir kunnir hlauparar og afreksmenn, og skal fyrstan telja Jörund, einhvern ágætastan hlaupara í hópi vorum, svo voru þarna aðrir eins og Gísli og Ágúst, ekki slæmir hlauparar, en orðnir full værukærir í seinni tíð fyrir minn smekk. Einnig mættur dr. Friðrik, sem hugsaði bara um reykta álinn sem hann ætlar að gæða sér á í einhverri vinstue í Lars Björnsensstræde næst þegar hann vísiterar Borgina við Sundið. Einkennilegt hvað matur er mönnum ofarlega í huga þegar þeir eru að fara út að hlaupa. Svo voru nokkrir sæmilegir hlauparar, og loks þjálfarinn, Rúnar. Það lá í loftinu að farinn yrði Stokkur, um það hafði verið rætt s.l. mánudag, og nú heimtuðu sumir menn efndir, m.a.s. Ágúst kvaðst hafa verið andvaka af spenningi s.l. tvo sólarhringa, og nú yrðu menn að gjöra svo vel og hysja upp um sig og standa við stóru orðin. Benedikt var á sama máli. Jæja, þá förum við Stokkinn. Þjálfarinn varaði menn við því að fara úr 10 km hlaupi beint i 16 km hlaup - taldi það ávísun á meiðsli. En við, þessir vitleysingar, við hlustuðum náttúrlega ekki á þessa hvatningu til aðgæzlu og lögðum drög að löngu hlaupi - vorum búnir undir það andlega.

Lagt upp, afar hægt, enda hafði þjálfarinn lagt ríka áherzlu á að menn byrjuðu rólega. Já, förum rólega, sagði Gísli. Ég ætla að fara rólega. Ætlar þú ekki að fara bara rólega, Ágúst minn? spurði Gísli. Jú, voða rólega, sagði prófessorinn. En það er segin saga með suma, þeir eru eins og kálfar að vori og kunna sér ekki læti, sama hvað þeim reyndari menn reyna að hafa fyrir þeim. Benedikt og Una steðjuðu af stað og voru horfin á einu augnabliki. Aðrir rólegir. Á Ægisíðu upplýsti Jörundur viðstadda um að von væri á nýrri Hlaupadagbók frá Gunnari Páli, bróður Bigga Bigbang. Og vitið þið hvað? sagði hann. Aðalljósmyndari er sjálfur Birgir, félagi okkar og vinur - eða sem við töldum vin okkar. Það er fullt af ljósmyndum í ritinu - en ekki ein einasta af okkur félögunum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins! Haldið þið að þetta sé hægt? Mönnum blöskraði eðlilega þetta framferði - hér spruttu fram reynslusögur ýmissa félaga af þessum görótta Birgi, margar ófagrar. Já, félagar! Hér eftir munum við hunza téðan Birgi, ef hann mætir til hlaupa þá eyðum við ekki orði á hann, látum sem við sjáum hann ekki, forðumst hann eins og pestina! Út af listanum með hann! hrópaði æstur hlaupari, hringum í dr. Flúss!

Ekkert varð af sjóbaði í Nauthólsvík, prófessor Fróði vildi meina að "tekin hefði verið ákvörðun" um að sleppa baði seinast þegar hlaupið var, og reyndi að klína þeirri ákvörðun upp á sjálfan ritara, sem bar af sér ásökunina sem ótrúverðuga og ósanngjarna. Hið sanna er líklega að prófessorinn hefur verið í kvíðakasti í tvo undangengna sólarhringa yfir líkindum þess að baðast yrði á þessum degi. En nú slapp hann og með það var hlaupið áfram um Flanir. Og hér var ástæða til þess að fagna. Loksins var runnin upp sú stund, langþráð, að farið yrði lengra en 10 km í hlaupi. Menn stefndu ótrauðir í Fossvogsdalinn og drógu lítt af sér. Ágúst talaði mikið um vonarstjörnur Hlaupasamtakanna, þá Benedikt og Eirík, og leit svo á að þeir væru að alast upp undir sínum handarjaðri og gætu orðið ágætir hlauparar með tímanum, ef þeir færu að ráðleggingum hans. Hér var honum bent á að hann hefði verið með aðra góða hlaupara í þjálfun hér á árum áður, svo sem blómasalann og ritarann, og hvort búið væri að gefa þá upp á bátinn. Já, þeir eru orðnir allt of feitir og gamlir; nú er ég búinn að yngja upp, kominn með drengi í þjálfun sem hafa vart náð fullorðinsaldri.

Í Fossvogi mættum við mörgum hlaupurum í Laugahópnum, kona ein hrópaði: Hæ Ágúst! en hann tók ekki eftir því fyrr en við bentum honum á það. Ha? Hvað, var kona að hrópa nafn mitt? sagði hann miður sín af því að hafa misst af þessu. Áfram í Fossvogsdalinn, umræður góðar og léttar. Hæfilegur skammtur af baktali, slúðri, aulafyndni og öðru sem hæfir í hópi sem vorum. Stokkinn fóru á endanum Benedikt, Ágúst, dr. Jóhanna, Jörundur, ritari, Gísli, Rúnar þjálfari, Helmut og Kári. Vel af sér vikið það! Við fórum það hægt að þetta var bara þægilegt hlaup og manni leið nokkuð vel er komið var á Móttökuplan. Teygt inni og bornar saman bækur. Í útiklefa var Skerjafjarðarskáldið, í potti sjálfur dr. Flúss, og hlakkar trúlega til þeirrar stundar er hann getur farið að staulast með okkur á ný. Mönnum varð tíðrætt um kíló, sumir ætluðu að léttast um 10 kg, aðrir um 15. Svo sagði einhver: en mest er þó um vert að við tökum á málum blómasalans, þetta gengur ekki með hann lengur. Við verðum að hjálpa karlanganum að takast á við yfirvigtina.

9 eru skráðir í Berlínarmaraþon eða hafa tekið ákvörðun um að fara. Ágæt byrjun á nýju hlaupaári. Í gvuðs friði - ritari.


Bjartari tíð framundan...

Ekki færri en 21 hlaupari voru mættir til hlaups á þessum fagra mánudegi í byrjun árs, sumir töldu sig hafa talið 22 - en það fékkst ekki staðfest af áreiðanlegu fólki. Það makalausa var að af þessum 21 voru 10 konur!!! Hvenær hefur annað eins gerst í röðum vorum - ekki að furða að eiginkonur eru farnar að fjölmenna til hlaupa að fylgja körlum sínum eftir og gæta þess að allt sé eftir réttum sið. Veður fremur svalt en enginn vindur og því yndislegt hlaupaveður.

Umræður eðlilega háværar í Brottfararsal, og voru ungir sundiðkendur hjá KR farnir að sussa á mannskapinn. Engar verulegar móðganir flugu og gengu menn sáttir að kalla út úr húsi. Þar lagði þjálfari línur um hlaup dagsins: rólega út að dælustöð í Skerjafirði, svo átti að gefa í og taka sprett inn í Nauthólsvík, helst út að brú yfir Kringlumýrarbraut. Ekki leist mér á, sem hafði í misgáningi stigið á vigtina í útiklefa í morgun og fengið áfall - allir sigrar fyrri viku fyrir bí - kominn á upphafsreit að loknum jólum. 90 kílóa olíuskip á leið út í myrkrið að taka stímið. Tók undir með Gísla sem sagði: Við Friðrik förum bara hægt og sleppum þéttingum.

Jæja, hvað gerist, Kári fer að hegða sér eins og annað olíuskip, bara hraðskreiðara, siglir framúr á Ægisíðu og skilur mann eftir. Benni, Björn kokkur og e-r aðrir fremstir, einhverjar konur sem ég hef aldrei séð, Helgur einhverjar, ég fæ hins vegar samfylgd þjálfarans og var ekkert ósáttur við það. Ég hugsaði mér til huggunar að Einar blómasali væri altént aftastur og maður þyrfti ekki að hafa áhyggjur af að hann skellti sér framúr. Kem sjálfum mér á óvart við dælustöð með því að taka á sprett og skeiða framúr Kára, en heyri fljótlega másað að baki mér. Koma ekki Helmut og Ágúst og taka framúr mér - Ágúst þarf að fara að venja sig við að horfa á baksvipinn á mér. Nema hvað þeir halda áfram, ég spyr: eruð þið á spretti? Nei, við erum bara að hlaupa. En svo slaka þeir á og stöðva í Nauthólsvík.

Ákveðið að halda áfram um Flanir og lúpínuvellina hans Jörundar, út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlíðina (er það ekki rétt heiti?). Nema hvað, þegar þangað er komið heyra menn kunnuglegt tipl. Getur það verið? Er blómasalinn búinn að ná okkur? Jú, viti menn! Kemur ekki blómasalinn á hröðu skeiði og blandar sér í hóp fremstu manna (eða þannig, það voru víst einhverjir á undan okkur, en við bara vissum ekki af því). Jú, jú, ekki verður logið upp á þennan mann, seiglan og harkan komin saman í einum skrokki. En þá tók nú verra við: brekka. Og hún var löng. Það var bara á fótinn upp hlíðina meðfram kirkjugarðinum og alla leið upp að Perlu, tók verulega í og reyndi á okkur, en við héldum hópinn, ég og Ágúst, dr. Jóhanna, Þorbjörg, Helmut og Margrét. Einar blómasali dróst aftur úr, enda eiga brekkur ekki við hann. Það var mikill léttir að komast upp að Perlu - því eftir það var leiðin bara niður á við. Hitaveitustokkurinn var óupphitaður og háll á köflum - en lagaðist er neðar var komið. Farið um hjá gvuðsmönnum og þá leið okkur vel og settum á fulla ferð áfram. Fórum á fullu blússi vesturúr allt þar til er við komum að Vatnsmýrinni vestanverðri - þá urðum við vör við hratt tipl - aftur! Hér kom Einar blómasali á sínu kunnuglega skeiði og fór fram úr okkur í þeim tilgangi einum að niðurlægja okkur. Við það var ekki unað og ritari setti í túrbóinn og reif sig framúr honum og braut hann endanlega niður. Eftir þetta var farið á rólegu nótunum allt til Laugar, nema hvað menn urðu varir við óróleika í prófessornum á Hagamelnum þegar við nálguðumst lokamarkið. Fóru menn að kannast þar við gamla takta og ljóst að sá gamli er allur að koma til og ná sér upp úr þeirri lægð sem hann hefur verið í.

Í potti veltu menn vöngum yfir Berlínarmaraþoni, það væri allt í lagi að skrá sig - ef ekkert yrði úr hlaupi væri hægt að finna sér góða götuserveríngu og panta sér bjór og horfa á hlauparana skeiða framhjá. Einnig rætt um kúltúrprógrömm og annað sem hægt væri að gera meðan á dvöl stæði.

Nú lengist dagur og dagsbirtu nýtur í æ meira mæli. Tímabært að lengja hlaupin að sama skapi, rætt um að fara Stokkinn á miðvikudag, óljóst hvort farið verður í sjóinn, en Ágúst og Björn eiga eftir janúarbað. Síðan koma smellirnir hver af öðrum: 69, Goldfinger, Stíbbla... Hvar er Sjúl? Ritari.

Fagur Þrettándamorgunn

Veður blítt þennan Þrettándamorgunn og mættir til hlaupa í Sundlaug Vorri Þorvaldur, Ólafur  Þorsteinsson, Einar, Kári og ritari. Þrír síðastnefndir illar haldnir sökum ofáts kvöldið áður og þungir á sér. Ólafur frændi minn ólgaði af frásagnargleði og gat vart hamið þörf sína fyrir að miðla okkur fögrum sögum af sameiginlegum vini okkar allra, Vilhjálmi Bjarnasyni - sem liggur heima í kvefpest með verkjum. Er það farið að verða lenzka í hópi vorum að brottför tefjist á sunnudagsmorgnum vegna þess að það þarf að segja sögur af VB.

Vegna þessa líkamsástands hinna þriggja, agalausu matargæðinga, var farið reglulega hægt. M.a.s. ritari, sem á föstudaginn átti glæsilega spretti með próf. Fróða, var algjörlega heillum horfinn. Þurfti að horfa á baksvipinn á Kára nánast alla leið - sem gerist ekki oft. Sem minnir mig á orð er féllu á hlaupum á föstudag. Á Hlemmi fór undirritaður fyrir hópnum og Ágúst sagði  upp úr eins manns hljóði: Ólafur, þú hefur lagt af! Það getur ekki verið, sagði ég - alla vega ekki núna yfir jólin. Helmut sagði: Þetta er misskilningur, Ágúst - þú hefur bara aldrei séð baksvip Ólafs áður! Þannig er alltaf reynt að eyðileggja allt jákvætt sem mönnum dettur í hug að segja hverir um aðra.

Ólafur tilkynnti að hann hefði þrjár fallegar sögur að segja okkur - og svo komu þær hver á fætur annarri og eru þær dæmi um hvers vegna menn mæta til hlaupa á sunnudagsmorgnum kl. 10:10 - svo uppfullar voru þær mannlegu innsæi og skilningi á samhengi hlutanna. Ekki verður rakið hér hvaða sögur þetta voru, menn verða bara að mæta og heyra þetta beint úr munni hestsins (eins og stundum er sagt á ensku, straight from the horse´s mouth).

Farin hefðbundin leið, nema hvað Ó. Þorsteinsson heltist úr lestinni í Skerjafirði og sáum við hann ekki aftur fyrr en í potti. Við hinir fórum hefðbundið og bar fátt til tíðinda. Farinn Laugavegur og skoðuð hús sem til stendur að fjarlægja. Í pott mættu helztu spekingar, m.a. dr. Baldur Símonarson og dr. Einar Gunnar.

Á morgun eru menn ákveðnir að taka hressilega á því enda nauðsynlegt að fara að huga að uppbyggingu fyrir Berlín. kv. ritari.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband