Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Hlaupið með stuðningi vindsins

Nesverjar gera oss skömm til, nema það sé orðinn hlutur, sem sumir hafa sagt fyrir, að búið sé að eyðileggja Hlaupasamtök Lýðveldisins með andstyggðar árásum á einfaldar sálir. Altént voru mættir þrír til hlaupa í kveld, tveir af Nesi, einn úr Lýðveldinu: Magnús, Denni og Rúna. Dapurlegra gat það vart orðið. Þessi hlaupari, ritari Samtakanna, stóð í útréttingum fram eftir degi og missti því af hlaupi, en mætti samvizkusamlega til potts. Hitti þar Magnús og Denna, og voru þeir í góðri sveiflu. Lýstu för sinni um Hlíðarfót þar sem þeir höfðu meðvind alla leið, þótt aðrir Íslendingar hefðu almennt fengið mjög slæmt ferðaveður þennan dag. Við lágum góða stund í potti og ræddum ýmislegar uppskriftir, og m.a.  þörfina fyrir það að ónefndir félagsmenn fengju sér háreyðingu um skrokkinn, menn sem líta út eins og apar. Ekki meira um það. Sunnudagshlaup 10:10. kv. ritari.

Kærleiksheimilið

Freud sagði það að fyrstu fimm ár mannsævinnar væru mikilvægustu mótunarárin, þá væru sett þau mörk á mannssálina sem upp frá því væru ekki burtu máð. Allt sem gerðist eftir það væri endurspeglun hinnar fyrstu meitlunar atgervisins og skaphafnarinnar.

Allir sem mig þekkja og umgangast vita að ég er beygður og bugaður maður. Brotinn, vesæll, vinafár, ef ekki beinlínis vinalaus. Það var ekki alltaf þannig. Ég átti sólskinsríka æsku, var glatt barn, eðlilegt, átti fjöld vina og yfir endurminningunni hljómar söngrödd söngdrottningar Íslands um alla tíð, Ellýjar Vilhjálms. Þegar ég var fimm ára eignaðist ég fallegt þríhjól, þetta var fallegasta þríhjólið í götunni, með marglitum plastböndum út úr handföngunum. Ég var mjög stoltur af þríhjólinu, það var mjög drifmikið, eins og það var kallað í þá daga. Það fór hikstalaust í gegnum alla drullupolla, allar brekkur og allar ójöfnur.

Nú bjó ég við þær aðstæður, sem víða þekktust, að ég var umkringdur ættingjum, umfram allt bræðrum. Að mörgu leyti var ég stoltur af bræðrum mínum, þeir voru allir stærri og sterkari en ég, en dugðu illa til götubardaga sem gjarnan brutust út í Mosgerðinu, kannski meira um það seinna. Þó sættu þeir lagi, á einn eða annan hátt, að níðast á yngsta bróðurnum: mér.

Ein helzta aðförin að mér fimm ára gömlum var að grípa þríhjólið mitt fína og renna sér á því inn eftir steyptri stétt heim að húsi okkar sem faðir okkar hafði byggt. Gerðu menn þetta til þess að auka sér leti og létta sér ferð heim í hús að næla sér í næringu. Með tímanum hafði þetta þau áhrif að þríhjólið fallega var ekki svipur hjá sjón, plastböndin slitin, hjól og legur að slitna svo að hjólið fór allt að jagast til og endaði sem óttalegur garmur; eitt sinn gómaði faðir minn einn skemmdarvarginn, síðar ónefndan aðstoðarskólameistara ungdómsakademíu við Hagatorg, hellti sér yfir hann og spurði: Og ertu svo borgunarmaður fyrir skemmdunum sem þú hefur valdið á þessu ágæta þríhjóli? Fátt varð um svör, sem von er, enda er téður skólamaður að því leyti ólíkur okkur frændum Ó. Þorsteinssyni og Ó. Kristjánssyni að honum svipar meira til sveitamanna, meðan við frændur erum synir borgarinnar og fáum heimþrá ef leið okkar liggur fyrir einhverja slysni austur fyrir Snorrabraut.

Nú á efri árum verður mér æ sem oftast hugsað til þessara ára og þeirra varanlegu menzla sem mér voru ásömkuð af illri meðferð á því tæki sem mér þótti vænst um á þessum árum. Mér finnst mikilvægt að eiga þess kost að fá útrás fyrir því sem hefur þjakað mig öll þessi ár og getur útskýrt hvers vegna ég er það ólíkindatól sem góðir menn hafa bent á að ég er. (Finnst ykkur eins og mér að inntak eða merking orðsins "útrás" hafi breytzt?)

Meðan ég man: maður nokkur drykkfelldur var stöðvaður í þriðja skipti ölvaður á bíl sínum. Löggi gerði honum ljóst að nú væri komið að stórum ákvörðunum: hætta að drekka eða hætta að keyra, hann fengi tveggja daga umþóttunartíma. Maðurinn orti:

Eilítið ég á mér finn,
ekki er það meira.
Ekki á morgun heldur hinn
hætti ég að keyra.

Til samanburðar, hin vísan, um manninn sem var stöðugt drukkinn, kom heim til konu sinnar á laugardagskvöldi drukkinn, og hún setti honum úrslitakosti: nú verður þú hættur að drekka á mánudagskvöld, annars fer ég.

Eilítið ég á mér finn,
að mér setur kvíða,
ekki á morgun, heldur hinn,
hætti ég að drekka.

Hún er eiginlega betri þessi.

En að atburðum kvöldsins, ég komst ekki í hlaup vegna embættisverka í Lýðveldinu, og veit að svipað var ástatt með blómasalann, en mættir voru Helmut, dr. Jóhanna, Eiríkur, Björn, bifreiðarstjórinn og einhverjir fleiri. Ég mætti í pott, þangað mættu framangreindir, auk blómasala og aðstoðarmeistara ungdómsakademíunnar nýskorinn og á batavegi, og svo dr. Einar Gunnar, velunnari Hlaupasamtakanna. Var þar legið í góða stund og rætt um þá atburði sem framundan eru, einkum þó jólahlaðborðið að frú Marentzu n.k. sunnudag. Ritari getur staldrað við í 15 mín. - er á leið utan til mikilvægra starfa í þágu Lýðveldisins. Útlit er fyrir góða þátttöku, viðstaddir hugðust taka með sér fjölskyldumeðlimi, enda kvað vera útbreiddur áhugi fyrir því að berja augum ýmsa kynlega kvisti Hlaupasamtakanna, svo sem blómasalann, ritarann, Kalla kokk, Bjössa kokk, Magnús, Þorvald, og þannig má lengi áfram telja. Svo sem kunnugt er tilkynnti Einar að verðið væri 3.700 kr. ÁN AFSLÁTTS, gengið var á hann um það hvort afsláttur væri inni í myndinni - hér færðist blómasalinn undan að svara og virtist ekki hafa mikinn áhuga á að auka velferð Hlaupasamtakanna með því að berjast fyrir afslætti hjá frú Marentzu.

Jæja, við hittumst vonandi að hlaupi á föstudag, og svo aftur á sunnudagsmorgun, stutt hlaup í aðdraganda jólagleði á hinu hamingjuríka kærleiksheimili sem rekið er að Vesturbæjarlaug. Ritari. 


Glaðværð á laugardegi

Í gær, föstudag, átti ritari þess ekki kost að hlaupa með félögum sínum sökum anna, var að útrétta ýmislegt í aðdraganda jólaboðs að Holti, ekki meira um það. En mér var tjáð að sjö hefðu hlaupið: Kalli, Einar blómasali, Magnús, Þorvaldur, dr. Jóhanna, Rúna og Denni. Einnig var upplýst að rætt hefði verið um mat, en ekki gefnar neinar uppskriftir, hins vegar var lofað að send yrði út uppskrift að humarrétti. Hún er ókomin. Áhyggjur af því að hlaup yrði ekki fært í annála - þær voru óþarfar.

Ritari var hins vegar mættur í pott og átti þar góðar stundir ásamt með nokkrum félögum, vöngum velt yfir dagsetningu jólahlaðborðs að Hlíðarfæti - blómasalinn hefur pantað salinn hinn 2. desember þegar ritari hverfur af landi brott. Ekki vil ég verða til vandræða og heimta aðra dagsetningu, það er nánast sama hvaða dagur er nefndur, þeir eru allir erfiðir í desember sökum annarra boða og ferða.
Denni spurði hvort ekki væri öruggleg Fyrsti Föstudagur. "Tuttugasti og þriðji?" spurðu menn. "Tæplega." Nú hefur komið í ljós að kona sem frændi minn, Ó. Þorsteinsson, kallaði Merete, heitir í reynd Marentza, en rétt er að hún er færeysk. Ég velti fyrir mér hvort þessi ónákvæmni frænda sé vísvitandi, hann að prófa mannskapinn, hvort skilaboðin séu lesin eður ei. Maður veit það ekki.

Laugardagspottur var langur og letilegur. Ég tók eftir hlaupurum í öðrum potti, voru þar á ferð þær Ernstsdætur og systur, Martha og Bryndís, ásamt fleiri hlaupurum. Hún sló mig glaðværðin sem hvíldi yfir þessum hópi, einlæg gleði ríkti og brosið fór ekki af andlitum, eindrægni, samstaða, vinátta og innileg gleði yfir velheppnuðu hlaupi. Ég viðurkenni það að ég öfundaði þau eilítið yfir þeim þéttleika sem einkennir þennan hóp og mættum við margt af þeim læra, þessir einmana, vinalausu aumingjar sem eigum ekkert til annað en vinfengið við þær systur, öfund og afbrýðisemi, stöðugt baktal og einelti.

Sól - en enginn sjór

Þá veit ég próf. Fróði tekur gleði sína á ný, alla vega getur hann andað léttar, það var sumsé ekki farið í sjóbað í kvöld. Einhvern veginn var alltof kalt, það var fallegt veður, heiðskírt, en blés af austri (segir maður "blés af..."?), og einhvern veginn var ekki stemmning þótt dr. Friðrik væri mættur, en hann er helztur hvatamaður sjóbaða í hópi vorum, þ.e.a.s. eftir að próf. Fróði og Gísli rektor hættu að láta sjá sig að hlaupum. Það var vel mætt til hlaupa, Vilhjálmur, Þorvaldur í nýjum skóm, dr. Friðrik, Helmut, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Rúnar þjálfari og svo kom Una á síðustu stundu. Einnig var stödd dr. Anna Birna og saman ræddum við áhyggjur okkar af mataræði ónefnds manns í Franz, sem hefur uppi áform um mikið matarsukk um jólin, en átak í framhaldi af því. Rúnar var beðinn að stytta mál sitt á stétt því öllum var kalt, það var gefin skipun um hlaup út í Nauthólsvík og spretti þar og út að Kringlumýrarbraut.

Í dag fór það svo að ég hélt mig með öftustu hlaupurum, Einari, Friðriki og Helmut, rætt var um flugvélar, en Einar er sérfræðíngur í flugvélum, hann var spurður um Fokkerinn og vélarnar sem flogið er með núna. Hann veit hvaða vélar öll flugfélög á Íslandi fljúga með, Friðrik kvaðst hafa farið til Bandaríkjanna 1978 og spurði hvaða vélar voru í umferð þá: Einar kom með svarið strax, DC 6, fjórir hreyflar. Fjórir til þess að taka hana í loftið, tveir til að fljúga henni. Slökkt á tveimur á meðan. Hvílíkur hvalreki og fróðleiksnáma blómasalinn er, með "hvalreka" er ég á engan hátt að vísa til líkamsbyggingar blómasalans og frábið mér fyrirfram hvers kyns athugasemdir hér að lútandi. En talandi um hvali: lásuð þið bloggið hans Kára í dag, það er skondin mynd þar?

Við dáðumst að veðrinu á leiðinni inn eftir Sólrúnarbraut, himinninn var fagur og ekki var enn orðið alveg dimmt, súlan hennar Jófríðar í Viðey sást nokkurn veginn. Inni í Nauthólsvík urðum við að afsaka okkur þar eð sum okkar voru tímabundin og urðu að svíkja, fórum Hlíðarfót, en lofuðum á móti að taka spretti, og stóðum við það, vorum m.a.s. byrjuð á sprettum á Flugvallarvegi. Framhjá Loftleiðahóteli þar sem frú Merete Poulsen býður upp á ljúffengt jólahlaðborð. Rákumst þar á Vilhjálm og Þorvald og fylgdum þeim smáspöl. Þeir fóru nokkuð hratt yfir og hurfu svo undir Bústaðaveg, en við fórum hjá höll Gvuðsmanna, ég, dr. Jóhanna og Helmut, ræddum veikindi próf. Fróða, en dr. Jóhanna umgengst hann daglega og fylgist með honuml, en kvaðst forðast að ræða við hann um heilsufarið. Líklega verður einhver góður maður að fara að hringja í hann og athuga hvað stendur í vegi hlaupa.

Hlaupið var að öllu leyti hagstætt og fór vel með okkur, þótt kalt væri í veðri. Við töltum tilbaka til Laugar þar sem við hittum Magnús, sem var of heilsulaus í dag til að hlaupa. Teygt, farið í pott og svo fór ritari að telja dósir með sunddeild KR.

Nú líður senn að því að yfir okkur hrynja boð af öllum stærðum og gerðum, en reynum samt að halda haus og mæta til hlaupa. Í gvuðs friði, ritari.

Ljúft eins og dans

Sumir dagar eru góðir dagar. Þannig var dagurinn í dag. Þoka lagðist yfir höfuðborg Norðursins, súld, úði, hiti um 8 gráður meðan snjór hylur Evrópu og Skandinavíuskaga, stilla. Það var einhver anti-klimax í loftinu eftir ákaflega vel heppnað sunnudagshlaup þar sem helztu öðlingar Hlaupasamtakanna voru saman komnir og þreyttu eftirminnilegt hlaup saman og áttu góðar samræður á meðan. Sá er hér ritar var svartsýnn á þátttöku - sem var óþarfi, því þegar komið var í Brottfararsal úr útiklefa sátu þar dr. Friðrik og Vilhjálmur Bjarnason, báðir í góðu skapi og tóku aðkomumönnum vel. Hefðbundnar kýtur hófust og ásakanir um að ritari færi með rangt mál og álygar um vandaða menn.

Hlaupið hefðbundið mánudagshlaup út í Skerjafjörð, ánægjulegt að sjá Önnu Birnu og aðra konu með henni sem fylgdu okkur eftir, Björn kokkur og maður sem mig minnir hafi verið kallaður Bjarni bifreiðastjóri, sá var klæddur stuttbuxum og stuttermabol - sem er lýsandi fyrir veðráttuna og ekkert fráleitt! Sjálfur kaus ég að fylgja dr. Friðriki og má segja að samfylgd okkar hafi verið ein samfelld matar- og drykkjarveizla. Það var rætt um julebryg á Kastrup, rostbiff, aðrar blandaðar brauðsneiðar, hreindýrasteikur af ýmsum tegundum, Mannerheim-snapsa, rússneskan veitingastað í Helsinki sem mælt er með, Saslik á Neitsytpolku 12 í Helsinki. Frábær matur þar. Sögur því til staðfestingar.

Rætt áfram um ýmsa danska matsölustaði og danska rétti, Hviids Vinstue, pariserböf, o.fl. o.fl. Ætla mætti að Einar blómasali hafi hér verið viðstaddur og ráðið ferðinni, en svo var ekki. Hann hljóp ekki í kvöld. Við fórum sannkallaðan aumingja, líklega bara 6 km, og sést hvílík þörf er fyrir alvöruhlaupara eins og próf. Fróða til þess að rífa starfsemina upp, allt er að lognast niður og hætt að spenna glyrnur austur fyrir Kringlumýrarbraut - þetta er dapurlegt!

Mikið myrkur og þoka hvíldi yfir Skerjafiðri og Ægisíðu - maður bjóst við því að lenda í fanginu á e-i á hverri stundu, en þetta bjargaðist. Hlaupið var mátulegt, ég aumur með ónýta hnéskel, fleiri daprir í nánd, Magnús og Guðmundur fóru eitthvað svipað og við.

Ég lá í potti og vorkenndi sjálfum mér, þegar ég sá kunnuglegar útlínur lauma sér í heitasta pott. Fór yfir og sótti ónefndan blómasala sem kvaðst hafa verið upptekinn í viðskiptum og því misst af hlaupi, var á leiðinni út á lífið með viðskiptapartner. Ég gaf honum leiðbeiningar um hvert hann gæti farið til þess að fá ódýran, en jafnframt góðan og hollan mat.

Næst er hlaupið á miðvikudag undir stjórn Rúnars þjálfara, eins og segir í auglýsingunni: alla er farið að hlakka til (væri rétt svona: Allah er farið að hlakka til - nema... hélt Allah upp á jólin?). Nei, pæling. Í gvuðs friði, ritari.


Faðir minn - flugdólgurinn

Þessi missirin er í tízku að rita bækur um skyldmenni sín. Dæmi þar um er ný bók fréttaþularins Eddu Andrésdóttur um föður sinn sem veiktist af Alzheimer með þekktum afleiðingum. Dóttir mín tilkynnti mér að nú stæði til að hún ritaði um föður sinn - eini titillinn sem henni datt í hug var fyrirsögn þessa pistils, Faðir minn - flugdólgurinn. Hvaðan henni er kominn þessi titill er mér hulið, og virðist sem skæðar tungur og illar hafi villt um fyrir henni.

Mættir til hlaups á þessum fagra sunnudagsmorgni voru helztu og beztu hlauparar Hlaupasamtakanna, engir eymingjar þar: Magnús, Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Einar blómasali og Ólafur ritari, og þykist ég vita að hrollur fari um lesendur þegar þeir renna yfir þessa upptalningu: hvílíkur hópur, hvílíkt mannval! En meira um það seinna. Veður var fagurt í morgun eftir storminn sem reið yfir landið í dag: stilla, frost, kyrrt, hægviðri, bjartviðri, sól - gerist ekki betra á þessum árstíma. Magnús var í nýjum jakka, eða þannig, ekki beinlínis nýjum, en allir hinir voru óhreinir og þessi einn eftir. Við hældum honum á hvert reipi fyrir jakkann, og töldum hann eiga heima í hvaða tízkutímariti sem er. Magnús var eðlilega uppveðraður af þessum viðtökum jakkans, en Ó. Þorsteinsson var fljótur að skjóta hann niður (sem mér fannst óþarfi): "Þetta er svona kaupfélagsjakki frá Bretlandi, frekar billegur." Svona segir maður náttúrlega ekki við félaga sína á sunnudagsmorgni.

Einhverra hluta vegna voru menn bæði seinir og orðmargir í Brottfararsal, um margt var að ræða, VB með Landsvirkjunarhúfu sem lagðist illa í viðstadda, einkum Jörund hlaupara og Jón Bjarnason þingmann, sem leið átti um á sama tíma. Nú vantaði aðeins Þorvald til þess að hlaup mætti kallast fullkomið, nema ef frá er talinn Birgir Jógi. 

Farið út rólega og rætt um byggingamál Formanns, en til stendur að hann hækki hús sitt og auki rými allt, en ekkert hefur gerst í þrjú ár. Honum var bent á að iðnaðarmenn væru hugsanlega tilkippilegri ef þeim væri borgað, eða altént lofað borgun, fyrir verk sín. Þetta hafði frændi minn ekki hugleitt, en lofaði að athuga þennan möguleika.

Verulega góður andi ríkti í hópnum framan af á Ægisíðu og eindrægnin í fyrirrúmi, rætt um gjallarhornssýki, hlutafélög og óskiljanleg viðtöl við menn í fjölmiðlum, en einkum kvartaði Jörundur yfir því að stundum þegar hann læsi viðtöl við menn, t.d. í viðskiptablaði Moggans, þá skildi hann æ minna hvað menn væru að meina eftir því sem hann læsi viðtalið oftar. Ég spurði Ó. Þorsteinsson hvort hann hefði lesið viðtalið. "Já, já", sagði frændi minn. Ekki meira um það, svona er frændi minn orðfár og varfærinn maður, ekki til í honum ómerkilegheit eða vilji til þess að tala ílt um aðra. Þannig hefur hann alltaf virst mér og skýrir hvers vegna hann hefur komist til þeirra metorða innan Samtaka vorra sem dæmin sanna. Jörundur fór á flug þegar hann sá fjöllin á Reykjanesi, og fór að tala um gufur og reykjastróka, álver og virkjanir, en Einar mælti gegn þessu og taldi lítinn skaða þótt álver og virkjanir risu syðra, það væri bara framfaramál. Einhvers staðar á leiðinni var rætt um baráttu fjárfesta fyrir því að fá aðgang að hluthafafundum - vesalingur minn misskildi þessa viðleitni á þann hátt að hér væri á ferðinni sókn í mat og drykk, menn vildu inn á fundina til þess að fá að borða og drekka. VB brást ókvæða við og óttaðist ég um stund að hann ætlaði að hætta hlaupi, en hann lét nægja snaggaralegar skammir og tók aftur upp hlaup.

Í Nauthólsvík var staldrað við og þar mættum við konum sem voru nafngreindar, búsettar í Kópavogi og Árbæ og hlaupa frá Árbæjarlaug með nafngreindum þjálfara. Hér heimtaði Ó. Þorsteinsson strax ættartölu og curriculum vitae auk greinargerðar um helztu afrek á hlaupabrautinni. Þær brugðust fálega við - en VB greip inn í og fullyrti að næst myndi ÓÞ heimta upplýsingar um marital status og barneignir og hvatti þær til þagmælsku. Þær héldu að þetta væri gönguklúbbur, en við leiðréttum það og bentum á að hér færi fram mikil menningarumræða og upplýsing, persónufræði og greining á þróun hagstærða.

Það var kalt í Nauthólsvík í dag og því var haldið áfram í Kirkjugarð, varpað fram tilgátuspurningu þar sem svarið var Gísli Ragnarsson - en ég man ekki vísbendingarnar, þær voru vonandi góðar. Hér spurði Ó. Þorsteinsson hvort menn hefðu séð Spaugstofuna kveldinu áður. Nei, ekki almennt. Þá bað hann menn að skoða hana um kvöldið og athuga hvort þeir sæju það sama og hann - mann sem kom út úr skáp, talandi um álitsgjöf og heita Vilhjálmur.

Nú var rætt um fjandvini. Ritari hafði nefnilega tekið eftir einkennilegum samstæðum: ónefndum organista sem sækir VBL á morgnana og lækni nokkrum, þar sem köpuryrðin ganga á milli nánast linnulaust, og organistinn í hlutverki þess önuga, læknirinn í hlutverki hins glaðlynda, umburðarlynda og eilíft hneggjandi viðmælanda sem aldrei styggist. Þarna var fundin samsvörun við samskipti þeirra ÓÞ og VB, annar önugur og gagnrýninn, hinn geðprýðin uppmáluð, alltaf til í að hringja í vin sinn á sunnudagsmorgnum til þess að hlera ástand mála, alltaf til í að miðla málum og sættast.

Svo var haldið áfram, við kólnuðum hratt niður og því mikilvægt að halda á sér hita, ég lenti með Magga og Jörundi á Klömbrum, við vorum á undan þeim hinum, og við vildum ekki stoppa meira eftir þetta vegna þess að Jörundur var illa klæddur og þoldi illa göngustopp. Fórum samt út á Sæbraut þrátt fyrir norðangarra og fórum gegnum miðbæinn. Stöldruðum við hjá Hafnarhúsinu þar sem verið var að rífa niður viðbótarbyggingu vegna brúðhlaups Jóns Ásgeirs og Ingibjargar, þar urruðu verkamenn að okkur, en við létum það ekki hindra okkur í að reka inn nefið. Lítið að sjá þar, héldum áfram út á Ægisgötu og svo þá leið tilbaka.

Í Brottfararsal beið okkar Pétur hennar Unnar. Steinunn sagði að hann væri orðinn þunnhærður framan á höfði sökum eilífs vindbelgings í Vesturbæ, enda væri hann uppalinn í Vesturbænum. Við horfðum hver á annan og gátum ekki annað en staðfest að líklega væri rétt með farið, allir lítt hærðir framan til. Svo sagði Steinunn að Pétur væri skurmslaður í andliti vegna þess að þegar lægði, passaði hann sig ekki á því og félli fram fyrir sig og á andlitið.

Í pott vantaði helztu andleg máttarvöld Samtaka Vorra: dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, sá fyrrnefndi mun vera í Washington, og sagði Ó. Þorsteinsson að ferðasögur dr. Baldurs væru tvennrar náttúru: fyrir ferð og eftir ferð, en báðar væru svo að segja samhljóða frá orði til orðs. VB staðfesti þessa fullyrðingu ÓÞ. Blómasalinn fór aðeins í heitasta pott og mætti ekki til helgra tíða í barnapotti eins og hefðin býður, af þeim sökum segir ekki meira af honum hér. Rætt um hreindýrskjötbollur sem ritari varð aðnjótandi kveldið áður - af því spunnust miklar ættfræðiumræður og enduðu með níðingslegum vísbendingaspurningum Vilhjálms Bjarnasonar og meðfylgjandi vandræðalegum þögnum frænda míns og tómeygð - þar til viðurkennt var að hugsanlega þyrfti Ó. Þorsteinsson að fara að lesa sér örlítið til um venzl manna og dýpri tengsl.

Staðfestur sáttmáli um að í Vesturbænum hlaupa glaðsinna galgopar, sem stefna ekki að árangri í hlaupum, heldur að framförum í mannlegum samskiptum, andlegum þroska, upplýsingu, þekkingu - en umfram allt að því að njóta hlaupa, útiveru, og félagsskapar. Á morgun er nýtt hlaup með þjálfara, þá verður gaman, alla hlakkar til, eins og segir í auglýsingunni. Í gvuðs friði. Ritari.

Where have all the flowers gone?

Nei, bara pæling. Og nostalgía. Veður með eindæmum gott, 10 stiga hiti, regnúði í lofti og lognstilla. Það var tíðindalítið í Brottfararsal enda var Vilhjálmur Bjarnason ekki mættur, og ekki Þorvaldur. Hins vegar komu þessir: Gísli, Denni, Magnús, ritari, Rúna, Hjörleifur, Einar blómasali, Helmut og Birgir. Segja má að liðið hafi verið fullskipað, ef horft er framhjá fjarveru fyrrgreindra tveggja dánumanna. Það flugu glósur af ýmsu tagi meðan staldrað var við og beðið eftir þeim sem seinir voru, aldrei þessu vant var Helmut síðastur að mæta, nema auðvitað Birgir, sem ávallt reynir á þanþol tímatakmarka og kemur rétt um það bil sem menn og konur eru reiðubúin að leggja í hann.

Rúna var með rafmagnslausan Garmin og þar með gagnslausan. Af hverju fólk mætir með rafmagnslaus leiðsagnartæki í hlaup er mér hulið, en við hughreystum Rúnu með að farnar yrðu kunnar leiðir og engin hætta á að villast. Er komið var út á stétt fóru menn strax að tala um að líklega yrði norðangarri á Sæbrautinni og því skynsamlegt að fara aðrar leiðir, stytta og fara í skjóli milli húsi. Ég, verandi fulltrúi hugsýnar prófessors Fróða um dugmikla hlaupara og öflug Hlaupasamtök, reyndi að blása hug og metnaði í hjörtu hlaupara, en með misjöfnum árangri. Farið hratt út og get ég með góðri samvizku sagt að ég var í hópi fremstu hlaupara sem fóru hratt yfir, líklega á 5 mín. tempói, þar voru auk mín Magnús, Denni og Hjörleifur. Þetta eru allt afbragðshlauparar og fara hratt yfir, eru léttir á sér. Við inntum Denna eftir fregnum af Nesi og fengum að heyra að til hafi staðið að reka Friðbjörn formann fyrir að hlaupa með Hlaupasamtökunum, og staðið hafi trúarbragðastyrjöld og nornaveiðar vikum saman meðan verstu hryðjurnar gengu yfir.

Öftustu menn voru blómasali og Birgir jógi og fleiri, og alla leiðina heyrði maður í Birgi, hann þagnaði ekki eitt augnablik. Ekki var nú talað af viti þar, það var bullað og bullað og merkilegt hvað menn geta haldið áfram að prjóna við vitleysuna. Áhyggjur af vinslitum milli ónefnds álitsgjafa og þekkts velunnara hlaupa og útivistar í Vesturbæ, frænda ritara, en ég fullyrti að allt það væri orðum aukið og ekkki til að vera að velta sér upp úr. Frændi minn væri slíkt valmenni að hann væri fljótur að gleyma úlfúð og misgjörð. Á kúrsi út í Skerjafjörð lentu Gísli og Denni í miklum ættfræðisamræðum sem snerust um einhverja Gísla, Kjartana og Ragnara - og fór viðstöddum fljótt að blöskra orðræðan.

Þessi sterki hópur hefur það sér til ágætis að hann vill gjarnan þétta raðirnar, enginn skilinn eftir, beðið eftir seinkomnum og seinhlaupnum. Þannig fórum við nokkurn veginn samtímis upp Hi-Lux og brekkuna, tímajafnað er upp var komið. Beðið extra eftir blómasalanum sem var extra-seinn. Þannig áfram um Veðurstofuhálendið, MH og Klambra. Það togaðist á í okkur að gefa í og slaka á og bíða eftir þeim sem sein voru, vissum ekki alveg hvernig við áttum að hegða okkur. Hins vegar má það segja okkur til hróss að við fórum nokkuð hratt yfir - eftir á sagði Hjörleifur að við hefðum verið á sæmilegu tempói, en ég vil meina að við hefðum farið nokkuð hratt yfir og verið á góðum hraða.

Hér urðu vonbrigðin, á Klömbrum. Þar tóku menn sig saman um að forðast Norðurhliðina, völdu Laugaveginn, ég var djúpt í frásögn af merkilegum mönnum á Rauðarárstíg, var að leiðbeina Birgi um eitthvað, þegar ég lenti á járnstólpa við fortóið með hnéð mitt og hef sennilega maskað hnéskelina, en lét ekki á neinu bera og hélt áfram hlaupinu. Ég var ósáttur við að stytta um Laugaveginn, en það vildi svo til að í hópnum í dag voru slíkir opinberunarsinnar og gjallhyrningar að ekki var við neitt ráðið, það átti að sýna sig og opinbera á helztu verzlunargötu Reykvíkinga í von um að hitta fyllibittur, verzlunarsjúka Íslendinga, veðsjúka menn og fleira í þeim dúr.

Við skeiðuðum eftir Laugaveginum, og tókum eftir því að við höfðum götuna út af fyrir okkur, það komu einfaldlega engir bílar! Það var ljúft, um þetta leyti hafði Rúna blandað sér í hóp fremstu manna og lék grunur á að hún ætlaði að reyna að trekkja menn upp á síðustu metrunum. Menn héldu tempói og slógu ekki af - nema blómasalinn sem týndist eftir Klambra og sást ekki aftur fyrr en nokkuð var liðið á pott. Svo var bara gefið í, Laugavegur, Bankastræti, Austurstræti, Ingólfstorg, Kvosin og upp Túngötu, niður Hofsvallagötu, við hús númer 16 sagði Magnús: "Náum ljósunum!" en þau voru að breytast í grænt. Hann gaf í og náði ljósum, við hin urðum að játa okkur sigruð. Sem var allt í lagi og breytti litlu. Komum nokkuð jafnsnemma á plan. Teygðum vel og ræddum málin. Mættur Þorleifur Borgarstjóri, að beiðni Birgis bukkuðum við okkur og beygðum, fórum nánast á hnén í fullkominni lotningu, svo var haldið í skýli. Þar hélt leikritið áfram, gvuð veit hvar þetta endar.

Í potti beið dr. Anna Birna, það fyrsta sem hún sagði þegar ritari birtist var: "Æ, nú man ég, að ég á eftir að panta mér gistingu í Brussel." Gvuð má vita hvaða hugrennningatengsl þar búa að baki. Síðan komu öðlingarnir hver af öðrum. Stefnir í vandræði með heimilissátt hjá þeim feðgum Helmut, Teiti og Tuma; þeir bræður lýstu yfir að þeir ætluðu að styðja MR í Morfís-keppni kvöldsins, en Helmut mun vilja styða FÁ. Birgir hélt áfram að bulla í potti, makalaust hvað hann endist til þess að bulla, vitleysan veltur upp úr honum án þess að nokkurn enda virðist að sjá á henni. Menn sátu gáttaðir og hlustuðu - en svo hafa þeir líklega hugsað sem svo: Er ég virkilega hérna ennþá að hlusta á þetta? NEI! Menn steðjuðu úr potti og héldu til sinna verka í Lýðveldinu.

Fyrirsögnin vísar til þess að fjarverandi voru margir góðir hlauparar og félagar sem menn sakna, og mega gjarnan fara að sýna sig, nefnum engin nöfn, að góðum sið frænda míns, Ó. Þorsteinssonar, sem aldrei segir nafnlausar sögur. Ritari.

Blómasali bilar í baki - ráðgerir stóra hluti

Hlaupafélagar geri sig klára fyrir stórtíðindi úr ranni blómasala í Vesturbænum, frá honum er að vænta stórra tilkynninga sem koma munu á óvart og vekja eftirvæntingu. Í útiklefa mætti Helmut og áttu þeir ritari hljóðlátt skraf um fyrirhuguð hlaup á vori og skemmtanir í framhaldi af því, en stundum hefur verið rætt um að hlaupa á heimaslóðir Helmuts í Mosfellssveitinni, eina 25 km, fara í sund í Varmárlaug og halda svo til fjallaskála Helmuts, eta þar og drekka. Voru lögð fyrstu drög að slíkum viðburði í útiklefa í dag. Svo mætti ónefndur blómasali og var vígreifur. Skipst var á orðum og ónotum.

Vilhjálmur Bjarnason hafði gleymt jakka. Bað mig að útvega sér einn slíkan. Ég fór og talaði við blómasalann, falaðist eftir jakka handa VB. Hann seldi mér í hendur illaþefjandi treyju. "Þetta er ekki jakki" sagði ég. "Þetta er nógu gott í hann Vilhjálm Bjarnason" sagði Kristján Skerjafjarðarskáld, sem mættur var í útiklefa. Ég fór með treyjuna í Brottfararsal og hugðist rétta Vilhjálmi. Honum hryllti greinilega við tilhugsuninni um að draga treyjuna á skrokkinn og þvertók fyrir að þiggja boð blómasalans, rak mig öfugan út í klefa að skila treyjunni. Ég flutti honum kveðju Skerjafjarðarskáldsins. "Já, segðu honum frá mér að hann sé leirskáld!" hrópaði VB. Enn fór ég í útiklefa, grýtti treyjunni í blómasalann, en hafði ekki geð í mér að segja Kristjáni hvað VB vildi segja honum, mér fannst það einum of, sagði bara að Villi hefði efasemdir um skáldaæðina í honum.

Aðrir mættir Friðrik, Jörundur, Þorvaldur, Þorbjörg, Una, ókunn kona, Rúnar þjálfari... Þessi hópur hélt af stað út í myrkrið og hafði þá eina skipun að fylgja þjálfaranum. Vandinn var hins vegar sá að þeir Vilhjálmur og Þorvaldur settu strax í fluggírinn, þjálfarinn á eftir og konurnar. Við hinir vorum fótum seinni að ná upp hraða, og um það bil sem menn komu út á Einimel voru fremstu hlauparar horfnir sjónum okkar. Við fórum sem leið lá út á Ægisíðu og vonuðumst til þess að hitta þau þar, sáum þeim bregða fyrir öðru hverju á einhverjum bakleiðum um Grímsstaðaholtið, Einar blómasali emjandi af samvizkubiti, aðrir vongóðir um að hitta mannskapinn þegar hann sneri niður á Síðuna. Við hlupum áfram í myrkrinu og pössuðum okkur á að rekast ekki á fólk eða reiðhjól, en sem menn muna er mikið myrkur á Ægisíðu á þessum tíma árs. Rákumst öðru hverju á heila hlaupahópa eða einstaka hlaupara sem virtust hafa villst frá hópi sínum; hélt þessu fram allt hlaupið. Rætt um húsnæðisverð og húsnæðiskaup á Ægisíðu og í Skerjafirði, við héldum hópinn fjórir: Jörundur, Friðrik, blómasali og ritari. Einnig um horfur í efnahagsmálum, rekstur fyrirtækja, einnig um heilsufar ónefndra hlaupara.

Eins og menn vita er það helzta skemmtun tiltekinna hlaupara að þrjóskast við að fara í sjóinn á miðvikudögum. Að þessu sinni ráku þeir Helmut og Friðrik harðan áróður fyrir því að farið yrði í sjóinn, erfitt var að standa gegn þessu og varð niðurstaðan sú að tveir framangreindir hlauparar auk ritara fóru í 6 gráðu kaldan sjóinn og þreyttu sund. Fóru að því loknu upp á rampinn og klæddust að nýju. Kemur þá ekki móður og másandi Rúnar þjálfari, búinn að þefa okkur uppi og greinilega ekki búinn að gefa upp alla von um að það mætti fá okkur til þess að taka nokkra spretti. Hann beið eftir að við lykjum okkur af á planinu, svo var haldið um Hlíðarfót, blómasalinn og Jörundur löngu farnir. Við fórum á rólegu tempói og ræddum um maraþonhlaup. Á Hringbrautinni tókum við nokkra góða spretti og tókum allir vel á því. Ótrúlegt var að sjá þessa veiku og gömlu menn spretta svona úr spori. Mættu margir yngri menn taka þá sér til fyrirmyndar. Er þrautseigja, en jafnframt umburðarlyndi, þjálfarans aðdáunarvert og hefur hann góð áhrif á menn, sem maður hefði jafnvel afskrifað sem vonlaus keis.

Við teygðum vel á stétt og rifjuðum upp sögur úr Eyjum, m.a. þegar vinirnir Einar og Ó. Þorsteinsson voru staddir þar á pæjumóti, og Einar yfirgaf vin sinn orðalaust, tók síðasta bát í land, veifandi til Ólafs sem átti leið niður á hafnarbakka. Vilhjálmur forvitnaðist um vinslit sem greint var frá í seinasta pistli, vinslit sem hann vissi ekki að hefðu átt sér stað. Ég greindi eftir minni frá því sem frændi minn sagði um þennan viðburð s.l. mánudag. Fullyrti VB að þetta væri tóm vitleysa, hann hefði einfaldlega leiðrétt ónákvæmar upplýsingar frá Ólafi og væri ekkert nýtt.

Í potti sat Eiríkur Jórvíkurfari, vel hlaupinn hlaupari, og sagði frægðarsögur af hlaupinu í Nýju Jórvík. Við lögðum drög að maraþoni í Berlín á næsta ári, meira um það frá blómasalanum fljótlega. Svo var rætt um mat og jólahlaðborð - hér sprakk Eiríkur. "Hvaða snakk er þetta eiginlega! Hafa menn ekki gert sér grein fyrir að þetta er ekki hópur einhverra grallara og gálgafugla! Þetta eru alvöru hlaupasamtök. Hér verður að bæta við Boot Kamp æfingum kl. sex á morgnana, við verðum að krefjast þess að menn taki hlaupin alvarlega. Við verðum að fara að gera kröfur til hlaupara og ekki sætta okkur við fólk sem ekki tekur á því. 1. febrúar 2008 höldum við 10 km hlaup og þeim sem ekki hlaupa undir 40 mín. verður meinað að hlaupa með okkur framvegis!" Var hann í miklum ham og ljóst að mikill  hlaupari er mættur til þess að láta til sín taka.

Jörundur og blómasalinn tóku kast yfir mikilli fjarveru ritara og miklum ferðalögum. En vonandi grípur framkvæmdagleði blómasalann og hann kemur því í verk sem um var rætt í potti. Næst: föstudagur.

Menningarviðburður við Flugvöllinn

Það verður erfitt að greina frá hlaupi dagsins í hinu stutta, hnitmiðaða formi sem ritari hefur tileinkað sér og sumir telja að beri ýmis einkenni hins unga Hemingways, og jafnvel ákveðna síðlaxnesska drætti, svo margt bar til tíðinda, og einkum þó á góma, voru þar margir fjarverandi hlauparar milli tannanna á fólki. En byrjum á byrjuninni - enn er komin neytendakönnun í Brottfararsal og við miðaldra, háskólamenntaðir, karlkyns hlauparar stóðumst ekki freistinguna að taka könnunina, AFTUR. Hvernig skyldu niðurstöður verða? Mættir Friðrik og ritari, svo komu kunnugleg andlit aftan úr grámósku gleymskunnar: Gísli, Sjúl og Kalli kokkur, Magnús, Björn, Anna Birna, Þorvaldur, Una, Þorbjörg, og hugsanlega einhverjir fleiri sem ég gleymi. Enginn var þjálfarinn, en hins vegar ströng fyrirmæli um hlaup af ákveðinni tegund, inn í Nauthólsvík, og svo sprettir í brekkunni upp að Hi-Lux.

Því er ekki að neita að ýmsir viðstaddir uppgötvuðu möguleikana sem fylgdu því að þjálfaralaust var í kvöld, því ekki að óhlýðnast, fara hefðbundið, vera frjáls? Nei, af einhverjum inngrónum undirlægjuhætti og ósjálfstæði var ákveðið að gera eins og þjálfarinn lagði daginn upp, menn fóru tiltölulega rólega af stað, nema þeir Magnús og Þorvaldur sem sýna engu auktoríteti respekt - settu allt á fullt og Guðmundur með þeim. Ég tölti með Gísla á skaplegum hraða, mættum Benedikt sem kom út úr myrkrinu á Ægisíðu og slóst í för með okkur. Hann var rólegur framan af, svo náði Una okkur í Skerjafirði og eftir það var útséð með alla skynsemi.

Hér gerðust hlutirnir. Á móti okkur kemur kunnugleg vera, hlaupari í Balaklövu, þrútinn af átökum og áreynslu, þekktur velunnari hlaupa og útivistar í Vesturbæ, frændi ritara, sjálfur Ó. Þorsteinsson, en svo langt er um liðið síðan flestir hlauparar hafa hlaupið að þeir báru ekki kennsl á hlauparann. Líklega má einnig útskýra það með ellihrörnun ónefndra hlaupara, sem vissulega eru farnir að nálgast gamals aldur eins og það heitir. Nema hvað, við mætumst þarna í myrkrinu og var ekki laust við að sæluhrollur færi um viðstadda, að mæta Formanni til Lífstíðar á þessum stað - en síðar kom í ljós að hamingjan er skammvinn sæla, meira um þetta seinna.

Björn náði okkur, Una - hún yfirgaf okkur og tók Benedikt með, þau reyndu að ná fremstu hlaupurum. Ég veit ekkert um öftustu menn, það var eitthvert stjórnleysi í gangi í kvöld, menn runnu eins og safn af rollum um allar trissur án þess að hafa nokkurt markmið. Einhverjir söfnuðust saman við Nauthól og tóku spretti upp að Hi-Lux, ég fór fljótlega um Hlíðarfót, fór einn og þannig líður mér bezt: illa, einn. Mig grunar að Einar blómasali hafi ekki mætt til þess að mótmæla því að ég gleymdi að kaupa súkkulaði í síðustu utanferð minni. Hann er svo viðkvæmur.

Ég fór til þess að gera stutt í dag, hef haldið mig utan við þjálfunarprógramm að mestu, enda meira í útlöndum en forsetinn og því aðeins raunhæft að halda í horfinu, en ekki að stefna á einhverjar framfarir. Menn veltu fyrir sér heilsufari Ágústs, ég sagði þeim að nefna hann ekki ógrátandi, svo skelfilegt væri ástandið á þeim bænum og óvíst að hann hlypi meira, annar spítalamatur heitir Einar blómasali, en við búum sem betur fer við gott heilbrigðiskerfi sem getur boðið þeim úrræði við hæfi, endurhæfingu, göngugrindur og hvaðeina.

Í potti féll sprengjan: vinslit eru orðin með þeim VB og Ó. Þorsteinssyni. Frændi minn vildi ekkert tala um það, nefndi óeiningu um persónufræði og ártöl og gjallarhornssýki ónefnds íbúa í Garðabænum, annað væri það ekki. Við gengum á hann um ástæður þess að sletzt hefði upp á vinskapinn, en hann vildi ekki ræða það frekar. Setið um stund í potti, fræðst um aðstæður Kára sem fór á bókmenntahátíð í Nantes, hitti þar Íslendinga, hljóp í hádeginu á stuttbuxum! Rætt um vaxtastefnu Seðlabanka, vaxtaokur bankanna og fleira í þeim dúr.

Ég verð að koma á framfæri ábendingu um gott lesefni, sjálfsagt eru einhverjir búnir að lesa þetta rit: Tveir húsvagnar eftir Marinu Lewycku, í þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar, sem á skemmtilegar rispur þegar svo ber undir. Búinn með Arnald. Næst hlaupið á miðvikudag. Í gvuðs friði (vitiði annars hver átti þessa línu? Jóhannes úr Kötlum). ritari.

Sjósund í nóvember

Ég mætti kátum köppum í unnskiptingaklefa VBL er ég mætti til hlaups í dag, þar voru þeir Vilhjálmur Bjarnason, Björn kokkur og Þorvaldur, allir kampakátir og vígreifir. Ég bauð góðan daginn, en fékk engar undirtektir. "Hvað?" spurði ég, "bjóða menn ekki góðan dag hér?" "Þú talar allt of lágt" var svarið. Síðan tíndi ég af mér spjarirnar og stóð fljótlega á nærbrókinni einni. Þá hrópaði Þorvaldur upp yfir sig: "Nei, sjáið manninn! Sá er aldeilis að koma út úr skápnum! Í bleikum nærbuxum! Við verðum að vera á varðbergi." Ég hafði í sjálfu sér lítil svör - en fékk smástuðning frá Birni kokki sem sagði að bleikt væri í tízku og þætti til þess að gera módern. Svo komu þeir hver af öðrum, Magnús, Kalli, og uppi voru Einar blómasali og dr. Friðrik. Rúnar þjálfari og Þorbjörg. Veður hálf-leðinlegt, líklega um 6 stiga hiti, dimmt yfir, hægur vindur, rigning og ... nei.

Einhver skarkali varð í  Brottfararsal - en VB hafði stjórn á ástandinu, og áður en vitað var af voru menn komnir út á stétt og farnir að hlýða á þjálfarann, sem lagði línurnar: farið skyldi hægt af stað, það væri það eina skynsamlega. Inn í Nauthólsvík, bannað að fara í sjóinn, svo gætu menn annað hvort farið Hlíðarfót eða inn í kirkjugarð eða upp löngu brekkuna sem við fórum um daginn, Suðurhlíð eða hvað hún heitir, hjá Perlu og svo vestur úr. Það þurfti ekki að messa mikið yfir okkur, aumingjunum, við þökkuðum fyrir okkur og fórum bara hægt, fyrst ég, blómasalinn og Friðrik, svo bættist Magnús í hópinn, og var þakklátur fyrir að fá að dingla með okkur rolunum. Hann er að stíga upp úr kvefi og ekki vel frískur. Sömuleiðis var Friðrik að rísa upp úr veikindum, og ekki þarf að orðlengja um heilsufarið á blómasalanum, hann er nú bara spítalamatur og er mesta furða að ekki sé búið að stoppa hann upp eða búa til úr honum sýningardæmi fyrir kandídata.

Við fórum svo hægt yfir að það er raunar rannsóknarefni hvernig hægt er að færa fætur svo hægt hvorn fram fyrir annan og jafnframt vera á hreyfingu. Fljótlega misstum við af öðrum og sprækari hlaupurum, en undum sælir við félagsskap hver annars og umræður um ýmisleg málefni, ekki öll hafandi eftir, en hvað um það: við áttum góða stund þarna félagarnir. Allir í þokkalegu formi, meiðsli gerðu ekki vart við sig og áður en við vissum af vorum við komnir í Nauthólsvík. Björn hafði haft á orði að baðast, svo að við Friðrik fórum niður á ramp í leit að Birni; engan sáum við björninn, en sögðum sem svo, að úr því við værum komnir þarna væri synd að sleppa sjósundi: drifum okkur úr og skelltum okkur í svala ölduna, sem var yndisleg. Okkur varð hugsað til próf. Fróða, sem er einn mikill áhugamaður um sjósund, en getur, heilsu sinnar vegna, því miður, ekki sinnt því sem skyldi. Friðrik þótti leiðinlegt að hafa misst af októberstigi vegna veikinda sinna. Þá upplýsti ég hann um hina nýju reglu Ágústs: ef menn hafa á annað borð baðazt í október - þá eiga þeir októberstig um alla framtíð. Þessi regla varð til þegar ljóst var að Ágúst myndi missa af októberbaði 2007. Magnús og blómasalinn stóðu hjá og eru vitni um sjóbað okkar Friðriks. Óskast það fært til bókar. Vorum fegnir að enginn var búfénaðurinn á staðnum, sá hefði aldeilis verið æstur í að sleikja af okkur saltið.

Við klæddumst að nýju og vorum bara frískir, héldum áfram með þeim Magnúsi og Einari um Hlíðarfót og tókum eftir mikilli umferð framhjá félagsheimili Kristsmanna - og vörpuðum fram þeirri spurningu hvort ekki myndi umferðin færast í aukana með heilum háskóla á þessum slóðum, hvort ekki þyrfti að stækka veginn. Á Hringbraut ákvað ég að fara að ráðum þjálfara og tók þrjá spretti, sem entust mér frá Valsheimili að Háskóla. Með því skildi ég félaga mína eftir sem voru ekki jafn vel á sig komnir í kvöld og ég - þó má segja það blómasala til hróss að hann var ekki langt undan og reyndi sitt bezta til þess að spretta þrátt fyrir slæmt bak. Á plani var Skerjafjarðarskáld mætt og hafði góð orð um það ágæta uppbyggingarstarf er fram færi á vegum Hlaupasamtakanna í Vesturbænum. Við teygðum, sögðum nokkra brandara, flutt ein vísa, farið í pott. En bara stutt, það voru einhverjir leikir í Evrópukeppninni.

Þetta hlaup var einstaklega vel heppnað, ég fann ekki til meiðsla í mjöðm sem hafa verið að angra mig, og fór bara skynsamlega. Mér hugnast það þegar þjálfarar heimila skynsamleg hlaup og eru ekki að spenna menn meira en skynsamlegt getur talist, en fellst hins vegar á það sjónarmið að líkaminn hafi gott af því að gera eitthvað sem er óvænt og hann býst ekki fyllilega við, svo sem eins og að taka nokkra létta spretti.

PS
Sú athugasemd hefur verið gerð við sunnudagspistil að mér hafi láðst að greina rétt frá greiningu dr. Baldurs á persónufræði frænda míns Ó. Þorsteinssonar Víkings, þar sem fram kom að gæðastjórnun væri ábótavant í frásögnum Ólafs af ættum manna, tengslum, skyldleika, fæðingarárum o.s.frv. Mér er ljúft og skylt að staðfesta að dr. Baldur setti vissulega fram þessa skýringu, að Ólafur væri vísvitandi ónákvæmur til þess að vekja menn til lífs og umhugsunar og kalla eftir leiðréttingum og til þess að heyra hvort þeir væru með fullri meðvitund og hlustandi eftir þeirri speki sem í boði er hverju sinni. Það er minn lapsus að hafa fellt niður þessa skýringu, eða kannski kvikyndisskapur - svona er maður illa innrættur. Vigtun í fyrramálið - og svo útlönd. Í gvuðs friði, ritari.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband