Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Hlaup með hægasta móti vegna færðar

Við hittum Magnús í Brottfararsal, en hann var ekki kominn til að hlaupa. Kvaðst ætla að synda mikið. Hann hefði farið að hlaupa í gærmorgun, laugardag, þegar afreksfólk hleypur og hann bara gert eins og venjulega, elt hina. Áður en hann vissi af var hann kominn inn í Víkingsheimili og endaði á því að fara eina 17 km - hefði svo legið óbættur það sem eftir lifði dags. Í dag teldi hann sig geta hvílt sig (fréttist að vísu af honum sofandi í messu í Neskirkju síðar um morguninn, en það er önnur saga). Maggi fór sumsé ekki með okkur í dag. Þeir sem hlupu voru Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Ólafur ritari og Einar blómasali.

Færið var afleitt í dag, snjór yfir öllu, flestir gangstígar óruddir og þar sem ekki var snjór var klaki eða slabb. Nokkuð stríð norðanátt og því ekki kjöraðstæður til að hlaupa. En sunnudagshlaupin eru hálfgerð helgistund og þeim sleppa menn helzt ekki, sakir þess fróðleiks og þeirrar upplýstu umræðu sem þá fer fram. Rætt var um nýlegar jarðarfarir, minningargreinar, tilviljanir og kistuburð. Blómasalinn fór snemma að tuða um að fara Laugaveg vegna þess hversu óhagstæð vindáttin var. Öðrum fannst ekki tímabært að ræða slíkt þegar á Ægisíðu og hlaup nýhafið.

Færðin gerði það að verkum að hlaup sóttist afar seint, svo seint að margsinnis var stoppað og gengið til þess að leyfa tímajöfnun, enginn skilinn eftir. Menn höfðu lesið viðtal við Bónuskaupmann í DV og þótti lítið til þess koma, maðurinn væri að reyna að afla sér samúðar þegar hann ætti enga skilda. Gerður stuttur stanz í Nauthólsvík og spáð í byggingar, en haldið áfram þegar menn voru farnir að stirðna upp. Í kirkjugarði voru sagðar fréttir af síðustu símtölum á meðan við töltum upp brekkuna. Á Veðurstofuhálendi var snjórinn í hnédjúpum sköflum. Áfram var kjagað.

Alltaf skal Klambratúnið verða að þrætuepli, rifist um hvaðan nafnið væri komið, hvað klambrar eru og hvað eðlilegt væri að túnið héti. Fátt ef nokkuð um óreglufólk á Rauðarárstíg, beygt niður Laugaveg, enda var blómasalinn búinn að þrástagast á því allan tímann að við skyldum fara þá leið. Enn gleymdist að telja tómu verzlunarrýmin, sem er kannski ekki svo skrýtið því að þeim hefur fækkað verulega á undanförnu ári. En á Laugavegi var gangstéttin að mestu auð og þá brá svo við að hlaup þyngdist. Í Bankastræti hlupum við fram á Egil Helgason sem tók ekki undir það sjónarmið hlaupara að það væri aktúellt að bjóða þeim í Silfrið, en nefndi hins vegar að hann væri á leið tilbaka í hlaup og hann stefndi að því fljótlega að skilja okkur eftir.

Enn var hlaupið um minningarlund Víkings á horni Túngötu og Garðastrætis, þar sem Ó. Þorsteinsson útskýrði hvar koma ætti minnismerki um stofnun Víkings fyrir, jafnframt því að skipulegt verður hlaup Sumardaginn fyrsta og tveir einstaklingar gerðir að heiðursfélögum. Áfram haldið og endað á Plani. Teygt lítillega. Í potti var súperádíens, Baldur, menningartengill Samtakanna og sér um að halda okkur upplýstum um tónleika og leikhús. Hann gagnrýndi að Ólafur Þorsteinsson vill helzt bara sjá Harrý og Heimi og Skoppu og Skrítlu í leikhúsi. Gerpla fékk góða umsögn, svo og Faust. Í lok potts kom Birgir jógi og fóru menn þá að ræða kanínur og kanínuát. Birgir söng við messu í Neskirkju í dag og er heimildarmaður um framferði kirkjugesta.

Sunnudagsmorgnarnir eru fallegir, eða Bumbus vulgaris

Sex vaskir hlauparar mættir til hlaups á sunnudagsmorgni þegar vindur blés napurt á norðan eða norðvestan. Sól skein skært og menn voru glaðir í bragði, þetta voru þeir Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Flosi, Magnús, Einar blómasali og ritari. Fyrirheit um fagrar sögur, en fátt eitt látið uppi í Brottfararsal. Lagt í hann á hægu skeiði og bráðlega kom fyrsta vísbendingaspurning: spurt var um mann.

Eitthvað rætt um afstaðnar árshátíðir, matarsnæðing í Perlunni sem er einkar lofsverður, almennt um mat og matartilbúning. Í Nauthólsvík var sögð sagan sem lofað var í Brottfararsal: sagan af því þegar Jiang Zemin kom og Falun Gong líka og hótuðu með líkamsræktaræfingum á Arnarhóli, var stungið í grjót í Njarðvík - og maðurinn fór að gráta.

Áfram haldið í kirkjugarð og þar héldu áfram sögur, en Þorvaldur og Magnús yfirgáfu okkur, vildu ekki hlýða á meira. Hér var mikið rætt um blóm og blómasala - enda er konudagurinn í dag og því við hæfi að menn hugi að blómakaupum. Eitthvað rætt um sjúkdóma, m.a. menn með sjúkdóma. Á Rauðarárstíg uppgötvuðum við nýtt íbúðahótel sem hefur verið opnað og furðuðum okkur á því hverjum það væri ætlað. Farið um Laugaveg í þeim tilgangi helztum að skoða minningarlund sem Ólafur Þorsteinsson ætlar að stofna til heiðurs knattspyrnufélaginu Víkingi. Lundurinn er á horni Túngötu og Garðastrætis, en fyrir er minnismerki til heiðurs Bjarmalandsför Jóns Bala til Lettlands sællar minningar þegar hann frelsaði lettnesku þjóðina undan oki Sovétsins - en minnismerkið minnir á fokkjúputta sem beint er að rússneska sendiráðinu. Hér hefur Ó. Þorsteinsson ætlað sér lítið skot fyrir minnsivarða um stofnun Víkings sem átti sér stað hér árið 1908.

Þá var bara stubbur eftir til Laugar. Farið inn og teygt eitthvað til málamynda, en þeir sem hlaupa á sunnudögum teygja yfirleitt ekki mikið - sem kemur ekki að sök, þeir hlaupa ekki mikið heldur. En tala þeim mun meira og mættu þá e.t.v. einbeita sér að því að teygja kjálkavöðvana eftir hlaup. Nema hvað pottur góður, mættir Baldur Símonarson og Einar Gunnar, auk þeirra hjóna Helgu Jónsdóttur og Stefáns Sigurðssonar. Enn rætt um konudaginn, einhver ætlaði að bjóða konu sinni í bíltúr og á kaffihús, og minnt á að Hlaupasamtökin fylla aldarfjórðunginn í vor og þarf að halda upp á það með viðeigandi hætti. Einhverra hluta vegna var komið inn á tegundina Bumbus vulgaris og er ekki heitið á feitlögnum, íslenzkum, miðaldra hlaupara, heldur býflugu. Svona villa latnesku heitin nú um fyrir fólki.

Nú heldur ritari utan og verður frá hlaupum næstu vikuna, alla vega fram á föstudag. Þið hin haldið ykkur við efnið!


Mönnum stendur ógn af Ágústi, þessum öðlingi!

Það kom kappklæddur maður í Útiklefa, dúðaður frá toppi til táar og með sólgleraugu svo að kennsl voru ekki borin á hann í fyrstu, samt virkaði hann kunnuglegur. Hann einblíndi á okkur hlaupara sem vorum að klæða okkur án þess að mæla orð af vörum. Þarna voru Flosi, ritari, Þorvaldur, Eiríkur, Bjössi, blómasalinn og svo kom Ólafur nafni ritara. Loks áræddi einhver að ávarpa manninn og kom þá í ljós að þetta var Jörundur, en hafði ekki skýringar á útganginum. Blómasalinn nýkominn frá Danmörku og mátti lesa matseðilinn af vömbinni á honum. Bjössi allur að koma til eftir meiðsli.

Það var kalt í dag og enginn stemmning fyrir því að fara langt. "En í gvuðanna bænum, ekki segja Gústa frá því!" sagði Flosi. Nei, nei, við erum ekki skepnur. Ágúst þarf ekkert að frétta það að það nennti enginn að hlaupa inn í Dal og upp að Stíbblu eða Laug þegar veðrið var svona óhagstætt. Þjálfarar lögðu til að farið yrði Þriggjabrúahlaup og virtust menn almennt taka því fagnandi. Þarna voru þá einnig mætt dr. Friðrik, Ósk, Frikki Meló, Sig. Ingvarsson, Ragnar, Kalli (langtímafjarverandi), Rakel og einhverjir fleiri sem ég gleymi örugglega.

Það fór sem mig grunaði, saltkjöt og baunir sitja lengi í. Ritari var þungur og lenti með öftustu mönnum og fór bara hægt. Endaði á því að fara Hlíðarfót með Bjössa, Þorvaldi, Ólafi og Rakel. Það virtist hæfileg og góð æfing á degi sem þessum, meðan aðrir fóru Þriggjabrúa mishratt. Við hittum Kristján Hreinsson í Móttökusal og hann fór með vísu um tónlistarmann sem er svo ágengur að hann minnir á lolla sem ekki er hægt að sturta niður. Teygt og farið í pott, bara þetta hefðbundna.

Nýstárleg aðferð

Bjarni sagði að það hefði valdið mönnum heilabrotum og almennri hneykslan að blómasalinn, maður sem er búinn að æsa alla í að þvælast til Parísar í vor í maraþon, skuli láta sig hverfa á hlaupadegi og vanrækja hlaup, án þess svo mikið sem segja orð í afsökunarskyni. Ennfremur upplýsti hann ritara um nýja aðferð sem hann hefur prófað með góðum árangri við að þvo þvottinn sinn. Hann byrjaði á því að lauma húfu sinni í tösku barnaskólakennarans og fékk hana nýþvegna tilbaka fyrir hlaup dagsins. Næst ætlar hann að bæta bolnum sínum við og sjá hvort þjónustan haldi ekki áfram. Svo er ekki að vita nema hann komi öllu hlaupadótinu í tösku kennarans og sleppi við að þvo af sér.

Bjössi mættur í hlaup dagsins og er búinn að uppgötva nýja hlaupaaðferð - hlaup í vatni. Þeir fóru Hlíðarfót með útúrdúr um brýrnar. Ekki fengust upplýsingar um hvað aðrir fóru. Veður gott, lítill vindur, og fremur hlýtt í veðri. Á morgun er Sprengidagur og daginn þar á eftir er hlaupið næst. Eru hlauparar vinsamlega beðnir að hlaupa ekki með baunasúpu í maganum. Slæm reynsla er af þeim undirbúningi. Í gvuðs friði, ritari.


Menn skoði hug sinn

Upphaf þess máls var að ritari var venju samkvæmt mættur snemma á laugardegi til Laugar. Ætlunin var að liðka stirða liði og vöðva í heitu laugarvatninu og gufunni, teygja og gera sig á allan hátt kláran fyrir hlaup. Mætti hann þá blaðskellandi hlaupurum, nánar tiltekið þeim Margréti, Rúnari og Eiríki, í dyrunum, þau að leggja í hann kl. 8:30. Hvað er í gangi hér, spurði ég? Jú, við ætlum að byrja á léttu hlaupi fyrir hlaup dagsins, komum aftur og sækjum ykkur hin eftir um klukkustund. Jú, jú, allt í lagi með það sosum. Ég inn og fer í gegnum mitt prógramm, hitti góða vini í potti og skrafa við þá. Fer svo upp úr og klæði mig í dressið. Svo koma þeir hver af öðrum, Flosi, blómasalinn, Ragnar, Gerður, Jóhanna, hlaupararnir sem fóru á undan, Hjálmar og Ósk. Það kastaðist í kekki milli manna á Plani þegar í ljós kom að sumir hefðu hringt sig saman á föstudagskveldinu um að fara 8:30 og ekki látið alla vita. Friðrik var mjög óhress með þetta og spurði hvað væri í gangi. Er ljóst að hér þurfa hlutaðeigandi að taka til í sínum ranni og hafa rétta og skikkanlega ordningu á hlutunum, láta vita í gegnum tölvupóst hvað standi til, menn eru hvort eð er liggjandi í tölvunni langt fram á nætur.

Jæja, nóg um það. Menn voru bara vel stemmdir fyrir langt í dag, orð eins og Stíbbla og Laug heyrðust. Það var farið út á 5 mín. tempói, sem var fullhratt fyrir langt. Hefðbundin uppskipting hlaupara í hraðfara og þá sem fara hægar yfir. Það dæmdist á ritara að hlaupa með blómasala og Ragnari - svo voru Melabúðar-Frikki og annar maður ekki langt undan. Hinir horfnir, ætluðu hvort eð er bara stutt, Þriggjabrúastytting á vorfögrum degi.

Frikki hafði aldrei farið þessa leið með okkur svo að hann varð að staðnæmast og bíða eftir leiðbeiningum okkar. Það var farið í Fossvoginn og svo upp úr honum um Goldfinger, Mjódd, framhjá húsi mömmu Gústa og yfir í Elliðaárdalinn. Ekki var staðar numið fyrr en uppi við Árbæjarlaug, en þar gerður stuttur stanz, bætt vatni á brúsa, og svo haldið áfram niður úr. Nú gáfu þeir Einar og Ragnar í og Frikki var horfinn. Ég hafði þá fyrir framan mig, Einar, Ragnar og svo Flosa sem fór upp að Fylkisvelli, alllengi. Einar bara sprækur og allur að koma til fyrir París. Líklega hefur meðaltempóið okkar verið 5:45 eða þar um bil og heildarvegalengd 24,45 km.

Teygt vel í Móttökusal á eftir og etnir bananar úr Melabúð, sem var vel þegið að hlaupi loknu. Í potti tók langan tíma að fá menn til að ræða um mat, loks tókst það og var þá umræðan um hvort menn færu heim og fengju sér súrmjólkurdisk með eplum út á, ellegar beikon, egg, baunir, pylsur, mæjones, brauð - en allt um það, menn voru sannfærðir um að þeir hefðu unnið fyrir góðum málsverði.

Næst hlaupið í fyrramálið kl. 10:10 - í gvuðs friði.

När Fantomen rör på sig står blixten stilla

Hellingur af fólki mættur til hlaups á miðvikudegi. Samantekin ráð hjá sumum um að hlaupa langt. Það voru Ágúst, Flosi, blómasalinn og ritarinn. Ekki styttra en Stíbbla var sagt. Aðrir ætluðu Þriggjabrúa vaxandi - og enn aðrir vafalaust eitthvað styttra. Lagt upp rólega. Hjá Skítastöð (Drulludælu) mátti fara að bæta í hraðann, en langhundarnir áttu ekki að bæta í hraðann fyrr en þeir væru hálfnaðir.

Allt gekk þetta nú vel, en við Nauthólsvík heyrðist ægilegur hávaði. Þá blandaði skyndilega Benzinn sér í hlaupið, en hafði ekki sést við upphaf þess. Þarna var hann mættur, þessi farlama maður, og hljóp eins og herforingi, milli þess sem hann jós svívirðingum yfir aðra hlaupara. Er komið var á Ristru Flanir og eftir Lúpínuvelli varð sú breyting á afstöðu manna að Jörundur kom æðandi fram úr okkur blómasalanum og Benzinum, leit hvorki til hægri né vinstri, og anzaði ekki áköllum okkar. Þetta gat aðeins endað illa.

Um þetta leyti þurfti ritari að létta á sér og missti við það af félögum sínum. Ekki náði hann þeim fyrr en við Víkingsvöll, þar biðu prófessorinn og blómasalinn, við fórum Goldfinger og brekkuna yndislegu sem þeirri leið tilheyrir. Þaðan um Mjódd og upp að Stíbblu. Líðan allgóð og hraði þokkalegur. Þó átti hann eftir að aukast. Ágúst hefur þann háttinn á að teyma mann sem allra lengst út úr borginni, gefa þá í og skilja mann eftir. Þetta gerði hann hér líka. Hann hvarf sjónum og bómasalinn með honum, ég var einn í myrkrinu í Árbænum. Er ég kom niður að Breiðholtsbraut ákvað ég að snúa á þá og fara Stokk  frekar en Fossvog. Tók þétting frá Vodafone-höll og út að Háskóla. Kom á  Plan um svipað leyti og Ágúst, hann varð mjög hissa.

Enn hissari varð blómasalinn, því að hann kom á eftir mér. Hann spurði hverju þetta sætti. Ég svaraði: "Einar minn, hefurðu ekki heyrt gamla, sænska djungelordspråket - när Fantomen rör på sig, står blixten stilla. Þegar Skuggi hreyfir sig stendur þruman kyrr." Með þessu gaf ég í skyn að ég hefði í reynd farið fram úr þeim á leiðinni. En viðurkenndi svo að ég hefði "stytt" - ef styttingu er hægt að kalla. Þeir fóru sumsé fulla 22 km, ég eitthvað styttra. Bjarni og Jörundur fóru 14, Þriggjabrúa með lengingu um Hljómskálagarð. Ekki þori ég að spá í hvað aðrir gerðu. Af þessari ástæðu var vigtin hagstæð í morgun, fimmtudag, og fer bara batnandi.

Næst hlaupið föstudag kl. 16:30.


Dell-tölvan klúðrar málum aftur

Enn einn ganginn var ritari búinn að skrifa frásögn af hlaupi - 21-22 km hjá sumum. Á venju samkvæmt í miklu basli við takkana því að bendillinn æðir út um allt á skjánum án þess að hann hafi verið beðinn um nokkurn skapaðan hlut. Ýtir svo í grallaraleysi á e-n takka á fistölvunni og allur texti hverfur og ég dett út úr módinu. Allt farið og horfið. Ég held ég hætti að skrifa pistla á þennan Trabant tölva. Farvel, þú skaðræðisgripur. Hendi þessu helvíti í ruslið.

Taco Bell tekur toll

Í Útiklefa rifjaði Svanur Kristjánsson upp æskudaga á Ísafirði, sólarlausum firði fyrir vestan. Tilefnið var náttúrlega að nú nálgast vorið óðfluga, án þess að það hafi nokkurn tíma komið vetur á Íslandi. Hann er annars staðar. Óvenjulegir hitar á Grænlandi að sögn. Þeim mun meiri ástæða til þess að þreyta hlaup í vorblíðunni. Mættir fjölmargir hlauparar og skal aðeins þeirra helztu getið: dr. Friðrik, Jörundur, Bjarni Benz, Flosi, Þorvaldur, próf. Fróði, Magga, Rúnar, Frikki Meló, Eiríkur, René, Ólafur ritari, Einar blómasali, Þorbjörg K., Dagný, Ósk, Hjálmar, Kári - og einhverjir fleiri.

Ýmislegt í boði, brekkusprettir í Öskjuhlíð, Stokkur, Hlíðarfótur, allt eftir smekk og prógrammi. Parísarfarar og fylgihnettir stefndu á spretti, aðrir ætluðu bara að leika sér. Farið rólega út, en áður en langt um leið var hersingin komin á fulla ferð. Fljótlega kom í ljós að einhverjir höfðu syndgað í hádeginu, játning lá fyrir: sumir voru teymdir gegn vilja sínum inn á Taco Bell þar sem snædd var sterk máltíð og drukkinn með hálfur lítri af ropvatni. Ætla menn virkilega aldrei að læra að forðast freistingarnar á hlaupadegi?

Farið út í Nauthólsvík, þar var snúið í brekkurnar, meðan einhverjir héldu áfram í Fossvoginn og enn aðrir sneru beinustu til baka. Við vorum nokkur sem tókum eina 8 320 m spretti í löngu brekkunni í Öskjuhlíð, innan um bílaperrana. Það var smokkfullt af bílum þarna og fullkomlega óskiljanlegt hvað fólk er að gera þarna. Samkomulag um að fjarlægja alla vegi þarna eftir sveitarstjórnakosningar í vor, í mesta lagi skilja eftir bílastæði, svo getur fólk bara fengið sér göngutúra um göngustíga og iðkað heilbrigð samskipti við aðra.

Eftir spretti var snúið tilbaka og bætt í hraða og endað á góðu tempói, 13,7 km lagðir að baki. Góð æfing. Pottur stuttur og snarpur, Benzinn með læti við útlendinga. Næst farið á miðvikudag, langt, ekki styttra en Stíbbla.

Á vorfögrum sunnudagsmorgni

Ritari mættur snemma til Laugar og búinn að fara í heitan pott, gufu, gera teygjuæfingar, fara í nuddpott, raka sig og ræða við laugargesti áður en fyrsti hlaupari gerði vart við sig: Þorvaldur. Síðan komu þeir Magnús, Jörundur, blómasalinn og ská-tengdasonur Gústa, sem við fregnuðum að héti René og væri frá Toscana, því fagra héraði á Ítalíu. En enginn Ó. Þorsteinsson. Nú voru sumir okkar búnir að hlaupa mikið á undanliðnum dögum og von að menn spyrji: hvernig geta þeir þetta? Ja, er nema von menn spyrji?

Þetta var í alla staði hefðbundið hlaup, að undanskildu því að heldur færri stopp voru gerð og styttri sögur sagðar. Ég held ég megi fullyrða að ekki ein einasta ættrakning hafi farið fram og verður það að teljast afturför í hópi eins og okkar. Nóg var af hefðbundinni umfjöllun um bankahrun og fjársvik ýmiss konar. Einnig var a.m.k. ein gamansaga í anda Kirkjuráðs sögð. Þrátt fyrir langhlaup gærdagsins vorum við blómasalinn bara sprækir og tókum alveg þokkalega á því, alla vega svitnaði undirritaður á hlaupinu, sem gerist ekki oft í sunnudagshlaupum.

René fór aðra leið en við og hvarf okkur í Skerjafirði. En við áfram í alveg yndislegu vorveðri. Þegar við komum á Hlemm sáum við hann aftur þar sem hann skeiðaði niður Snorrabraut. Við Sæbraut gerðust stórtíðindi, René skaut Þorvaldi ref fyrir rass með svo glæfralegu stökki fram fyrir bifreiðar sem þar voru á ferð að það munaði ekki nema nokkrum sentimetrum að hann yrði keyrður niður. Það hvarflar að mér hvort hann hafi misskilið eitthvað aðdáun okkar á Þorvaldi, að  hann haldi að við lítum á þessi bílastökk sem sérstakt hetjubragð. Þetta endar náttúrlega bara með skelfingu, eins og Biggi sagði. Einhver endar ævina framan á stórri bílrúðu og það koma bara menn í hvítum göllum með kíttispaða að skafa leifarnar niður í svarta plastpoka.

Á Geirsgötu var hraði aukinn og tekinn góður sprettur, sem sýnir að menn eiga heilmikið eftir þrátt fyrir langhlaup gærdagsins. Teygt við Laug. Blómasalinn gerði úttekt á bíl Jörundar sem er farinn að lýsa rauðu ljósi og skýring finnst ekki á. Atli þjálfari KR kvartaði yfir því að ungviðið kynni ekki einföldustu líkamsæfingar, svo sem að sippa. Nú væri ekki hægt að hreyfa sig nema tengjast e-i maskínu sem knýr manninn áfram, hlaupabretti, stigtrappa eða hvað þetta heitir. Það er eitthvað annað með ykkur, sem þurfið ekki annað en guðsgræna náttúruna að hreyfa ykkur í!

Fámennt í potti, Baldur mættur og taldi Ó. Þorsteinsson vera á Túndru. Rætt um helztu verk í leikhúsum borgarinnar. Talað um tíma og spurt: hvað er réttur tími á Íslandi. Stuttu síðar komu frú Helga og Stefán - en fleiri voru ekki mættir þegar ritari þurfti að hverfa á brott í bröns uppi í sveit.

Á morgun hefst ný hlaupavika, mæting stundvíslega kl. 17:30. Sprettir, trúi ég. Nú fer þetta bara versnandi.

Laugardagshlaup hlaupahópa 6. febrúar 2010.

Fyrsta sameiginlega laugardagshlaup hlaupahópa í Reykjavík var þreytt í morgun frá Laugum kl. 9:30. Af okkar fólki voru þessir mættir: Friðrik, Kári, blómasalinn, Eiríkur, Þorbjörg M., Rúnar, Margrét og Ólafur ritari. Svo var Sif Jónsdóttir, sem eiginlega tilheyrir okkur, en hefur villst yfir í aðrar sóknir. Ég giska á að um 200 hlauparar hafi verið samankomnir við Laugar. Veður fínt, það var óðum að birta, heiðskírt, hiti um frostmark og logn. Þó blés af austri er komið var út á Kársnes og hafði maður vindinn í fangið á þeirri leið.

Farið sem leið lá út Laugardalinn, inn í Elliðaárdal, Mjódd, Kópavog og stefnan sett á Dalinn. Ég hljóp upp á hól til þess að gá hvort lífsmark sæist í Lækjarhjalla, átti alveg eins von á að sjá húsbóndann úti á svölum í náttsloppi reiðubúinn að heilsa hlaupurum. En það var aldeilis ekki! Sjaldan hef ég séð jafn kirfilega dregið fyrir alla glugga og öll opnanleg fög stöguð aftur. Ekkert lífsmark á því heimilinu.

Hlaup gærdagsins sat í manni, 11,3 km á 5 mín. tempói. Það vissi maður sosum fyrir hlaup. Margt var ágætra hlaupara á ferð í dag, og virtist manni jafnvel nokkurt kapp hlaupa í menn á Miklubrautinni. Varð mér sem snöggvast hugsað að einhverjir ætluðu að taka þessu sem keppnishlaupi, en einnig má líta svo á að þeir hafi tekið þessu sem kærkomnu tækifæri til þess að láta gamminn geisa.

Í Dalnum fór þreyta að segja til sín, en ég var ákveðinn í að klára mína 19 km í dag. Kjagaði því fyrir Kársnesið og áfram í átt að Kringlumýrarbraut. Er þangað var komið náði blómasalinn mér loksins, en einhverra hluta vegna hafði ég haldið honum fyrir aftan mig allan tímann. Spyrja má hvor okkar sé á leið í Parísarmaraþon! Ég hafði með mér appelsínusafa og fannst hann sízt verri en orkudrykkirnir sem maður hefur verið að kneyfa. Kringlumýrarbrautin var anzi erfið og í kringum mig var fólk sem greinilega var á svipuðum stað í æfingum og ég, margir þurftu hreinlega að ganga.

Það var ljúft að koma tilbaka og hitta félagana við Laugar. Boðið var upp á nýja próteindrykkinn frá MS, Hleðslu. Hann var fínn. Svo var bara skellt sér í heitan pott og slakað á. Sat um stund með Frikka og Kára og við horfðum á Svía, m.a. Línu Langsokk.

Frábært hlaup, frábært framtak! Næst verður það Grafarvogur, Árbær, ÍR - og svo Hlaupasamtökin í byrjun júní.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband