Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Aldeilis einstakt hlaup

Er skrifari kom á Plan sá hann prófessor Fróða á tröppum, búinn að vefja um andlit sitt klúti að hætti hryðjuverkamanna. Útundan sá hann blómasala í hávaðasamræðum við sjálfan sig. Það var skipst á ónotum, en að því búnu haldið til klefa. Þar var fyrir á fleti gamli barnakennarinn. Vel horfði um hlaup, nokkrir af vöskustu hlaupurum Hlaupasamtakanna mættir til hlaups á föstudegi. Þegar upp var staðið voru þessir mættir: próf. Fróði, gamli barnakennarinn, blómasalinn, skrifari, Ó. Gunnarsson, Rúna Hvannberg og Jörundur prentari. Glæsilegur hópur!

Blómasalinn búinn að gefa út plan um hefðbundið hlaup og ekki var gerður ágreiningur um það á slíkum degi, stilla, bjart yfir og hiti 4 stig. Gerist vart betra. Lagt upp á rólegu nótunum, skrifari ætlaði bara stutt og hægt, enda lítið búinn að hlaupa og auk þess nýstaðinn upp úr veikindum. Fljótlega drógu þeir sig frá okkur, barnakennarinn, prófessorinn og Ólafur hinn. Það var einhver rembingur í þeim. Við hin rólegri. Þó var til þess tekið hvað skrifari var sprækur, hélt sig töluvert á undan blómasala og Rúnu, að ekki sé talað um Jörund sem dróst aftur úr. Hér rifjuðust upp ummæli Fróða um 95 kg skrokkinn sem gat hlaupið svo hratt - og blómasalinn tók til sín.

Fyrst var spurningin: kemst ég út að Skítastöð? Þegar þangað var komið breyttist spurningin í fullyrðingu: ég fer alla vega út í Nauthólsvík! Svo skyldi bara skoðað hvert framhaldið yrði. Þau hin alltaf á eftir mér svo furðu vakti. Þegar komið var í Nauthólsvík var þetta ekki lengur spurning: nú yrði bara farið hefðbundið, Hlíðarfótur hefði verið niederlag. Í Hi-Lux töltu þau hin fram úr mér, enda er formið þannig þessa dagana að maður gengur brekkur. Sú forysta var þó ekki lengi að hverfa, við Kirkjugarð skildi ég þau aftur að baki.

Það var farið hefðbundið um Veðurstofu, Hlíðar og Klambra, og enn hélt skrifari forystu sinni, en hvorki sást tangur né tetur af prentaranum.  Er komið var á Hlemm var ákveðið að fara um Laugaveg vegna svalrar norðanáttar sem kældi viðkvæm hjörtu. Er hér var komið leyfði ég þeim hinum að fara fram úr mér, orðinn þreyttur og fannst bara ágætt að ganga á köflum. Margt fólk á Laugavegi og ekki alveg einfalt að þreyta kapphlaup. 

Gengið upp Túngötu, en hlaupið niður Hofsvallagötu, enda veisla framundan. Er komið var að Melabúð var búið að reisa stórt, hvítt tjald utan við verslunina og þar var haldið upp á grænlenska daga með hátíðlegum hætti. Þar var Pétur og þar var Frikki, ýmislegar veitingar, en einhverra hluta vegna stilltum við hlauparar okkur upp við skálina með frostpinnunum, ekki hef ég tölu á fjölda frostpinna sem runnu niður kverkar blómasalans, en Pétur hafði á orði að við værum ekkert skárri en börnin. Hér hittum við Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar. Hann var ómissandi hluti af hátíðinni verandi framúrskarandi íbúi í Vesturbæ Lýðveldisins. Hann heilsaði öllum með virktum og rifjuð var upp ódauðleg vísbendingarspurning Einars blómasala: "Spurt er um eiganda kampavínslitaðrar jeppabifreiðar með skráningarnúmerinu R-156."  Ólafur Þorsteinsson svaraði að bragði: "Jú, þetta var vel þekktur gleraugnasali í Reykjavík." Hann tilkynnti um þá ákvörðun sína að Fyrsti Föstudagur aprílmánaðar yrði að heimili hans föstudaginn 4. apríl nk. Hann lýsti fyrirhuguðum veitingum og framreiðslu þeirra. 

Nú var haldið til Laugar. Einar blómasali dró fram restarnar af Cadbury´s súkkulaðinu sem Jörundur gaf honum. Hann hélt uppi vænum bita, otaði honum að skrifara og spurði: "Langar þig í?" Stakk síðan bitanum upp í sig og kjammsaði gráðuglega á honum, svo að súkkulaðitaumarnir runnu niður munnvikin. Það var haldið til Potts. Búið að draga tjöldin frá nýjum Potti í Laug Vorri og var fólk impónerað, en ekki verður fólki hleypt að honum fyrr en 11. apríl nk. Við uppgötvuðum Magnús tannlækni í Laug, sem og próf. dr. Einar Gunnar og áður en yfir lauk hafði Kári sameinast okkur í einu herlegu baði í Potti.

Þetta var einn af þessum frábæru hlaupadögum, veður gott, hlaup gott, félagsskapur framúrskarandi, Pottur góður, hver fimmaurabrandarinn af öðrum flaug og við hlógum eins og vitleysingar. Próf. Fróði hélt umræðu um áfengi í lágmarki, er líklega farinn að reskjast.

Næsti viðburður: Reykjavegsganga nk. sunnudag kl. 9:55.  


Þrjú á palli

Við vorum sumsé þrjú: Þorvaldur, Ólafur skrifari og Tobba. Magnús Júlíus var að vísu líka á staðnum, kominn í gírið og út á Plan - en þar tilkynnti hann ólundarlegur að hann ætlaði að fella niður hlaup og synda og teygja í staðinn - sem við trúðum svona rétt mátulega. Við hlupum sumsé þrjú. Og það var alla vega. Það var lens í stífri vestanátt út alla Ægisíðu og alla leið út í Nauthólsvík. Þar lægði og var rólegheitaveður lengi vel og raunar allar götur þar til komið var vestur fyrir Læk aftur, þá get ég svo svarið að við lentum í snjóbyl. Við börðumst áfram upp Túngötuna af mikilli seiglu og harðfylgi og eftir það steinlá Hofsvallagatan. Fínt hlaup hjá okkur öllum. 

Torvelt reyndist skrifara að ná utan af sér hlaupajakkanum að hlaupi loknu, rennilásinn sat pikkfastur. Á endanum var brugðið á það ráð að klippa jakkann utan af honum. Nú er skrifari jakkalaus.

Góð mæting í Pott: próf. dr. Einar Gunnar, dr. Mímir, Helga Jónsdóttir Gröndal, Stefán, Margrét barnakennari, og Ólafur Þorsteinsson óhlaupinn. Baldur í Englandi. Hér var mikið rætt um veru manna í barnaskólum og líðan þar, en einnig var sagt frá heimsókn Vilhjálms Bjarnasonar þingmanns í Vesturbæinn og í Morgunpott Vesturbæjarlaugar á fimmtudaginn er var. Ó. Þorsteinssyni tókst að fara rangt með fæðingarár Ástu Möller hjúkrunarfræðings og fv. þingkonu, var leiðréttur af Margréti Melaskólakonu og hefði þessi uppákoma glatt Baldur mikið.  


Vorið er á næsta leiti

Hreint ótrúleg mæting í föstudagshlaup Hlaupasamtaka Lýðveldisins föstudaginn 14. marz 2014. Það voru eingöngu karlar mættir, miðaldra og síðaldra karlar. Denni af Nesi mættur af því að hann hafði heyrt fleygt orðinu "Fyrsti" í e-m pósti. Ágúst Kvaran, gamli barnakennarinn, Þ. Gunnlaugsson, Magnús tannlæknir, Ingi og skrifari. Safnast saman í Brottfararsal og málin rædd af yfirvegun. Spurt var hvar blómasalinn væri, en upplýst að hann væri vant við látinn. 

Menn höfðu sosum ekki stór plön, skrifari gerði sér vonir um að lifa af hlaup í Skítastöð og tilbaka og Denni lýsti yfir viðlíka metnaðarfullum áformum. Aðrir ætluðu hægt og stutt, prófessorinn enn slæmur í læri. Það var lagt upp í fögru veðri, 5 stiga hita, stillu, skýjuðu og þurru veðri. Veður eins og þau gerast bezt á vormánuðum. Þetta var spennandi, nú skyldi látið reyna á þrek, úthald og styrk útlima.

Hlaup fer af stað bærilega. Magnús, Þorvaldur og Ágúst eitthvað að derra sig, næstur skrifari, og þar fyrir aftan lakari hlauparar. Ótrúlegar framfarir skrifara frá síðasta miðvikudegi þegar hann gafst upp nánast um leið og hlaup hófst og menn sáu hann hverfa inn í hverfi við fyrstu beygju. Nú skyldi látið á það reyna að menn kæmust alla vega að Skítastöð - og jafnvel tilbaka líka.

Þetta gekk furðuvel, en ég hægði á mér á köflum til þess að leyfa Denna að ná mér. Ingi sneri við á óskilgreindum kafla, en það sem vakti almenna furðu var að barnakennarinn sneri við er komið var að Flugvelli, og hafði þó nýlega haft góð orð í eyru Denna um að fara Hlíðarfót. Þetta kom okkur feitlögnum, þungum og hægfara hlaupurum á óvart. Við héldum þó okkar striki og komum í Nauthólsvík um það bil er þeir hinir voru að hypja sig þaðan.

Þetta var allt á rólegu nótunum, og þess vegna gengið inn á milli, sem er ágætur kostur þegar margt þarf að skrafa. Við ræddum mikið um lestur, t.d. þegar prófessorinn lærði að lesa fram fyrir sig. hér um árið. Kláruðum flott 8 km hlaup á viðunandi tíma með mikilli brennslu og töluverðum svita. Svo var farið í Pott og setið þar góða stund. Nefndur var sá möguleiki að taka einn kaldan á Ljóninu, en ekki veit skrifari að segja frá efndum þar. Hitt er þó sönnu nær að þar sem hann er staddur á Eiðistorgi að loknum Potti rekst hann á glerfínan blómasala á jeppabifreið, nýkominn úr erfidrykkju þar sem allur matur var endurgjaldslaus, roastbeef-snittur, rækjusnittur, kökur og hvaðeina. Taldi blómasali þetta vera næga afsökun fyrir því að mæta ekki til hlaups. Hlaut hann snuprur fyrir af hálfu skrifara.

Næst verður lögbundið hlaup í Hlaupasamtökunum að morgni sunnudags, kl. 10:10. Þá verður tekin fyrir nærvera þingmanns V. Bjarnasonar í Fimmtudagspotti Vesturbæjarlaugar. Í gvuðs friði.  


Löðrandi blíða

Það má merkilegt heita að á degi þegar veðurblíðan sleikir íbúa Vesturbæjarins eins og hin rósfingraða morgungyðja skuli ekki fleiri hlauparar mæta til hlaups, og maður spyr sig: Hvar eru Hlaupasamtökin stödd á vegi? Hvað er fólk að hugsa? Hvar var Magnús? Hvar var Flosi? Ja, er von maður spyrji. 

Mætt voru þessi: próf. dr. Ágúst Kvaran, dr. Jóhanna, dipl.tech.ing. Einar blómasali og Ólafur skrifari MPA. Í búningsklefa gerði prófessorinn eftirfarandi játningu: veiztu, skrifari góður, ég sleppti hlaupi á mánudaginn er var, það var svo vont veður. En ég segi þér þetta í aaaaalgjörum trúnaði og þú mátt engum segja þetta. Skrifari er orðheldinn maður og lofaði því.

Jæja, þarna söfnuðumst við saman í Brottfararsal og ætluðum öll stutt og hægt: prófessorinn með slæmsku í læri, Jóhanna á leið í Powerade á morgun, og Einar bara latur eins og venjulega. Skrifari hins vegar er að koma tilbaka til hlaupa eftir langvarandi álagsmeiðsli og hefur því gilda afsökun fyrir því að fara bara stutt.

Við ákváðum að fara á Nes, og settum stefnuna á Víðirmel. Einar þurfti að vísu að skjótast heim og skila konunni bílnum. Við Einar þurfum að fá námskeið hjá Magga tannlækni í eiginkonustjórnun. Nema hvað við hin fórum á Víðirmelinn og lofuðum að hirða blómasalann upp á leið okkar á Nes. Það stóðst á endum að hann var búinn að skila bíllyklunum þegar við komum á móts við Reynirmelinn. Svo var stefnan sett á Nes. Þetta var bara rólegt, skrifari þungur á sér, þreklaus og slappur. En þetta var altént fyrsta skrefið í endurkomu og heilun þessa endurfædda hlaupara.

Ekki man ég hvar ég beygði af, þau hin voru komin allnokkuð fram úr mér og það skiptir sosum ekki máli hvað ég fór langt, maður náði alla vega að hlaupa sér til svita. Svo var bara tölt tilbaka til Laugar þar sem setið var innan um Kínverja og Finna í Potti.

Á leið upp úr varð Magnús tannlæknir á vegi mínum. Ég innti hann eftir góðum ráðum í stjórnunarfræðunum. Hann sagðist ekki þora að stíga á Línuna, "Aníta var dæmd úr leik fyrir að stíga á línuna".

Ja, það er bara að vona að mæting verði betri í hlaupi föstudagsins (hvernig er það, eigum við ekki inni e-a Fyrstu Föstudaga?).  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband