Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Mánudagssprettir

Þegar aldurinn fer að segja til sín verður æ erfiðara að mæta kröfum þjálfaranna um spretti. Af þeirri ástæðu láta sumir hinir eldri hlaupara sér nægja að hlaupa eitthvað hefðbundið, meðan við hinir sprækari tökum spretti. Meira um það seinna.

Það var sumsé mánudagur og fremur kalt í veðri, komið frost. Það snjóaði um helgina, en sem betur fer var búið að ryðja hlaupaleið Samtaka Vorra á Sólrúnarbraut og alla leið út í Nauthólsvík, meira þurftum við helztu hlauparar ekki þennan daginn. Það átti að spretta úr spori. Mæting góð, margir hinna mætari félaga mættir, svo sem Jörundur, Kalli kokkur, S. Ingvarsson, próf. Fróði, Flosi, Magnús, Þorvaldur og þannig mætti lengi telja.

Rólega út að Skítastöð og svo yrði tilkynnt um prógramm. Stóðst þetta nokkurn veginn, nema sumir eiga ávallt erfitt með að hemja sig þegar þeir eru komnir af stað. Við Skítastöð stanzaði góður hópur hlaupara, en aðrir hlupu áfram og stefndu ýmist á Hlíðarfót eða Þriggjabrúa. Þjálfarar ætluðu að hafa sama hátt á og seinasta mánudag, 1 km og 500 m sprettir. En þegar upp var staðið tókum við hinir lakari hlauparar áskoruninni og fórum kílómetraspretti með þeim hinum, þótt eitthvað værum við seinni í förum.  ´

Ég slóst í för með þeim Sirrý og Þorbjörgu K. Héldum við hópinn fyrstu fjóra sprettina, en svo bættum við Sirrý við tveimur sprettum til viðbótar, fórum létt með það og vorum stolt af sjálfum okkur á eftir. Hinir fóru ýmist 6 eða 8 spretti og voru sneggri í förum en við. Fórum svo á hægu tölti tilbaka, sem endaði á tempói í kringum 5 mínúturnar. Svona getur Sirrý pískað mann miskunnarlaust áfram. Rætt um þau jólahlaðborð sem framundan eru, eigi ófá.

Teygt vel og lengi í Brottfarararsal. Pottur heitur og þéttur, þar var ekki töluð vitleysan fremur en endranær. Minnt er á skráningu í hið hefðbundna jólahlaðborð Hlaupasamtakanna, sem lýkur á hádegi á morgun.

Ekki fyrir aumingja

Sólskinshlauparar lágu undir fiðri á þessum sunnudagsmorgni meðan fjórar hetjur brynjuðu sig til hlaupa í 10 sm jafnföllnum snjó, fjögurra stiga gaddi og stífum austanvindi. Þetta voru Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur ritari. Nú kom ekkert annað til greina en balaklövur og flíspeysur, enda Vetur konungur farinn að herða tökin.

Rætt um hefðbundið útgáfuteiti ónefndrar bókaútgáfu þar sem okkar maður var mættur án þess að ljóst væri hver tenging hans væri við útgáfuna. Þá var gerð úttekt á hjónabandi Tiger Woods sem komst að því um helgina hvar Davíð keypti ölið þegar Elín kona hans Nordegren tók rispu á honum með golfkylfunni eftir að hann hafði að  mati dómbærra manna gert sér títt við annan kvenmann. Já, menn ættu að passa sig á þessum sænsku!

Það var samfelld samræða frá Laug til Laugar, á leiðinni austurúr voru sagðar margar, fallegar sögur, ráðningamál í ráðuneyti, pólitískar greiningar og farið yfir næstu jarðarfarir. Fórum hægt yfir á Sólrúnarbraut sökum vinds og færðar. Skaflar voru djúpir við flugbraut, og ekki á færi annarra en harðdálka að hlaupa þetta. Hefðbundinn stanz í Nauthólsvík, en hann hafður stuttur vegna kuldans. Áfram haldið í kirkjugarð þar sem kyrrðin ríkir.

Eftir þetta var farið nokkuð hefðbundið, Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar, Hlemmur og Sæbraut. Þar var dokað við og náttúran skoðuð. Hvílík forréttindi að vera hlaupari í Reykjavík og njóta veðursældar og útiveru. Við heiðruðum V. Bjarnason með því að fara Ægisgötuna, en gengum megnið, enda um nóg að tala. Komum svo á Plan þar sem Atli fótboltaþjálfari Víkinga og KRinga mærði okkur fyrir kraftinn. Fórum inn og teygðum í hlýjunni.

Í potti hófst endurvinnsla fyrri sagna og stóð framundir eitt, blómasalinn bættist í hópinn og hafði engar haldbærar afsakanir fyrir fjarveru sinni. Rætt um að færa julefrukost nær Vesturbænum og verður nýtt boð sent út þar að lútandi.

Vetur konungur lætur á sér kræla

Það snjóaði í morgun. Á hádegi var orðið glerhált. Um það bil sem hlauparar eru vanir að safnast saman í Vesturbæjarlaug til hlaupa á föstudögum var vindur farinn að blása og bæta í kuldann, sem var nægur fyrir. Nokkrir naglar mættir til hlaups, þessir helztir: Flosi, Jörundur, Biggi, Bjössi, Ósk, ritari, Þorvaldur, Denni af Nesi, Kári og svo hlaupari sem virtist tengjast Flosa, en við höfum ekki nafnið á. Hefðbundin kátína í útiklefa, þar sem voru mættir nokkrir hlauparar og höfðu í frammi hefðbundin gamanmál. Í Brottfararsal var rætt um sólskinshlaupara eins og próf. Fróða og Einar blómasala, sem köru að liggja uppi í sófa í stað þess að fara og eiga karlmannlegt hlaup í norðaustangarra og manndrápsgaddi.

Lagt upp hægt, stefnt á hefðbundið um Veðurstofuhálendi. Færð var gizka góð þrátt fyrir að útlit væri fyrir hálku, var bara ansi gott að hlaupa. Hlauparar voru stilltir og sakir þess að með okkur hljóp upplýst kona fór umræðan ekki niður á lægra plan. Framan af hlupum við saman í einni þröng, en þar sem ég hljóp með þeim Denna og Bjössa voru ákveðnir hlauparar horfnir, Ósk, Flosi og einhverjir fleiri. Ég spurði félaga mína hvernig þetta gerðist, en þeir höfðu ekki svör. Næst þegar ég gáði var Flosi búinn að skilja hina félaga sína eftir og eiginlega bara farinn. Menn höfðu orð á þessu, hvort hann væri á efnum.

Denni ráðgerði að hlaupa Hlíðarfót. Ég sagði honum frá því að það væri opið í gallerí Ragnheiðar Ágústsdóttur í gamla húsi Landhelgisgæzlunnar við Seljaveg og þar væru léttar veitingar veittar. Það lifnaði heldur betur yfir mínum og hann sperrtist alltur upp - og þegar til átti að taka hélt hann áfram með mér um Veðurstofuhálendið. En áður en við náðum Hi-Luxbrekkunni kom Federico Melabudensis móður og másandi, hafði lagt í hann langt á eftir okkur, en náði okkur aumingjunum þar sem við lögðum á Öskjuhliðarhálendið. Ég sagði honum frá listsýningunni og varð það ekki til að draga úr honum áhugann á hlaupi.

Denni var í því að telja kjarkinn úr sjálfum sér, en við fullvissuðum hann um að í þessum Samtökum væri enginn skilinn eftir. Píndum hann upp brekkuna og leyfðum honum ekki að víkja af braut fyrr en kom að hitaveitustokki. Fórum hefðbundið á þokkalegu tempói, þó skal viðurkennt að Frikki hljóp fram og tilbaka til þess að koma til móts við mig. Við undum okkur vel í hreinu og tæru vetrarloftinu lausu við mengun, þótt kalt væri.

Á Klambratúni var kallað í mig, voru þar komnir Jörundur og Denni. Gengu sögur í ýmsar áttir um hvor hefði tínt hvorn upp af leið sinni, en hið rétta mun vera að Jörundur kom að Denna þar sem hann var að gefast upp og vildi stytta, en Jörundur brýndi hann til dáða með vel völdum ókvæðisorðum um íhaldið og fiskveiðistefnu þess. Þarna sameinuðumst við félagar og áttum gott hlaup að Hlemmi, þar sem Denni tók beygjuna niður Laugaveg, en við fórum í fylgd Melabúðar-Frikka niður á Sæbraut. Það var allt í lagi að fara með ströndinni og tókum við því bara rólega.

Það var stefnt vestur á Seljaveg og urðum við nokkuð samferða, og á Vesturgötu bættist Denni í hópinn. Sóttum menningarviðburð í anda liðinna tíða hjá menningarkonum sem buðu upp á hvítt og rautt. Varð okkur hugsað til sólskinshlaupara sem eru ekki vanir að slá hendinni á móti ókeypis veitingum. Var þetta ánægjuleg stund og gefandi í alla staði.

Haldið áfram til Laugar um stíga og götur gamla Vesturbæjarins. Pottur góður í skandinavískum félagsskap. Denni kvartaði sáran yfir því að Fyrsti Föstudagur marzmánaðar 2007 hefði fyrst verið tilkynntur í hlaupi, en ekki boðaður með löglegum og sanngjörnum fyrirvara Taldi hann jafnvel að þessi Föstudagur væri úr gildi fallinn af þessari ástæðu og bæri að endurtaka hann. Lýsti hann yfir þungum hug í garð prófessors Fróða, sem staðið hefði að baki þessari óvæntu boðun drykkju á drykkjustað þeirra Seltirninga, en jafnframt að hann væri fullur sáttarhugar ef boðlegar afsakanir væru fram fluttar og úrbætur gerðar á boðunarkerfi Samtakanna.  

Minnt er á boð um julefrukost Hlaupasamtakanna að Esjustofu 12. desember - hvatt er til svara.

Hin eilífa og fyrirfram tapaða barátta við kílóin

Um það bil sem ritari át síðustu línuna af 400 gramma Cadbury´s súkkulaðinu sínu með hnetunum og rúsínunum varð honum hugsað sem svo: Æ, shit! Blómasalinn. Ég las aftur á umbúðirnar og gekk úr skugga um að ég hefði keypt rétta sort. Jújú, 400 g stóð á umbúðunum. Eins gott að hann frétti ekki af þessu.

Fjöldi hlaupara mættur í Brottfararsal á mánudegi, sem þrátt fyrir ljótar spár veðurfræðinga, reyndist hinn ágætasti til hlaupa, svalt í veðri en enginn vindur. Ekki tjóir að nefna hlaupara nema eftir því sem lögmál frásagnarinnar krefjast þess. Ritari mætti fyrst þeim Magga dental og dr. Friðriki háls-, nef- og eyrna. Enn var rætt um brandara Kára frá því á föstudag um masterlykla og skrár. Svo tíndust þeir hver af öðrum hlaupararnir í Sal, m.a. Eiríkur sem átti afmæli í dag. Var honum árnað heilla af því tilefni af mönnum sem kunna sig.

Rólega út að Skítastöð. Þar voru mönnum settir úrslitakostir, að því er virtist. Það mátti velja um að hlaupa 1 km spretti 10 sinnum, vægari útgáfa var sama vegalengd 8 sinnum. Við eymingjarnir máttum taka 500 m spretti 8 sinnum. Þar fór sem fyrr Sirrý í forystu og keyrði okkur sporum, hvatti áfram. Ótrúlegt var að sjá m.a.s. feitlagið fólk spretta úr spori og taka vel á því. Alveg til fyrirmyndar! Svo voru hinir hlaupararnir að þvælast fyrir okkur í myrkrinu á stígunum í Skerjafirði, og próf. Fróði eitthvað masandi um að þessar æfingar hefðu enga þýðingu, betra væri að fara langa spretti hægt. Ekki batnaði það þegar Neshópur birtist utan úr myrkrinu og hrópaði ókvæðisorðum að okkur.

Þegar svona æfingar eru teknar er ekki margt gáfulegt sagt. Umræður voru miklar allan tímann um súkkulaði og gat ég ekki setið á mér að láta blómasalann vita af Cadbury´s súkkulaðinu sem hann varð af. Honum sárnaði. Upplýst um nýjar vörutegundir hjá Melabúðar-Frikka, ýmsar tegundir af Wasa hrökkbrauði sem hefur ekki fengist í landinu í rúmt ár. Einar hélt að þetta væri build-up efni sem væri ætlað feitu fólki sem vill léttast. Honum var bent á Nupo-létt.

Farið á hægu tölti tilbaka, við Einar létum nægja að enda við Hofsvallagötu, enda margt að ræða er laut að grenningarefnum og kvöldmat. Aðrir fóru um Rauðvínshverfið þar sem búa þeir sem græða á daginn og grilla á kvöldin. Teygt á plani eftir mislanga, en velheppnaða spretti. Í potti var rætt um hið hefðbundna jólahlaðborð Hlaupasamtakanna 12. desember nk. Hugmynd kom upp um að panta Esjustofu undir viðburðinn, sem rekin er af bona fide Vesturbæingum. Munu hlutaðeigandi fá nánari skilaboð um viðburðinn er fram í sækir.


"Þetta er æðislegt!"

Þrettán mættir í morgunhlaup á laugardegi, enn dimmt úti þegar safnast var saman. Báðir þjálfarar, Bjössi, blómasalinn, ritari, Sirrý, Þorbjörg K., Ósk, Hjálmar, Friðrik, Jóhanna, og svo man ég ekki nöfn tveggja. Megnið af hópnum afar hraður og var í upphafi sett á tempóið 5:00 og farið þannig út í Nauthólsvík. Þá sprakk þessi hlaupari og fór með Frikka og blómasalanum upp hjá Bogganum, stefnan sett á Þriggjabrúahlaup. Þeir voru á sama báti og ég, þungir og þreyttir og fór vel á því að við hefðum samflot tilbaka. Það voru sagðar sögur, byggingar voru greindar og sagt frá eðlisfræðilögmálum á Sæbrautinni.

Þar sem við sátum fyrir framan Melabúðina að hlaupi loknu og úðuðum í okkur banönum sem Federico traktéraði okkur á og horfðum á mannlífið, kom hlaupandi Ó. Þorsteinsson, Formaður Vor til Lífstíðar á sínu hefðbundna laugardagshlaupi um Vestbyen. Í för með honum var Hjálmar og voru þeir í djúpum samræðum um mannleg málefni. Hafði Ólafur frá mörgu að segja og lá margt á hjarta. Voru honum færðar árnaðaróskir í tilefni af því að hann hefur "tollað í hjónabandi" í á þriðja tug ára og heldur upp á það um þessar mundir.

Á Plani var upplýst að sumir hefðu farið langt, 18 km og þar yfir, lengst fóru þjálfarar, 22 km. Dagurinn frábær í alla staði, veður eins og það gerist bezt til hlaupa, enda gat Frikki ekki hamið sig á leiðinni, og hrópaði hvað eftir annað: "Þetta er ÆÆÆÆÐISLEGT!"

Hefðbundið sagna- og vísbendingahlaup að morgni sunnudags kl. 10:10.

Í brúnum boga á Nesi

Spurt var: eru Hlaupasamtökin dauð? Eru menn hættir að hlaupa? Hvar getur almenningur nálgast andríkar frásagnir um hlaup? Hvað er að gerast? Svo er mál með vexti að ritari brá undir sig betri fætinum og hvarf á vit frænda og vina í Svíaríki um nokkurra daga skeið og að því búnu lá leiðin til Bruxelles þar sem kynni voru endurnýjuð við innfædda, en sumir telja að fallandi nyt í búpeningi á Flandri megi rekja til reglubundinna heimsókna ritara til þessa heimshluta. Ekki er gott að átta sig á hvernig menn hafa komist að þeirri niðurstöðu. Nema hvað, föstudaginn 20. nóvember var ritari mættur til hlaups að nýju, að vísu óvenjuseinn fyrir og mætti samtímis blómasala sem innbyrti 300 g hamborgara í hádeginu ásamt meðfylgjandi brauðbollu, salati og sósu. Það var skrýðst til hlaups í Útiklefa Laugar Vorrar.

Í Brottfararsal biðu þessir að hlaup hæfist: próf. dr. Fróði, dr. Flúss, Jörundur, Kári, Bjössi, Biggi, Stefán Ingi og Elínborg, auk fyrrgreindra ritara og blómasala, Magnús dental, Benedikt. Búið var að ákveða að hlaupa Neshring til heiðurs dr. Jóhönnu sem tekið hefur upp hefðbundin föstudagshlaup í Chile, Montborg. Stefnt að sjóbaði. Lagt í hann með þá Flosa og Ágúst í forystu. Ritara fannst hann furðu léttur á sér, gat þetta haldið svona áfram? Öðru máli gegndi um blómasalann, hann var með sinn 300 g hammara einhvers staðar langt að baki ritara og náði sér aldrei á strik í hlaupinu. Þegar ritari spurði Bjössa að hlaupi loknu hvað hefði orðið af blómasala, spurði Bjössi á móti: Hver er það?

 Nema hvað það er farið hefðbundið upp á Víðimel og þaðan út í Ánanaust og svo vestur úr til vina vorra á Nesi. Próf. Fróði hafði á orði að við ættum  inni gamlan föstudag sem hefði gleymst að taka út, frá marz 2007. Gerður var góður rómur að því að nýta þennan gamla tékka. Furðu voru menn rólegir, á þessum parti voru í forystu Flosi, Ágúst, Benni, Maggi og ritari - en svo dró í sundur með mönnum og greinilegt að kapp var hlaupið í suma. Við Maggi fórum á rólegu stími á Nesið og rifjuðum upp góða sögu sem Kári sagði á Plani, um masterlykla og dyraskrár. Biggi fór fram úr okkur og setti strikið á þá sem fremstir fóru. Ritari áréttaði að það liti svo út að þeir væru staddir í keppni.

Við nenntum ekki að fara kringum golfvöllinn en snerum við hjá Bakkatjörn og vorum enn án sambands við þá sem á eftir okkur fóru, þótti okkur það sæta tíðendum. Ég ræddi við Magnús um mataræði blómasalans, sem er sjálfum sér verstur með óagaðri framkomu frammi fyrir freistingunum, það er til lítils að vera að hlaupa sig fordjarfaðan ef menn kunna sér ekki hóf í mat og eyðileggja fyrir sér hlaup með ofáti í hádegi. Á þessum kafla varð okkur Magnúsi á orði hvílíkur lúxus það væri að geta hlaupið og notið útiveru í svona frábæru veðri 20. nóvember 2009.  

Við komum á Brottfararplan og brátt sömluðust hlauparar þar saman, sumir komnir í kjölfar okkar, aðrir sem fóru lengra og voru hlaupamóðir. En þetta var ánægjulegt hlaup og okkur öllum til sóma. Pottur þéttur og góður og rætt lengi dags um ýmislegt sem til framfara horfir í samtímanum, Friðrik kaupmaður og Rúna mætt til þess að bæta geð guma.  En þetta var bara byrjunin. Stundu síðar söfnuðust valdir einstaklingar, próf. Fróði, ritari, Bjössi og Biggi, saman til jólaölsdrykkju á Fyrsta Föstudegi marzmánaðar 2007 á Dauða Ljóninu. Þar átti Björn þvílíkar rispur að við öskruðum, Nei!, grenjuðum af hlátri og vöktum athygli annarra gesta með kátínu okkar. Þetta voru sögur af ýmsu tagi og dygðu til að fylla nýja bók af karaktér Storms. Erfitt var að slíta sig frá þvílíkum félagsskap, en heima biðu skylduverkin og ekki um annað að ræða að brynja sig og knýja hjólfákinn fráa upp á Landakotshæð.

Frábært fyrsta hlaup ritara eftir tólf daga fjarveru og er ekki fráleitt að mætt verði að nýju til hlaups í fyrramálið, laugardaginn 21. nóvember 2009, kl. 9:30.


Fæddur herforingi

Dagurinn hófst á myndatöku. Kári stillti hópnum upp með nýjum hætti inni í Brottfararsal við þrepin svo að raða mætti öllum í eina línu sem fengi inni í klisjunni á bloggsíðu. "Hvað var að hinni myndinni?" spurði B. Símonarson afundinn. Góðir menn útskýrðu fyrir honum að ekki nema helmingur hópsins hefði verið á klisjunni. "Skiptir það máli? Var ekki hægt að fótósjoppa hina inn og bæta svo Vilhjálmi við eftir á?" Hlaupasamtökin elska sannleikann og ástunda ekki sögufalsanir, hvorki í tíma né rúmi. Af þeirri ástæðu var smellt af fjöldanum öllum af myndum og verður sú bezta valin. Í þetta skiptið lét Framsóknarmaðurinn símann í friði og telja kunnugir að hann hafi litið nokkurn veginn eðlilega út á myndinni. Svo verður bara að láta á það reyna hvernig Þorvaldur var.

Báðir þjálfarar mættir og lögðu línur um spretti. Fyrst rólega út að Skítastöð, svo 500 m og 1000 m sprettir. Hersingin hátt í 30 manns fór í rólegheitum inn að Stöð, áberandi var hve Sirrý lét í sér heyra. Ekki tók betra við þegar kom að Dælu, þá var hún farin að hrópa út skipanir og hvatningar og spretti úr spori eins og fjandinn væri á hælunum á henni. Datt manni Biggi Tvö í hug, nema hvað Sirrý hefur blessunarlega ekki uppgötvað hvítlaukinn. Jæja þarna tröðkuðum við í myrkrinu, fram og aftur blindgötuna, svo dimmt var að við vorum æ ofan í æ nærri búin að hlaupa niður fótgangandi vegfarendur. Einnig voru ljóslaus hjól á stígnum til mikils ama í kvöld. Svo kom hersingin af Nesi og við þóttumst vera mjög bisí, öskruðum fyrirmæli um átök og sprettum úr spori.

Þetta urðu 8 500 m sprettir á 10% yfir eðlilegum hraða, jafnvel aðeins hraðara, og endað á því að fara vestur úr. Sem fyrr segir var Sirrý eins og herforingi í hópnum, mælti fyrir um að sprett skyldi úr spori, einnig Þorbjörg M., sem er að koma tilbaka eftir nokkra fjarveru. Þó hefur blómasalinn slegið öll met, var ótrúlega sprækur þrátt fyrir að hafa eytt helginni í sukk og ólifnað. Ritari frekar dapur.

Það bar til tíðinda í hlaupi kvöldsins að Ó. Þorsteinsson var mættur öðru sinni á mánudegi og hefur þá hlaupið þrjá daga í röð. Einnig var Jörundur mættur, Magnús tannlæknir, Kalli kokkur og dr. Friðrik.

Mánudagar eru oft erfiðir, það er vandkvæðum bundið að finna hjá sér hvatningu til þess að fara að hlaupa. Því er það ánægjulegt að ljúka stuttu og snörpu hlaupi og slaka á í potti á eftir. Hefðbundin umræða um einelti og matargerð.

Ritari hverfur til brýnna starfa í þágu Lýðveldisins á erlendri grundu og snýr tilbaka að tíu dögum liðnum. Er til þess mælst að fólk hlaupi og skrái tíðindi á blogg Samtaka Vorra. Fylgst verður með úr fjarlægð.



Jörundur mætir á ný til hlaups

Fjórir hlaupafélagar mættu til hefðbundins sunnudagshlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur og Ólafur ritari. Jörundur að koma tilbaka eftir tveggja vikna hvíld vegna slyss við heimilisstörf. Veður þokkalegt til hlaupa og var skeiðað á rólegu tempói út Sólrúnarbrautina á meðan við kjömmsuðum á safaríkum sögöum af eternum, svo sem þessari um bókara KSÍ sem lenti í þeirri ógæfu að óvandaðir menn komust í kortið hans þar sem hann var óvart staddur á strippklúbbi og straujuðu það nokkrum sinnum fyrir háum fjárhæðum. Meira hvað menn geta verið ómerkilegir!

Eðlilega var rætt um sjónvarpsefni ýmiss konar sem í boði er þessi missirin, en ekki verður farið nánar út í þá sálma hér. Við mættum mörgum á leiðinni sem við þekktum, ávallt var spurt: hvað verður farið langt í dag? Við svöruðum: hefðbundna porsjón, tólf kílómetra. Stoppað í Nauthólsvík og rætt um ýmis laus störf sem í boði eru þessa dagana og líklega kandídata.

Sunnudagshlaup eru hreinsandi fyrir sál og líkama og góður undirbúningur fyrir átakahlaup á mánudegi.  Stemmning að fara um kirkjugarð. Ákveðið að fara Sæbraut þar sem veður var fallegt og engin þörf að telja tóm verzlunarrými.

Á  mánudag verður myndataka endurtekin, en hugsanlega þarf að færa hana í hús því spáin er ekki góð. Ó. Þorsteinsson mun mæta þá, en óvissara með B. Símonarson, félaga án hlaupaskyldu, en með þeim mun meiri rannsóknaskyldu. Vel mætt í pott, staðgengill dr. Einars Gunnars var sonur hans Ólafur Jóhannes. Rætt lengi dags um knattspyrnu.

Vetrarstarf að hefjast: myndataka

Æfing dagsins hófst á myndatöku. Kári stillti öllu liðinu upp, einum tuttugu hlaupurum, þ. á m. Formanni til Lífstiðar, Ólafi Þorsteinssyni, og Baldri Símonarsyni, félaga án hlaupaskyldu, en með þeim mun meiri rannsóknaskyldu. Annars voru mættir allir helztu og vöskustu hlauparar Samtakanna, einna helzt að menn söknuðu Jörundar. Til huggunar má þó nefna að ný myndataka verður n.k. mánudag kl. 17:15 og geta þeir sem misstu af myndatöku dagsins hlakkað til þess að láta smella af sér eins og einni fótógrafíu þá. Reynum að ná fleirum inn á myndina en sjást hér að ofan (það er í reynd heil röð fyrir neðan þessa hlaupara og Bjössi í Burt Reynolds-fílíng).

Mættur Friðrik kaupmaður eftir frægðarför til New York og fengum við að heyra söguna af hlaupinu í skömmtum, fyrir og eftir hlaup dagsins.

Það var fremur svalt í veðri, en algjör stilla og himinn fagurblár og byrjað að rökkva. Sól að setjast í suðvestri. Ægifögur sjón að hlaupa með Ægisíðunni og út í Skerjafjörð, maður varð að staldra við og njóta útsýnisins. Einhverjir voru á leið í Þriggjabrúahlaup og áttu að þétta, en við Ágúst og Flosi stefndum á 69. Mættur Bjarni Benz eftir meiðsli og ætlar að reyna að ná sér á strik smásaman. Nokkrir fóru styttra í dag, t.d. Hlíðarfót. Við félagarnir náðum forskoti, en flljótlega náðu okkur Rúnar og Benni og fóru reyndar fram úr okkur, svo kom Magga og einhver með henni, e.t.v. Jóhanna, sneru svo við og fóru tilbaka.

Við fórum yfir brú á Kringlumýrarbraut (vantar þjálft nafn á brúna, hvað með Knippelsbrú?) og settum stefnuna á Fossvoginn. Þá settu þeir upp hraðann og skildu mig eftir í náttmyrkrinu. Þetta er nú allur félagsþroskinn! Fyrir hlaup var því lýst yfir að það ætti að fara hægt, fara langt. Ég bauðst til að fara með þeim og þeim virtist falla það vel í geð. Svona er farið með góða drengi, skildir eftir einir áður en hlaup er svo mikið sem hálfnað. En það kom vel á vonda, því að á leiðinni mættu þeir úrillum hundeiganda sem sló Ágúst. Og maður á reiðhjóli formælti þeim og skammaði þá fyrir að vera að þvælast fyrir. Gott á þá!

Ég hélt í humáttina á eftir þeim og vissi af þeim á undan mér. Hugsaði sem svo að ég hefði átt að taka ipodinn minn með mér. Ipodinn yfirgefur mann ekki. Hlaup var annars ljúft í svölu og fögru veðri, og gekk vel. Mætti Laugaskokki sem var geysifjölmennt í kvöld. Fór á hægu tempói og leið bara vel. Ótrúleg tilfinning að koma yfir á Sæbraut, þar sem máninn skein á Viðeyjarsund og friðarsúlan kennd við Lennon dansaði við himin. Ég mátti til að stoppa og virða fyrir mér herlegheitin. Á svona stundum er bezt að vera einn með sjálfum sér og njóta dýrðarinnar. Það eru þessar stundir sem gera hlaupin að þeirri fjörgjöf sem þau eru.

Flestir farnir þegar komið var tilbaka til Laugar, ritari vel haldinn eftir 17 km á 5:30 mín. tempói. Þó voru Friðrik, Bjarni, Bjössi, Flosi, Ágúst og Elínborg í potti og töluðu ákaft saman um Baugsmenn.  Fljótlega tókst þó að snúa umræðu til gæfulegra horfs og taka fyrir greiningu á árangri okkar í New York og sagði Friðrik frá, metra fyrir metra. Setið framundir kl. 20 og lagðar línur um Fyrsta Föstudag á Dauða Ljóninu.

"Þetta er enginn gönguklúbbur. Hér er tekið á því!"

Ódauðleg ummæli flugu á Ægisíðu í hlaupi dagsins og verður sagt frá þeim nánar síðar. Upphaf hlaups er eins og venjulega á Brottfararplani Vesturbæjarlaugar. Þar safnast saman múgur og margmenni á mánudögum þegar Hlaupasamtök Lýðveldisins efna til fyrsta hlaups vikunnar. Ekki færri en 30 hlauparar voru mættir í hlaup dagsins, þar  af mátti þekkja öðlinga eins og dr. Friðrik, Magnús tannlækni, Kalla kokk, prófessor Fróða og fleiri góða hlaupara. Báðir þjálfarar voru mættir. EN - það sem þóttu tíðindi dagsins og stundarinnar: Einar blómasali var mættur á undan öllum öðrum, eða um 17:10, og kominn í gallann 17:15. Kunnugir töldu skýringuna vera þá að hann væri orðinn svo glámskyggn á úrið sitt að hann hefði lesið vitlaust á það og talið klukkuna vera meira en hún var.

Hlaupið hægt út að Skítastöð. Þar var hópnum skipt í tvennt, þ.e.a.s. þeim sem ekki hlupu áfram og slepptu sprettum, en meðal þeirra mátti bera kennsl á prófessor Fróða, Flosa og Kalla. Friðrik og Maggi voru skynsamir og sneru við áður en þeir voru komnir of langt í Skerjafjörðinn. Fyrri hópur fékk fyrirmæli um að hlaupa 1 km spretti, 7 slíka. Síðari hópur, undir stjórn Rúnars, átti að fara í fartleik. Hver hlaupari fékk númer og átti að ákveða lengd og hraða spretts. Sprettirnir voru frá 1 mín. upp í 4 mín. Við hlupum til baka í vestur undan leiðindanæðingi sem var á þessum slóðum. Einar var sprækur og einnig mátti sjá Sirrý taka vel á því. Við mættum svo Neshópi á Ægisíðu og var hann fjölmennur að vanda. Það vildi svo til að við vorum í hvíld milli spretta á þessu augnabliki og Denni spurði hvort þetta væri gönguklúbbur. Einar blómasali brást hinn reiðasti við og hrópaði: "Þetta er enginn gönguklúbbur. Hér er tekið á því!"

Þetta var engin lygi í blómasalanum. Hann hafði hins vegar farið óskynsamlega í sprettina, farið of geyst og var eiginlega sprunginn áður en eitthvað var farið á reyna á í sprettunum. Hann gafst upp á þessum kafla og hvarf til Laugar. Við hin, m.a. Stefán Ingi og Elínborg ansi spræk, fórum á Nesið og héldum áfram sprettunum. Þeir urðu á endanum 10, sá síðasti þegar við vorum komin yfir Lindarbrautina og yfir á göngustíg norðanmegin. Þá kom lengsti spretturinn, 4 mín. og tekið vel á því. Þarna fengum við vindinn aftur í fangið og hlupum þannig alla leið út að Grandavegi þegar loksins linnti.

Í ljós kom að Flosi og Ágúst höfðu farið Þriggjabrúahlaup í leit að rauðum sportbíl, en fundu engan. Jörundur mætti til Laugar og kom í pott. Hann er enn skaðaður eftir heimilisstörfin og mun líklega seint bíða þess bætur að hafa verið settur til þess að ryksuga. Prófessorinn hafði orð á því upp úr eins manns hljóði að það væri Fyrsti Föstudagur á föstudag, og hvort það yrði ekki Rauða Ljónið og svona? Rætt um árangur félaga okkar í New York maraþoni, sem var ágætur.

Frábært hlaup í ágætu hlaupaveðri - góður undirbúningur fyrir snarpt hlaup á miðvikudag.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband