Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Hefðbundið á föstudegi

Nokkur fjöldi hlaupara mætti til hlaups föstudaginn 27. febrúar 2009, mæting var í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar Vorrar, þar sem nú hefur verið hengt upp viðurkenningarskjal Framfara til handa Samtökum Vorum fyrir afrek ársins 2008. Mættir: próf. Fróði, Flosi, Friðrik (í Meló), Rúna, Kalli, Bjössi, Denni, ritari, dr. Jóhanna.

Þar sem þetta var föstudagur lá ekki annað fyrir en fara rólega gegnum hlaup dagsins. Og þar sem Gísli var ekki mættur voru ekki horfur á sjóbaði. Sá var munur á hlaupi nú og alla jafna að hópurinn var sameinaður alllengi og engir sem fóru að derra sig að ráði fyrr en í Nauthólsvik. Þar sem ritari hefur verið að byrja aftur, aftur og aftur, ýmist eftir meiðsli eða veikindi, og auk þess búinn að taka matarhátíðir hátíðlega, þá var hann þungur og var þakklátur þeim sem vildu fylgja honum. Þetta voru þau Rúna, Friðrik, Denni og Kalli. Við héldum hópinn nánast alla leið, Friðrik að vísu eitthvað að ólmast, fór fram og tilbaka, stoppaði til þess að eiga við úrið sitt og lá grunur á að hann væri að dæla inn kílómetrum sem engin innistæða var fyrir.

Ég hafði hugsað mér Hlíðarfót  - en þegar til átti að taka lenti ég á kjaftasnakki og gleymdi að beygja, fór Hi-Lux-brekkuna og þá var eiginlega of seint að snúa við, leiðin hvort eð er hálfnuð og ekki annað að gera en þrauka. Þetta gekk gizka vel og var vel haldið áfram.

Mikið óskaplega var það góð tilfinning að ljúka góðu hlaupi á góðum degi, veður yndislegt og vor í lofti. Ekki var verra að Friðrik birtist á tröppu með súkkulaði handa okkur og varð þá mörgum hugsað til blómasalans sem var fjarri góðu gamni í dag. Síðan var setið góða stund í potti, unz við bræður þurftum að hypja okkur heim í sjæn fyrir afmæli kvöldsins, þegar Þorvaldur bróðir okkar fyllti sjötta tuginn. Þar var mikil veizla gjör og hélt ritari þar tölu og kom Hlaupasamtökunum rækilega á framfæri eins og sæmir. Ræddi m.a. skyldleika tveggja bókmenntagreina: afmælisræðna og minningargreina. Meira um það í hlaupi morgundagsins, en hlaupið verður frá Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 10:10 í fyrramálið. Vel mætt! 

Fallegur sunnudagur

Mættir til hlaups á fögrum sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Flosi, Jörundur og ritari. Menn lýstu áhyggjum af heilsufari ónefndra félaga, sem ku þó vera öllu skárra en ástæða var til að ætla samkvæmt skýrslu föstudags. Þótti sannað að hlaup eru allra meina bót og fljótt að segja til sín ef menn hætta að hlaupa, einkum í kátra sveina hópi eins og vorum.

Magnús æddi af stað á undan okkur, átti stefnumót við andleg yfirvöld þessa lands og varð því að stytta hlaup. Aðrir rólegir og fóru hægt yfir. Umræðuefnið var jarðarfarir, allt frá viðnum í kistunni og blómaskreytingunni til sálmavals og útgöngu. Samt var engin jarðarfararstemmning yfir hópnum, enda jarðarfarir sérstakt áhugamál ónefndra félaga.

Það var komið í Nauthólsvík og þar voru ungir menn að spreyta sig á hlaupi í sandi og upp halla. Við hæfi var að gera stanz í kirkjugarði og segja þar sögur af ýmsum mönnum. Þessu næst farið sem leið lá um Veðurstofuhálendi og staðnæmst hvarvetna sem hefðin býður. Áfram um Hlíðar og yfir Miklubraut, lítil umferð þar. Klambratún og Hlemmur, varla sál á ferli. Veður var svo frábært að það var ekki annað tekið í mál en fara Sæbrautina.

Samkomulag var um að spretta úr spori upp Ægisgötuna V. Bjarnasyni til heiðurs, en nú er ég búinn að gleyma því hvort það var vegna þess að Villi hlypi ávallt Ægisgötuna, eða aldrei! En það skiptir ekki máli, við hlupum upp götuna. Yfirleitt eru ekki teygjur á sunnudögum, heldur farið beint í pott. Ég var samt að myndast við að teygja þegar Einar blómasali kom gangandi og sagðist hafa gleymt sér yfir Mogganum og misst af hlaupi! Ég lét hann vita að hann hefði misst af frábæru hlaupi á frábærum degi. Hann kvaðst hafa hlaupið í gær með Eiríki, Melabúðar-Frikka og Rúnari. 69.

Í potti var hefðbundin skipan hlutanna: dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Mímir - og svo kom Kári og slóst í hópinn. Þar voru dregnar nokkurn veginn sömu sögur og voru sagðar í hlaupinu, sem er allt í lagi, þær voru mergjaðar margar, þótt ég muni ekki að segja neina þeirra hér. Áhyggjur af ástandi mála í Hagaskóla Íslands, þar sem framferði sumra nemenda þykir ekki til fyrirmyndar. Rætt um spurningakeppnir sjónvarpsins, sem eru misgott skemmtiefni.

Áréttað að lokað er í VBL á morgun og stemmning fyrir að fara á Nes og hlaupa þaðan og eitthvað áleiðis í Fossvoginn.

Gamlir taktar rifjaðir upp - sjósund að vori

Dagurinn merkilegur að mörgu leyti, veður svo makalaust að ekkert annað en hlaup kom til greina. Ljóslega hugsuðu margir það sama í dag, svo margir raunar að annað eins hefur sjaldan sézt. Vænst þótti mönnum um að sjá "gamla" garpinn Gísla skólameistara sem hefur verið fjarverandi um allnokkurt skeið. En nú skyldi bæta úr því. Aðrir merkir hlauparar þessir: próf. Fróði, próf. dr. Flúss, dr. Karl kokkur, Magnús tannlæknir, Einar blómasali, Björn kokkur, Bjarni, dr. Jóhanna, Melabúðar-Frikki, Kári, dr. Anna Birna. Rúna, Ósk, Hjálmar, ritari, Helmut og Denni af Nesi. Ef ritari hefur gleymt einhverjum biðst hann velvirðingar á því. Það heyrir til sögu að próf. Fróði kom hlaupandi úr Kópavogi og var vel heitur.

Var ég búinn að tala um veðrið? Hreint með ólíkindum! Ekki var beðið eftir neinum, heldur steðjað af stað og strikið tekið mót Sólrúnarbraut. Í ljósi þess að engir verulegir hraðafantar voru með í för var lagt hægt upp og hersingin minnti helzt á Dýrin í Hálsaskógi: samstaðan og eindrægnin var algjör. Gísli horfði á hafið og sagði: Nú væri gaman að fara í sjóinn. Einhver sagði: förum á miðvikudaginn!

Hvað um það, menn misjafnir og fóru mishratt yfir. Ferðin um Sólrúnarbraut var alveg hreint yndisleg, braut greið en nokkuð af sandi sem leitaði ofan í skó hlaupara, en engin hálka. Hópurinn gliðnaði með tímanum eins og verða vill og minnir á vináttuna. Einhverra hluta vegna kom það í hlutverk ritara að fara hægt og rólega yfir og horfa á eftir félögum sínum hverfa.

Hann sá Kalla og Gísla á undan sér og sá sér til innilegrar gleði að þeir stöldruðu við í Nauthólsvík. Kalli hafði fengið þá flugu í höfuðið að fara í sjóinn. Þegar Gísli fær slík kostaboð verður ekki aftur snúið, en greyið Kalli meinti þetta eiginlega ekki. Þetta þýddi, að þegar ég náði þeim, þá var dagsskipunin þessi: Sjór! Við niður á gamalkunnar slóðir, rifum okkur úr fötum og skelltum okkur í svalandi ölduna. Dvöldum að vísu ekki lengi og vorum snöggir í fötin. Fórum svo sem leið lá um Hlíðarfót og þá leið tilbaka.

Á Plani vildi svo til að flestir hlauparar hittust af nýju, hlaupnir mislangt. Kvartað yfir því að pistlar ritara væru orðnir fullmannúðlegir og færu mildum höndum um hlaupara - heimtað að hlauparar væru teknir nýjum tökum. Maður gerir sitt bezta.

Framundan er lokun VBL - mæting á Nesi við laug á mánudag, fara í útiklefa til þess að forðast augnskoðun nema menn séu reiðubúnir að þykjast blindir og fá ókeypis inn. Þeir sem vilja taka þátt í grindarbotnsæfingum mæta 17:30 - öðrum er óhætt að vera komnir út um 17;45. Framundan mikil gleði, mikið gaman. Í gvuðs friði.

Snjóstormur í Vesturbænum - Grindbytningar vænta vina

Konan sagði: Á ég þá alltaf að vera hortuga konan? Ritari svaraði: en ég veit ekki hvað þér heitið, við höfum ekki verið formlega kynnt. Ég heiti Sirrý. Jæja, þá, ég get sosum skráð yður Sirrý hortugu.

Framangreind orðræða var snemma hlaups, þegar hersing úrvalshlaupara steðjaði fram hjá hamborgarabúllu og voru upplitsdjarfir. Hátt í tuttugu hlauparar mættir, allir helztu hlauparar samtakanna að undanteknum dr. Flúss sem á óútskýrða fjarveru í næstliðnum tveimur hlaupum.

Þjálfari risinn upp af sjúkrabeði, hafandi með merkilegum hætti lifað af 45 stiga hita (sem NB á ekki strangt til tekið að vera hægt!) um síðustu helgi. Erum vér þakklát fyrir það.

Ég spurði prófessor Fróða hvernig gengi með að finna sponsora fyrir eyðimerkurhlaupið. Hann sagði réttara að við svöruðum þeirri spurningu, vegna þess að það væri í okkar verkahring að finna sponsora. Þetta voru fréttir fyrir mig, og nú er bara málið að finna 1) aflögufær fyrirtæki, sem 2) eru reiðubúin til þess að styrkja hlaupara sem 3) er að fara að hlaupa í sandi og á örugglega eftir að týnast. Ritari auglýsir hér með eftir öflugu markaðsfólki til þess að vinna þessu verkefni stuðning. Sjálfur er ég bjartsýnn og fullur trúar á viðfangsefnið.

Kári mættur að nýju eftir langa fjarveru. Hann kvaðst helzt vilja vera heima, liggja uppi í sófa, hvíla sig og nærast. Ég sagði honum að þetta væri fullkomlega eðlileg afstaða. Til væru læknismenntaðir menn sem fullyrtu að hlaup væru manninum ekki eðlileg, nema þeir væru eltir af villidýrum. Engu að síður ynni allt saman: hlaup hefðu góð áhrif á líkamsstarfsemina almennt, menn sitja skemur að matarveizlum, menn grennast og léttast, matarlyst minnkar, þol eykst, hlaup lengjast, ánægja og hamingja fer vaxandi og horfur allar batna stórum.

Áður en við náðum í Skerjafjörð brast á með snjóstormi svo að illa leit út með framhaldið. Við hörkuðum af okkur eins og skagfirzk hross og héldum áfram. Það fór svo sem eins og vitað var, að þekktir aðilar létu sig hverfa á óskiljanlegum hraða og voru horfnir þegar við flugvöll. Við hinir rólegri héldum ró okkar. Helztu hlauparar héldu áfram eftir Nauthólsvík og fóru ýmist Þriggjabrúahlaup eða Stokk - en ég, Magnús og Sirrý fórum Hlíðarfót, Kári lét sér nægja að fara inn í Nauthólsvík og sömu leið tilbaka. Blómasalinn fór Þrjárbrýr og var brattur eftir hlaup, var að vísu þungur, en þetta var víst allt að koma.

Nú steðja þær hörmungar að Hlaupasamtökunum frá og með næsta mánudegi að Sundlaug Vor slær aftur dyrum sínum fyrir oss og er þá úr vöndu að ráða. Sumum kynni að koma í hug að fara í Laugardalinn og hlaupa þaðan. Annar möguleiki er að blanda geði við vini vora á Nesi, þá Grindbytninga, og veit ég að vel verður tekið á móti okkur. Sérstök ástæða er talin til að vekja athygli ónefndra félaga á lokuninni nú, svo að þeir mæti ekki á mánudaginn, stöðvi bíla sína fyrir framan Laug, sjá þar miða á hurð, hlaupa út úr bílum sínum til þess að lesa miðann, með fyrirsjáanlegum afleiðingum. En við höfum ráðrúm til þess að ráða ráðum okkar. Í gvuðs friði. Ritari.

Víkingaskip

Olíuskip? Nei, víkingaskip. Í útiklefa stóð yfir svo mergjað baktal gagnvart helztu félögum að þegar komið var í Brottfararsal lágu þeir hver um annan þveran í óstöðvandi hikstakasti. Meira um það seinna. Fjöldi mætra hlaupara mættir: ritari man að greina frá dr. Friðriki, dr. Jóhönnu, próf. Dr. Fróða, Einari blómasala, Helmut, Þorvaldi, Birni, Ósk, Hjálmari, Bjarna, Eiríki, Benna, Unu, Þorbjörgu, þeirri hortugu, syni dr. Friðriks sem vill forðast föður sinn í vigt, svo voru ritari, Friðrik kaupmaður, dr. Karl. Þjálfarar veikir eða í útlöndum.

Við blasti frelsið, við gátum leikið okkur eins og mýsnar. En, nei! Eiríkur hafði tekið að sér hlutverk kavalérans. Hann hrópaði skipanir til hlaupara á Plani eins og alvanur skátaforingi. Una hrópaði upp í angist: Ég vil ekki gera það sama og við gerðum í síðustu viku! Ég neita að gera sömu æfingu aftur! Henni var kurteislega bent á að þetta væru ekki einhverjar fasistabúðir, hún gæti í raun gert það sem hugur hennar stefndi til. Ábendingin kom henni skemmtilega á óvart og nýjar gáttir hugsunarinnar opnuðust þessari miklu hlaupakonu. Eiríkur lifði sig inn í sitt nýja hlutverk sem leiðtogi og sýndi sannan myndugleik, tókst að teyma mannskapinn af stað, sem er alltaf gott teikn.

Svo sem fram kom í skeytasendingum dagsins var ritari fyrirsjáanlega feitur og þungur eftir nokkurra vikna fjarveru frá hlaupum vegna meiðsla. Hann hélt sig vísvitandi aftarlega til þess að vera ekki að þvælast fyrir hinum æstari hlaupurum. Próf. Fróði enn á fullu að æfa sig fyrir Sahara (mikið verður maður feginn þegar þetta Sahara-ævintýri er afstaðið!) og þeir Kaupþings-fóstbræður að búa sig undir London. Sem betur fer eru enn til góðar sálir í hópi vorum, sem sjá aumur á hægfara aumingjum eins og ritara. Bjarni sýndi mér þann heiður að hlaupa með mér út í Skerjafjörð, sömuleiðis voru dr. Friðrik og sonur nálægir og Þorbjörg ekki langt undan. Aðrir voru Gone in 60 Seconds. M.a.s. blómasalinn.

Veður gott til hlaupa, 9 stiga hiti, rigning, einhver vindur, en alla vega gott undirlag og hálkulausir stígar. Farið hefðbundið út á Birkimel og Suðurgötu og í Skerjafjörð og að Skítastöð, þar stóðu þeir eins og álkur þegar okkur Þorbjörgu bar að. Ég sneri tilbaka enda ætlaði ég ekki að fara út í einhverja ævintýramennsku með fótinn á mér þegar hann er á batavegi. Þau hin ætluðu í fartleik, 1, 2, 3, 4, 5, 4, 3, 2, 1 mín. Það var farið inn að Sléttuvegi og svo tilbaka aftur. Ritari fór einn tilbaka um Ægisíðu og stytztu leið tilbaka til Laugar. Mætti Neshlaupurum, m.a. Denna og Rúnu. Svo kemur alltaf hópur hlaupara sem hrópar nafn mitt hástöfum, vafalítið í virðingarskyni.

Hlutirnir fóru að gerast í potti. Lengi vel lá ég einn með þýzkum og brezkum túristum. Svo kom blómasalinn og viðurkenndi uppgjöf, hafði misst sig í hádegismatnum og það eyðilagði hlaup dagsins. Honum var bent á hið alkunna lögmál orsakar og afleiðingar, en hann setti hljóðan. Svo mættu þeir hver af öðrum, Eiríkur, Hjálmar, Helmut, Björn, Friðrik, Bjarni og var þá pottur fullsetinn. Upp var tekin umræða um mat og matreiðslu, símafyrirtæki, bankafyrirtæki og um það rætt hvenær mennirnir með járnin væru líklegir til að birtast. Björn dró nokkrar historíur um merkilega túrista sem hann hitti þegar hann var að kokka (og leika golf) á hótelinu í Stykkishólmi og hann hirti upp á leið sinni. Kynlegir kvistir. Hlaupið næst miðvikudag.


Ég játa, þessir voru...

Myndast hefur kimi hlaupara sem iðkar kyrrsetur í potti, forðast hlaup, og forðast hlaupara. Í kvöld voru þessir í kima: Kári, Anna Birna, ritari og blómasali. Kári er jafnan þreyttur og svangur þessi misserin, Anna Birna að elda, ritari enn meiddur og blómasalinn var einfaldlega þreyttur, eða svo rétt sé með farið: fæturnir á honum voru þreyttir. Þetta fólk var í potti kvöld og sleppti hlaupi. Fylgdust með hlaupurum leggja í hann.

Nú er frá því að segja að ritari ók í kvöld sem leið lá um Sæbraut, ekki það hann væri haldinn sjálfskvalaþörf eða sjálfsásökunum, en það fór ekki framhjá honum að hlauparar voru á ferð: Flosi og Helmut, framar voru Margrét þjálfari og Una, svo einhverjir óviðkomandi aðilar, Bjarni Benzz, Birgir, próf. Fróði, gott ef Melabúðar-Friðrik var ekki þar í nánd og hér var hópur staddur við Hafró. Maður var ekkert að trufla hlaup með því að vekja athygli á sér, flauta eða annað slíkt, eins og þekkt góðmenni í Vesturbæ, eigandi kampavínslitrar koníaksstofu á hjólum (R 158), gerir jafnan þegar hann rekst á hlaupara sína.  

Það setti skammartilfinningu að ritara, hann ók sem greiðast heim til sín, fór inn í skáp og dró eitthvað gamalt yfir sig. Ekki kæmi mér á óvart þótt hlauparar hafi farið 69 í kvöld.

Einar blómasali býður heim til sín

Eftir hlaup dagsins var haldið til veizlu að Reynimel. Fátt fékkst upplýst af hlaupinu annað en að farið hefði verið heldur hratt yfir, undir 5 mín. tempói, sem er heldur vægt fyrir okkar hóp. Nema hvað, það var Fyrsti Föstudagur og blómasalinn bauð til veizlu. Það fyrsta sem mætti manni var sjálfur álitsgjafi lýðveldisins og samvizka þjóðarinnar, frjálslega klæddur, í gallabuxum, og hefir ritari aldrei séð VB klæddan slíkum klæðnaði fyrr.

Á borðum var sushi með soyasósu og engiferþykkni, fiskisúpa með karrístyrkingu, brauð, smyrjur ýmislegar og loks var borið fram belgískt súkkulaði. Cadbury´s stykkið var vandlega skorðað í bókahillu, milli Laxness og Snorra. Og svo var gnægð drykkja.

Mættir til veizlu voru próf. Ágúst og frú Ólöf, dr. Karl, dr. S. Ingvarsson, dr. Jóhanna, Helmut, Jörundur, Björn kokkur, Denni, Melabúðar-Friðrik og Rúna, Flosi og Ragna, Kári og Anna Birna og sonur, ritari, Biggi, Hjálmar, Ósk, Bjarni Benzz og....

Vilhjálmur flutti snjalla tölu til heiðurs fyrrv. afmælisbarni dr. Jóhönnu og afhenti henni afganginn af afmælisgjöfinni, gevurztraminer-vín frá Hitlersvinum í Chile, og fjórar flöskur af rauðvíni úr ýmsum áttum.

Þessu næst kleif Bjarni fram og lýsti yfir því að janúarlöberinn væri hljóðlátur og hógvær og léti lítið yfir sér, og væri auk þess hómópati: hér horfðu hlauparar hver á annan og hugsuðu sitt (próf. Fróði og ritari horfðu hvor á annan og hugsuðu: hómó- hvað? Sexúal? Nei). Enginn fann sig í þessari lýsingu, svo kom sannleikurinn eins og bomba: Una Hlín Valtýsdóttir, hómópati, er hlaupari janúarmánaðar.  Bjarni stóð þarna keikur, brattur, sannfærður og vildi afhenda hlauparanum viðurkenninguna, en hún tíðkar ekki að sækja heim samkomur vorar,  hún hleypur bara. Þess vegna þarf að finna nýtt tækifæri til þess að afhenda viðurkenninguna.

Talandi um viðurkenningar. Viðurkenning Framfara til handa Hlaupasamtökunum fyrir að vera hlaupahópur ársins 2008 liggur inni á borði hjá Guðrúnu Örnu forstöðukonu VBL og Birgir hefur fengið það sem sérstakt hlutverk að bearbeta forstöðukonuna og fá hana til þess að koma skjalinu fyrir á heppilegum stað í Brottfararsal. Um þetta þarf líklega að semja og er Birgir rétti maðurinn til þess að koma málinu í höfn.

Nema hvað: þarna stóðum við og nutum veitinga þeirra hjóna, og Jörundur afhenti bókina Geðheilsan og meltingarvegurinn, rit ætlað mönnum eins og Einari, sem hugsa mikið um mat, en þurfa líka að hugsa um geðheilsuna.

Það voru vonbrigði kvöldsins að Formaður Vor til Lífstíðar‚ Ó. Þorsteinsson Víkingur, lét sig vanta, þrátt fyrir að heimilisfaðirinn hefði gert sér sérstaka ferð til þess að höndla inn héraðsvín Vesturbæjar, Púllí Fússey, og átti það á tönkum til  þess að geta vel tekið á móti björtustu von Vesturbæjarins, sól og stjörnu.

Dr. Jóhanna hélt stutta tölu, minnti á að liðið væri ár frá því að afhendingar löbera hefðu hafist, og mæltist til þess að þessari hefð yrði hætt, en að haldið yrði áfram fast í Fyrsta Föstudag. Hér súkkaði Denni og sagði: Ég sem hélt að ætti að leggja af Fyrsta Föstudag! Próf. Fróði brast í grát, hann hefur lagt hart að sér og ekki enn fengið viðurkenningu og nú er viðurkenningin úr sögunni. Og hann sem er að fara í Sahara-hlaup!

Áfram hélt veizlan og það bættist í mannskapinn. En þegar upp var staðið stóðum við Birgir í því að tala við blómasalann og halda honum kompaní. Og örva hann til dáða á vettvangi viðskiptanna.

Þannig er hlaupahópurinn okkar, okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi.


Hlaup halda áfram í Vesturbænum

Ekki svo að ritari hafi frá svo mörgu að segja per se: hann varð vitni að því í kvöld er hlauparar snöru tilbaka frá hefðbundnu hlaupi á miðvikudegi. Flestir höfðu farið 13,6 km og voru þessir til frásagnar um frækilega för: Flosi, Helmut, Björn, Einar blómasali og Hjálmar. Þeir mættu kátir til potts þar sem ritari sat beygður hafandi verið frá hlaupi dögum saman. Spurt var: hví var ekki farið lengra, svo sem t.d. 17,3 km, en um það var ritað á bækur vorar fyrr í dag. Voru við því ýmislegar skýringar sem ekki verða tilgreindar nánar hér.

Það sást til þeirra Eiríks og Benedikts og munu þeir hafa farið 17,3 km hið minnsta, enda menn metnaðarfullir. Ekki fengust frekari fregnir af fólki, nema hvað sást til Þorvaldar og Bjarna Benz og voru vígreifir.

Nú er frá því að segja sem máli skiptir að næsta föstudag er Fyrsti Föstudagur og er haldið upp á hann að heimili blómasalans við Reynimel. Blómasalinn vill að menn staðfesti þátttöku, enda verða dýrar veitingar í boði. Einkum skal þó vakin athygli á því að von er á óvæntum gesti. Ekki meira um það.

Látið vita! Í gvuðs friði. Ritari.

PS - minnt er á embætti vararitara - ef menn skyldu vilja koma á framfæri frásögum að hlaupum.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband